Fara beint í efnið

Stéttarfélög

Hlutverk stéttarfélaga er fyrst og fremst að semja um laun og önnur starfskjör í kjarasamningum fyrir hönd félagsmanna sinna og gæta hagsmuna þeirra á vinnumarkaði.

Starfsemi

Í stéttarfélögum sameinast launafólk, á grundvelli sameiginlegrar starfsgreinar og/eða menntunar, um að gæta hagsmuna sinna.

Stéttarfélög mynda flest með sér stærri sambönd eftir atvinnugrein og landshlutum. Þessi stéttarfélagasambönd sameinast í fjórum heildarsamtökum launafólks: ASÍ, BSRB, BHM og KÍ. Einnig stendur nokkur fjöldi stéttarfélaga utan þessara bandalaga.

Stéttarfélög sinna almennri réttindavörslu launafólks og fulltrúar stéttarfélaga koma fram fyrir hönd félagsmanna sinna við kjarasamningagerð.

Stéttarfélög veita félagsmönnum upplýsingar og lögfræðilega ráðgjöf um þau kjör sem lög og kjarasamningar tryggja þeim. Starfsmenn stéttarfélaga eru bundnir trúnaði við félagsmenn sem leita réttar síns.

Margs konar félags- og fræðslustarf fer fram innan stéttarfélaga.

Á vefjum og skrifstofum stéttarfélaga má fá margvíslegar upplýsingar um starfsemi þeirra og kjaramál.

Heildarsamtök launafólks – aðildarfélög

Félagsaðild og iðgjald

Stéttarfélag er opið öllum í hlutaðeigandi starfsgrein á félagssvæði þess en hvert félag setur sér nánari reglur um aðild.

Samkvæmt kjarasamningum greiðir félagsbundið launafólk iðgjald af launum sínum til stéttarfélags. Gjaldið rennur til þess félags sem samið hefur um starfskjör viðkomandi starfsmanns með þeim kjarasamningi sem hann vinnur eftir.

Greiðslu iðgjaldsins er þannig háttað að atvinnurekandi dregur gjaldið af launum  félagsbundinna starfsmanna og stendur skil á því til viðkomandi stéttarfélags.

Mörg stéttarfélög fella gjaldskyldu niður við 65, 67 eða 70 ára aldur félaga, þó þeir stundi enn vinnu.

Hjá stéttarfélögum má fá upplýsingar um hvaða réttindi það veitir að greiða iðgjald til stéttarfélags.

Heimilt er að standa utan stéttarfélaga en þeim sem það kjósa er eftir sem áður skylt að vinna eftir lögbundnum kjarasamningum.

Vert að skoða

Lög og reglugerðir