Hreyfing - ráðleggingar embættis landlæknis
Styrktarþjálfun
Hvað er styrktarþjálfun?
Styrktarþjálfun er þjálfun þar sem vöðvar líkamans vinna gegn viðnámi eða utanaðkomandi álagi. Slíkt viðnám getur verið eigin líkamsþyngd, teygjur, lóð, stöng eða æfingatæki.
Markmið styrktarþjálfunar er að auka vöðvastyrk, vöðvaþol, kraft, snerpu og stöðugleika. Regluleg styrktarþjálfun stuðlar að bættri líkamlegri getu og heilsufari á öllum aldri.
Af hverju er styrktarþjálfun mikilvæg?
Styrktarþjálfun hefur sjálfstæð og fjölþætt áhrif á heilsufar og daglegt líf.
Styrktarþjálfun eykur færni í daglegu lífi og athöfnum
Styrktarþjálfun bætir jafnvægi og dregur úr byltuhættu
Styrktarþjálfun styður við beinheilsu og dregur úr hættu á beinþynningu og beinbrotum
Styrktarþjálfun styrkir stoðkerfið og getur dregið úr stoðkerfisverkjum
Styrktarþjálfun stuðlar að sjálfstæði á efri árum og dregur úr aldurstengdri vöðvarýrnun (sarcopenia)
Hverjir ættu að stunda styrktarþjálfun?
Styrktarþjálfun er fyrir alla, óháð aldri. Mælt er með að:
fullorðnir stundi styrktarþjálfun að minnsta kosti tvisvar í viku
eldra fólk bæti einnig við æfingum sem leggja áherslu á jafnvægi og stöðugleika
Æfingarnar ættu að virkja helstu vöðvahópa líkamans, svo sem bak, kvið, brjóst, axlir og handleggi.
Hvernig er hægt að stunda styrktarþjálfun?
Styrktarþjálfun er fjölbreytt og hægt er að laga hana að aðstæðum og getu hvers og eins. Hana má framkvæma heima, í líkamsrækt, úti eða á vinnustað.
Ekki er nauðsynlegt að hafa flókinn tækjabúnað. Æfingar með eigin líkamsþyngd og teygjur geta skilað mjög góðum árangri.
Á vef Heilsuveru má sjá dæmi um styrktaræfingar sem auðvelt er að gera hvar sem er.
Hvað þarf að hafa í huga?
Til að styrktarþjálfun skili árangri er mikilvægt að:
æfingar séu nægilega krefjandi
auka álag smám saman eftir því sem styrkur eykst
huga að réttri líkamsstöðu og tækni
hlusta á líkamann og huga að hvíld og endurheimt
Regluleg þjálfun og stigvaxandi álag er lykillinn að árangri.
Tengsl styrktarþjálfunar við heilsu til lengri tíma
Regluleg styrktarþjálfun hefur margvíslegan heilsufarslegan ávinning.
Minni áhætta á langvinnum sjúkdómum
Bætt efnaskiptaheilsa
Bætt dagleg færni og lífsgæði
Betri líkamleg og andleg heilsa
Þjónustuaðili
Embætti landlæknis