Fara beint í efnið

Skráningareglur ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

5. júlí 2024 -

Gildir frá: 01.06.2024. Skráningareglur ökutækja eru fyrir fagaðila sem sinna skráningum í umboði Samgöngustofu eða tilkynna breytingar í ökutækjaskrá samkvæmt lögum.

    Notkunarflokkaskráningar

    Eftirtaldir aðilar geta gert samning um að vinna í umboði Samgöngustofu hvað varðar skráningu ökutækja í notkunarflokk í tengslum við opinberar skoðanir þeirra eða nýskráningar (kallaðir þjónustuaðilar):

    • Faggiltar skoðunarstofur ökutækja

    • Umboð (ökutækja) með fulltrúa B

    Efni kaflans

    Skilgreining notkunarflokkana

    Um eftirfarandi notkunarflokka í ökutækjaskrá er að ræða.

    Notkunarflokkur "Rallakstur"

    Bifreið sem ætluð er til rallkeppni og getur verið sérbyggð og hönnuð sterkbyggðari en sambærileg bifreið og með aukabúnað sem almennt er ekki notaður í eða á bifreiðir í almennri umferð.

    • Tilvist: Notkunarflokkurinn er til vegna þess að hann er skilgreindur í reglugerð um gerð og búnað ökutækja og í reglugerð um akstursíþróttir og aksturskeppnir.

    • Skráningarheimild/skylda: Það er heimilt (ekki skylt) að skrá bifreið í þennan notkunarflokk uppfylli hún kröfurnar sem lýst er í þessu skjali. Við skráninguna fæst ákveðin undanþága frá reglugerð um gerð og búnað enda bifreiðin þá aðeins ætluð til notkunar utan opinberra vega. Krafa er um að bifreið sé skráð í þennan notkunarflokk til að geta tekið þátt í aksturskeppni.

    • Fyrir ökutækisflokka: Bifreið (getur átt við um alla ökutækisflokka bifreiða).

    • Skoðunarregla: Skoðunarreglu ökutækisflokksins er fylgt.

    Samgöngustofa skráir bifreið í þennan notkunarflokk á grundvelli tilkynningar frá skoðunarstofu um að ökutæki hafi staðist breytingaskoðun vegna aksturskeppni. Bifreið sem skráð í þennan notkunarflokk má breyta til baka í almenna notkun standist hún breytingaskoðun þar að lútandi.

    Notkunarflokkur "Sérbyggð rallbifreið"

    Bifreið sem ætluð er til rallkeppni og er sérbyggð og hönnuð sterkbyggðari en sambærileg bifreið og með aukabúnað sem almennt er ekki notaður í eða á bifreiðir í almennri umferð. Bifreiðin getur verið sérbyggð keppnisbifreið sem undanþegin hefur verið álagningu vörugjalds og ber að sérmerkja í ökutækjaskrá.

    • Tilvist: Notkunarflokkurinn er til vegna þess að hann er skilgreindur í reglugerð um gerð og búnað ökutækja og í reglugerð um akstursíþróttir og aksturskeppnir.

    • Skráningarheimild/skylda: Það er skylt að skrá bifreið í þennan notkunarflokk enda sérsmíðuð, með vörugjaldsundanþágu og óheimilt að nota á opinberum vegum. Krafa er um að bifreið sé skráð í þennan notkunarflokk til að geta tekið þátt í aksturskeppni.

    • Fyrir ökutækisflokka: Bifreið (getur átt við um alla ökutækisflokka bifreiða).

    • Skoðunarregla: Skoðunarreglu ökutækisflokksins er fylgt.

    Samgöngustofa skráir bifreið í þennan notkunarflokk á grundvelli vottorðs frá framleiðanda og rökstuddri yfirlýsingu samtaka um akstursíþróttir þess efnis að bifreiðin sé sérsmíðuð keppnisbifreið til aksturskeppni. Notkunarflokkurinn á við sérbyggða keppnisbifreið til rallaksturs sem heimilt er að undanþiggja álagningu vörugjalds samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð um vörugjald af ökutækjum. Skráð er í notkunarflokkinn uppfylli bifreiðin skilyrði reglugerðar. Bifreiðin skal bera utanvegamerki. Bifreið sem skráð er í þennan notkunarflokk verður ekki breytt í almenna notkun.

    Kröfur til ökutækjanna

    Skráning rallbifreiða og undanþágur

    Samkvæmt reglugerð um gerð og búnað ökutækja er rallbifreið skilgreind sem bifreið sem ætluð er til rallkeppni og getur verið sérbyggð og hönnuð sterkbyggðari en sambærileg bifreið og með aukabúnað sem almennt er ekki notaður í eða á bifreiðir í almennri umferð. Jafnframt er tiltekið að kröfur um búnað skuli uppfylla samkvæmt reglugerðinni eftir því sem við á.

    Í reglugerð um akstursíþróttir og aksturskeppnir er tiltekið að ökutæki sem notað sé í rallkeppni skuli fullnægja skilyrðum laga og reglna um skráningu, gerð og búnað ökutækja, þó sé heimilt að veita undanþágur í samræmi við verklagsreglur sem Ríkislögreglustjóri veitir, og tiltekið hámark er á hávaða.

    Ríkislögreglustjóri setur verklagsreglur, byggðar á alþjóðlegum reglum um akstursíþróttir. Þar er tiltekið að Samgöngustofa (áður Umferðarstofa) geti veitt heimild til undanþága sem þó megi ekki ganga lengra en keppnisreglur AKÍS (áður LÍA) kveða á um. Undanþágur þessar eru tilteknar í kaflanum "Heimilar undanþágu frá gerð og búnaði".

    Í reglugerð um akstursíþróttir og aksturskeppni er tiltekið að skrá skuli sérstaklega í ökutækjaskrá, svo og í skráningarskírteini, ef ökutæki er notað í rallkeppni, og að ökutæki sem þannig er skráð sé óheimilt að nota í almennri umferð. Jafnframt að fyrir hverja keppni skuli skoða slíkt ökutæki af þar til kvöddum eftirlitsmönnum sem lögreglustjóri samþykkir, og til að skrá það aftur í almenna notkun skuli það fært til breytingaskoðunar á skoðunarstofu.

    Takmörkun á notkun rallbifreiða

    Rallbifreiðar eru ætlaðar til notkunar á afmörkuðum svæðum. Þeim er því óheimilt að aka á vegum en með þeirri undantekningu að heimilt er að aka á vegum vegna þátttöku í rallkeppnum og við æfingaakstur samkvæmt reglugerð um akstursíþróttir og aksturskeppni.

    Heimilar undanþágur frá gerð og búnaði

    Bifreið sem nota á í aksturskeppni má víkja frá reglugerð um gerð og búnað ökutækja í eftirfarandi tilvikum samkvæmt heimild frá Samgöngustofu, sbr. reglur RLS:

    • (K1) Hemlar: Ekki er krafa um stöðuhemil (vélrænan hemil sem læsir hjólum). Einnig heimilt að sérútbúa handstýringu á hemla einstakra hjóla eða ása, með vökva- eða vélrænni yfirfærslu.

    • (K3) Rúður: Heimilt er að hafa hliðarrúður úr plasti sem ekki mynda oddhvassar brúnir þó að það brotni, og að hafa rúðufilmur öllum rúðum nema framrúðu. Heimilt er að hafa auglýsingaborða í framrúðum.

    • (K4) Tenging og ljósstyrkur ljóskastara: Ekki eru takmörk á fjölda ljóskastara eða sérstakar kröfur um tengingu þeirra.

    • (K5) Naglar í hjólbörðum: Engar takmarkanir eru á fjölda nagla í hjólbörðum.

    • (K7) Hraðamælir: Ekki er krafa um hraðamæli.

    • (K7) Öryggispúðar: Heimilt er að fjarlægja öryggispúða.

    • (K8) Hávaðamengun: Má ekki fara yfir 100 dB þegar mælt er samkvæmt nálægðarmæliaðferð.

    • (K8) Útblástursmengun: Ekki er krafa að reglur um útblástursmengun séu uppfylltar og heimilt er að fjarlægja hvarfakúta.

    Uppfylli búnaður að öðru leyti ekki lágmarkskröfur í reglugerð um gerð og búnað ökutækja ber að hafna skoðun og skráningu bifreiðarinnar sem rallbifreið, sbr. lýsingar í formála skoðunarhandbókar.

    Sérbúnaður í keppni (skoðaður af AKÍS)

    Í keppnisreglum AKÍS fyrir rallý eru eftirfarandi kröfur gerðar til ökutækja í keppni og eru þær skoðaðar af eftirlitsmönnum AKÍS í tengslum við hverja keppni. Sumar kröfurnar ganga lengra en reglugerð um gerð og búnað, aðrar víkja frá kröfunum og krefjast fyrrgreindra undanþága. Listinn er birtur hér til fróðleiks.

    • (K3) Rúður: Vera með framrúðu úr öryggisgleri (5.2.1.e). Hliðarrúður skulu vera með álímdri filmu til að varna því að brot dreifist (5.2.1.f)

    • (K4) Rafkerfi: Rafgeymir skal tryggilega festur. Sé rafgeymir í ökumannsrými skal hann vera þurrgeymir (5.2.1.n). Straumrofi er skylda (5.2.1.o). Hann skal vera með snerli eða handfangi og greinilega merktur á/af (on/off) (5.2.1.o.i). Hann á að rjúfa allan straum og drepa á ökutækinu (5.2.1.o.ii).

    • (K6) Ökumannsrými: Vera með öryggisbúr samkvæmt reglum FIA , viðauka J, grein 253-8 (5.2.1.a). Vatnsrör sem eru hluti af kælikerfi og liggja í gegnum ökumannsrými skulu vera ósamsett (5.2.1.j). Hafa allan farangur og annan búnað tryggilega festan (5.2.1.i). Bannað er að hafa eldfima vökva í lausum ílátum í ökutæki, að viðlagðri brottvísun úr keppni (5.2.1.q).

    • (K6) Olíuleiðslur: Olíuleiðslur skulu vera viðurkenndar háþrýstislöngur (5.2.1.k).

    • (K6) Eldsneytiskerfi: Sé notaður eldsneytisgeymir annar en sá upprunalegi skal hann vera tryggilega festur. Útöndun skal ná út fyrir yfirbyggingu og niður fyrir tank og hafa einstreymisloka. Þannig skal gengið frá honum að bensín leki ekki út. Bannað er að staðsetja eldsneytisgeymi í ökumannsrými (5.2.1.l). Eldsneytislagnir inni í ökutæki skulu vera úr eir, stáli eða vírofnum slöngum. Öll samskeyti á eldsneytislögnum eru bönnuð í ökumannsrými (5.2.1.m).

    • (K6) Sæti: Vera útbúið körfustólum og skulu þeir bera vottun FIA (5.2.1.b).

    • (K7) Öryggisbelti: Vera með öryggisbelti samkvæmt stöðlum FIA , með lágmark 5 punkta festingum (5.2.1.c).

    • (K7) Slökkvitæki og sjúkrakassi: Hafa slökkvitæki, minnst 4 kíló að heildarinnihaldi í ekki færri en tveimur ílátum, staðsett þannig að auðvelt sé fyrir ökumenn að ná til þeirra og skulu þau tryggilega fest, eða hafa slökkvikerfi sem viðurkennt er af FIA (5.2.1.d). Miði frá hæfum aðila skal vera á slökkvibúnaði sem staðfestir gildistíma (5.2.1.d.i). Vera útbúið viðurkenndum sjúkrakassa (5.2.1.h).

    • (K7) Viðvörunarþríhyrningar: Hafa 2 endurskinsþríhyrninga til notkunar í neyðartilvikum (5.2.1.g).

    • (K7) Öryggispúðar: Allir loftpúðar í ökumannsrými skulu fjarlægðir (5.2.1.p).

    Skráningarmerki

    Í reglugerð um skráningu ökutækja er tiltekið að sérstök skráningarmerki skuli auðkenna sérbyggða keppnisbifreið til rallaksturs sem hefur verið undanþegin álagningu vörugjalds (sbr. reglugerð um vörugjald af ökutækjum). Sé ekki um slíka undanþágu að ræða er bifreiðin á hefðbundnum skráningarmerkjum.

    Lög og reglur

    Frekari upplýsingar er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

    • Umferðarlög nr. 77/2019.

    • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.

    • Reglugerð um skráningu ökutækja nr. 751/2003.

    • Reglugerð um akstursíþróttir og aksturskeppnir nr. 507/2007.

    • Verklagsreglur fyrir akstursíþróttir og aksturskeppnir í samræmi við reglugerð nr. 507/2007, Ríkislögreglustjóri (2/2008 U)

    • Keppnisgreinarreglur fyrir rallý 2022, AKÍS (21.11.2021)