Fara beint í efnið

Skoðunarhandbók ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. júní 2024 -

Gildir frá: 01.03.2023

    Verklagsbók fyrir reglubundnar skoðanir o.fl.

    Í verklagsbókinni er lýst allri framkvæmd aðalskoðunar ásamt skoðun á ástandi í skráningarskoðun, breytingaskoðun og endurskoðun­um þeirra. Lýsing á skoðunar­aðferðum, verklýsingar og dæmingar einstakra skoðunaratriða.

    Skoðunaratriðin og dæmingar þeirra ásamt stuttri lýsingu á skoðunaraðferðum, verklýsingum, athugasemdum og túlkunum er að finna í pdf-skjali. Ítarlegri leiðbeiningar um kröfur, mæliaðferðir, skoðunaraðferðir og skráningu einstakra ökutækja, öktækjaflokka eða einstakra hluta ökutækja, er svo að finna þessum köflum.

    Efni kaflans

    Mæling á lengd, breidd og hæð ökutækja

    Mæling lengdar

    Lengd ökutækis skal mæld milli þeirra hluta sem standa lengst fram og lengst aftur.

    Þó skal mæla lengd eftirvagns frá hugsaðri lóðréttri línu í gegnum miðju tengihluta hans að aftasta hluta eftirvagnsins.

    Mæling breiddar

    Breidd ökutækis skal mæld milli þeirra hluta þess sem standa lengst til hliðar. Speglar eða ljósker, önnur en aðal-, vinnu- og hliðarljósker, svo og keðjur á hjólum, eru ekki talin til breiddar ökutækis. Sama gildir um festingar fyrir yfirbreiðslu og vörn þeirra. Belgur neðst á dekkjum dráttarvéla er ekki talin til breiddar hennar.

    Mæling hæðar

    Hæð skal mæld hornrétt frá yfirborði vegar að þeim hluta ökutækisins sem hæst stendur.

    Leyfileg lengd ökutækja

    Mesta lengd einstakra ökutækja er mismunandi eftir ökutækisflokkum og svo eru ákvæði um hámarkslengd vagnlesta:

    • Hópbifreið með fleiri en tvo ása: Mest 15,00 m.

    • Hópbifreið með tvo ása: Mest 13,50 m.

    • Hópbifreið sem er liðvagn: Mest 18,75 m.

    • Bifreið, önnur en hópbifreið: Mest 12,00 m.

    • Festivagn: Mest 12,00 m. Að auki gildir að lárétt fjarlægð frá hugsaðri lóðréttri línu í gegnum miðju tengipinna að hvaða hluta sem er fremst á festivagninum má mest vera 2,04 m.

    • Vagnlest, hópbifreið með eftirvagn eða tengitæki: Mest 18,75 m.

    • Vagnlest, bifreið, önnur en hópbifreið, með festi- eða hengivagni eða samsvarandi tengitæki: Mest 18,75 m.

    • Vagnlest, bifreið önnur en hópbifreið, með tengivagni eða samsvarandi tengitæki: Mest 22,00 m.

    Að auki gildir að bifreið, svo og vagnlest, skal vera hægt að aka innan snúningsboga með 12,50 m radíus í ytri hring og 5,30 m radíus í innri hring. Ákvæði þetta telst vera uppfyllt fyrir vagnlest með festivagni ef fjarlægð frá tengipinna vagnsins til miðju fræðilegs afturáss er ekki meiri en 9,20 m.

    Vagnlest bifreiðar og tengivagns (til fróðleiks):

    • Fjarlægð, mæld samhliða lengdarási vagnlestar sem er bifreið með tengivagni, frá fremsta hluta farmrýmis aftan við stýrishús að aftasta hluta tengivagnsins, að frádreginni fjarlægðinni milli afturenda dráttartækisins og framenda vagnsins, má mest vera 18,90 m.

    • Fjarlægð, mæld samhliða lengdarási vagnlestar með tengivagni frá fremsta hluta farmrýmis aftan við stýrishús að aftasta hluta tengivagnsins, má mest vera 19,65 m.

    • Fjarlægð milli aftasta áss bifreiðar og fremsta áss tengivagns má ekki vera minni en 3,00 m.

    • Þrátt fyrir ofangriend ákvæði er heimilt að hafa vagnlest bifreiðar með tengivagni þannig að lengdin megi vera allt að 25,25 m þegar (a) lengd farmrýmis tengivagns fer ekki yfir 13,60 m og (b) bifreið og tengivagn eru búin hemlum með læsivörn. Heimild þessi er þó bundin nánari skilyrðum um vegi og tíma, sjá reglugerð um stærð og þyngd.

    Leyfileg breidd ökutækja

    Leyfileg breidd bifreiðar og eftirvagns er 2,55 m með þeirri undantekningu að yfirbygging jafnhitavagns má vera 2,60 m.

    Leyfileg breidd vinnuvélar, eftirvagns hennar eða tengitækis til landbúnaðarstarfa eða vegavinnu er 3,30 m. Lögreglan getur bannað akstur slíkra ökutækja þegar sérstaklega stendur á.

    Breidd eftirvagns eða tengitækis, sem bifreið dregur, má ekki vera meiri en sem nemur 30 cm út fyrir hvora hlið bifreiðar.

    Leyfileg hæð ökutækja

    Leyfileg hæð ökutækis er 4,20 m.


    Mæling á hjólhafi, ásabili og sporvídd ökutækja

    Hjólhaf (e. wheelbase)

    Hjólhaf er bilið frá hjólmiðju fremsta áss að hjólmiðju aftasta áss ökutækis, sjá mynd 1.

    wheelbase
    motorcycle-wheelbase

    Mynd 1. Mæling á hjólhafi.

    Ásabil

    Ásabil er bilið á milli hjólmiðju tveggja ása, sjá mynd 2.

    the-three-axle-vehicle-dimensional-parameters-the-three-axle-vehicle-parameters-m-856

    Mynd 2. Ásabilið milli fram- og afturáss er 2,48 m og ásabilið á milli afturása er 1,32 m.

    Sporvídd (e. track width)

    Sporvídd er bilið milli miðju hjóla á sama ási (eða milli miðju tvöfaldra hjóla).Bæði er hægt að mæla frá miðjum sóla eða að utanverðu öðru megin að innanverðum sóla hinum megin, sbr. mynd 3.

    wheel-track-width

    Mynd 3. Sporvídd.


    Eigin þyngd ökutækja

    Skoðunarstofur taka á móti vigtarseðli vegna vigtunar á eigin þyngd. Upplýsingar um þau tilvik sem krefjast vigtarseðils, um móttöku hans og skil til Samgöngustofu er lýst í kaflanum um skráningu tækniupplýsinga (talnareita) í skráningareglum ökutækja

    Að auki gildir, að ef tilefni er til að ætla að vigtarseðillinn sýni ekki raunverulega eiginþyngd ökutækisins, er hann ógildur. Þetta á t.d. við ef hemlaprófari sýnir 20% frávik frá vigtarseðli, þyngd ökutækisins er frábrugðin skráðri þyngd annarra sambærilegra ökutækja, eða magni í eldsneytistanki ber ekki saman við dagsetningu vigtarseðils og akstursmæli bifreiðar (ný bifreið).


    Farmskilrúm

    Krafa um farmskilrúm

    Frá 1. október 1990 er gerð krafa um milliþil á milli farmrýmis og fólksrýmis, svokallað farmskilrúm, í bifreið sem er með sérstöku farmrými til vöruflutninga. Farmskilrúm er veggur eða skilrúm úr traustu efni sem komið er fyrir aftan við sæti og á að verja ökumann og farþega bifreiðar gegn framskriði farms.

    Stærð farmskilrúms

    Hæð farmskilrúmsÍ lokuðu farmrými bifreiðar skal farmskilrúm ná frá gólfi til lofts en í opnu farmrými skal það ná frá gólfi farmrýmis og í a.m.k. 100 cm hæð fyrir ofan setu þess sætis sem hæst stendur í fólksrými.

    Breidd farmskilrúms

    Um breidd farmskilrúms gildir:

    • Sendibifreið: Skal búin farmskilrúmi sem þekur a.m.k. rými ökumanns. Ef farþegasæti eru fyrir aftan sæti ökumanns skal farmskilrúmið ávallt ná a.m.k. frá vinstri hlið bifreiðar að hægri brún þess aftursætis sem er lengst til hægri í bifreiðinni.

    • Vörubifreið: Skal búin farmskilrúmi sem er í fullri breidd farmrýmis.

    • Hópbifreið: Milli farmrýmis og fólksrýmis hópbifreiðar sem einnig er gerð til vöruflutninga skal vera farmskilrúm sem þekur alla breidd fólksrýmisins.

    Nánari útfærsla

    Bil milli farmskilrúms og bifreiðar má mest vera 70 mm allan hringinn. Leyfilegt er að hafa opnanlega glugga eða lúgur á veggnum.

    Styrkur farmskilrúms

    Farmskilrúm á að þola framskrið farms sem svarar til 10 m/s2 hraðaminnkunar bifeiðar. Þetta samsvarar því að þilið þoli að á því liggi þyngd mesta leyfilega farms bifreiðarinnar. Mesta þyngd farms fæst með því að draga 75 kg (vegna ökumanns bifreiðarinnar) frá hlassþyngd bifreiðarinnar. Veggurinn má samanstanda af (a) fínriðnu vírneti í málmramma, (b) málm- eða tréplötu, eða (c) plasti eða öryggisgleri í málmramma.

    • Farmskilrúm gert úr fínriðnu vírneti í málmramma: Mesta leyfileg möskvastærð er 70x70 mm. Netið þarf að vera heilt, þ.e. ekki samofið (vírnet, hænsnanet, net sem notuð eru í grjótgrindur og önnur álíka net eru ekki samþykkt). Netið þarf að vera tryggilega fest við málmramma og hann þarf að vera það stöðugur að netið svigni ekki verulega við álag.

    • Farmskilrúm gert úr málm- eða tréplötu: Í minni bílum þurfa þessar málmplötur ekki að vera þykkari en 1-1,5mm ef þær eru stansaðar að einhverju leyti út og beygðar á köntum. Slíkar plötur þola mun meira álag en beinar plötur. Tréplöturnar þurfa að hafa töluvert meiri efnisþykkt.

    • Farmskilrúm gert úr plasti eða öryggisgleri í málmramma: Til eru mismunandi gerðir af t.d. plexigleri. Fyrir venjulegt plexigler er krafist a.m.k. 8 mm efnisþykktar en fyrir óbrjótanlegt plexigler þá er 4 mm þykkt nægjanleg. Ef einhver lítill hluti þilsins er úr gleri er þess krafist að það sé úr öryggisgleri. Málmrammi þarf að vera utan um plastið eða glerið sem gerir það að verkum að það svigni ekki mikið undir álagi.

    Festingar farmskilrúms við bifreiðina

    Farmskilrúm þarf að vera tryggilega fest við bifreiðina hvort heldur það er málmramminn eða plöturnar sjálfar. Blanda má saman mismunandi útgáfum t.d. plötu neðantil en plexigleri ofantil. Ef veggurinn er ekki festur í hliðar bifreiðarinnar þá þarf hann að vera festur í traustar stoðir.


    Farþegafjöldi og sæti

    Sæti og sætafjöldi - hópbifreið

    Krafa um gögn

    Eftirfarandi breytingar á eða yfir í hópbifreið valda því að framvísa þarf teikningum um skipan fólks- og farmrýmis og mögulega upplýsingum um styrk yfirbyggingar til samþykktar hjá Samgöngustofu fyrirfram. Upplýsingar um áskiln gögn er að finna í handbók um skráningareglur ökutækja.

    • Ökutækjaflokksbreyting yfir í hópbifreið.

    • Breytingar á innra skipulagi fólks- og farmrýma hópbifreiða (innan þeirra marka sem framleiðandi hefur sett).

    • Farþegafjöldabreytingar í hópbifreið.

    Mæling bils á milli sæta (St3.7.2.5)

    Til að mæla bil á milli sæta í hópbifreið skal lárétta fjarlægðin frá sætisbaki að bakhlið næsta sætis fyrir framan, frá hæsta punkti setu upp í 620 mm yfir gólfi ekki vera minni en 650 mm í hópbifreið I og IIA en 680 í hópbifreið IIB. Þetta á eingöngu við um hópbifreiðir sem skráðar eru 01.03.1993 og síðar. Á hópbifreiðum sem skráðar eru fyrir 01.03.1993 má breidd milli sætaraða ekki vera minni en 750 mm mælt frá sama punkti í hverri sætaröð, þ.e. bak í bak eða setu í setu.

    Sérsmíði sæta

    Um sérsmíðuð sæti og öryggisbelti í þau, sjá skjal um öryggisbelti og öryggispúða.

    Sæti og sætafjöldi - fólks-, sendi- og vörubifreið

    Fjöldi sæta (St3.7.2.6)

    Fjöldi sæta fer eftir burðargetu bifreiðarinnar (miðað við 75 kg á ökumann, 68 kg á farþega og 160 kg á sérhvert hjólastólapláss).

    Ekki er leyfilegt að skrá farþega nema fullur burður sé fyrir hann. Fram til 31.12.2023 var heimilt að skrá farþega náði bifreið 40 kg burði upp í næsta farþega og standa þær skráningar óbreyttar svo fremi sé bifreið verði ekki breytt. Verði henn hinsvegar breytt á einhvern hátt svo vigta þurfi hana upp á nýtt þá þarf hún að uppfylla núgildandi kröfur.

    Þegar bifreið er færð til breytingaskoðunar vegna breytinga eða fjölgunar á sætum þarf hún að uppfylla öll ákvæði um viðkomandi sæti sem þá eru í gildi í reglugerð um gerð og búnað ökutækja.

    Sérsmíði sæta

    Um sérsmíðuð sæti og öryggisbelti í þau, sjá skjal um öryggisbelti og öryggispúða.


    Dyrabúnaður

    Hurðaropnun (St3.1.2.1)

    Á fólksbifreið skal vera hægt að opna a.m.k. tvennar dyr að utanverðu, séu þær ekki læstar að innanverðu, án sérstaks utan að komandi búnaðar, t.d. fjarstýringu eða lausum hurðarhúnum.

    Dyrabúnaður fólksbifreiðar sendibifreiðar, vörubifreiðar og eftirvagns telst vera fullnægjandi ef hann uppfyllir ákvæði EB-reglugerðar nr. 661/2009 og ESB-reglugerðar nr. 130/2012, með síðari breytingum. Dyrabúnaður dráttarvélar telst vera fullnægjandi ef ákvæði ESB-tilskipunar nr. 80/720 með síðari breytingum eru uppfyllt.


    Skermun hjóla

    Samfella hjólhlífar (St3.2.2.1)

    Heimilt er að hjólhlíf sé rofin (samsett úr fleiri en einum hlut), þannig að þegar dregin er lína frá hjólmiðju hjóli sé hvergi opið á ferli hjólhlífar.

    Skermun hjólhlífar (St3.2.3.1)

    Í vafatilvikum er notuð réttskeið, gráðubogi II og málband til að meta hvort skermun hjóla sé fullnægjandi. Sjá einnig sérstök skjöl fyrir bifhjól og fyrir dráttarvélar og eftirvagna þeirra.

    Til að meta hvort hjólhlíf skermi sóla hjólbarða er réttskeið sett meðfram hjólbarða og að hjólhlíf.

    Til að meta hvort hjólhlíf nái tilskildum gráðum fram og aftur fyrir hjólmiðju er notaður gráðubogi I með viðmiðunarpunkt í hjólmiðju.

    Til að kanna hvort hjólhlíf sé nægilega sveigð niður á við að hjólmiðju er notað málband.

    Við athugun á því hvort tilskilinni hæð sé náð fyrir ofan hjólmiðju skal setja réttskeið meðfram hjólbarða frá hjólmiðju, mæla hæðina með málbandi í þeirri fjarlægð frá hjólbarða sem nemur þvermáli hjólbarða.

    Til að meta hvort framlengja þurfi með aurhlíf vegna ófullnægjandi kasthorns skal nota gráðuboga II. Gráðuboginn skal nema við jörð með enda hans við hjólmiðju. Öðrum armi gráðuboga er lyft þar til hann nemur við enda hjólhlífar eða aurhlífar. Kasthorn er lesið af gráðuboga.

    Breidd sóla hjólbarða er mæld yfir þann hluta sólans sem nemur við jörðu þegar eðlilegt loftmagn er í hjólbarðanum. Oft er ytri brún mynstursins ójöfn og skal þá mælt frá ystu brún að utanverðu yfir í ystu brún að innanverðu. Athugið að mæla einungis yfir þann hluta sólans sem getur snert jörðu.

    Sídd aurhlífar (St3.2.3.2)

    Mæling kasthorns með gráðuboga.

    aruhlifar

    Mynd 1. Helstu stærðir hjólhlífa og aurhlífa.


    Yfirbyggingar vörubifreiða og áfestur búnaður

    Yfirbyggingar og áfestur búnaður vörubifreiða (St3.7.2.7)

    Grind vörubifreiða er almennt samsett úr skúffubitum. Annars vegar eru það tveir langbitar (á hlið og snúa inn sitt hvoru megin), hins vegar nokkrir þverbitar (einnig á hlið). Algengt er að langbitarnir séu gataðir frá verksmiðju, hópur gata með reglulegu millibili, annars þarf að búa til ný göt skv. fyrirmælum framleiðanda. Í þau er ætlast til að yfirbygging sé boltuð eða hnoðuð.

    Óheimilt er að eiga við efra og neðra flau skúffubitans, einnig er bannað að sjóða í eða á grindina nokkurn hlut.

    Það sem tengir saman yfirbyggingu og bílgrind er oftast s.k. yfirgrind. Það er grind sem kemur ofan á bílgrindina og dreifir álagi yfirbyggingarinnar á hana. Þrenns konar álag á bílgrindur er aðallega um að ræða af völdum yfirbygginga; jafndreift álag (t.d. opinn pallur), dreifing á marga festipunkta (t.d. tankur), eða punktálag (t.d. krani).

    Auðveldast er fyrir bílgrindina að bera jafndreifða álagið. Yfirgrind getur verið hluti sturtupalls, plata undir stól, rammi undir tank eða álagsdreifigrind undir krana. Hún er byggð með svipuðum hætti og bílgrindin, en er yfirleitt úr talsvert veigaminna efni. Á hana má sjóða festingar og sjálfa yfirbygginguna. Fremri endar langbitanna skulu vera fleyglaga til að minnka spennuhækkun í bílgrindinni við endann.

    Festingar milli bílgrindarinnar og yfirgrindarinnar eru af fjórum megin gerðum:

    • Festiplata: Hún er annað hvort soðin eða boltuð í yfirgrindina og boltuð í bílgrindina. Þessi festing myndar færslulausa festingu milli grindanna.

    • Punktfesting, en hún leyfir snúning og ofurlitla færslu í láréttu plani.

    • Einása færslufesting sem leyfir færslu upp og niður, þ.e. yfirgrind og bílgrind geta færst hvor frá annarri í lóðréttu plani. Þessi festing vinnur gegn færslunni með gormi eða gúmmípúðum.

    • Tvíása færslufesting: Hún vinnur eins og einása, en leyfir að auki færslur fram og aftur.

    Ljóst er að yfirbyggingin má ekki hindra eðlilegar hreyfingar bílgrindarinnar og því verður að velja réttar festingar m.v. sveigjanleika yfirbyggingarinnar. Því eru yfirleitt notaðar fleiri en ein tegund festingar fyrir sérhverja yfirbyggingu. Almennt má segja að notaðar séu festiplötur fyrir öftustu festingar yfirbyggingar. Mið- og fremstu festingar eru háðar því um hvers konar yfirbyggingu er að ræða:

    • Mjög sveigjanlegar: Miðjufestingar eru festiplötur. Fremstu festingar eru festiplötur eða punktfestingar.

    • Sveigjanlegar: Miðjufestingar eru festiplötur. Fremstu festingar eru einása færslufestingar.

    • Stífar: Tvíása færslufestingar eru bæði í miðjunni og fremst.

    Þegar kranar, vörulyftur og svipuð tæki eru fest á bílgrindur verður í nær öllum tilfellum að styrkja þær. Það er gert annað hvort með vinkilbitum ofan á grindarbitana fyrir smærri tækin, eða með hjálpargrind fyrir stærri tækin. Hjálpargrind er eins og yfirgrind og gegnir sama hlutverki, en er alltaf fest með festiplötum.

    Þegar yfirbygging vörubifreiðar er tekin út verða að fylgja gögn frá framleiðanda bifreiðarinnar um festur viðkomandi yfirbyggingar eða búnaðar við grind bifreiðarinnar. Gögnin skulu samþykkt af skoðunarstofu og gengið skal úr skugga um að festingar við grindina séu í samræmi við gögn viðkomandi yfirbyggingu. Þess þarf þó ekki þegar um eftirvagn eða aðra ökutækjaflokka er að ræða.

    Yfirbygging sú sem skráð er á ökutæki er alltaf fest með varanlegum hætti á grind þess. Með varanlegum hætti er átt við að festingin sé boltuð með nokkrum boltum sem yfirleitt er búið að mála yfir. Skrá skal allar yfirbyggingar ökutækis eftir úttekt, að auki skal fyrir sérhverja yfirbyggingu skrá lengd, breidd og eiginþyngd ökutækisins með þeirri yfirbyggingu.

    Varðandi lyftubúnað (vörulyftu) á ökutækjum (St3.7.2.2)

    Lyftubúnað er að finna á mörgum ökutækjum og er til fjölbreytta nota. Lyftubúnaður er hluti af skoðun og þarf að sýna fram á að virkni hans sé eðlileg, ekki stafi hætta af honum við notkun eða í umferð og haldi stöðu sinni. Óheimilt er að nota nokkurskonar hjálparbúnað til að halda búnaðinum í réttri stöðu svo sem spennibönd til farmflutninga.

    Gámafestingar (St3.6.2.1)

    Gámur er festur með s.k. gámagrind sem ætluð er fyrir flutning sjálfberandi gáma af stöðluðum stærðum. Á hornum og jafnvel hliðum grindarinnar eru gámalásar sem læsast í stöðluð eyru gámanna. Staðsetning lásanna er samhverf um lengdarás bílsins. Lágmarksfjöldi þeirra er 4, einn fyrir hvert horn gámsins. Breiddarbil milli lása (miðja í miðju) er 2260 mm (±20 mm) og lengdarbil fyrir 20 feta gám er 5860 mm (±20 mm). Stundum bætast fjórir lásar við á mitt lengdarbilið til flutninga á tveimur eða fleiri gámum í einu.

    Inn í mat á virkni gámalása skal koma mat á virkni gámalása út frá skemmdum á hleðslufleti gámagrindar eða palls. Ef hleðsluflötur er sveigður eða skemmdur þannig að ætla má að gámalás(ar) komi ekki að notum dæmist það í samræmi við Skoðunarhandbók.

    Varðandi gámafestingar/lása fyrir krókheysis gáma. Það þarf að skoða virkni þeirra og stuðningsfleti.


    Burðarvirki - grindarbreytingar og vottun

    Lenging og stytting á grindum (St5.2.2.1)

    Séu grindur á ökutækjum lengdar eða styttar skulu eftirfarandi starfsreglur viðhafðar:

    • Á bifreiðum yfir 3500 kg heildarþyngd frá öðrum markaðssvæðum en Ameríku og á bifreiðum yfir 5000 kg heildarþyngd frá Ameríku skulu samsetningar vera gerðar skv. fyrirmælum framleiðanda ökutækjanna. Breytingaskoðunar er þörf vegna þessa og skulu gögn um samsetningar fylgja ökutækinu í breytingaskoðun.

    • Á öðrum ökutækjum er þessa ekki krafist en lengingar á grind skulu vera úr efni með svipaða eiginleika og mál og grind ökutækisins og allur frágangur á suðum og öðru góður. Ekki er krafist vottorða vegna suða.

    • Í einstaka tilfellum er hægt að meta hvort lenging sé samþykkt án þess að vera eftir fyrirmælum framleiðanda ef forsendur eru breyttar, t.d. vörubílagrind með yfirbyggingu sem er að miklu leyti sjálfberandi og álag á grind þar af leiðandi mun minna. Í slíkum tilfellum skal samráð haft við Samgöngustofu.

    Vottorð um burðarvirkismælingu

    Útgáfa vottorðs um burðarvirkismælingu er gefið út af viðurkenndum mælingamanni. Upplýsingar um móttöku vottorðsins, yfirferð og skil er að finna í skráningareglum ökutækja og á heimasíðu Samgöngustofu um útgáfu burðarvirkis- og hjólastöðuvottorða.


    Undirvörn (fram-, hliðar-, aftur-, árekstravörn)

    Undirvörn - skilgreining

    Undirvörn flötur á ökutæki eða sérstakir bitar sem koma eiga í veg fyrir, eins og unnt er, að ekið verði inn undir ökutæki. Ekki er krafist sérstakra bita ef grind, yfirbygging eða einhver annar hluti ökutækisins er þannig hannaður að hann nálgast að veita sömu vörn og þeir. Sé ökutækið ekki að uppfylla kröfur til slíkra flata, eða hefur verið breytt frá upprunalegri útfærslu, þarf að koma fyrir samþykktum bitum til að uppfylla kröfuna. Orðið undirvörn er samheiti yfir fjórar mismunandi staðsetningar varna á ökutækjum:

    • Afturvörn: Þverbiti eða flötur aftan á ökutæki sem á að koma eins og unnt er í veg fyrir að ekið verði aftan frá inn undir ökutæki.

    • Árekstrarvörn: Þverbiti sem minnkar hættu á að ekið verði framan eða aftan frá inn undir breytta bifreið.

    • Hliðarvörn: Stangir eða flötur á hlið ökutækis sem á að koma eins og unnt er í veg fyrir að óvarðir vegfarendur lendi undir ökutæki framan við afturhjól þess.

    • Framvörn: Þverbiti eða flötur framan á ökutæki sem á að koma eins og unnt er í veg fyrir að ekið verði inn undir ökutæki að framan.

    Eins og áður segir er í tilteknum ökutækjum krafist sérstakrar undirvarnar ef grind, yfirbygging eða einhver annar hluti ökutækisins er EKKI þannig hannaður að hann nálgist að veita sömu vörn og krafist er. Skilyrði um staðsetningu undirvarna eru tiltekin í næstu köflum og séu þau ekki uppfyllt þurfa tiltekin ökutæki að vera búin viðeigandi undirvörn.

    Undirvörn - mælingaraðferðir

    Við mælingar á hæð undirvarna frá akbraut er gengið út frá því að eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:

    • Mælt er frá akbraut að neðri brún undirvarnar.

    • Miðað er við að ökutækið sé óhlaðið.

    • Miðað er við að ökutæki með lyftiási sé með ásinn niðri.

    • Miðað er við að ökutæki með með stillanlega aksturshæð sé rétt stillt, sjá kafla um aksturshæð hér neðst.

    Við mælingar á fjarlægð undirvarna innundir ökutæki eru eftirfarandi mæliaðferðir notaðar:

    • Mælt er frá fremstu/öftustu brún ökutækis inn að fremstu/öftustu brún framvarnar, afturvarnar eða árekstrarvarnar. Við mælingu frá öftustu brún er ekki talinn með varahjólbarði eða annar aukabúnaður sem nær aðeins yfir hluta af breidd ökutækis. Kant eða brún sem er í meiri hæð en 3 metrar skal heldur ekki telja með.

    • Mælt er frá ystu brún ökutækis og inn að ystu brún hliðarvarnar. Við mælingu frá ystu brún ökutækis eru ekki taldir með útstandandi hlutir eins og speglar eða ljós.

    Á ökutækjum með stillanlega aksturshæð, t.d. á ökutækjum með loftpúðafjöðrun, skal aksturshæð vera skilgreind sem 1/3 af fjöðrunarsviðinu, þ.e. fjöðrunarbúnaður undir ökutækinu skal vera útdregin um 1/3 af fjöðrunarsviðinu. Aksturshæðin skal fundin á eftirfarandi hátt:

    • Hámarkshæð er fundin með því að dæla hámarksþrýstingi í loftpúðana og mæla fjarlægð frá jörðu í fastan punkt á yfirbyggingu.

    • Lágmarkshæð skal fundin með því að hleypa öllu lofti úr loftpúðunum og mæla fjarlægð frá jörðu í sama fasta punkt á yfirbyggingu.

    • Dæla skal svo í loftpúðana þannig að fjarlægð í fasta punktinn á yfirbyggingu frá jörðu sé þriðjungur af hæðstu og lægstu stöðu.

    Undirvörn af gerðinni afturvörn

    Afturvörn þarf að uppfylla neðangreind skilyrði:

    • Hæð frá akbraut: Má hvergi vera meira en 550 mm.

    • Innundir: Má mest vera 400 mm (þó allt að 550 mm fyrir ökutæki skráð fyrir 01.07.90 en ekki meira en þörf krefur).

    • Breidd - ef afturás er breiðari en yfirbygging: Vörnin skal hvergi vera breiðari en afturás mælt á ystu brúnir hjólbarða í hjólmiðjuhæð og ekki meira en 100 mm styttri hvorum megin. Séu afturásar fleiri en
      einn skal miða við þann breiðasta.

    • Breidd - ef yfirbygging er breiðari en afturás: Endi varnarinnar skal vera 100 til 200 mm innan við ystu brún ökutækisins. Komi aðrir fastir hlutir á ökutækinu í stað varnarinnar að nokkru eða öllu leyti gilda áfram tilgreind mál um afturvörn.

    • Útfærsla:Hæð afturvarnar (bita/flatar) skal að lágmarki vera 100 mm. Skal uppfylla kröfur um styrk og festur (sjá nánari lýsingu í þessu skjali). Athuga að gerð er krafa um undirvörn og árekstrarvörn á milli hjóla ökutækja þótt hjólin sjálf séu það aftarlega að þau uppfylli kröfur um staðsetningu undirvarnar (má ekki vera gat á milli hjólanna).

    Afturvörn er áskilin fyrir eftirtalin ökutæki:

    • Fólksbifreið sem er meira en 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd skal búin afturvörn.

    • Hópbifreið sem er meira en 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd skal búinafturvörn.

    • Vörubifreið skal búin afturvörn. Ef bifreiðin er búin lyftanlegum palli skal vörnin þannig gerð að sem minnst hætta sé á að laus efni sitji á henni.

    • Eftirvagn III og IV skal búinn afturvörn.

    Undirvörn af gerðinni árekstrarvörn

    Árekstrarvörn þarf að uppfylla eftirtalin skilyrði:

    • Hæð frá akbraut: Má mest vera 800 mm.

    • Innundir: Má mest vera 400 mm.

    • Breidd: Breidd árekstrarvarnar skal vera a.m.k. jöfn breidd utanverðrar grindar eða sambærilegs burðarvirkis bifreiðar.

    • Útfærsla: Hæð árekstrarvarnar (bita/flatar) skal að lágmarki vera 80 mm. Skal uppfylla kröfur um styrk og festur (sjá nánari lýsingu í þessu skjali).

    Árekstrarvörn er áskilin fyrir eftirtalin ökutæki:

    • Breytt torfærubifreið skal búin árekstrarvörn að framan- og aftanverðu. Ekki er þó krafist árekstrarvarnar að aftanverðu á breyttri bifreið sem skal búin afturvörn.

    Undirvörn af gerðinni hliðarvörn

    Hliðarvörn þarf að uppfylla eftirtalin skilyrði:

    • Hæð frá akbraut: Má mest vera 550 mm.

    • Innundir: Hún má ekki auka breidd ökutækis. Má ekki vera innar en 120 mm frá ystu brún ökutækis. Öftustu 250 mm varnarinnar mega ekki vera meira en 30 mm innan við ystu brún afturhjóla.

    • Breidd (fram/aftur): Ef frambrún hliðarvarnar er ekki beint aftan við aðra fasta hluti ökutækis skal hún gerð úr samfelldum lóðréttum hluta sem er jafn langur hæð varnarinnar. Þessi hluti skal sveigja 100 mm inn á við a.m.k. 50 mm frá frambrún varnarinnar. Á vörubifreið II og eftirvagni II sem er meira en 10.000 kg að leyfðri heildarþyngd skal hlutinn þó sveigja inn á við a.m.k 100 mm frá frambrún varnarinnar. Afturbrún varnarinnar má ekki vera framar en 300 mm framan við afturhjól.

    • Útfærsla: Hæð hliðarvarnar (stanga/bita/flatar) að lágmarki 100 mm (þó að lágmarki 50 mm háar á vörubifreið I og eftirvagni II sem er 10.000 kg eða minna að leyfðri heildarþyngd). Bil milli efri brúnar hliðarvarnar og yfirbyggingar þar fyrir ofan má mest vera 350 mm og ef engin yfirbygging er ofan við vörnina skal efri brún vera a.m.k. 950 mm yfir akbraut (raða má saman stöngum með 300 mm lóðréttu hámarks millibili til að uppfylla þetta skilyrði). Efri brún varnarinnar þarf ekki að vera hærri en pallgólf. Skal uppfylla kröfur um styrk og festur (sjá nánari lýsingu í þessu skjali).

    Hliðarvörn er áskilin fyrir eftirtalin ökutæki:

    • Vörubifreið skal búin hliðarvörn. Auk grunnkrafna skal frambrún varnarinnar vera að hámarki 300 mm aftan við framhjólið eða sveigja að ökumannshúsi undir horni sem má mest vera 45°.

    • Eftirvagn III og IV skal búin hliðarvörn. Auk grunnkrafna má frambrún hennar ekki vera aftar en sem nemur:

      • 250 mm aftar en framhlið yfirbyggingar á hengivagni.

      • 500 mm aftan við framhjól á tengivagni.

      • 2.700 mm aftan við tengipinna festivagns, en þó ekki lengra en 250 mm aftan við þverplan miðra stoðfóta (ath. ef slíkur vagn er lengjanlegur skulu ákvæði um staðsetningu fram- eða afturbrúnar vera uppfyllt í fullri lengd vagnsins).

    Undirvörn af gerðinni framvörn

    Framvörn þarf að uppfylla eftirtalin skilyrði:

    • Hæð frá akbraut: Mest 445 mm fyrir vörubifreið sem er meira en 7.500 kg að leyfðri heildarþyngd og 400 mm fyrir vörubifreið sem er 7.500 kg eða minna að leyfðri heildarþyngd.

    • Innundir: Ekki tilgreint.

    • Breidd: Má ekki vera breiðari en hjólhlífar framhjóla og ekki mjórri en 100 mm hvorum megin en gangbretti við ökumannshús eða 100 mm mjórri hvorum megin en ytri brún hjólbarða.

    • Útfærsla: Hæð framvarnar (bita/flatar) að lágmarki 100 mm fyrir vörubifreið I og 120 mm fyrir vörubifreið II. Skal uppfylla kröfur um styrk og festur (sjá nánari lýsingu í þessu skjali).

    Framvörn er áskilin fyrir eftirtalin ökutæki:

    • Vörubifreið skal búin framvörn. Hæð framvarnar frá akbraut má ekki vera meiri en 445 mm fyrir vörubifreið sem er meira en 7.500 kg að leyfðri heildarþyngd og 400 mm fyrir vörubifreið sem er 7.500 kg eða minna að leyfðri heildarþyngd.

    Undirvörn - undanþágur

    Eftirtalin ökutæki eru undanþegin kröfum um afturvörn:

    • Bifreið sem skráð er til neyðaraksturs.

    • Vörubifreið sem ætluð er til að draga festivagn.

    • Ökutæki sem verið er að flytja til umboðsaðila eða frá honum til yfirbyggingar.

    • Ökutæki þar sem grind, yfirbygging eða einhver annar hluti ökutækisins er þannig hannaður að hann nálgast að veita sömu vörn við árekstur aftan á og afturvörnin.

    • Ökutæki sem ætlað er til notkunar utan alfaraleiða

    • Ökutæki sem eru í þannig notkun að afturvörn verði ekki komið við meðan á þeirri notkun stendur

    • Hópbifreiðir skráðar fyrir 1. júlí 1990.

    • Ökutæki af framleiðsluári 1967 eða eldri.

    Eftirtalin ökutæki eru undanþegin kröfum um hliðarvörn:

    • Ákvæði um hliðarvörn gilda ekki um bifreið og eftirvagn sem skráð(ur) var fyrir 05.05.1989.

    Eftirtalin ökutæki eru undanþegin kröfum um framvörn:

    • Vörubifreið sem telst torfærubifreið er undanþegin framvörn.

    • Ákvæði um framvörn gilda ekki um vörubifreið sem skráð var til og með 31.12.2004.

    Kröfur til festinga undirvarna

    Viðmið um þol á festum

    Festingar á bifreið skulu vera í samræmi við styrk bita og heildarþyngd bifreiðar. Hvor festa skal þola, án þess að aflagast, láréttan kraft þvert á bitann sem samsvarar hálfri heildarþyngd bifreiðarinnar. Ekki er þó gerð krafa um að hvor festing þoli meiri kraft en 100 kN (10 tonn).

    Á eftirvagni skulu festingar afturvarnar þola a.m.k. 100 kN kraft (10 tonn) án tillits til heildarþyngdar eftirvagnsins.

    Afturvörn og árekstrarvörn má útbúa þannig að hægt sé að lyfta henni eða láta hana síga, en hún verður samt sem áður að uppfylla kröfur um styrk í þeirri staðsetningu sem henni er ætlað.

    Útfærsla festinga

    Leyfilegt er að festa afturvörn við pallbita ökutækis ef nægilegur styrkur er fyrir hendi. Festur skulu koma í framanverðan bita afturvarnar. Eðlilegt er að styrkur festa aukist er nær dregur grind ökutækis eða sé a.m.k ekki minni þar en annarsstaðar. Séu notaðar plötur skal að jafnaði ekki nota þynnri plötur en 6 mm. Á þeim skulu einnig vera kantar, a.m.k. 2 cm, á hvorri brún.

    Suður skulu vera góðar og í samræmi við efnisþykktir sem verið er að sjóða saman.

    Boltar í festum eiga að vera vel dreifðir en þó ekki of nálægt brún festu, t.d. ekki nær en sem nemur hálfu þvermáli boltahauss. Þurfi bolti að ganga í gegnum t.d. prófíl skulu vera rör sem boltinn gengur í gegnum sem komi í veg fyrir að prófíllinn falli saman við herslu. Að jafnaði skal miða við að notaðir séu a.m.k. þrír boltar í hvorn grindarbita. Miða skal við lágmarksþvermál 10 mm og lágmarksstyrk efnis 8.8. Eftir því sem heildarþyngd bifreiðar eykst og á eftirvögnum er eðlilegt að boltar séu fleiri og/eða sterkari. Þar sem festur með boltum byggja að mestu leyti á þeim viðnámskröftum sem myndast á milli festunnar og grindar er mjög mikilvægt að boltar séu vel og rétt hertir.

    Í töflu 1 er gefin til viðmiðunar hersla á 8.8 boltum miðað við breytileg þvermál. Gert er ráð fyrir herslu stál í stál og boltar séu án smurnings.

    Tafla 1. Hersla á 8.8 boltum eftir þvermáli þeirra. Gert er ráð fyrir herslu stál í stál og boltar séu án smurnings.

    Þvermál bolta

    Hersla

    10 mm

    48 Nm

    12 mm

    81 Nm

    14 mm

    129 Nm

    16 mm

    197 Nm

    18 mm

    276 Nm

    20 mm

    386 Nm

    Kröfur til bita í undirvörnum

    Krafa til bita í undirvörn

    Biti í afturvörn bifreiðar skal þola, án þess að aflagast, láréttan kraft 150 mm frá enda afturvarnar sem nemur 1/8 af heildarþyngd bifreiðar án þess að bitinn bogni. Þannig skal beygjumótstaða bita (Wb), í einingunni cm3, vera a.m.k. jöfn leyfðri heildarþyngd bifreiðar í kg deilt með 370. Þessu sambandi er lýst með jöfnunni: Wb = heildarþyngd / 370 [cm3]

    Biti í afturvörn eftirvagns skal þola 25 kN (2,5 tonn) láréttan kraft 150 mm frá enda afturvarnar. Beygjumótstaða bita á eftirvagni skal því vera a.m.k. 54 cm3 óháð heildarþyngd eftirvagns. Bora skal 5 mm gat við enda bita til að hægt sé að mæla efnisþykkt hans.

    Á ökutæki með lyftubúnaði þarf gjarnan að þrískipta bitanum eins og sést á mynd 1 og telst það samþykkt.

    undirvornlyfta1

    Mynd 1. Undirvörn á bifreið með lyftubúnaði (vörulyftu).

    Biti í árekstrarvörn skal samsvara efnisstyrk holprófíls úr stáli (St 37) að stærð 80×40×3 mm. Beygjumótstaða slíks bita (Wb), í einingunni cm3, skal vera a.m.k. 9,2 cm3.

    Í töflum 2-4 er að finna upplýsingar um samþykkta bita í undirvörn miðað við ýmsar forsendur.

    Tafla 2. Samþykktir bitar í undirvörn fyrir bifreiðir og eftirvagna (takmörk eiga við leyfða heildarþyngd).

    Lýsing bita

    Bifreið

    Eftirvagn

    Sexstrendur biti á lyftum, 105×3 mm

    Allar

    Allir

    Álbiti með rifflum að ofan, 132×90 mm

    Allar

    Allir

    Álbiti með rifflum að ofan, 130×90 mm

    Allar

    Allir

    Álbiti, sléttur, 100×40×2,8 mm

    Max 4.000 kg

    Ekki leyft

    Beygð plata 190×85×2,6 mm

    Max 10.000 kg

    Ekki leyft

    Tafla 3. Dæmi um bita sem hafa nægjanlega beygjumótstöðu miðað við leyfðar heildarþyngdir ökutækja. Miðað er við að láréttur kantur a.m.k. 100 mm á hæð snúi aftur.

    Heildarþyngd ca.

    Lágmarks beygjumótstaða

    Prófíll

    Rör

    3.500 kg

    9,5 cm3

    100×40×2,5

    5.000 kg

    13,5 cm3

    100×50×3,6

    10.000 kg

    27,0 cm3

    120×60×5,0

    114,3×3,6

    15.000 kg

    40,5 cm3

    140×80×4,0
    100×100×4,0

    114,7×4,5

    17.000 kg

    40,5 cm3

    100×60×8,0

    20.000 kg

    54,0 cm3

    140×80×5,0
    100×100×5,0

    139,7×4,0

    Eftirvagn

    54,0 cm3

    140×80×5,0
    100×100×5,0

    139,7×4,0

    Tafla 4. Ef biti snýr upp á kant þá eru þessir bitar samþykktir miðað við leyfðar heildarþyngdir.

    Heildarþyngd ca.

    Lágmarks beygjumótstaða

    Prófíll

    3.500 kg

    9,5 cm3

    prófílar upp á kant

    5.000 kg

    13,5 cm3

    80×80×3,6

    10.000 kg

    27,0 cm3

    90×90×5,6
    100×100×4,0
    100×100×5,0

    15.000 kg

    40,5 cm3

    120×120×4,5

    20.000 kg

    54,0 cm3

    120×120×6,3

    Eftirvagn

    54,0 cm3

    120×120×6,3


    Tengibúnaður bifreiða og eftirvagna þeirra

    Skráning tengibúnaðar í ökutækjaskrá (St9.1.2.1)

    Tengibúnaður vélknúins ökutækis skal skráður í ökutækjaskrá að undangenginni úttekt skoðunarstofu (skráð að tengibúnaður sé á ökutækinu).

    Þyngdir hemlaðs- og óhemlaðs eftirvagns eða tengitækis sem heimilt er að tengja við ökutækið skulu jafnframt skráðar í ökutækjaskrá (ef þær vantar) skv. fyrirmælum framleiðanda ökutækisins eða tengibúnaðarins. Á tengibúnaði bifreiða skal vera merking um framleiðanda og mestu leyfðu heildarþyngd sem tengja má við tengibúnaðinn. Ef fyrirmæli framleiðanda ökutækisins um þyngdir hemlaðs eftirvagns eru ekki þekkt, skal sú þyngd sem framleiðandi tengibúnaðarins gefur upp skráð í reitinn fyrir heimila þyngd hemlaðs eftirvagns.

    Undanþága: Heimilt var að leyfa tengibúnað sem var án merkinga, sem festur hafði verið við bifreið fyrir 01.07.1991, en sá tengibúnaður skal samt sem áður að öðru leyti vera háður samþykki skoðunarstofu og skráður í ökutækjaskrá (ekki þarf að skrá heimila þyngd eftirvagns).

    Merkingar um mestu leyfðu heildarþyngd (St9.1.2.1)

    Á sumum gerðum tengibúnaðar eru ekki merkingar um mestu leyfða þyngd sem tengja má við tengibúnaðinn, heldur gefið upp D-gildi. D-gildi er reiknað út frá leyfðum heildarþyngdum bíls og eftirvagns. Til að finna leyfða þyngd eftirvagnsins út frá D-gildi þarf að reikna það út frá eftirfarandi formúlu.

    V=(B*D)/(B-D)

    þar sem

    • V = Leyfð þyngd eftirvagns (í kg).

    • B = Heildarþyngd bifreiðar (í kg).

    • D = D-gildi í DaN (sem er kNx100 eða N/10).

    Útfærsla merkinga á tengibúnaði (St9.1.2.3)

    Á tengibúnaði bifreiðar skal vera greinileg og varanleg merking um framleiðanda og mestu leyfða heildarþyngd eftirvagns sem tengja má við tengibúnaðinn.

    Framleiðandi tengibúnaðar skal merkja framleiðslu sína í samræmi við þol búnaðarins og geta einstakir hlutar tengibúnaðar haft mismunandi álagsþol. Þegar um slíka samsetningu er að ræða skulu allar einingarnar merktar. Bolta- og stóltengi eru gjarnan skrúfuð eða boltuð saman og mynda þannig eina heild. Ef ein merking er á búnaðinum túlkast hún fyrir allt tengið.

    Þær upplýsingar sem skulu koma fram á merkingu hlutar samanstanda af eftirfarandi þremur liðum:

    1. Nafni framleiðanda (vörumerki, framleiðslumerki eða samsvarandi).

    2. Gerð (og útfærslu ef við á).

    3. Burðarþolstölum (a.m.k. mesta leyfða heildarþyngd eftirvagns).

    Merkinguna má útfæra á tvennan hátt:

    1. Með notkun spjalds og stansaðra stafa á hlut. Allar upplýsingarnar þurfa að koma fram á spjaldinu, en nægilegt er að aðeins gerðin sé stönsuð í hlutinn. Spjaldið skal vel fest (hnoðað, skrúfað eða límt).

    2. Eingöngu stansaðir stafir á hlut. Nauðsynlegt að allar upplýsingarnar séu stansaðar á hlutinn.

    Allar merkingar skulu vera varanlegar og vel læsilegar. Æskilegt er að hæð stansaðra stafa sé ekki minni en 8 mm, þó aldrei minni en 6 mm.

    Tengibúnaði breytt í dráttarbúnað

    Ef bíleigandi óskar þess að fá að nota dráttarkúlu sem dráttarbúnað en ekki tengibúnað er ekkert því til fyrirstöðu svo framarlega sem kúlunni er breytt þannig að ekki sé hægt að setja hanska á hana.

    Leyfilegar tegundir tengibúnaðar eftir ökutækjaflokkum (St9.1.2.4)

    Við bifreið, bifhjól og dráttarvél má aðeins tengja einn eftirvagn í einu. Ökutæki mega hafa eftirfarandi gerðir tengibúnaðar (og aðrar ekki):

    Kúlutengi:

    • Dráttartæki: Bifreið, bifhjól og dráttarvél (bifreið og dráttarvél má hafa önnur tengi að auki).

    • Eftirvagn: Eftirvagn I og II með leyfða heildarþyngd 3.500 kg eða minna. Eftirvagn dráttarvélar óháð leyfðri heildarþyngd.

    Boltatengi:

    • Dráttartæki: Bifreið sem gerð er til þess að draga tengi- eða hengivagn sem er yfir 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd, önnur en fólksbifreið sem er að leyfðri heildarþyngd 3.500 kg eða minna. Dráttarvél (óháð þyngd eftirvagns).

    • Eftirvagn: Eftirvagn III og IV sem er af undirflokki tengi- eða hengivagn yfir 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd. Eftirvagn dráttarvélar óháð leyfðri heildarþyngd.

    Stóltengi:

    • Dráttartæki: Bifreið, önnur en fólksbifreið að leyfðri heildarþyngd 3.500 kg eða minna.

    • Eftirvagn: Festivagn.

    Sjá nánar í köflunum um sérhverja gerð tengis.

    Kúlutengi

    Leyfilegar gerðir kúlutengja (St9.1.5.1 St9.1.2.4)

    Leyfilegar gerðir kúlutengja fyrir dráttartæki og samsvarandi mótstykki á þá við um eftirvagninn sem það dregur.Leyfileg gerð kúlutengis fyrir bifreið:

    1. Kúla með 50 mm þvermáli og skv. ISO 1103 (sjá mynd 1).

    tengibunkula1

    Mynd 1. Kúlutengi á bifreið.

    Leyfileg gerð kúlutengis á bifhjóli:

    • Kúla með 50 mm þvermáli og samkvæmt ISO 1103.

    Leyfileg gerð kúlutengis á dráttarvél:

    Tengibúnaður ranglega staðsettur (St9.1.3.3 St9.1.4.3)

    Ekki staðsettur skv. fyrirmælum framleiðanda. Mæling með málbandi. Að auki gildir eftirfarandi:

    1. Fjarlægð að yfirbyggingu bifreiðar - fjarlægðin frá ytri brún kúlu að nálægasta hluta yfirbyggingar er mæld.

    2. Lárétt miðlína - á bifreið er fjarlægðin frá miðri kúlu að ytri brúnum afturljósa borin saman, á eftirvagni/tengitæki er fjarlægðin frá miðlínu hanska að ytri brúnum ökutækisins borin saman.

    Staðsetning skal vera sem hér segir:

    1. Fjarlægð að yfirbyggingu bifreiðar - dæmt ef fjarlægðin er < 30 mm eða > 100 mm að kúlu.

    2. Lárétt miðlína - dæmt ef kúla er > 20 mm frá miðlínu bifreiðar, dæmt ef hanski er > 30 mm frá miðlínu eftirvagns/tengitækis.

    Festing tengibúnaðar við ökutæki (St9.1.4.1)

    Almennt eru prófílar (rör, skúffur, vinklar, ferkantar) sterkara heldur en flatjárn, stangir, plötur og annað álíka. Prófíla skal því nota í þá hluta festigrindarinnar sem verða fyrir mestu álagi, s.s. þver- og langbita. Plötur eða flatjárn eru notuð í styrkingar við samskeyti bita, einnig sem festiplötur með boltagötum sem soðnar eru við bitaendana. Festigrind sem byggð er upp af þunnu flatjárni sem kúlan festist í er ekki samþykkt.

    Skyndilegar formbreytingar eru hættulegar gagnvart sprungumyndunum. Þetta geta verið breytingar í efnisþykktum, raufar, skörð o.fl. Biti í festigrind sem búið er að veikja með því að brenna hluta hans í burtu (t.d. fyrir púströrið eða annað álíka) er ekki samþykkt.

    Festigrind skal bolta við bifreið með boltum með lágmarks styrk 8.8. Rær á boltum skulu ekki geta losnað af sjálfu sér. Boltagöt á festigrind skulu vera hringlaga og henta boltunum sem notuð eru. Þó er leyfilegt að þverstæð aflöng göt séu fyrir bolta sem skrúfast lóðrétt upp eða niður í bifreiðina og er mesta leyfilega lengd slíkra gata 20 mm.

    Ekki er leyfilegt að sjóða festigrind við bifreið nema með samþykki framleiðanda bifreiðarinnar. Suður eru mismunandi góðar og sérstaklega varasamar þegar mismunandi efnismiklir hlutar eru soðnir saman, þá hentar oft ekki sama suðuaðferðin báðum hlutunum.

    Slit utan leyfilegra marka (St9.1.4.2)

    a) Kúla
    Lágmarksþvermál kúlu er 49 mm.Ekki þarf að gera athugasemdir við rispur og spor í tengibúnaði eftir hnjask af völdum vagns

    b) Tengihanski
    Hámarksþvermál tengihanska er 50 mm.

    Stóltengi

    Leyfilegar gerðir stóltengja (St9.1.5.1 St9.1.2.4)

    Leyfilegar gerðir stóltengja fyrir dráttartæki og samsvarandi mótstykki á þá við um eftirvagninn sem það dregur.

    Leyfilegar gerðir stóltengja fyrir bifreið (sjá mynd 2):

    1. Stóll með læsingu fyrir 50,8 mm (2”) tengipinna. Tengipinninn skal vera skv. 94/20/ESB eða ISO 337, en stóllinn má vera framleiddur í samræmi við 94/20/ESB og festur með festingum sem eru skv. ISO 3842.

    2. Stóll með læsingu fyrir 88,9 mm (3 ½”) tengipinna. Tengipinninn skal vera skv. ISO 4086, en stóllinn má vera framleiddur í samræmi við 94/20/ESB og festur með festingum sem eru skv. ISO 3842.

    tengibunstoll1

    Mynd 2. Stóltengi - stóllinn á dráttarbifreiðinni.

    Leyfilegar gerðir stóltengja á bifhjól og dráttarvél:

    • Ekki leyfð.

    Tengibúnaður ranglega staðsettur (St9.1.3.3 St9.1.4.3)

    Ekki staðsettur skv. fyrirmælum framleiðanda. Mæling með málbandi. Að auki gildir eftirfarandi:

    1. Lárétt miðlína - á bifreið er fjarlægðin frá miðlínu stóls að ytri brún grindar borin saman, á festivagni er fjarlægðin frá miðlínu tengipinna að ytri brúnum festivagnsins borin saman.

    Staðsetning skal vera sem hér segir:

    1. Lárétt miðlína - dæmt ef stóll er > 30 mm frá miðlínu bifreiðar, dæmt ef pinni er > 30 mm frá miðlínu festivagns.

    Ljós og rofi fyrir færanlegan tengistól (St9.1.3.6)

    Rofi prófaður með því að ýta á hann. Rofinn á að ganga til baka þegar honum er sleppt. Ljós prófað um leið og læsing er prófuð (á að gefa til kynna í hvaða stöðu læsingin er þ.e. læst eða ólæst). Læsing stóls prófuð með því að halda rofanum inni, færa stólinn úr læsingu (sé engin vagn í stólnum er hann færður til með handafli, sé vagn í stólnum er honum hemlað með stöðuhemli og bílinn færður aðeins til), rofanum er þá sleppt og stólnum aftur ýtt í læsinguna. Stóllinn ætti þá að læsast aftur og ljósið að sýna viðeigandi stöðu.

    Festing tengibúnaðar við ökutæki (St9.1.4.1)

    Stóllinn skal hafa a.m.k. 8 göt með 17 mm þvermáli (eða stærri) sem eru samhverf um lengdar- og þverás stólsins. Þó er leyfilegt að hafa aflöng þverstæð göt. Boltar sem festa stólinn skulu vera a.m.k. af stærðinni M16, af lágmarks styrk 8.8 og skulu þeir henta götunum. Boltunum skal ætíð komið fyrir samhverft um lengdar- og þverás stólsins. Stólinn skal bolta við festiplötu eða -grind með a.m.k. 8 boltum ef stóllinn er fyrir 50,8 mm (2”) tengipinna, en a.m.k. 12 boltum ef stóllinn er fyrir 88,9 mm (3½”) tengipinna.

    Stól má ekki festa á grind vörubifreiðar nema samkvæmt fyrirmælum framleiðanda.

    Slit utan leyfilegra marka (St9.1.4.2)

    a) Stóll LS

    Heildarhlaup milli tengipinna og tengiklóar má ekki vera meira en 5 mm (sjónskoðun). Að öllu jöfnu má ekki koma fram neitt hlaup í dráttarstólum sem hafa sjálfvirka stillingu til þess að vega upp á móti sliti.

    b) TengipinniLágmarksþvermál tengipinna: Brjóst Mitti

    • 50,8 mm (2”) 71 mm 49 mm

    • 88,9 mm (3 ½”) 112 mm 86 mm

    Ekki þarf að gera athugasemdir við rispur og spor í tengibúnaði eða plötu eftir hnjask af völdum vagns.Lengd tengipinna:

    • 50,8 mm (2”) 82,5 – 84 mm

    • 88,9 mm (31/2”) 70 – 71,5 mm

    Boltatengi

    Leyfilegar gerðir boltatengja (St9.1.5.1 St9.1.2.4)

    Leyfilegar gerðir boltatengja fyrir dráttartæki og samsvarandi mótstykki á þá við um eftirvagninn sem það dregur.

    Leyfilegar gerðir boltatengja fyrir bifreið (sjá mynd 3):

    1. 40 mm bolti og skv. ISO 8755.

    2. 50 mm bolti og skv. ISO 1102 eða ECE reg. nr. 55.

    3. 57,5 mm bolti skv. eldri reglum (fyrir 1998).

    tengibunbolti1


    Mynd 3. Boltatengi - á bifreiðinni.

    Leyfileg gerð boltatengis á bifhjóli:

    • Ekki leyft.

    Leyfileg gerð boltatengis á dráttarvél:

    Tengibúnaður ranglega staðsettur (St9.1.3.3 St9.1.4.3)

    Ekki staðsettur skv. fyrirmælum framleiðanda. Mæling með málbandi. Að auki gildir eftirfarandi:

    1. Fjarlægð að yfirbyggingu/grind bifreiðar - fjarlægð frá ytri brúnum tengis að nálægasta hluta yfirbyggingar/grindar mæld.

    2. Fjarlægð handfangs að yfirbyggingu/grind bifreiðar - tengið sjálft og handfang þess sett í óhagstæðustu stöðu og lóðrétta fjarlægðin frá handfanginu mæld í þann hluta yfirbyggingar/ grindar sem næst er, endurtekið fyrir mælingu á láréttri fjarlægð.

    3. Lárétt miðlína - á bifreið er fjarlægðin frá miðlínu bolta að ytri brún grindar borin saman, á eftirvagni/tengitæki er fjarlægðin frá miðlínu dráttarauga að ytri brúnum ökutækisins borin saman (stýrður ás skal stefna beint fram).

    4. Lóðrétt hæð - við eiginþyngd bifreiðar er hæð frá jörðu upp í miðjan bolta mæld, við eiginþyngd eftirvagns/tengitækis er hæð frá jörðu upp í mitt dráttarauga mæld þegar eftirvagn stendur láréttur.

    5. Lárétt fjarlægð að öftustu brún - fjarlægð milli miðju boltans og öftustu brúnar ökutækisins mæld.

    Staðsetning skal vera sem hér segir:

    1. Fjarlægð að yfirbyggingu/grind bifreiðar - dæmt ef fjarlægðin er < 10 mm (hvernig sem því er snúið og staða þess er).

    2. Fjarlægð handfangs frá yfirbyggingu/grind bifreiðar - dæmt ef lóðrétta fjarlægðin er < 60 mm og ef lárétta fjarlægðin er < 100 mm.

    3. Lárétt miðlína - dæmt ef bolti er > 30 mm frá miðlínu bifreiðar, dæmt ef dráttarauga er > 30 mm frá miðlínu eftirvagns/tengitækis.

    4. Lóðrétt hæð - dæmt ef hæðin er utan 900 ± 100 mm markanna.

    5. Lárétt fjarlægð að öftustu brún - dæmt ef fjarlægðin er > 420 mm, þó er leyfilegt að fjarlægðin sé meiri ef eitthvert eftirfarandi tilfella kemur upp (að því gefnu að auðveld og örugg notkun boltatengisins sé enn til staðar):

      1. fjarlægð allt að 650 mm er leyfileg ef yfirbygging er hallandi að aftan eða búnaður er festur aftan á ökutækið,

      2. fjarlægð allt að 1320 mm er leyfileg ef hindrunarlaus hæð frá jörðu er a.m.k. 1150 mm,

    Festing tengibúnaðar við ökutæki (St9.1.4.1)

    Boltatengi skal festa á ökutæki á þann hátt að notkun þess sé auðveld og örugg. Til viðbótar við þær aðgerðir að opna (og loka ef slíkt er notað) er einnig átt við athugun á stöðu boltans í tenginu (með sjónskoðun og átaki).

    Stjórnandi tengisins má ekki vera í hættu við stjórnun tengisins, t.d. vegna skarpra brúna, horna o.fl., og skal hönnun á umhverfi tengisins taka mið af því. Ekkert má hindra stjórnanda tengisins í að víkja sér snögglega frá til beggja hliða. Hverskonar undirvörn má ekki hindra stjórnanda tengisins í að koma sér hæfilega fyrir við vinnu sína.

    Slit utan leyfilegra marka (St9.1.4.2)

    a) Bolti

    Lágmarksþvermál brjóstsins á bolta boltatengis er eftirfarandi:

    • 36,5 mm fyrir 40 mm bolta

    • 46,0 mm fyrir 50 mm bolta

    • 55,0 mm fyrir 57 mm bolta

    Yfirleitt slitnar kúla boltatengis niður fyrir lágmark áður en neðri fóðring boltatengisins slitnar meira en leyfilegt er. Áslægt hámarksslag dráttarauga í boltatengi (upp og niður) er 6 mm. Ekki þarf að gera athugasemdir við rispur og spor í tengibúnaði eftir hnjask af völdum vagns.

    b) Dráttarauga

    Hámarksþvermál auga:

    • 41,5 mm fyrir 40 mm dráttarauga

    • 52,5 mm fyrir 50 mm dráttarauga

    • 59,5 mm fyrir 57 mm dráttarauga

    Festing slithrings: Slithringur skal sitja fastur og vera vel festur, þ.e. valsaður, pressaður eða soðinn. Um suðu gildir eftirfarandi sem viðmiðun:

    • Heill slithringur: Suða á afturbrún 10 15 mm

    • Raufaður hringur: Suða á fram og afturbrún 8 10 mm


    Hættulegir útstæðir hlutir

    Útstæðir hlutir sem ekki hafa augljósan tilgang og gæti stafað hætta af skulu dæmdir sem hættulegir útstæðir hlutir. Þannig hafa útispeglar augljósan tilgang en dæmi um hættulega útstæða hluti eru (St3.7.2.1):

    • Sumar vörubifreiðir hafa lága vör aftan á pallinum sem á að falla sjálfkrafa niður þegar pallinum er lyft. Ef þessi vör er óvirk eða vísvitandi fest þannig að hún stendur beint aftur af pallinum skal það metið sem hættulegur útstæður hlutur og dæmt í samræmi við Skoðunarhandbók.

    • Tengibúnaður án kúlu sem stendur út frá yfirbyggingu bifreiðar telst hættulegur útstæður hlutur þar sem hann hefur engan augljósan tilgang.

    • Vegna aukabúnaðar eða breytinga á bifhjólum skal dæma á hluti sem standa út frá yfirbyggingu og/eða hluti sem auka hættu á meiðslum, t.d. hlutir með hvössum brúnum, oddhvassir stýrisendar og fóthvíluendar o.s.frv.


    Eldsneytiskerfi

    Þrýstigeymar og lagnir - kröfur

    Eldsneytisgeymar og eldsneytisleiðslur skulu vera úr seigu og endingargóðu efni sem stenst tæringu, áhrif hita og kulda og þolir það eldsneyti sem notað er.

    • Eldsneytisgeymir skal vera úr óeldfimu efni eða uppfylla ákvæði reglugerðar ESB nr. 661/2009 og UN-ECE reglu 34.

    • Gasgeymar skulu uppfylla skilyrði reglna og merkinga um þrýstihylki samanber reglugerð nr. 218/2013.

    • Metangeymir skal til viðbótar uppfylla skilyrði UN-ECE reglu 110 eða staðalsins ISO11439 og vera þannig merktur.

    Við skráningu eða breytingu, og ef ástæða þykir til við almenna skoðun (s.s. vísbendingar um að skipt hafi verið um geymi), er viðurkenningarmerking skoðuð.

    Festingar og lega þrýstigeyma

    Lega þrýstigeyma

    Geymir má ekki vera í vélar- eða fólksrými. Sé geymir í farmrými sem eru sambyggð fólksrými skal nota rafsegultankloka með öndun og helst fyrir neðan þverplan sætissetu.

    Geymi skal þannig fyrir komið að sem minnst hætta sé á að hann verði fyrir hnjaski og að titringur eða vindu- og beygjuhreyfingar valdi ekki hættu á sliti eða skemmdum við eðlilega notkun ökutækis.

    Sé geymir staðsettur inni í yfirbyggingu (í farmrými) skal honum komið þannig fyrir að hann verði ekki fyrir skemmdum af farangri eða farmi.

    Sé geymir í lokuðu rými, hvort sem það er sérstakt lokað rými utan farmrýmis, eða inni í farmrými, skal það vera loftræst. Nægilegt er að hafa loftræstiop (óþvingaða ræstingu) með lágmarksrýmd 500 mm2. Loftræstiop skal vera a.m.k. 250 mm frá útblásturskerfi.

    Ef geymir er nær útblásturskerfi en 100 mm skal vera vörn milli hans og útblásturskerfis. Vörnin felst í skilrúmi eða þili.

    Ef við verður komið skulu liggjandi geymar, ef þeir eru í farþegahæð, snúa þvert á akstursstefnu (fyrir ofan þverplan setu neðsta sætis). Snúi þeir fram er æskilegt að halla þeim aðeins (þannig að þeir liggi ekki alveg láréttir).

    Geymir má ekki skaga út fyrir útlínur ökutækisins.

    Geymi ber að snúa þannig að auðvelt sé fyrir eftirlitsaðila að sjá viðurkenningarmerkingar og gildistíma eftir ísetningu.

    Festing þrýstigeyma

    Festa skal þrýstigeymi við burðarvirki eða berandi hluta ökutækis. Miða skal við að festingarnar þoli að lágmarki tífalda þyngd geymisins eða geymaknippisins í allar áttir (upp, niður, fram, aftur og til hliðar).

    Staðsetning áfyllingarops fyrir þrýstigeyma

    Áfyllingarop og öndun eldsneytisgeymis má ekki vera í fólks-, farangurs- eða hreyfilrými.

    Áfyllingarop má ekki skaga út fyrir útlínur ökutækisins.

    Gildistími þrýstigeyma fyrir eldsneyti

    Eldsneytisgeymar sem innihalda gas undir þrýstingi hafa ákveðinn gildistíma sem skráður er á tankinn af framleiðanda. Upplýsingarnar eru oft stansaðar í yfirborð geyma eða komið fyrir á spjaldi sem fest er á þá með varanlegum hætti. Upplýsingarnar verður að vera hægt að lesa eftir að geymi hefur verið komið fyrir í ökutæknu (snúa ber geymum þannig að merkingar sjáist). Þó er heimilt að taka gilda staðfestingu um gildistíma geyma sem komið er fyrir á bakvið hlífar (sem losa þarf með verkfærum), enda komi slík staðfesting frá framleiðanda, fulltrúa framleiðanda (umboði) eða umboðsverkstæði. Staðfestingin innihaldi upptalningu á geymunum, stærð þeirra og gildistíma hvers og eins.

    Gildistíma er í sumum tilvikum hægt að endurnýja með þrýstiprófun og yfirferð viðurkenndra aðila og/eða Vinnueftirlitsins. Í öllum tilvikum verður Vinnueftirlitið að samþykkja verkið og merkja sér framlenginguna. Ekki er heimilt að endurnýja gildistíma þrýstigeyma fyrir metan (CNG).

    Viðbótarorkugjafi metan (CNG)

    Einstaklingar geta hlotið viðurkenningu Samgöngustofu sem ísetningaraðilar metanbúnaðar. Skilyrði til að hljóta slíka viðurkenningu eru þessi (nánar metið af Samgöngustofu hverju sinni):

    • Að hafa starfsréttindi sem bifvélavirki eða hafa sambærileg réttindi eða nám að baki.

    • Að hafa aflað þekkingar varðandi ísetningu metanbúnaðar, annað hvort hjá framleiðanda búnaðarins eða hjá viðurkenndum skóla eða fræðsluaðila.

    Sjá viðurkennda aðila á lista US.366 á heimasíðu Samgöngustofu. Viðurkenndur ísetningaraðili metanbúnaðar má gefa út vottorð um ísetningu metanbúnaðar. Sjá um útgáfu vottorðs og móttöku þess á skoðunarstöð í skráningareglum ökutækja.

    Úrtaka metan orkugjafa (CNG)

    Ökutæki sem framleitt hefur verið með metan sem orkugjafa, eða breytt hefur verið þannig að metan er orðinn viðbótarorkugjafi, skal hafa orkugjafann virkan og er það prófað við skoðun. Ef upp kemur sú staða að kerfið er ekki lengur virkt, og að öðrum skilyrðum uppfylltum, má sækja um að búnaðurinn verði tekinn úr, sjá skráningareglur ökutækja.


    Gashylki, gaslagnir og gastæki

    Fjöldi og staðsetning gashylkja

    Miða skal við eftirfarandi reglur:

    • Hámarksþyngd gashylkis er 11 kg.

    • Gashylki í ökutæki mega ekki vera fleiri en tvö talsins, eitt í notkun og annað til vara.Gashylki eiga að standa upprétt og svo tryggilega frá þeim gengið að þau færist ekki úr stað.

    • Gashylki, sem tekur meira en tvö kg af gasi, skal ásamt þrýstiminnkara vera staðsett utan á ökutækinu eða í þéttu einangruðu rými inni í ökutækinu.

    • Gashylki sem tekur minna en tvö kg af gasi má koma fyrir inni í ökutæki án þess að það sé í lokuðu rými en sömu reglur gilda um tryggilegan frágang.

    Gashylki komið fyrir í rými inni í ökutæki

    Gashylki sem komið er fyrir inni í ökutækinu skal hafa í þéttu einangruðu rými. Í rýminu verður að vera op (a.m.k. 100 cm2) á botninum til loftræstingar og má rýmið aðeins vera aðgengilegt að utan.

    Rými fyrir gashylki á að vera með læsingu. Þegar gas er notað á rýmið að vera ólæst til þess að hægt sé að skrúfa fyrir gashylkið í skyndingu.

    Gashylki komið fyrir að utanverðu

    Gashylki sem komið er fyrir að utanverðu skal vera í tryggilegri hæð frá akbraut og hafa læsanlega hlíf sem nær a.m.k. yfir loka og þrýstiminnkara.

    Frágangur gaslagna

    Gaslögn skal gerð úr kopar, koparblöndu eða stáli og vera fest með fóðruðum festingum á minna en 300 mm millibili. Gasleiðslu í gegnum vegg verður að leggja í hlífðarhulsu.

    Uppsetning gastækja og loftræsting

    Brennsluloft gastækja, sem eru í stöðugri notkun án eftirlits, skal taka inn í ökutæki í gegn um aðloftsrás. Rásarop á að vera á botni ökutækisins þar sem því verður við komið, annars á hlið. Fráloft frá gastækjum verður að leiða beint út úr ökutækinu um fráloftsrás. Rásarop á að vera í lofti þar sem því verður við komið, annars ofarlega á hliðinni.

    Ofna og önnur sambærileg gastæki, sem eru í stöðugri notkun án eftirlits, verður að tengja við lokað loftrásarkerfi.

    Gastæki og tilheyrandi fráloftsbúnaður skal valinn og þannig settur upp að ekki stafi af eldhætta. Ef ekki er annað tekið fram í leiðbeiningum skal fylgja eftirfarandi lágmarks málsetningu við uppsetningu:

    • Fjarlægð frá hitunartæki að brennanlegu efni má ekki vera minni en 100 mm.

    • Hitunartæki, sem snúa inn í ökutækið, verða að hafa grind eða net til þess að brennanlegir hlutir komist ekki nær hitafletinum en 100 mm.

    • Fráloftsrás verður að vera a.m.k. 75 mm frá brennanlegu efni.

    • Fjarlægð frá brennara í eldavélum að óvörðum vegg úr brennanlegu efni verður að vera a.m.k. 250 mm.

    • Gaseldavélar í ökutækjum verða að hafa logavara.


    Kröfur til mælitækja

    Kröfum til allra skoðunartækja er lýst í skjali kröfur um aðstöðu og búnað á skoðunarstofu, þar með talið mælitækja. Við skoðun þeirra atriða sem lýst er í þessu skjali eru eftirfarandi mælitæki notuð:

    • Handverkfæri - mælar: Lengdarmæling (málband, skífmál o.þ.h.).

    • Þyngdarmælibúnaður: Vog í hemlaprófara til að meta eiginþyngd út frá mældum ásþyngdum vegna mögulegs samanburðar við upplýsingar á vigtarseðli. Þetta mat má ekki nota í öðrum tilgangi.

    • Vigtarseðill frá löggiltri vog: Mæling er framkvæmd af löggiltum vigtarmanni á löggiltri vog, sjá kaflann um mælingu á eigin þyngd ökutækis.

    • Handverkfæri - mátar: Spindilmáti MB 201 589102300.

    • Gaslekamælar: Mælitæki til að greina leka fljótandi jarðolíugass (LPG), þjappaðs jarðgass (CNG) og fljótandi jarðgass (LNG). Þessi krafa gildir frá 01.01.2024, sjá dæmi um búnað á mynd 1.

    gasprofun1

    Mynd 1. Dæmi um búnað til að þrýstiprófa LPG gaskerfi.


    Lög og reglur

    Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

    • Umferðarlög nr. 77/2019.

    • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.

    • Reglugerð um stærð og þyngd ökutækja nr. 155/2007.

    • Tilskipun ESB um vélrænan tengibúnað vélknúinna ökutækja og eftirvagna þeirra og festing þeirra við þau ökutæki nr. 94/20/ESB.

    • UN ECE regla um samræmd ákvæði um viðurkenningu á vélrænum tengihlutum samsettra ökutækja nr. 55.

    • Staðall ISO 1103 Ökutæki - Kúlur kúlutengja fyrir létta eftirvagna - Stærðir.

    • Staðall ISO 337 Ökutæki - 50 tengipinni festivagna - Grunnstærðir og festingar á eftirvagn (50,8 mm / 2”).

    • Staðall ISO 4086 Ökutæki - 90 tengipinni festivagna - Festingar á eftirvagn (88,9 mm / 3 ½”).

    • Staðall ISO 3842 Ökutæki - Stóltengi - Festingar á bifreið.

    • Staðall ISO 8755 Atvinnuökutæki - 40 mm auga boltatengis - Festingar á eftirvagn.

    • Staðall ISO 1102 Atvinnuökutæki - 50 mm auga boltatengis - Festingar á eftirvagn.

    • Reglugerð um færanlegan þrýstibúnað nr. 218/2013.

    • ESB-reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 661/2009/ESB.

    • UN-ECE reglur um eldvarnir í ökutækjum nr. 34.

    • UN-ECE reglur um gerð CNG íhluta og ísetningu þeirra í ökutæki nr. 110.

    • Staðall ISO 11439 um háþrýstigeyma fyrir geymslu CNG í ökutækjum.