Fara beint í efnið

Skráningareglur ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. júní 2024 -

Gildir frá: 01.06.2024 (opnað fyrir aðgang 01.05.2024). Skráningareglur ökutækja eru fyrir fagaðila sem sinna skráningum í umboði Samgöngustofu eða tilkynna breytingar í ökutækjaskrá samkvæmt lögum.

    Almenn atriði

    Ýmsar upplýsingar um skráningarmálefni, skoðunarmiða, eyðublöð, eftirlit og annað.

    Efni kaflans

    Tæknideild ökutækja

    Á umferðarsviði Samgöngustofu er tæknideild sem hefur það hlutverk meðal annars að fara yfir og samþykkja gögn í tengslum við viðurkenningu ökutækja eða breytingar á þeim. Tæknideild veitir einnig upplýsingar um tæknimál ökutækja og um skoðunarhandbók ökutækja.

    Umsóknir og öll gögn sem fylgja með umsóknum eru vistuð í skjalakerfi Samgöngustofu. Sá hluti þeirra sem metið er að eigi líka heima í opinberri ökutækjaskrá er vistaður þar líka.

    Fyrirfram samþykki vegna breytinga

    Samgöngustofu er falið í lögum og reglugerðum að setja nánari reglur er varða skráningu og skoðun ökutækja og varðandi samþykktarferli breytinga á ökutækjum. Í skráningareglum þessum og í skoðunarhandbók er þjónustuaðilum gefin heimild til að framkvæma slík verk í ákveðnum tilvikum en annars þarf fyrirfram samþykki Samgöngustofu.

    Eigandi (umráðandi) eða fulltrúi hans (yfirleitt sá sem framkvæmir breytinguna) skilar inn rafrænni umsókn til Samgöngustofu og lætur viðeigandi fylgigögn fylgja með umsókn. Þegar breytingin þarfnast staðfestingar og skoðunar hjá skoðunarstofu eru upplýsingar um samþykkið settar í rafrænt hólf viðkomandi skoðunarstofu og tilkynning send eiganda (umráðanda) um framhald málsins. Þegar svo er ekki eru upplýsingar um endanlega afgreiðslu umsókna sendar beint til eiganda (umráðanda) og breytingin afgreidd í ökutækjaskrá.

    Umsókn um þjónustu tæknideildar vegna breytinga má nálgast hér. Mikilvægt er að umsókn sé rétt útfyllt og innihaldi áskilin fylgigögn eins og lýst er í köflum hér að neðan.


    Breyting yfir í og á hópbifreið

    Samgöngustofa þarf að yfirfara og samþykkja fyrirhugaða skráningu á ökutæki í ökutækisflokkinn hóbifreið eða breytingu á skipan fólks- eða farmrýmis í skráðri hópbifreið. Endanleg samþykkt umsóknar fer fram hjá skoðunarstofu í tengslum við skráningu eða breytingaskráningu bifreiðarinnar.

    • Við forskráningu á nýrri hópbifreið sem skráð er á skráningarviðurkenningu. Þarf ekki ef bifreiðin er heildargerðarviðurkennd sem hópbifreið eða hefur áður verið skráð sem hópbifreið á evrópsku skráningarskírteini.

    • Við breytingu á fólks-, sendi- og vörubifreið yfir í hópbifreið (sem breytt er eftir nýskráningu).

    • Við breytingu á skipan fólks- eða farmrýmis hópbifreiða. Til dæmis verið að fjölga sætum, fækka sætum eða breyta staðsetningu sæta. Einnig að koma fyrir stæðum eða fjölda standandi farþega breytt.

    • Ekki þarf fyrirfram samþykki þegar verið er að breyta bifreið til baka í áður samþykkta skipan heildar­gerðar­viður­kenndrar hópbifreiðar (ekki skiptir máli hvort bifreiðin var áður orðin að fólks- eða sendibifreið eða var hópbifreið með annarri skipan). Skoðunarstofa tekur breytinguna út og setur athugasemd á US.111 að svo sé.

    • Þarf ekki fyrirfram samþykki þegar verið er að fækka stæðum (eða taka þau alveg út) í hópbifreið í undirflokki II. Skoðunarstofa tekur breytinguna út og setur athugasemd á US.111 að svo sé.

    Lýsing í umsókn

    Í umsókn þarf að segja frá því í hverju fyrirhuguð breyting felst í nokkrum orðum.

    Fylgigagn með umsókn - teikning

    Meðal fylgigagna í umsókn skal vera teikning af hópbifreiðinni. Hún skal vera málsett og í mælikvarðanum 1:20 eða 1:25, sýna bifreiðina að lágmarki frá hægri hlið og ofanvarp, sýna skipan farþega­svæðis, stærð og staðsetningu farangursgeymslna, ásamt fyrirkomulagi og stærð útganga. Ef áskilinn útbúnaður er að aftanverðu eða á vinstri hlið ber að sýna þær líka. Teikningar þurfa ekki að vera frá framleiðenda eða tækniteiknara. Á teikningum (bæði hliðar- og ofanvarpi) skal vera hægt að sjá, lesa eða mæla nákvæmlega upplýsingar um eftirfarandi:

    • Auðkenni ökutækis, þ.e. fastanúmer bifreiðar (eða verksmiðjunúmer ef fastanúmeri hefur ekki verið úthlutað).

    • Samantektartölur um heildarfjöldi farþega í föstum sætum, í hjólastólum og í stæðum, og hvort sé gert ráð fyrir leiðsögumanni.

    • Lengd, breidd og hjólhaf bifreiðarinnar.

    • Miðja framáss á bæði hliðar- og ofanvarpi. Mælingar á þyngdardreifingu miðast við miðjulínuna.

    • Staðsetning sæta, og þegar við á, afmörkun svæða fyrir standandi farþega og svæða fyrir hjólastóla. Tilgreina á stærð svæða fyrir standandi farþega í fermetrum (m2).

    • Breidd, dýpt og mesta hæð setu yfir gólfi. Auðvelt á að vera að mæla minnsta bil á milli sæta frá sætisbaki að bakhlið næsta sætis fyrir framan á miðju sæti í hæðinni frá hæsta punkti setu upp í 620 mm hæði yfir gólfi, og frjálsa hæð yfir hæsta punkti álagslausrar setu.

    • Breidd og hæð gangs. Auðvelt á að vera að sjá hvar og hvernig breidd og hæð gangs breytist, ef um slíkt er að ræða.

    • Stærð og staðsetningu farangursgeymslna, séu þær til staðar. Tilgreina á stærð hverrar geymslu í rúmmetrum (m3). Sé gert ráð fyrir geymslum fyrir farangur á þaki ber að til­greina staðsetningu og stærð þeirra í fermetrum (m2).

    • Fjöldi dyra, staðsetning og mál þeirra. Þetta á við um aðaldyr, neyðardyr, neyðarglugga og neyðarlúgur.

    Teikningar af bifreið gætu verið til í skjalasafni Samgöngustofu þegar verið er að breyta bifreið til baka. Ef þær eru til má merkja við þá ósk á umsókn að fyrri teikningar verði notaðar, enda séu þær í samræmi við ökutækið í dag. Greitt er sérstaklega fyrir leit í skjalasafni og afritun teikninga.

    Fylgigagn með umsókn - styrkur farmrýmis

    Þegar farþegarými hópbifreiðar hefur ekki verið viðurkennt í tengslum við upphafsviðurkenningu bifreiðarinnar, er krafist staðfestingar og/eða útreikninga sem sýnir fram á að farþegarýmið uppfylli kröfur um styrk. Þetta á til dæmis við þegar yfirbygging hefur verið smíðuð á bifreið sem hafði ekki slíkt farþegarými (til dæmis þegar farþegarými er smíðað ofan á vörubílagrind). Sýna verður fram á að álag sem nemur leyfðri heildar­þyngd á þak bifreiðarinnar valdi ekki verulegri aflögun. Staðfestingin skal koma frá óháðum rannsóknaraðila (yfirleitt viðurkenndri tækniþjónustu) eða með verkfræði­legum útreikningum. Mat á þessu fer fram í tæknideild.


    Breyting á afköstum bifhjóla

    Mögulegt er að breyta afköstum heildargerðarviðurkenndra bifhjóla, sem þannig eru upphafsviðurkennd, vegna ökuréttinda, en við slíka breytingu færist bifhjólið milli ökutækisflokka.

    Um er að ræða möguleikann á að þeir sem hafa bifhjólaréttindi í A1-flokki eða A2-flokki geti stjórnað viðkomandi bifhjóli. Kröfur til réttinda í A1-flokki eru þessar (sem má veita þeim sem orðnir eru 17 ára):

    • Að bifhjólið sé á tveimur hjólum, með eða án hliðarvagns, með slagrými sem er ekki yfir 125 cm3, með afl sem er ekki yfir 11 kW (14,75 hö) og með afl/þyngdarhlutfall sem er ekki yfir 0,1 kW/kg.

    • Að bifhjólið sé á þremur hjólum með afl sem er ekki yfir 15 kW (20,12 hö).

    Kröfur til réttinda í A2-flokki eru þessar (sem má veita þeim sem orðnir eru 19 ára):

    • Að bifhjólið sé á tveimur hjólum, með eða án hliðavagns, með afl sem er ekki yfir 35 kW (46,93 hö) og með afl/þyngdarhlutfall sem er ekki yfir 0,2 kW/kg.

    Afl/þyngdarhlutfall er hlutfall á milli skráðra afkasta í kW og þyngdar bifhjólsins tilbúins til aksturs eins og það er skráð í ökutækjaskrá. Þetta er reitur Q á skráningarskírteini.

    Aðeins er hægt að framkvæma þessa breytingu á bifhjólum sem hafa þennan möguleika skráðan í samræmisvottorð sín (CoC). Endanleg samþykkt umsóknar fer fram hjá Samgöngustofu (ekki þarf að færa bifhjólið til breytingaskoðunar). Við samþykkt umsóknar heimilar Samgöngustofa viðurkenndum breytingaaðila að gera breytinguna og tilkynna hana til Samgöngustofu.

    Lýsing í umsókn

    Í umsókn þarf að segja frá því í hverju fyrirhuguð breyting felst í nokkrum orðum.

    Fylgigagn með umsókn - viðurkenning breytingaaðila

    Aðeins viðurkenndur fulltrúi framleiðanda eða annar aðili sem hann viðurkennir, hefur heimild til að framkvæma þessa breytingu. Skila þarf staðfestingu frá framleiðanda sem stílað er á Samgöngustofu um að tiltekinn aðili (yfirleitt hérlendis) hafi heimild til að framkvæma þessa breytingu (vísa til bifhjólagerða eða viðurkenninganúmera).

    Fylgigagn með umsókn - staðfesting á breytingunni

    Eftir að umsókn hefur verið samþykkt fær viðurkenndi breytingaaðilinn heimild til að gera breytinguna og sendir að því henni lokinni yfirlýsingu til Samgöngustofu um að svo sé. Æskilegt er að skýrsla eða sambærilegar upplýsingar úr kerfum bifhjólsins fylgi með (lesið úr hjólinu).


    Breyting á ásafjölda bifreiða

    Samgöngustofa þarf að yfirfara og samþykkja fyrirhugaðar breytingar á ásafjölda bifreiða. Endanleg samþykkt umsóknar fer fram hjá skoðunarstofu í tengslum við breytingaskráningu eftirvagnsins.

    • Við fjölgun á ásum. Yfirleitt er þessi breyting gerð í tengslum við aukinn burð og hækkun á leyfðri heildarþyngd vörubifreiðar sem er í samræmi við fyrirmæli framleiðanda.

    • Við fækkun á ásum. Skoða þarf sérstaklega slík tilvik því ekki ætti að fækka ásum og draga úr burði bifreiða frá því sem er við upphafsviðurkenningu en þó geta komið upp tilvik bifreiða í sérstakri atvinnunotkun sem þetta gæti átt við.

    Lýsing í umsókn

    Í umsókn þarf að segja frá því í hverju fyrirhuguð breyting felst í nokkrum orðum.

    Fylgigagn með umsókn - fyrirmæli framleiðanda

    Fyrirmæli frá framleiðanda um breytinguna verða að fylgja og áhrif hennar á leyfða heildarþyngd ökutækis (myndir eða lýsingar á því hvaða áhrif breytingin hefur á búnað bifreiðarinnar, einnig tengingu við drifása og dreifingu þyngdar).


    Breyting á ásafjölda og stærð eftirvagna

    Samgöngustofa þarf að yfirfara og samþykkja fyrirhugaða fjölgun ása og meiriháttar breytingar á stærð eftirvagna. Breytingarnar þarfnast samþykkis Samgöngustofu fyrirfram til að tryggt sé að fyrirhugaðar breytingar séu ekki í raun smíði á nýjum eftirvagni á grunni eldri skráningar, en slíkt er ekki heimilt (skrá verður slíkan eftirvagn sem nýjan). Endanleg samþykkt umsóknar fer fram hjá skoðunarstofu í tengslum við breytingaskráningu eftirvagnsins.

    • Við fjölgun á ásum. Yfirleitt er þessi breyting gerð til að auka akstursöryggi eftirvagnsins eða í tengslum við viðhald. Ekki verður þó heimilt að hækka leyfða heildarþyngd eftirvagnsins (nema frekari samþykktir komi til).

    • Við verulega breytingu á breidd eða lengd eftirvagns. Miða skal við að hámarki 5% stærðarbreytingu frá upprunalega skráðri stærð.

    Athygli er vakin á því að heimilt er að breyta yfirbyggingu eða útfærslu eftirvagns, svo fremi að um eðlilegt viðhald sé að ræða, án þess að sækja um það fyrirfram til Samgöngustofu (en færa þarf eftirvagninn til breytingaskoðunar ef breyta þarf einhverju í skráningarskírteini), til dæmis í eftirfarandi tilvikum:

    • Skipta má um ás til að fá nýtt og betra hemlakerfi eða til endurnýjunar á hemlum eða útfærslum fjaðra og dempunarbúnaði. Nýi ásinn og fjaðrabúnaðurinn þarf að hafa sama eða meira burðarþol en sá eldri.

    • Ferðahýsi (tjaldvagni eða fellihýsi) má breyta í hefðbundinn eftirvagn fyrir farmflutning (undirvagninn og kassinn notaður áfram). Skoðunarstofa tekur breytinguna út og tilkynnir notkunarflokkbreytingu.

    Lýsing í umsókn

    Í umsókn þarf að segja frá því í hverju fyrirhuguð breyting felst í nokkrum orðum.

    Fylgigagn með umsókn - gögn um burðarþol ása

    Gögn um burðarþol ása og fjaðrabúnaðar, ef við á, þurfa að vera frá framleiðanda ássins og tiltaka leyfða heildarþyngd hans. Æskilegt er að fylgi mynd af ásnum og leiðbeiningar um ásetningu.

    Fylgigagn með umsókn - teikning af helstu málum

    Teikning af eftirvagninum sem sýnir fyrirhugaða útlits- og/eða stærðarbreytingu. Heildarlengd og breidd komi fram ásamt lengd og breidd yfirbyggingar (beisli ekki meðtalið og hjólhlífar ekki meðtaldar ef þær standa út fyrir yfirbygginguna).


    Breyting á leyfðri heildarþyngd

    Leyfð heildarþyngd ökutækis er ákveðin af framleiðanda við skráningu ökutækis og verður almennt ekki breytt. Það er þó heimilt í örfáum tilvikum og þarf Samgöngustofa að yfirfara og samþykkja umsókn um slíka breytingu fyrirfram (hvort sem það er til hækkunar eða lækkunar). Endanleg samþykkt umsóknar fer fram hjá skoðunarstofu í tengslum við breytingaskráningu ökutækisins. Setja verður nýtt upplýsingaspjald í ökutækið samkvæmt fyrirmælum Samgöngustofu.

    • Framleiðandi má heimila breytingu á leyfðri heildarþyngd gerðarviðurkennds ökutækis þegar mismunandi heildarþyngdir eru hluti af hönnun þess og viðurkenningu vegna mismunandi útfærslu. Þetta getur bæði átt við bifreiðir og eftirvagna.

    • Viðurkennd tækniþjónusta má heimila breytingu á leyfðri heildarþyngd skráningarviðurkennds ökutækis til lækkunar ef um er að ræða bifreið knúna 100% vistvænum orkugjafa sem flokkast í ökutækisflokk N2 ef sambærileg bifreið frá sama framleiðanda knúin hefðbundnum orku­gjafa flokkast í öku­tækis­flokk N1 (vistvæna bifreiðin er þyngist vegna orkugjafans). Lækkun leyfðrar heildarþyngdar leiðir þá til þess að bifreiðin kemur til með að flokkast í ökutækisflokk N1 eða M1, eftir því sem við á.

    • Tækniþjónusta eða breytingaaðili, sem Samgöngustofa hefur viðurkennt í þessum tilgangi, mega reikna út nýja og hærri leyfða heildarþyngd breyttrar torfærubifreiðar. Liggja skulu fyrir skýrslur um raunprófanir á sambærilegu ökutæki frá viðurkenndri tækniþjónustu og sannprófanir á virkni hermilíkans sem notað er miðað við raunprófanir. Viðurkenningar beggja aðila skulu hafa farið fram áður en sótt er um breytingar á leyfðri heildarþyngd í þessum tilvikum.

    Lýsing í umsókn

    Í umsókn þarf að segja frá því í hverju fyrirhuguð breyting felst í nokkrum orðum og hver hin nýja leyfða heildarþyngd ætti að verða miðað við þær breytingar.

    Fylgigagn með umsókn - ný leyfð heildarþyngd

    Staðfesting frá viðeigandi aðila og skýrslur, eftir atvikum.


    Breyting á orkugjafa

    Orkugjafi ökutækis er hluti af framleiðslu vélknúins ökutækis og verður almennt ekki breytt. Það er þó heimilt í örfáum tilvikum og þarf Samgöngustofa að yfirfara og samþykkja umsókn um slíka breytingu fyrirfram. Endanleg samþykkt umsóknar fer fram hjá skoðunarstofu í tengslum við breytingaskráningu ökutækisins.

    • Breyting orkugjafa úr bensín í dísel eða öfugt. Ef skipta á um brunahreyfil í ökutæki og sá nýi er ólíkur þeim sem var áður þá þarf Samgöngustofa að samþykkja þá breytingu fyrirfram (meðal annars til að athuga hvort mengunarkröfur eru uppfylltar). Ef nýr brunahreyfill hefur verið settur í ökutæki sem er eins og sá sem var áður, þ.e. hann breytir engu varðandi skráningu ökutækisins (orkugjafi, slagrými, afl) þá þarf ekki að skrá breytinguna eða fara í breytingaskoðun.

    • Ísetning og úrtaka viðbótareldsneytiskerfis og eldsneytisþrýstigeyma fyrir metan (CNG). Samgöngustofa viðurkennir ísetningaraðila metanbúnaðar og hafa þeir einir heimild til að setja slíkt eldsneytiskerfi í og taka úr. Sé úrtaka samþykkt þarf að lágmarki að fjarlægja alla þrýstigeyma.

    • Úrtaka metankerfis (CNG) sem hefur verið hluti af framleiðslu bifreiðar af þeirri ástæðu að það svarar ekki kostnaði við viðhald (yfir 8 ára gamlar bifreiðir eingöngu). Eftir breytingu mun bifreiðin því eingöngu ganga fyrri bensíni eða dísel, eftir atvikum. Sé úrtaka samþykkt þarf að lágmarki að fjarlægja alla þrýstigeyma.

    • Breyting orkugjafa í rafmagn (og vél og geymar fyrir aðra orkugjafa fjarlægð). Fara verður yfir hvert tilvik fyrir sig með umsækjanda.

    Lýsing í umsókn

    Í umsókn þarf að segja frá því í hverju fyrirhuguð breyting felst í nokkrum orðum.

    Fylgigögn með umsókn

    • Við fyrirhugaða breytingu orkugjafa úr bensín í dísel eða öfugt: Fram fomi upplýsingar um þann hreyfil sem fyrirhugað er að verði settur í (slagrými, afköst hreyfils kW og orkugjafi). Einnig þarf að koma fram hverju munar á þyngd nýja hreyfilsins með öllum búnaði miðað við þann sem er í. Einnig fastanúmer ökutækisins sem hreyfillinn var tekinn úr sé um það að ræða.

    • Við ísetningu viðbótareldsneytiskerfis fyrir metan: Útfyllt vottorð um ísetningu metanbúnaðar í bifreið (US.184) frá viðurkenndum metanbreytingaraðila.

    • Við fyrirhugaða úrtöku metankerfis: Rökstuðningur fyrir beiðninni þar sem fram kemur hvert virði ökutækis er og kostnaðaráætlun verkstæðis um endurnýjun á því sem þarfnast endurnýjunar. Einnig kostnaðaráætlun við að fjarlægja þrýstikúta.

    • Við fyrirhuguð skipti yfir í rafknúið ökutæki: Lýsing á því hvernig fyrirhugað er að skipta yfir í rafknúið ökutæki og hvað verður fjarlægt af eldri vél- og drifbúnaði.


    Gjaldtaka

    • Greitt er tímagjald 11.008 krónur á klukkutíma til Samgöngustofu fyrir afgreiðslu umsókna, að lágmarki þarf að greiða fyrir hálftíma.

    • Greitt er tímagjald 13.528 krónur á klukkutíma til Samgöngustofu sérstaklega fyrir leit í skjalasafni og afritun teikninga eða annarra gagna um ökutæki, að lágmarki þarf að greiða fyrir hálftíma.