Faggiltar skoðunarstofur ökutækja hafa heimild til að framkvæma endurmat á "Tjónaökutæki I".
Við endurmat á "Tjónaökutæki I" skal ökutækið jafnan fært til skoðunarstofu en einnig er skoðunarstofu heimilt að framkvæma skoðun ökutækisins utan skoðunarstofu.
Niðurstaða endurmats tjónaökutækis
Endurmat getur leitt til niðurfellingar á tjónaskráningu eða að ökutæki teljist "Tjónaökutæki II". Að loknu endurmati sendir skoðunarstofa niðurstöðu þess til Samgöngustofu.
Skilyrði til endurmats tjónaökutækis
Hægt er að óska eftir endurmati á "Tjónaökutæki I" innan 20 virkra daga frá skráningu í ökutækjaskrá. Að þeim tíma liðnum skráist ökutækið sjálfkrafa sem "Tjónaökutæki II" og verður þá að fara í viðurkenndan viðgerðarferil eigi að skrá það í umferð á ný.
Endurmat skal fara fram áður en viðgerð hefst. Sé viðgerð hafin er skoðunarstofu ekki heimilt að framkvæma endurmat. Ekki ber að meta það sem svo að viðgerð sé hafin ef búið er að opna eða taka einfalda hluti í sundur til að sjá betur í hverju tjón felst, æskilegt er þó að slíkt sé gert í samráði við skoðunarstofuna sem beðin er um að endurmeta tjónið. Einnig má vera búið að gera við sprungna hjólbarða.
Kostnaður
Greiða þarf skoðunarstöð fyrir endurmat á ökutæki, sé endurmats óskað.
Þjónustuaðili
Samgöngustofa