Skráningareglur ökutækja
Þjónustuaðili:
Gildir frá: 01.06.2024. Skráningareglur ökutækja eru fyrir fagaðila sem sinna skráningum í umboði Samgöngustofu eða tilkynna breytingar í ökutækjaskrá samkvæmt lögum.
Skráningar opinberra stofnana o.fl.
Opinberar stofnanir geta hafa tiltekinn skráningaraðgang í ökutækjaskrá vegna starfsemi sinnar eða tilkynnt Samgöngustofu um skráningar með öðrum hætti. Sama getur átt við um aðra aðila sem samkvæmt lögum og reglum skulu tilkynna Samgöngustofu um tiltekin atriði er varða ökutæki.
Efni kaflans
Tilkynning um tjónaökutæki
Ökutæki sem orðið hefur fyrir tjóni sem getur haft áhrif á aksturseiginleika þess og akstursöryggi. Hafi slíkt tjón orðið á ökutæki skal skilgreina og skrá ökutækið sem tjónaökutæki og notkun þess bönnuð. Ekki má taka slíkt ökutæki í notkun á ný nema að fram fari viðgerð á því af viðurkenndu réttingaverkstæði. Samgöngustofa annast skráningu á tjónaökutækjum samkvæmt tilkynningu frá Skattinum (tollasviði) í tengslum við innflutning ökutækja.
Grundvöllur að mati Skattsins (tollasviðs) á því hvort ökutæki ætti að vera merkt "Tjónaökutæki I" byggist á nokkrum einföldum atriðum. Ekki þarf sérstaka menntun eða reynslu á sviði bifvélavirkjunar til að geta framkvæmt eftirfarandi mat:
Líknarbelgir/loftpúðar hafa sprungið út: Gildir um alla líknarbelgi/loftpúða ökutækis, hvort sem þeir eru í stýri, í mælaborði, í hliðum eða annars staðar.
Ökutæki er óökuhæft vegna skemmda á hjóla- eða stýrisbúnaði: Hjólabúnaður eða stýrisbúnaður er á einhvern hátt skemmdur sem veldur því að ekki er hægt að aka ökutækinu. Sprungið dekk, ef felga sýnist óskemmd, veldur þó ekki eitt og sér merkingu.
Ökutæki hefur oltið: Beyglur og skemmdir eru verulegar víða á yfirbyggingu, hurðir mögulega gengnar úr lagi (passa ekki lengur í dyragöt), rúður eru brotnar eða farnar úr.
Verulegt hliðartjón á ökutæki: Augljósar skemmdir eru á sílsum (bitanum undir hurðunum á hvorri hlið), oft með þeim afleiðingum að hurðir virka ekki eðlilega eða hefur aflögun á dyragötum í för með sér.
Skatturinn sendir Samgöngustofu tilkynningu um tjónaökutæki á netfangið skraning.
Heimild til skráningar sérbyggðrar rallbifreiðar
Um er að ræða skráningu í notkunarflokk
"111 Sérbyggð rallbifreið". Bifreið sem ætluð er til rallkeppni og er sérbyggð og hönnuð sterkbyggðari en sambærileg bifreið og með aukabúnað sem almennt er ekki notaður í eða á bifreiðir í almennri umferð. Bifreiðin getur verið sérbyggð keppnisbifreið sem undanþegin hefur verið álagningu vörugjalds og ber að sérmerkja í ökutækjaskrá.
Skatturinn (tollasvið) staðfestir við Samgöngustofu í tengslum við tollafgreiðslu að bifreið uppfylli ákvæði í reglugerð um vörugjald af ökutækjum til að fá lækkun á eða sé undanþegin álagningu vörugjalda. Staðfestingin er send á netfangið forskraning hjá Samgöngustofu. Hún og önnur gögn liggja til grundvallar skráningu Samgöngustofu í notkunarflokkinn.
Skráning vörugjaldalása
Um er að ræða lásana
"7 Skráningarlás vegna vörugjalds". Lásinn er settur á vegna sérstakrar umsýslu vörugjalda í tengslum við nýskráningu eða endurskráningu. Lásinn veldur því að óheimilt að nýskrá eða endurskrá ökutæki um tiltekinn tíma vegna takmarkana eða réttinda sem fylgja notkun ökutækisins vegna ákvæða í lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða samningum.
"9 Lögveð vegna vörugjalds". Lásinn er settur á til að hindra allar breytingar á eigendum og umráðamönnum. Einnig er óheimilt að breyta notkunarflokki ökutækis með þennan lás eftir nýskráningu en þó er heimilt að breyta honum fyrir og við nýskráningu.
Skatturinn (tollasvið) skráir sjálfur þessa lása í ökutækjaskrá og afléttir þeim.
Förgun ökutækja í tolli
Sé ökutæki, sem forskráð hefur verið, ekki leyst út úr tolli, tilkynnir Skatturinn (tollasvið) um að svo sé. Samgöngustofa læsir þá forskráningunni og gerir skráningu á grundvelli hennar óheimila.
Skatturinn (tollasvið) tilkynnir þessi tilvik með tölvupósti á netfangið okutaeki hjá Samgöngustofu.