Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Skoðunarhandbók ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. apríl 2025 -

Gildir frá: 01.03.2023. Í skoðunarhandbók ökutækja eru verklagsreglur fyrir skoðunarstofur og endurskoðunarverkstæði um hvernig haga skuli skoðun og dæmingum einstakra skoðunaratriða.

    Verklagsbók fyrir reglubundnar skoðanir o.fl.

    Í verklagsbókinni er lýst allri framkvæmd aðalskoðunar ásamt skoðun á ástandi í skráningarskoðun, breytingaskoðun og endurskoðun­um þeirra. Lýsing á skoðunar­aðferðum, verklýsingar og dæmingar einstakra skoðunaratriða.

    Skoðunaratriðin og dæmingar þeirra ásamt stuttri lýsingu á skoðunaraðferðum, verklýsingum, athugasemdum og túlkunum er að finna í pdf-skjali. Ítarlegri leiðbeiningar um kröfur, mæliaðferðir, skoðunaraðferðir og skráningu einstakra ökutækja, öktækjaflokka eða einstakra hluta ökutækja, er svo að finna þessum köflum.

    Efni kaflans

    Ljós og glit - áskilin og leyfð

    Upplýsingar um ljós, glitaugu og glitmerkingar er að finna í sérstöku pdf-skjali:

    Í skjalinu eru teknar saman gildandi kröfur um áskilinn og leyfðan ljósabúnað. Skjalið tók formlega gildi 1. mars 2024.

    Vakin er athygli á því að í skjalinu sjást bæði ljósker og glitmerkingar sem ekki hafa verið tilgreind í reglugerð um gerð og búnað ökutækja áður og nöfnum einhverra hefur verið breytt. Upplýsingar í skjalinu eru í samræmi við gildandi Evrópureglur og íslenskar sérreglur.


    Áhersluatriði við skoðun ljósa og glits

    Fyrsta skrefið er að athuga hvort hvort einhverjar breytingar hafa verið gerðar á ökutækinu sem er til skoðunar, þar með talið ljósum og gliti, frá síðustu skoðun, til dæmis

    • þegar búið er að bæta við ljósabúnaði, til dæmis viðbótarháljósum, eða merkja ökutæki með mögulegum glitmerkingum,

    • þegar búið er að endurnýja ljósker eldri ökutækja með díóðuljósum sem augljóslega voru ekki upprunalega á ökutækinu, eða

    • þegar búið er að breyta ökutækinu sjálfu, breyta yfirbyggingu eða bæta á það búnaði (viðurkenndar og heimilar breytingar) sem hefur áhrif á ljós og glit, til dæmis að ásettur búnaður skyggir á upprunaleg ljós eða breytt torfærubifreið er orðin breiðari eða verið hækkuð.

    Ef mat skoðunarmanns er að ökutækið sé í upprunalegu ástandi verður áherslan fyrst og fremst á ástand og virkni ljósa og glits. Hafi orðið breytingar þarf að rýna vel í allar kröfur sem eiga við um ljós og glit (áskilið eða leyft, gerð og viðurkenning, litur, staðsetning, vísun, dreifing, lögun og stilling geisla, tenging og gaumljós).

    Muna verður að óheimilt er að nota á ökutæki önnur ljósker, perur (ljósgjafa), glitaugu eða glitmerkingar en þau sem boðin eru eða heimiluð í Umferðarlögum, reglugerð um gerð og búnað ökutækja eða öðrum reglum sem innviðaráðuneytið setur.

    Ekki má breyta staðsetningu ljóskers, fjarlægja ljósker eða bæta við ljóskerum á ökutæki án þess að búnaðurinn samræmist ákvæðum gildandi laga og reglna. Sama á við um glitaugu og glitmerkingar. Ljósker, glitaugu og glitmerkingar skulu vera viðurkennd eftir því sem tilgreint er um hvert þeirra. Bönnuð eru viðskipti með önnur ljósker, perur eða glitaugu á ökutæki en þau sem boðin eru eða heimiluð í reglugerð um gerð og búnað ökutækja.

    Skoðun ljóskera - áherslur

    • Kveikja þarf á öllum ljóskerum og athuga virkni hvers og eins. Sérstaklega þarf að huga að samspili í virkni ljósa þegar þau eiga að kvikna eða slokkna sjálfkrafa (til dæmis dagljós, stefnuljós og beygjuljós) eða mega ekki kvikna nema önnur ljós séu kveikt (til dæmis ljóskastarar, viðbótarháljós og vinnuljós).

    • Passa að gaumljós séu áberandi fyrir ökumann, sérstaklega fyrir leyfileg viðbótarljós sem geta valdið truflun í umferðinni, óþægindum, hættu eða gefið röng skilaboð, svo sem gaumljós fyrir ljóskastara, varúðarljós, vinnuljós og neyðarakstursljós.

    • Skoða þarf lit ljósa og skal viðkomandi litur vera á ljósinu þegar það logar, ekki endilega á ljósfletinum (glerinu) þegar slökkt er á ljósinu. Þannig getur flöturinn (glerið) verið glær en pera (eða díóður), og þar með lýsing, í réttum lit. Svona er þetta útbúið af framleiðendum og viðurkennt og er í lagi.

    • Skoða þarf hvort búið er að eiga við ljósker þannig að það hafi áhrif á ljósstyrk þess eða lit. Ekki má vera búið að hylja ljós þannig að ljósstyrkur skerðist með til dæmis litun ljósflata, lituðum hlífum eða lituðum filmum. Þó má grjótgrind skerða ljósstyrk óverulega.

    • Skoða þarf ljóskerin sjálf og ljósfleti þeirra og athuga með festingu, sprungur og skemmdir. Sérstaklega þarf að athuga hvort stillanleg ljós geti haldið stillingu og að skemmdir séu ekki það miklar að ljósker hætti að geta þjónað tilgangi sínum.

    • Mæla þarf stillingu aðalljósa (lág- og háljósgeisla) og þokuljósa. Ekki þarf að mæla stillingu ljósgeisla aðalljóskera sem eru staðsett í yfir 1.500 mm hæð.

    • Athuga þarf hvort leyfilegt sé að hafa ljósabúnað sem settur er eftirá og hann sé þá samkvæmt reglum. Sama gildir um ljósker sem augljóslega hafa verið endurnýjuð á eldri ökutækjum. Um leið og dæmt er á óleyfilegan ljósabúnað skal benda eigendum (umráðendum) á að fjarlægja skuli hann, ekki nægir að aftengja hann því allur ljósa og merkjabúnaður sem er til staðar í ökutækjum á að vera í lagi og virkni fullnægjandi.

    • Sérstaklega er minnt er á að óheimilt er að hafa aðgreiningarljós á bifreið í ökutækisflokki M1 (fólksbifreið) og verður að hafa það í huga þegar bifreið er að færast í M1 úr öðrum ökutækisflokkum sem mátti hafa þau (þó hefur verið leyft að vörubifreið með aðgreiningarljós sem breytt var yfir í fólksbifreið sem uppfyllir skilyrði sem húsbifreið og skráð sem slík megi hafa þau áfram, en við svona breytingar sem gerðar eru eftir 01.04.2025 verður það ekki heimilt).

    • Einnig er minnt á að vinnuljós eru sérstök ljósker sem notuð eru við sérstakar aðstæður aðrar en til venjulegs aksturs. Túlka verður heimildina þröngt enda liggur í orðanna hljóðan að hvaða ljósker sem er getur ekki verið vinnuljós. Festingar vinnuljósa skulu vera stillanlegar, ljóskerin mega ekki vera í ljósasamstæðu með öðrum ljósum, mega aldrei lýsa fram og tengd með stöðuljósum. Þeim ætti að beina sem mest niður (vegna vinnunnar við ökutækið) þó leyfilegt sé að þau lýsi til hliðar eða aftur. Uppfylli ljóskerin ekki eitthvert þessara skilyrða eru þau óleyfileg.

    • Athuga verður hvort ljós frá ljóskeri inni í ökutæki svipi til ljóss frá áskildum eða leyfðum ljóskerum eða valdi ökumanni eða öðrum vegfarendum óþægindum. Sérstaklega verður að skoða lýsingu ljósa af þessu tagi í fólksrými sem hafa annan tilgang en að lýsa upp fólksrýmið (til dæmis upplýst skilti, áletranir og skreytingar).

    Skoðun glitauga - áherslur

    • Öll glitaugu eiga að vera með viðurkenningarmerki og þarf að ganga úr skugga um það ef augljóst er að glitaugu eru sett á eftirá.

    • Muna að þríhyrnd glitaugu verða að vera á öllum eftirvögnum og mega ekki vera á ökutækjum í öðrum ökutækisflokkum. Minnt er á að þríhyrnd glitaugu eru stundum innbyggð í afturljósasamstæður sem fást sem varahlutur ætlaðar á eftirvagna og þær mega ekki rata á bifreiðir.

    • Sérstaklega er mikilvægt að hámarkshæð glitauga sé innan marka og mæla hana ef ástæða er til.

    • Skoða þarf lit á glitaugum með tilliti til staðsetningar þeirra. Þannig skulu framvísandi glitaugu vera hvít, hliðarglitaugu skulu vera gul (nema annað sé leyft) og afturvísandi glitaugu skulu vera rauð.

    • Skoða þarf hvort búið er að eiga við glitauga þannig að það hafi áhrif á endurskin þess eða lit. Ekki má vera búið að hylja glitauga þannig að endurskin skerðist með til dæmis litun endurskinsflata, lituðum hlífum eða lituðum filmum.

    Skoðun glitmerkinga - áherslur

    • Engar glitmerkingar (hvað nafni sem þær nefnast) mega vera á ökutækjum nema þær séu áskildar eða leyfðar, líkt og gildir um allt ljós og glit. Skráningarmerki, þjóðernismerki, merki á skólabifreiðum og þess háttar teljast ekki til glitmerkinga þótt í grunnfleti þeirra sé endurskinsefni. Um leið og dæmt er á óleyfilegar glitmerkingar skal benda eigendum (umráðendum) á að þær skuli fjarlægja.

    • Þungaflutningsglitmerkingar eru leyfilegar og ætti almennt að skoða vel hvort þeim sé komið fyrir í samræmi við reglur. Þær mega bara vera aftan á stærri vöru- og hópbifreiðum og stærri eftirvögnum til að gefa til kynna að um þung eða löng ökutæki sé að ræða. Þær eiga að vera úr viðurkenndu endurskinsefni og í ákveðnum litum (rauðar og gular rendur á bifreiðum og gulur flötur með rauðum ramma á eftirvögnum) og þarf að skoða sýnilega merkingu um að efnið í þeim sé viðurkennt.

    • Útlínuborðar eru leyfilegir og ætti almennt að skoða vel hvort þeim sé komið fyrir í samræmi við reglur. Þeir mega bara vera aftan á og á hliðum bifreiða (nema M1) og eftirvagna (nema O1) og ætlað að auka sýnileika ökutækjanna með því að glitmerkja útlínur þeirra, séð frá hlið og aftan frá. Þær eiga að vera úr viðurkenndu endurskinsefni af ákveðnum litum (rauðum, hvítum og gulum, mismunandi eftir staðsetningu) og þarf að skoða sýnilega merkingu um að efnið í þeim sé viðurkennt.

    • Auglýsingaglitmerkingar eru leyfilegar og ætti almennt að skoða vel hvort þeim sé komið fyrir í samræmi við reglur. Þær mega bara vera á hliðum ökutækis sem má hafa útlínuborða og eru til upplýsinga eða auglýsinga. Þær eiga að vera úr daufu viðurkenndu endurskinsefni í misumandi litum (grafík) og þarf að skoða sýnilega merkingu um að efnið í þeim sé viðurkennt.

    • Varúðarglitmerkingar eru leyfilegar og ætti almennt að skoða vel hvort þeim sé komið fyrir í samræmi við reglur. Þær mega bara vera á ökutækjum sem hafa sérstakan búnað til vegavinnu og komið fyrir á hornum þeirra og á búnaði sem á þeim er. Þær eiga að vera úr viðurkenndu endurskinsefni og í ákveðnum litum (rauðar og hvítar rendur) og þarf að skoða sýnilega merkingu um að efnið í þeim sé viðurkennt.

    • Neyðarakstursglitmerkingar eru leyfilegar og ætti almennt að skoða vel hvort þeim sé komið fyrir í samræmi við reglur. Þær mega bara vera á ökutækjum sem skráð eru til neyðaraksturs. Ekki er gerð krafa um að þær séu úr viðurkenndu endurskinsefni en skulu vera í ákveðinni litasamsetningu eftir því hvort um er að ræða ökutæki lögreglu, slökkviliðs, til sjúkraflutninga eða björgunarsveitar. Samgöngustofa getur heimilað glitmerkingar á ökutækjum annarra aðila sem skráð eru til neyðaraksturs og er sú heimild tilgreind í skráningarskírteini hvers ökutækis.


    Stilling aðalljósa og þokuljósa og lögun geisla

    Mæling á stillingu ljósa á við um eftirfarandi ökutækisflokka:

    Undirbúningur mælingar

    Athugað hvort los er að finna í ljóskeri. Hreyfill ætti að vera í hægagangi og allar dyr lokaðar. Ökumaður má sitja í ökutæknu.

    Evrópsk aðalljósker - mæling á lágum geisla

    Skoðun með ljósaskoðunartækjum með ljós fyrir lágljós tendruð.

    Niðurvísun lágljósgeisla skal að öllu jöfnu vera í samræmi við stilligildi framleiðanda (oft merkt með miða í vélarrúmi). Ef slíkar merkingar eru ekki til staðar eða hæð bifreiðarinnar hefur verið breytt þarf að taka tillit til þess við ákvörðun efri og neðri marka ljósgeisla.

    Mæling á efri og neðri mörkum er gerð þannig:

    • Efri mörk: Lágljósgeisli skal ekki lýsa lengra en 80 m fram á akbrautina og ekki hafa minni niðurvísun en 1%. Viðmiðunarlína ljósaskoðunartækis er stillt miðað við það og má geislinn ekki lýsa ofan við hana. Ef hæð ljóskers (ljósmiðju) er meiri en 80 cm verður niðurvísunin að vera meiri (80 m og 80 cm þýðir 80/80=1% niðurvísun, 80 m og 90 cm hæð þýðir 90/80=1,1% o.s.frv.).

    • Neðri mörk: Lágljósgeisli skal lýsa að lágmarki 40 m fram á akbrautina. Viðmiðunarlína ljósaskoðunartækis er stillt miðað við það (hæð tækis í cm / 40 m = niðurvísun í %) og þá má ljósgeislinn ekki lýsa fyrir neðan hana.

    Mæling á stefnu og lögun geislans er gerð þannig:

    • Mæling á hliðarstefnu geislans: Hliðarstefna athuguð á spjaldi ljósaskoðunartækisins um leið og mæling á mörkum fer fram. Lágljósgeisli fylgi viðmiðunarlínum á spjaldinu. Miðja háljósgeisla lýsi á mitt spjaldið.

    • Mæling á lögun geislans: Lögun athuguð á spjaldi ljósaskoðunartækisins um leið og mæling á mörkum fer fram. Lágljósgeisli sé eðlilega lagaður miðað við spjaldið. Háljósgeisli myndi hringlaga geisla sem er þéttastur í miðjunni.

    Stök háljósker og amerísk aðalljósker - mæling á háljósgeisla

    Skoðun með ljósaskoðunartækjum með ljós fyrir háljós tendruð.

    Reglan er sú að háljósgeisli skal lýsa veginn a.m.k. 100 m fram fyrir ökutækið og ekki hærra en beint fram (lárétt).

    Mæling á efri og neðri mörkum er gerð þannig:

    • Efri mörk: Miðja háljósgeisla skal ekki lýsa ofar en beint fram. Viðmiðunarlína ljósaskoðunartækis er stillt miðað við það (á enga niðurvísun) og má miðja geislans ekki lýsa ofan við hana.

    • Neðri mörk: Miðja háljósgeisla skal lýsa að lágmarki 100 m fram á akbrautina. Viðmiðunarlína ljósaskoðunartækis er stillt miðað við það (hæð tækis í cm / 100 m = niðurvísun í %) og þá má miðja ljósgeislans ekki lýsa fyrir neðan hana.

    Mæling á stefnu og lögun geislans er gerð þannig:

    • Mæling á hliðarstefnu geislans: Hliðarstefna athuguð á spjaldi ljósaskoðunartækisins um leið og mæling á mörkum fer fram. Miðja háljósgeisla lýsi á mitt spjaldið.

    • Mæling á lögun geislans: Lögun athuguð á spjaldi ljósaskoðunartækisins um leið og mæling á mörkum fer fram. Háljósgeisli myndi hringlaga geisla sem er þéttastur í miðjunni.

    Mæling þokuljósa

    Skoðun með ljósaskoðunartækjum með ljós fyrir þokuljós tendruð.

    Mæling á efri mörkum er gerð þannig:

    • Efri mörk: Þokuljósgeisli má ekki lýsa lengra en lágljósgeisli. Þetta ákvæði telst uppfyllt ef niðurvísun er jöfn eða meiri en niðurvísun lágljósgeislans. Viðmiðunarlína ljósaskoðunartækis er stillt miðað við það og má geislinn ekki lýsa ofan við hana.

    Aðrar mælingar eru ekki gerðar á þokuljósum.


    Ljósaraftengi (raftengi fyrir eftirvagn)

    Bifreið sem hefur tengibúnað fyrir eftirvagn skal búin raftengi sem uppfyllir eftirfarandi kröfur:

    • Fyrir 12 volta rafkerfi eftirvagns: Samkvæmt ISO staðli 1724 (7-póla) eða ISO staðli 11446 (áður DIN V 72570) (13-póla).

    • Fyrir 24 volta rafkerfi eftirvagns: Samkvæmt ISO staðli 1185 (7-póla) eða ISO staðli 12098 (13-póla).

    Hið sama gildir um eftirvagninn, tengi hans þarf að samræmast raftengi bifreiðarinnar.

    12V tengi samkvæmt ISO 1724 12 N (7 póla) og ISO 11446 (áður DIN V 72570) (13 póla)

    Til eru tvær útfærslur af 7-póla 12V tengjum samkvæmt ISO stöðlum, annars vegar gerð N (normal) í ISO 1724 (áskilda tengið) og hins vegar gerð S (supplemental) í ISO 3732 sem er 7-póla viðbótartengi. Í viðbótartenginu bætast við tengingar sem ekki eru í hinu tenginu (t.d. stöðugur straumur til eftirvagns). Tengin eru svipuð útlits, en passa þó ekki saman, og er N tengið jafnan í svörtu húsi en S tengið í hvítu húsi.

    Svo er það 13-póla útfærslan samkvæmt ISO 11446 (áður DIN V 72570) sem í eru allar nauðsynlegar tengingar.Myndir og tengingar 12V 7-póla og 13-póla tengja má sjá í töflu 1. Við skoðun er einungis prófuð virkni ljósapóla ljósaraftengjanna tveggja.

    ljosaraftengiiso1724x

    Mynd 1a. Tengi 12V 7-póla: innstungan í bílnum, séð utanfrá

    ljosaraftengiiso1725b

    Mynd 1b. Tengi 12V 7-póla: innstungan í bílnum, bakhlið

    ljosaraftengiiso11446x

    Mynd 1c. Tengi 12V 13-póla: innstungan í bílnum, séð utan frá

    ljosaraftengiiso11446b

    Mynd 1d. Tengi 12V 13-póla: innstungan í bílnum, bakhlið

    Tafla 1. Tengi 12V 7-póla ljósaraftengis samkvæmt ISO 1724 12 N (og ISO 3732 12 S viðbótartengis) og 13-póla ljósaraftengis samkvæmt ISO 11446 (áður DIN V 72570).

    Tengipóll

    ISO 1724 12 N

    ISO 3732 12 S

    ISO 11446 (DIN V 72570)

    1

    Vinstri: Stefnuljós.

    Bakkljós.

    Vinstri: Stefnuljós.

    2

    Þokuafturljós.

    Óráðstafað.

    Þokuafturljós.

    3

    Jörð.

    Jörð fyrir póla 1-5.

    Jörð fyrir póla 1-8.

    4

    Hægri: Stefnuljós.

    12V stöðug frá rafkerfi bifreiðar.

    Hægri: Stefnuljós.

    5

    Hægri: Stöðuljós, hliðarljós og breiddarljós. Númersljós.

    Óráðstafað.

    Hægri: Stöðuljós, hliðarljós og breiddarljós. Númersljós.

    6

    Hemlaljós.

    12V frá straumlás (hleðslulögn fyrir rafgeymi eftirvagns).

    Hemlaljós.

    7

    Vinstri: Stöðuljós, hliðarljós og breiddarljós. Númersljós.

    Jörð fyrir pól 6.

    Vinstri: Stöðuljós, hliðarljós, breiddarljós. Númersljós.

    8

    ---

    ---

    Bakkljós.

    9

    ---

    ---

    12V stöðug frá rafkerfi bifreiðar.

    10

    ---

    ---

    12V frá straumlás (hleðslulögn fyrir rafgeymi eftirvagns).

    11

    ---

    ---

    Jörð fyrir pól 10.

    12

    ---

    ---

    Óráðstafað.

    13

    ---

    ---

    Jörð fyrir pól 9.

    24V tengi samkvæmt ISO 1185 24 N (7-póla) og ISO 12098 (15 póla)

    Til eru tvær útfærslur af 7-póla 24V tengjum samkvæmt ISO stöðlum, annars vegar gerð N (normal) í ISO 1185 (áskilda tengið) og hins vegar gerð S (supplemental) í ISO 3731 sem er 7-póla viðbótartengi. Í viðbótartenginu bætast við tengingar sem ekki eru í hinu tenginu (t.d. stöðugur straumur til eftirvagns). Tengin eru svipuð útlits, en passa þó ekki saman, og er N tengið jafnan í svörtu húsi en S tengið í hvítu húsi.

    Svo er það 15-póla útfærslan samkvæmt ISO 12098 sem í eru allar nauðsynlegar tengingar.

    Myndir og tengingar 24V 7-póla og 15-póla tengja má sjá í töflu 2. Við skoðun er einungis prófuð virkni ljósapóla ljósaraftengjanna tveggja.

    k104

    Mynd 2a. Tengi 24V 7-póla: innstungan í bílnum, séð utanfrá

    ljosaraftengiiso1185b

    Mynd 2b. Tengi 24V 7-póla: innstungan í bílnum, bakhlið

    ljosaraftengiiso12098x

    Mynd 2c. Tengi 24V 15-póla: innstungan í bílnum, séð utan frá

    ljosaraftengiiso12098b (1)

    Mynd 2d. Tengi 24V 15-póla: innstungan í bílnum, bakhlið

    Tafla 2. Tengi 24V 7-póla ljósaraftengis samkvæmt ISO 1185 24 N (og ISO 3731 24 S viðbótartengis) og 15-póla ljósaraftengis samkvæmt ISO 12098.

    Tengipóll

    ISO 1185 24 N

    ISO 3731 24 S

    ISO 12098 (24V)

    1

    Jörð.

    Jörð.

    Vinstri: Stefnuljós.

    2

    Vinstri: Stöðuljós, hliðarljós, breiddarljós. Númersljós.

    Óráðstafað.

    Hægri: Stefnuljós.

    3

    Vinstri: Stefnuljós.

    Bakkljós.

    Þokuafturljós.

    4

    Hemlaljós.

    24V stöðug frá rafkerfi bifreiðar.

    Jörð fyrir póla 1-13.

    5

    Hægri: Stefnuljós.

    Óráðstafað.

    Vinstri: Stöðuljós, hliðarljós, breiddarljós. Númersljós.

    6

    Hægri: Stöðuljós, hliðarljós, breiddarljós. Númersljós.

    24V frá straumlás bifreiðar.

    Hægri: Stöðuljós, hliðarljós, breiddarljós. Númersljós.

    7

    Þokuafturljós.

    Þokuafturljós.

    Hemlaljós.

    8

    ---

    Bakkljós.

    9

    ---

    ---

    24V stöðug frá rafkerfi bifreiðar.

    10

    ---

    ---

    Losun ýtihemla / Læsing stýrðs áss / Melding um hemlaslit.

    11

    ---

    ---

    Stýrikerfi spólvarnar / Bilun í stöðuhemli vagns.

    12

    ---

    ---

    Lyftiás.

    13

    ---

    ---

    Jörð fyrir póla 14-15.

    14

    ---

    ---

    Gagnalína CAN-High.

    15

    ---

    ---

    Gagnalína CAN-Low.


    Rafmagnsleiðslur

    Fara þarf með gát við könnun ástands og öryggis leiðslna og sérstaklega við skoðun háspennukerfis rafknúinna ökutækja og blendingsökutækja. Þessar háspennuleiðslur eru litakóðar í appelsínugulum lit.

    Fara þarf með sérstakri gát þegar rafknúin ökutæki og blendingsökutæki eru prófuð þar sem háspenna getur verið til staðar á nokkrum stöðum í kringum ökutæki þar með talið í geymsluþéttum og rafgeymum.

    Í blendingsökutækjum getur kviknað á vélinni án viðvörunar þegar kveikt er á rafbúnaði eða rafgeymaspenna minnkar.

    Að sjálfsögðu er ekki þörf á því að fjarlægja hlífðarplötur eða hluti innréttinga til að sjá rafmagnsleiðslur. Skoðun krefst þess að ástand, staða og öryggi allra sýnilegra leiðsla séu tekin til skoðunar. Skoðuni er almennt takmörkuð við þá hluta sem hægt er að sjá án þess að taka þá í sundur og byggist á hugmyndinni um að hlífðarplötur séu aðeins fjarlægðar þar sem ekki er mögulegt að skoða mikilvæg öryggisatriði. Vanalega á þetta ekki við um leiðslur sem eru á bak við hlífðarplötur nema það sé ástæða til þess að gruna að leiðslur séu mjög gallaðar/skemmdar.


    Rafgeymar

    Ef rafgeymir er aðeins festur með leiðslum (festing á plús og mínus pól) telst hann ekki vera öruggur. Rafgeymir skal vera tryggilega festur og byrgður eða honum þannig fyrir komið að ekki sé hætta á skammhlaupi geymisins við eðlilega notkun ökutækis.

    Ef það er ekki mögulegt athuga með ástand rafgeymis og leka úr honum á að reyna eftir fremsta megni að skoða staðinn þar sem rafgeymi er komið fyrir til að fá staðfestingu á því að leki sé ekki til staðar.

    Fara þarf með gát þegar skoða þarf ástand og öryggi rafleiðslna og háspennukerfi blendingsökutækja og rafknúinna ökutækja. Þessar háspennuleiðslur eru litakóðaðar með appelsínugulum lit.


    Kröfur til mælitækja

    Kröfum til allra skoðunartækja er lýst í skjali kröfur um aðstöðu og búnað á skoðunarstofu, þar með talið mælitækja. Við skoðun þeirra atriða sem lýst er í þessu skjali eru eftirfarandi mælitæki notuð:

    • Handverkfæri: Ýmsar lengdarmælingar (málband, skífmál o.þ.h.).

    • Ljósaskoðunartæki: Fyrir bifreiðir, bifhjól og dráttarvélar.

    • Prófari fyrir raftengi: Fyrir ljósaraftengi.

    Lýsingar á mælingum í skjalinu eru almennar (ekki leiðbeiningar fyrir einstakar gerðir mælitækja) og gengið út frá því að skoðunarstofur útbúi eigin notkunarleiðbeiningar fyrir mælitækin sem þær nota.


    Lög og reglur

    Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

    • Umferðarlög nr. 77/2019.

    • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.

    • Staðall ISO 1724 Ökutæki - Raftengi dráttartækis og eftirvagns - 7-pinna tengi gerð 12 N (normal) fyrir ökutæki á 12 V spennu.

    • Staðall ISO 11446 Ökutæki - Raftengi dráttartækis og eftirvagns - 13-pinna tengi fyrir ökutæki á 12 V spennu (staðall í tveimur hlutum).

    • Staðall ISO 1185 Ökutæki - Raftengi dráttartækis og eftirvagns - 7-pinna tengi gerð 24 N (normal) fyrir ökutæki á 24 V spennu.

    • Staðall ISO 12098 Ökutæki - Raftengi dráttartækis og eftirvagns - 15-pinna tengi fyrir ökutæki á 24 V spennu.