Fara beint í efnið

Skráningareglur ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. júní 2024 -

Gildir frá: 01.06.2024 (opnað fyrir aðgang 01.05.2024). Skráningareglur ökutækja eru fyrir fagaðila sem sinna skráningum í umboði Samgöngustofu eða tilkynna breytingar í ökutækjaskrá samkvæmt lögum.

    Tækniupplýsingaskráningar

    Eftirtaldir aðilar geta gert samning um að vinna í umboði Samgöngustofu hvað varðar öflun upplýsinga af ökutæki, staðfestingu á upplýsingum um ökutæki og um breytingar á skráningu ökutækja í tengslum við opinberar skoðanir þeirra (kallaðir þjónustuaðilar):

    • Faggiltar skoðunarstofur ökutækja

    • Umboð (ökutækja) með fulltrúa B (og C)

    Efni kaflans

    Sending fylgigagna með US.111

    Gögn sem skoðunarstofa þarf að móttaka í tengslum við skráningu (með eða án skoðunar) skulu uppfylla viðeigandi skilyrði. Þeim ber að skila inn með US.111 (skönnuðu skjali eða skjal sem móttekið hefur verið á rafrænu formi). Þegar skylda er að skila gagninu og það liggur ekki fyrir við afgreiðslu eða skoðun, skal afgreiðslu hafnað og viðkomandi skoðun hafnað (skráningarskoðun og breytingaskoðun).


    Vigtarseðill

    Við vigtun á eiginþyngd ökutækja skal framkvæmd af löggiltum vigtarmanni. Notuð er löggilt vog við vigtunina. Mælt er með að nota form US.114. Ef áskildar upplýsingar koma ekki fram eða eru ófullnægjandi, er vigtarseðillinn ógildur. Vigtarseðill gildir í 7 daga frá útgáfudegi.

    Að öllum skilyrðum uppfylltum er vigtarseðillinn skannaður inn (eða tekin af honum mynd) og settur sem viðhengi með tilkynningu á US.111. Frumritið er ekki sent til Samgöngustofu.

    Eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram á vigtarseðli (að fyrirmynd US.114):

    • Auðkenni ökutækis: Fastanúmer, skráningarnúmer eða verksmiðjunúmer ökutækis sem vigtað var.

    • Auðkenni vigtar: Nafn vigtar.

    • Auðkenni vigtarmanns: Nafn löggilts vigtarmanns og fyrstu sex tölurnar í kennitölu hans. Skilyrði er að vigtarmaður sé skráður á lista HMS yfir löggilta vigtarmenn á vigtunardegi.

    • Dagsetning vigtunar.

    • Akstursmælir: Staða akstursmælis ökutækisins (sé það búið akstursmæli).

    • Eldsneytismagn: Staðfesting vigtarmanns á magn eldsneytis í geymum (samkvæmt þeim skilyrðum sem gilda, frekari upplýsingar á vigtarseðli).

    • Eiginþyngd: Eigin þyngd ökutækisins í kílóum.

    • Ásþyngdir: Vegna vigtunar á hópbifreið og breyttri bifreið: Ásþyngdir í kílóum (eða nægar upplýsingar til að hægt sé að reikna þær).

    • Staðfesting vigtarmanns: Undirskrift og/eða stimpill löggilts vigtarmanns.

    • Staðfesting umbeiðanda: Nafn og undirskrift þess sem fór með ökutækið í vigtun.


    Hraðamælavottorð

    Skoðunarstofur ökutækja mega gefa út staðfestingu á hraðamæli (valkvætt). Notað er GPS tæki til að mæla raunhraða á meðan ekið er. Gefið er út vottorð á eyðublaði US.139 ef hraðamælir er innan vikmarka. Ef áskildar upplýsingar koma ekki fram eða eru ófullnægjandi, er hraðamælavottorðið ógilt. Hraðamælavottorð gildir í 7 daga frá útgáfudegi.

    Að öllum skilyrðum uppfylltum er vottorðið skannað inn (eða tekin af því mynd) og sett sem viðhengi með tilkynningu á US.111. Frumritið er ekki sent til Samgöngustofu.

    Eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram á hraðamælavottorði (US.139):

    • Staður og dagsetning: Nafn skoðunarstofu, staður og starfsmaður, ásamt dagsetningu úttektar.

    • Ökutæki: Fastnúmer, tegund og undirtegund, og dekkjastærð (bæði lesin og mæld).

    • Hjólbarðastærð: Skráð stærð á hjólbarða og ummál (radíus ×2π).

    • Hraðagildi: Fyrir báða mælipunkta er skráður raunhraði og leyfileg vikmörk.

    • Niðurstaða: Niðurstaða mælingar (innan marka eða ekki).

    • Undirskrift: Undirritun úttektaraðila.

    Mælingar á hraða eru gerðar með GPS tæki. Kröfur til þeirra eru þessar:

    • Hnettir: Tækið þarf að geta læst á a.m.k. 4 hnetti.

    • Aflestur: Æskilegt að hægt sé að frysta hraðagildi, eða hægt sé að fletta upp í log til að sjá hraða á ákveðnum tímapunkti (og þá þarf að vera auðvelt að skrá hjá sér tímapunktinn).

    • Hraði: Birta hraðagildi á ekki sjaldnar en sekúndu fresti. Ef það er meðaltal yfir tímabil þá má það ekki vera meðaltal yfir lengra tímabil en síðustu 2 sekúndna.

    Undirbúningur, aðstæður og vikmörk við mælingu eru þessar:

    • Úttektaraðili: Starfsmaður skoðunarstofu.

    • Vegur/aðstæður: Vegur sé beinn, því sem næst láréttur, helst fjarri háum húsum, og kaflinn sé það langur að hægt sé að halda umbeðnum hraða í 5-10 sekúndur.

    • Hjólbarðastærð: Hjólbarðastærð er lesin (af hjólbarða, reikna með að allir hjólbarðar séu af sömu stærð) og radíus hjólbarðans mældur (mælt frá jörðu upp í mitt hjólnaf).

    Ferill úttektar er þessi:

    • Akstur og aflestur: Úttektaraðili situr í bíl með ökumanni þannig að hann geti lesið tryggilega af hraðamæli.

    • Mælipunktar: Miðað er við hraða samkvæmt hraðamæli. Misjafnt er hvaða merkingar eru á hraðamælaskífu, en mælt er á hraða sem merktur er á skífuna. Helst á að mæla við 30 km/klst. og 50 km/klst., en ef þeir hraðar eru ekki merktir á skífuna ber að mæla við 40 km/klst. og 60 km/klst.

    • Aflestur: Þegar viðkomandi hraða er náð er honum haldið í um 3-5 sek og þá lesið af GPS-tæki.

    • Leyfileg vikmörk: Hraðamælir má ekki sýna meira en 4% minni hraða og 10% meiri hraða en raunverulegt er skv. GPS-tæki til að hægt sé að staðfesta að hraðamælir sé innan marka.


    Upplýsingaplata

    Þurfi að lesa upplýsingar af upplýsingaspjaldi og skila til Samgöngustofu er tekin mynd spjaldinu og sett sem viðhengi með tilkynningu US.111 (verður hluti af skráningargögnum sem geymast í ökutækjaskrá).

    Á öllum ökutækjum ætti að vera sérstakt upplýsingaspjald þar sem fram koma nokkrar upplýsingar ásamt verksmiðjunúmeri ökutækisins. Upplýsingaspjaldið er oftast harðspjald (plata en ekki miði) sem þannig er fest á og útfært að það verður ekki tekið af (eða flutt á milli öktuækja) öðruvísi en það skemmist eða eyðileggist (og þannig megi augljóslega sjá að átt hafi verið við það og það teljist ógilt).

    Í bifreiðum og dráttarvélum er spjaldið yfirleitt í hurðarstaf, á eftirvögnum er það yfirleitt fremst á grindarbita og á bifhjólum er það yfirleitt á grind (þó stundum undir sæti eða hlíf sem auðvelt er að fjarlægja).

    Á spjaldinu geta eftirfarandi upplýsingar komið fram. Áríðandi er að lesa eininguna á tölugildum vel og breyta þeim í kg (þyngd í lbs er breytt yfir kg með því að margafalda með 0,4536):

    • Verksmiðjunúmer ökutækisins (VIN): Er nær undantekningarlaust. Fremst og aftast er yfirleitt sama rittákn (t.d. stjarna) til að tákna upphaf og endi þess.

    • Gerðarnúmer: Viðurkenningarnúmer samkvæmt evrópskum reglum, t.d. e1*2018/858*0250*25.

    • Leyfð heildarþyngd ökutækisins: Getur verið GVWR (Gross Vehicle Weight Rating), Gross Weight Maximum, Gross Weight, Total Permissible Mass, Max Vehicle Laden Weight o.fl. Stundum er talan efst á spjaldinu án skýringar, jafnvel tvær tölur án skýringar og þá á að nota hærri töluna (sú lægri er einhverskonar eiginþyngd). Á eftirvögnum gæti verið ATM (Aggregate Trailer Mass).

    • Leyfð ásþyngd sérhvers áss: Getur verið GAWR (Gross Axle Weight Rating), Max Axle Loading, Max Axle Wt o.fl. Svo er ásinn tilgreindur (eða tilgreindur án frekari skýringa), annað hvort talið frá fremsta ás (númer 1) eða Front (fremri) og Rear (aftari). Á dráttarvélum er oft notað A-1 og A-2 (fyrir fremri og aftari ás).

    • Leyfð vagnlest vélknúins ökutækis: Getur verið GCWR (Gross Combined Weight Rating), GTW (Gross Train Weight), Gross Train Mass o.fl.

    • Dráttargeta óhemlaðs eftirvagns vélknúins ökutækis: Getur verið Unbraked Towable Mass o.fl. Á dráttarvélum er oft notað B-1.

    • Dráttargeta hemlaðs eftirvagns vélknúins ökutækis: Getur verið Maximum Towable Mass o.fl. Á dráttarvélum er oft notað B-2.

    Komið getur fyrir að fleiri en ein upplýsingaplata er á ökutæki, allar með umbeðnum upplýsingum en samt smá mismunur á gildum. Einnig getur stundum verið erfitt að átta sig nákvæmlega á því hvaða hvaða tölu á að velja. Í þessum tilvikum skal ekki skráð neitt gildi í viðkomandi þyngdarreit en í staðinn skrifuð athugasemdin "Samgöngustofa beðin um að lesa úr upplýsingaplötu fyrir xxxþyngd" (þar sem xxx er sú þyngd sem er óljós). Samgöngustofa skoðar þá plötuna/plöturnar á myndinni sem send er og finnur út úr réttu gildi.


    Hjólastöðuvottorð

    Vottun á hjólastöðu skal framkvæmd af vottuðum mælingamanni. Notuð eru sérstök mælitæki við mælinguna. Áskilið er að nota form US.136. Ef áskildar upplýsingar koma ekki fram eða eru ófullnægjandi, er vottorðið ógilt. Vottorðið hefur ekki takmörkun á gildistíma en skal gefið út eftir að breyting, viðgerð eða skoðun fór fram (sem kallaði á útgáfu vottorðsins).

    Að öllum skilyrðum uppfylltum er vottorðið skannað inn (eða tekin af því mynd) og sett sem viðhengi með tilkynningu á US.111. Frumritið er ekki sent til Samgöngustofu.

    Eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram á hjólastöðuvottorði (US.136):

    • Auðkenning: Fastanúmer ökutækis og verksmiðjunúmer.

    • Verkstæði: Nafn og kennitala verkstæðis.

    • Mælingamaður: Nafn og kennitala mælingamanns.

    • Akstursmælir: Staða akstursmælis við mælingu.

    • Útgáfuástæða: Ástæða útgáfu vottorðs (vegna viðgerðar á tjónaökutæki eða vegna breytinga/skoðunar ökutækis).

    • Staðfesting: Undirskrift og dagsetning mælingamanns ásamt staðfestingu á að hjólastaða sé innan marka.


    Burðarvirkisvottorð

    Vottun á burðarvirki skal framkvæmd af vottuðum mælingamanni. Notuð eru sérstök mælitæki við mælinguna. Áskilið er með að nota form US.135. Ef áskildar upplýsingar koma ekki fram eða eru ófullnægjandi, er vottorðið ógilt. Vottorðið hefur ekki takmörkun á gildistíma en skal gefið út eftir að breyting eða viðgerð fór fram (sem kallaði á útgáfu vottorðsins).

    Að öllum skilyrðum uppfylltum er vottorðið skannað inn (eða tekin af því mynd) og sett sem viðhengi með tilkynningu á US.111. Frumritið er ekki sent til Samgöngustofu.

    Eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram á burðarvirkisvottorði (US.135):

    • Auðkenning: Fastanúmer ökutækis og verksmiðjunúmer.

    • Verkstæði: Nafn og kennitala verkstæðis.

    • Mælingamaður: Nafn og kennitala mælingamanns.

    • Akstursmælir: Staða akstursmælis við mælingu.

    • Útgáfuástæða: Ástæða útgáfu vottorðs (vegna viðgerðar á tjónaökutæki eða vegna breytinga á burðarvirki ökutækis).

    • Staðfesting: Undirskrift og dagsetning mælingamanns ásamt staðfestingu á að burðarvirki sé innan marka og á grundvelli hvers sú staðfesting er gerð.


    Metanvottorð (metanísetning)

    Breyting á brunahreyfil til að hann geti notað metan (þjappað jarðgas, CNG) sem orkugjafa skal framkvæmd af viðurkenndum ísetningaraðila (á lista US.366) og útbýr hann vottorð. Áskilið er að nota form US.184. Ef áskildar upplýsingar koma ekki fram eða eru ófullnægjandi, er vottorðið ógilt. Vottorðið hefur ekki takmörkun á gildistíma en skal gefið út eftir að breyting fór fram (sem kallaði á útgáfu vottorðsins).

    Að öllum skilyrðum uppfylltum er vottorðið skannað inn (eða tekin af því mynd) og sett sem viðhengi með tilkynningu á US.111. Frumritið er ekki sent til Samgöngustofu.

    Eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram á metanvottorði (US.184):

    • Auðkenning: Fastanúmer, skráningarnúmer eða verksmiðjunúmer ökutækisins, ásamt tegund ökutækis.

    • Ísetningaraðili: Nafn ísetningaraðila og ábyrgðarmanns.

    • Upplýsingar um kerfið: Upplýsingar um kerfið sem sett var í, þar á meðal nafn framleiðanda kerfisins, að kerfið sé viðbótarorkugjafi, og að til staðar sé sjálfvirkur loki (v/þrýstingsfalls), einstreymisloki, yfirþrýstingsloki, hitastýrður yfirþrýstingsbúnaður, yfirflæðisloki og þrýstijafnari. Staðfestingar á að allur þessi búnaður, ásamt áfyllingarbúnaði, gasfæðibúnaði (til að fæða sprengirými) og stjórntölva sé ECE110 vottuð.

    • Upplýsingar um geyma: Upplýsingar um þrýstigeymana sem settir voru í (stærð í lítrum og gildistími). Staðfestingar á að þeir séu ECE110 eða ISO11439 vottaðir.

    • Lekaprófun: Staðfesting á að kerfið hafi verið lekaprófað.

    • Staðfesting: Undirskrift og dagsetning ísetningaraðila.


    Nýskráningarblað/Endurskráningarblað

    Sé umsókn um nýskráningu eða umsókn um endurskráningu skilað til skoðunarstofu á pappír er umsóknin skönnuð inn (eða tekin af henni mynd) og sett sem viðhengi með tilkynningu á US.111. Frumritið berist til Samgöngustofu innan 10 virkra daga.

    Nánari upplýsingar er að finna í reglum um nýskráningu og endurskráningu ökutækis.


    Vottorð um sérsmíði í stýrisbúnaði

    Sé hlutur í stýrisbúnaði breyttrar bifreiðar sérsmíðaður ber að óháðum rannsóknaraðila að votta smíðina. Hann útbýr vottorð þess efnis (ekki ákvæði um tiltekið form). Vottorðið hefur ekki takmörkun á gildistíma en skal gefið út eftir að breyting fór fram (sem kallaði á útgáfu vottorðsins).

    Að öllum skilyrðum uppfylltum er vottorðið skannað inn (eða tekin af því mynd) og sett sem viðhengi með tilkynningu á US.111. Frumritið er ekki sent til Samgöngustofu.