Fara beint í efnið

Skráningareglur ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

15. desember 2024 -

Gildir frá: 01.06.2024. Skráningareglur ökutækja eru fyrir fagaðila sem sinna skráningum í umboði Samgöngustofu eða tilkynna breytingar í ökutækjaskrá samkvæmt lögum.

    Almenn atriði

    Ýmsar upplýsingar um skráningarmálefni, skoðunarmiða, eyðublöð, eftirlit og annað.

    Efni kaflans

    Breytingalásar

    Í breytingalás felst að ekki er unnt að skrá tilteknar breytingar á ökutæki, svo sem breytingu á eignarhaldi, notkunarflokki eða aðra breytingu á skráningu ökutækisins í ökutækjaskrá. Breytingalás má bæði skrá á ökutæki og kennitölu.

    Samgöngustofa hefur umsjón með skráningu breytingalása í ökutækjaskrá. Breytingalás má skrá að beiðni aðila sem hefur hagsmuna að gæta í samræmi við neðangreind ákvæði. Þó er Samgöngustofu heimilt að skrá breytingalás án þess að sérstök beiðni berist stofnuninni ef lögmætar ástæður eru fyrir hendi. Ekki má aflétta breytingalás nema sá sem óskaði eftir skráningu lássins fari fram á það eða að sýnt verði fram á að þeir hagsmunir sem breytingalásnum er ætlað að vernda séu niður fallnir.

    Breytingar á eignarhaldi - eigendaskiptalásar

    Eigendaskiptalásar fela í sér að ekki er unnt að skrá breytingu á eignarhaldi ökutækis (á eigendum og umráðendum).

    Skrá má eigendaskiptalás á ökutæki berist beiðni frá:

    • eiganda ökutækisins

    • aðila eða stjórnvaldi sem á veðrétt í ökutækinu

    • lögreglu vegna rannsóknarhagsmuna sem varða ökutækið

    • skiptastjóra eða öðrum aðila sem fer með málefni dánar- eða þrotabús vegna skipta hjá eiganda ökutækisins

    • tollayfirvöldum og lögreglu þegar nauðsyn krefur og vegna eðlis skráningar, svo sem vegna rannsóknarhagsmuna og niðurfelldra vörugjalda

    Skrá má eigendaskiptalás á kennitölu einstaklings eða lögaðila berist beiðni frá:

    • einstaklingnum sjálfum eða fyrirsvarsmanni lögaðila

    • ráðsmanni, lögráðamanni eða yfirlögráðanda samkvæmt lögræðislögum

    • skiptastjóra eða öðrum aðila sem fer með málefni dánar- eða þrotabús

    Breytingar á skráningu - skráningarlásar

    Skráningarlásar fela í sér að ekki er unnt að skrá tilteknar breytingar á skráningu ökutækis í ökutækjaskrá, hvort sem er á notkunarflokki ökutækis, nýskráningu ökutækis eða aðrar sambæri­legar breytingar.

    Skrá má skráningarlás á ökutæki berist beiðni frá:

    • eiganda ökutækisins

    • aðila eða stjórnvaldi sem hagsmuna hefur að gæta þegar óheimilt er að breyta notkun öku­tækisins eða nýskrá það um tiltekinn tíma vegna takmarkana eða réttinda sem fylgja notkun þess vegna ákvæða í lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða samningum

    Yfirlit breytingalása

    Samgöngustofa hefur skilgreint eftirfarandi breytingalása í ökutækjaskrá, sem hver um sig getur gegnt einu eða fleiri af þeim hlutverkum sem lýst er hér að ofan. Nánari skýring á ástæðu láss er að auki skráð með lásnum í ökutækjaskrá þegar þörf er á.

    (1) Eigendaskiptalás

    Beiðnir um eigendaskiptalása sem berast Samgöngustofu eru afgreiddar með eftirfarandi hætti:

    • Frá núverandi eiganda ökutækis (einstaklingi, fyrirsvarsmanni lögaðila, ráðsmanni, lögráðamanni eða yfirlögráðanda samkvæmt lögræðislögum). Berist munnleg beiðni um lás á ökutæki má setja slíkan lás tímabundið í einn sólarhring en að þeim tíma liðnum verður að hafa borist skrifleg beiðni (US.171). Beiðni um lás á kennitölu skal berast skriflega (US.172).

    • Frá síðasta skráða eiganda ökutækis samkvæmt eigendaferli ef grunur er um fölsun eigendaskipta. Senda skal skriflega beiðni (US.171) og er lásinn þá settur tímabundið á ökutæki í þrjá sólarhringa.

    • Frá aðila eða stjórnvaldi sem á veðrétt í ökutæki. Tilkynning skal berast skriflega.

    • Frá lögreglu vegna rannsóknarhagsmuna er varðar ökutæki. Í flestum tilvikum er hér skráður „2 Lögreglulás“ á ökutæki sem um leið stöðvar breytingu á eignarhaldi ökutækis.

    • Frá skiptastjóra eða öðrum aðila sem fer með málefni dánar- eða þrotabús vegna skipta hjá eiganda ökutækis. Í flestum tilvikum er hér skráður „4 Gjaldþrotalás“ á ökutæki sem um leið stöðvar breytingar á eignarhaldi ökutækis en einnig má samþykkja beiðni um eigendaskiptalás á kennitölu í þessu tilviki (US.172).

    (2) Lögreglulás

    Lásinn er settur á ökutæki af lögreglu vegna rannsóknarhagsmuna hennar, t.d. þegar ökutæki er í haldi, og jafnan líka þegar ökutæki er skráð eftirlýst. Lásinn kemur í veg fyrir breytingar á eignarhaldi ökutækis og skráningu þess í umferð. Sjá nánar um skráningar og tilkynningar lögreglu.

    (3) Nýskráningarlás

    Lásinn er settur á ökutæki af Samgöngustofu ef lögmætar ástæður eru fyrir hendi og verður þá óheimilt að nýskrá ökutæki um tiltekinn tíma vegna takmarkana eða réttinda sem fylgja notkun þess vegna ákvæða í lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða samningum. Þetta getur til dæmis átt við í tengslum við upphafsviðurkenningu ökutækis eða í forskráningarferlinu.

    Samgöngustofa tilkynnir eiganda (umráðanda) um að lásinn hafi verið settur á, upplýsir hann um ástæður þess og leiðbeinir um aðgerðir til úrlausnar eða úrbóta. Samgöngustofa afléttir lásnum að skilyrðum uppfylltum.

    (4) Gjaldþrotalás

    Lásinn er settur á ökutæki af Samgöngustofu vegna málefna dánar- eða þrotabús vegna skipta hjá eiganda ökutækis. Lásinn kemur í veg fyrir breytingar á eignarhaldi ökutækis, að það verði skráð í eða úr umferð, að skoðanir verði skráðar á það og endurskráð. Skiptaráðandi í þrotabúi getur óskað eftir að lásinn verði settur á og er lásinn ótímabundinn þar til hann óskar eftir að lásinn verði tekinn af. Beiðni skal berast skriflega og skipunarbréf skiptastjóra skal fylgja.

    (7) Skráningarlás vegna vörugjalds

    Lásinn er settur á ökutæki af Skattinum (tollgæslusviði) vegna sérstakrar umsýslu vörugjalda í tengslum við nýskráningu eða endurskráningu og verður þá óheimilt að nýskrá eða endurskrá ökutæki um tiltekinn tíma vegna takmarkana eða réttinda sem fylgja notkun þess vegna ákvæða í lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða samningum. Sjá nánar um skráningar og tilkynningar Skattsins.

    (9) Lögveð vegna vörugjalds

    Lásinn er settur á ökutæki af Skattinum (tollgæslusviði) til að koma í veg fyrir breytingar á eignarhaldi. Einnig er óheimilt að breyta notkunarflokki ökutækis með þennan lás eftir nýskráningu en þó er heimilt að breyta honum fyrir og við nýskráningu. Sjá nánar um skráningar og tilkynningar Skattsins.

    (10) Einkamerkjalás

    Lásinn er settur á ökutæki af Samgöngustofu þegar réttur til notkunar einkamerkis hefur runnið út. Skila verður inn útrunnum einkamerkjum eða endurnýja réttinn til að aflétta lásnum. Lásinn kemur í veg fyrir breytingu á eignarhaldi ökutækis, að það verði skráð í umferð, að skráningarmerkjum þess sé breytt, að skoðanir verði skráðar á ökutækið og það endurskráð. Samgöngustofa afléttir lásnum að skilyrðum uppfylltum.

    (11) Númeralás (umferðarlás)

    Lásinn er settur á ökutæki af Samgöngustofu sem skráð hafa verið úr umferð til að koma í veg fyrir að þau verði skráð í umferð á ný nema að skilyrðum uppfylltum. Í þessum tilvikum hafa verið heimilaðar einhverjar aðgerðir á meðan ökutækið var skráð úr umferð, t.d. eigendaskipti, sem krefjast þess að notkunarflokki skuli breytt áður en ökutækið verður skráð í umferð á ný (og ekki var hægt að gera þessar aðgerðir á meðan ökutækið var skráð úr umferð, t.d. færa það til nauðsynlegrar skoðunar vegna notkunarflokksbreytingar). Samgöngustofa afléttir lásnum að skilyrðum uppfylltum.

    (12) Niðurrifslás

    Lásinn er settur á ökutæki af Samgöngustofu sem hefur verið skráð úr umferð og ætlað er til niðurrifs og má þar af leiðandi ekki skrá aftur í umferð. Tryggingafélög geta óskað eftir niðurrifslás á ökutæki í þessum tilgangi. Lásinn kemur í veg fyrir að ökutæki verði skráð í umferð, að skráningarmerki verði pöntuð á það eða þeim breytt, að skoðanir verði skráðar á ökutækið og það endurskráð. Heimilt er að skrá eigendaskipti á ökutækjum sem bera niðurrifslás og ekki ætti að afskrá slíkt ökutæki af öðrum ástæðum en til úrvinnslu.

    (13) Ökutækisflokkslás

    Lásinn er settur á ökutæki af Samgöngustofu til að koma í veg fyrir að hægt sé að gera breytingu á ökutækisflokki. Það getur t.d. átt við þegar sérstaklega verður að tryggja að yfirfærsla úr ökutækisflokknum standist kröfur eða leiðbeina þurfi eiganda (umráðanda) sérstaklega vegna slíkrar breytingar. Samgöngustofa afléttir lásnum að skilyrðum uppfylltum.

    Að beiðni Skattsins (tollgæslu) er þessi lás settur á allar nýjar sendibifreiðir við forskráningu og látinn gilda í 5 ár. Ástæðan er sú að sendibifreið ber lægri vörugjöld en fólksbifreið og þarf því að leiðbeina eiganda um að greiða þurfi viðbótarvörugjöld af ökutækinu í samræmi við nýjan ökutækisflokk verði honum breytt.

    (15) Notkunarflokkslás

    Lásinn er settur á ökutæki af Samgöngustofu til að koma í veg fyrir að hægt sé að gera breytingu á notkunarflokki nema að skilyrðum uppfylltum. Það getur t.d. átt við þegar ökutæki hefur verið forskráð í tiltekinn flokk með undanþágum og þar með verður óheimilt að breyta honum. Samgöngustofa afléttir lásnum að skilyrðum uppfylltum.

    (18) Afskráningarlás (afskráð ökutæki)

    Lásinn er settur á ökutæki af Samgöngustofu, sem afskráð hafa verið úr landi, til að koma í veg fyrir að hægt sé að gera breytingar á eignarhaldi ökutækis eða endurskrá það nema fara í gegnum ferli forskráningar á ný.

    (19) Skoðanalás

    Lásinn er settur á ökutæki af Samgöngustofu til að hindra það að skoðun verði skráð í ökutækjaskrá nema tæknideild sé með í ráðum við næstu opinberu skoðun þess. Þetta á við í þeim tilvikum þegar Samgöngustofa hefur rökstuddan grun um einhverskonar frávik sem getur varðað skráningu ökutækisins eða ástand en er þó ekki það alvarlegt að Samgöngustofa beiti því úrræði að fyrirskipa stöðvun og kyrrsetningu ökutækisins.

    Samgöngustofa stofnar mál í málakerfi sínu um svona tilvik, tilkynnir eiganda (umráðanda) um að lásinn hafi verið settur á, upplýsir hann um ástæður þess og leiðbeinir um aðgerðir til úrbóta (með bréfi inn á pósthólf island.is). Samgöngustofa afléttir lásnum að skilyrðum uppfylltum.

    (20) Forskráning ógilt

    Lásinn er settur á ökutæki af Samgöngustofu til staðfestingar á því að ökutæki muni ekki koma til nýskráningar. Lásinn kemur í veg fyrir nýskráningu ökutækis, að skoðun sé skráð á það og umráðamannaskipti. Til viðbótar er hægt að fjarlægja umráðandann af forskrá ökutækisins og birtist ökutækið þá ekki lengur í ökutækjaferli viðkomandi. Umráðandi á forskrá getur sótt um þetta og skulu viðeigandi gögn fylgja beiðninni sem sýna það með sannanlegum hætti að þetta sé tilfellið, til dæmis að ökutækinu hafi verið fargað eða flutt úr landi.