Fara beint í efnið

Viðurkenning mælingarmanna vegna burðarvirkis og hjólastöðu ökutækja

Samgöngustofa heldur lista yfir þá aðila sem eru viðurkenndir til útgáfu á burðarvirkis- og hjólastöðuvottorðum. Útgáfa þessara vottorða er hluti af viðgerðarferli tjónaökutækja en einnig getur þurft að framvísa hjólastöðuvottorði vegna endurskoðunar eða breytinga á ökutæki.

Mælingarmaður ber ábyrgð á því að mæling hafi verið framkvæmd á viðurkenndan hátt og í samræmi við gögn framleiðanda. Tryggja skal að burðarvirki eða hjólastaða ökutækis sé rétt þegar vottorð er gefið út. Brot á reglum um útgáfu vottorða getur varðað niðurfellingu viðurkenningar.

Ferli viðurkenningar mælingarmanns

  • Aðili skráir sig og sækir námskeið í útgáfu á burðarvirkisvottorðum eða hjólastöðuvottorðum hjá Iðan fræðslusetur.

  • Þegar aðili hefur setið námskeið sækir hann um úttekt á starfsstöð hjá Iðunni.

  • Að lokinni úttekt á starfsstöð tilkynnir Iðan um nýjan mælingarmann til Samgöngustofu, að því gefnu að viðkomandi hafi staðist úttekt.

  • Samgöngustofa viðurkennir mælingarmann og birtir viðkomandi á lista yfir viðurkennda mælingarmenn.

Eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram í tilkynningu:

  • Hvort um sé að ræða námskeið og úttekt í útgáfu á burðarvirkisvottorði eða hjólastöðuvottorði.

  • Upplýsingar um mælingarmann.

  • Upplýsingar um starfsstöð.

  • Dagsetningar námskeiðs og úttektar á starfsstöð.

  • Athugasemdir ef breytingar hafa verið gerðar á starfsmannahaldi (er viðkemur mælingarmönnum) verkstæðis.

Framlenging á viðurkenningu mælingarmanns

Viðurkenning mælingarmanns gildir í 5 ár. Áður en að gildistími viðurkenningar rennur út skal viðkomandi sækja endurnýjunarnámskeið hjá Iðunni til þess að viðhalda réttindum. Iðan tilkynnir til Samgöngustofu um mælingarmenn sem lokið hafa endurnýjun sem uppfærir gildistíma viðkomandi mælingarmanns.

Þjónustuaðili

Samgöngu­stofa