Viðurkenning mælingarmanna vegna burðarvirkis og hjólastöðu ökutækja
Samgöngustofa heldur lista yfir þá aðila sem eru viðurkenndir til útgáfu á burðarvirkis- og hjólastöðuvottorðum. Útgáfa þessara vottorða er hluti af viðgerðarferli tjónaökutækja en einnig getur þurft að framvísa hjólastöðuvottorði vegna endurskoðunar eða breytinga á ökutæki. Viðurkenning mælingarmanns miðast við þau námskeið sem hann hefur setið og lokið.
Mælingarmaður ber ábyrgð á því að mæling hafi verið framkvæmd á viðurkenndan hátt og í samræmi við gögn framleiðanda. Tryggja skal að burðarvirki eða hjólastaða ökutækis sé rétt þegar vottorð er gefið út.
Ferli viðurkenningar mælingarmanns
Fyrsta viðurkenning mælingarmanns
Sækja námskeið í útgáfu á burðarvirkisvottorðum eða hjólastöðuvottorðum hjá Iðan fræðslusetur.
Óska eftir úttekt á starfsstöð hjá Iðunni.
Sækja um viðurkenningu mælingarmanns hjá Samgöngustofu.
Samgöngustofa viðurkennir mælingarmann og birtir viðkomandi á lista yfir viðurkennda mælingarmenn.
Iðan skal einnig tilkynna um úttektir á mælingarmönnum til Samgöngustofu.
Framlenging á viðurkenningu mælingarmanns
Viðurkenning mælingarmanns gildir í 5 ár. Áður en að gildistími viðurkenningar rennur út skal viðkomandi sækja endurnýjunarnámskeið hjá Iðunni og standast úttekt á starfsstöð til þess að viðhalda réttindum og sækja um viðurkenningu á ný til Samgöngustofu. Iðan skal einnig tilkynna til Samgöngustofu um mælingarmenn sem lokið hafa endurnýjun. Þegar tilkynning hefur borist frá Iðunni og umsókn borist frá mælingarmanni er viðurkenning viðkomandi framlengd.
Breyting á starfsstöð eða mælibúnaði mælingarmanns
Viðurkenndur mælingarmaður skal tilkynna breytingar er varða viðurkenningu hans til Samgöngustofu. Til að mynda breytingar á starfsstöð, mælibúnaði eða starfslok. Breytingar á starfstöð og eða mælibúnaði geta kallað á að þörf sé á úttekt á starfsstöð að nýju þrátt fyrir að viðurkenning mælingarmanns hafi ekki runnið út.
Niðurfelling á viðurkenningu mælingarmanns
Samgöngustofa skal fella niður viðurkenningu mælingarmanns sem ekki hefur sinnt endurmenntun innan gildistíma viðurkenningar. Brot á reglum um útgáfu vottorða getur einnig valdið niðurfellingu á viðurkenningu mælingarmanns.
Kröfur til mælingarmanns
Eftirfarandi kröfur eru gerðar til viðurkennds mælingarmanns:
Mælingarmaður skal hafa menntun í bifvélavirkjun eða bílasmíði.
Mælingarmaður skal vera í föstu starfi á þeirri starfsstöð sem tilgreind er á umsókn.
Mælingarmaður skal hafa lokið viðeigandi námskeiði og úttekt á starfsstöð.
Kostnaður
Ekki er tekið gjald fyrir viðurkenningu mælingarmanns.
Þjónustuaðili
Samgöngustofa