Fara beint í efnið

Skráningareglur ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. ágúst 2024 -

Gildir frá: 01.06.2024. Skráningareglur ökutækja eru fyrir fagaðila sem sinna skráningum í umboði Samgöngustofu eða tilkynna breytingar í ökutækjaskrá samkvæmt lögum.

    Skráningar opinberra stofnana o.fl.

    Opinberar stofnanir geta hafa tiltekinn skráningaraðgang í ökutækjaskrá vegna starfsemi sinnar eða tilkynnt Samgöngustofu um skráningar með öðrum hætti. Sama getur átt við um aðra aðila sem samkvæmt lögum og reglum skulu tilkynna Samgöngustofu um tiltekin atriði er varða ökutæki.

    Efni kaflans

    Tilkynning um boðun ökutækis í skoðun

    Reynist ökutæki, sem lögreglan stöðvar, ekki vera í lögmæltu ástandi (vegna vanbúnaðar eða vanrækslu á skoðun) skal lögregla boða það til sérstakrar skoðunar hjá skoðunarstofu. Ekki skal veita lengri frest en sjö daga til að færa ökutækið til skoðunar.

    • Skoðunartegund: Boðun í skoðun (L)

    Niðurstaða þessarar skoðunar getur verið þrennskonar (í ökutækjaskrá):

    • Ástand, viku frestur (10). Ökutækið hefur verið stöðvað vegna vanbúnaðar. Sé ökutækið með gilda skoðun (eins og oftast er) verður það skráð í "Aukaskoðun að kröfu lögreglu" hjá skoðunarstofu, annars í þá skoðun sem það hefur vanrækt að fara í (yfirleitt "Aðalskoðun" eða "Endurskoðun"). Verði niðurstaða skoðunarstofunnar önnur en "Án athugasemda" eða "Lagfæring" þá skal hún verða "Notkun bönnuð" í þessum tilvikum.

    • Vanræksla á skoðun, viku frestur (11). Ökutækið hefur ekki verið fært til reglubundinnar skoðunar á réttum tíma og er ekki lengur með gilda skoðun. Ökutækið verður skráð í þá skoðun hjá skoðunarstofu sem það hefur vanrækt að fara í (yfirleitt í "Aðalskoðun").

    • Vanræksla á endurskoðun, viku frestur (12). Ökutækið hefur ekki verið fært til endurskoðunar á réttum tíma (yfirleitt í framhaldi af reglubundinni skoðun) og er ekki lengur með gilda skoðun. Ökutækið verður skráð í þá skoðun hjá skoðunarstofu sem það hefur vanrækt að fara í (yfirleitt í "Endurskoðun eftir frest").

    Komi í ljós að ökutæki hafi ranglega verið boðað til skoðunar vegna vanrækslu á skoðun kemur yfirleitt í ljós að villa er í útreikningi á næstu skoðun í ökutækjaskrá eða settur hefur verið rangur skoðunarmiði á ökutæki. Samgöngustofa leiðréttir slík tilvik í samráði við eiganda (umráðanda) og skoðunarstofu, eftir atvikum.

    Lögregla sendir tilkynningu um boðanir á netfangið okutaeki hjá Samgöngustofu.


    Tilkynning um tjónaökutæki

    Ökutæki sem orðið hefur fyrir tjóni sem getur haft áhrif á aksturseiginleika þess og akstursöryggi. Hafi slíkt tjón orðið á ökutæki skal skilgreina og skrá ökutækið sem tjóna­ökutæki og notkun þess bönnuð. Ekki má taka slíkt ökutæki í notkun á ný nema að fram fari viðgerð á því af viðurkenndu réttingaverkstæði. Samgöngustofa annast skráningu á tjónaökutækjum sam­kvæmt tilkynningu frá lögreglu í þeim tilvikum þegar hún er kölluð til vegna umferðaratvika.

    Grundvöllur að mati lögreglu á því hvort ökutæki ætti að vera merkt "Tjónaökutæki I" byggist á nokkrum einföldum atriðum. Ekki þarf sérstaka menntun eða reynslu á sviði bifvélavirkjunar til að geta framkvæmt eftirfarandi mat:

    • Líknarbelgir/loftpúðar hafa sprungið út: Gildir um alla líknarbelgi/loftpúða ökutækis, hvort sem þeir eru í stýri, í mælaborði, í hliðum eða annars staðar.

    • Ökutæki er óökuhæft vegna skemmda á hjóla- eða stýrisbúnaði: Hjólabúnaður eða stýrisbúnaður er á einhvern hátt skemmdur sem veldur því að ekki er hægt að aka ökutækinu. Sprungið dekk, ef felga sýnist óskemmd, veldur þó ekki eitt og sér merkingu.

    • Ökutæki hefur oltið: Beyglur og skemmdir eru verulegar víða á yfirbyggingu, hurðir mögulega gengnar úr lagi (passa ekki lengur í dyragöt), rúður eru brotnar eða farnar úr.

    • Verulegt hliðartjón á ökutæki: Augljósar skemmdir eru á sílsum (bitanum undir hurðunum á hvorri hlið), oft með þeim afleiðingum að hurðir virka ekki eðlilega eða hefur aflögun á dyragötum í för með sér.

    Lögregla sendir Samgöngustofu tilkynningu um tjónaökutæki á netfangið skraning hjá Samgöngustofu.


    Tilkynning um skyndiskoðun á ökutæki

    Skipulagt eftirlit lögreglu fer fram á vegum á ástandi vörubifreiða, hópbifreiða, svo og eftirvagna og tengitækja með leyfilega hámarks­þyngd yfir 3.500 kg. Eftirlitið felst í einum, tveimur eða öllum eftirfarandi þáttum:

    • a) sjónskoðun á ástandi ökutækis í kyrrstöðu,

    • b) könnun á nýlegu skyndiskoðunarvottorði eða skoðunarvottorði frá síðustu skoðun ökutækisins á skoðunarstöð,

    • c) skoðun hvort um vanbúið ökutæki sé að ræða.

    Skoðunin fer fram í samræmi við skoðunarhandbók ökutækja og tekur til eins, fleiri eða allra eftirfarandi atriða:

    • Auðkenni (tengibúnaður, merkingar o.fl.).

    • Hemlabúnaður (hemlabúnaður).

    • Stýrisbúnaður (stýrisbúnaður).

    • Útsýn (skynbúnaður og yfirbygging).

    • Ljósabúnaður og rafkerfi (skynbúnaður og tengibúnaður, merkingar o.fl.).

    • Ásar, hjól, hjólbarðar, fjöðrun (hjólabúnaður).

    • Undirvagn og viðfestur búnaður (burðarvirki, yfirbygging, hreyfill og fylgi­búnaður).

    • Annar búnaður, þ.m.t. ökuriti og hraðatakmörkunarbúnaður (yfirbygging og afl­rás).

    • Óþægindi, þ.m.t. útblástur og eldsneytis- og/eða olíuleki (hreyfill og fylgi­bún­aður og aflrás).

    Lögregla sendir tilkynningu um skyndiskoðanir (vegaskoðanir) á netfangið okutaeki hjá Samgöngustofu.


    Afklipping skráningarmerkja

    Lögregla fjarlægir skráningarmerki af ýmsum ástæðum af ökutækjum og verða ökutækin þá skráð úr umferð (vegna afklippingar).

    Rétt er að árétta að hafi skráningarmerki verið fjarlægð af ökutæki vegna vanbúnaðar eða vegna vanrækslu á skoðun (afklippt v/vanbúnaðar, v/skoðunar eða v/endurskoðunar) þarf eigandi (umráðandi) í öllum tilvikum að færa ökutækið til skoðunar hjá skoðunarstofu áður en heimilt verður að skrá ökutækið í umferð á ný (og fá skráningarmerkin). Að auki gildir:

    • Verði niðurstaða skoðunarstofunnar önnur en "Án athugasemda" eða "Lagfæring" í þessum tilvikum þá skal hún verða "Notkun bönnuð". Frestir til endurskoðunar eru ekki veittir.

    • Óheimilt verður að skrá ökutæki í umferð á ný (taka út númer) nema niðurstaða skoðunarinnar verði "Án athugasemda" eða "Lagfæring".

    Afklipptum skráningarmerkjum skilar lögregla til Samgöngustofu eða þjónustuaðila Samgöngustofu sem hefur samning um umferðarskráningu ökutækja.


    Meðhöndlun lista um óskoðuð ökutæki

    Þegar liðnir eru þrír mánuðir frá álagningu vanrækslugjalds sendir Samgöngustofa lögreglu yfirlit um óskoðuð ökutæki. Hefur lögregla þá heimild til að fjarlægja skráningarmerki af viðkomandi ökutæki og verða ökutækin þá skráð úr umferð (vegna afklippingar).

    Afklipptum skráningarmerkjum skilar lögregla til Samgöngustofu eða þjónustuaðila Samgöngustofu sem hefur samning um umferðarskráningu ökutækja.


    Eftirlýsingar

    Lögregla hefur heimild til að skrá ökutæki eftirlýst og hefur sínar forsendur fyrir því.

    Lögregla skráir sjálf eftirlýsingar í ökutækjaskrá.


    Lögreglulás

    Um er að ræða lásinn

    • "2 Lögreglulás". Ekki er unnt að skrá eigendaskipti, ökutæki í umferð eða afhenda skráningarmerki á ökutæki sem ber þennan lás. Lögregla verður að aflétta lásnum áður en unnt er að framkvæma skráningarnar. Þegar ökutæki er skráð eftirlýst er einnig settur lögreglulás á ökutækið.

    Lögregla skráir sjálf þennan ­lás í ökutækjaskrá.