Fara beint í efnið

Umferðareftirlit lögreglu vegna skoðunar og ástands

Umferðareftirlit lögreglu

Lögregla hefur með höndum eftirlit með ökutækjum í umferðinni með tilliti til skoðunar og ástands. Bæði getur hún stöðvað ökutæki og framkvæmt skyndiskoðun en einnig boðað ökutæki til skoðunar hjá skoðunarstofu sem hún hefur stöðvað af öðrum ástæðum.

  • Ef lögregla stöðvar ökutæki sem ekki er í lögmæltu ástandi, annað hvort vegna vanbúnaðar eða vanrækslu á skoðun, skal hún boða ökutækið til sérstakrar skoðunar hjá skoðunarstofu.

  • Skyndiskoðanir, eða vegaskoðanir, eru aðallega framkvæmdar á stærri ökutækjum, svo sem á flutningabílum og rútum. Skyndiskoðanir eru skipulagðar fyrirfram, ákveðinn búnaður til staðar og skoðunarskýrsla gefin út sem færð er í ökutækjaskrá.

Ökutæki boðað til skoðunar

Þegar lögregla boðar ökutæki til skoðunar gildir að:

  • Sérstakur boðunarmiði er límdur á skráningarmerkin.

  • Frestur er gefinn til að færa ökutækið til skoðunar hjá skoðunarstofu. Hámarksfrestur sem lögregla getur gefið til að færa ökutæki til skoðunar eru 7 dagar.

  • Boðunin er skráð í ökutækjaskrá.

Klippt af ökutæki

Lögregla getur fjarlægt skráningarmerki ökutækis ef

  • talið er að það ógni umferðaröryggi eða uppfylli ekki kröfur um gerð og búnað (sé vanbúið eða ástand ófullnægjand),

  • það hefur ekki verið fært til skoðunar innan tilgreinds frests.

Lögregla getur einnig fjarlægt skráningarmerki af ýmsum öðrum ástæðum sem ekki tengjast ástandi eða skoðun ökutækisins, svo sem ef það er ekki tryggt eða gjöld hafa ekki verið greidd.

Undirbúningur fyrir skoðun eftir boðun eða afklippingu

Þegar lögregla hefur

  • boðað ökutæki til skoðunar vegna vanbúnaðar, eða

  • klippt af ökutæki vegna ástands eða vegna vanrækslu á skoðun

skal ökutækið fært til skoðunar hjá skoðunarstofu. Mikilvægt er þá að hafa í huga að ekkert má vera að ökutækinu (nema eitthvað minniháttar) til að það standist skoðunina, því annars verður niðurstaða skoðunarinnar akstursbann og óheimilt er að afhenda skráningarmerki hafi þau verið klippt af.

Áríðandi er því að

  • láta strax yfirfara ástand ökutækisins og láta lagfæra allt sem að er

  • færa ökutækið svo til skoðunar hjá skoðunarstofu áður en frestur til þess rennur út.

Hafi ökutæki verið boðað til skoðunar og ekki vinnst tími til að ljúka viðgerðum áður en frestur til að færa það til skoðunar fyrir útgefinn frest lögreglu, má skrá ökutækið úr umferð og hætta notkun þess tímabundið. Við úttekt skráningarmerkja að viðgerðum loknum verður veittur frestur til að færa ökutækið til skoðunar.

Hafi ökutæki ekki verið fært til skoðunar áður en boðunarfrestur rennur út getur lögregla fjarlægt skráningarmerki af ökutækinu og þá verður óheimilt að afhenda þau nema niðurstaða skoðunar verði án athugasemda eða lagfæring.

Þjónustuaðili

Samgöngu­stofa