Fara beint í efnið

Skráningareglur ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. júní 2024 -

Gildir frá: 01.06.2024 (opnað fyrir aðgang 01.05.2024). Skráningareglur ökutækja eru fyrir fagaðila sem sinna skráningum í umboði Samgöngustofu eða tilkynna breytingar í ökutækjaskrá samkvæmt lögum.

    Tækniupplýsingaskráningar

    Eftirtaldir aðilar geta gert samning um að vinna í umboði Samgöngustofu hvað varðar öflun upplýsinga af ökutæki, staðfestingu á upplýsingum um ökutæki og um breytingar á skráningu ökutækja í tengslum við opinberar skoðanir þeirra (kallaðir þjónustuaðilar):

    • Faggiltar skoðunarstofur ökutækja

    • Umboð (ökutækja) með fulltrúa B (og C)

    Efni kaflans

    Skráning tölulegra gilda á US.111

    Töluleg gildi geta verið skráð sem heiltala eða rauntala. Gildi eru fengin með aflestri af ökutækinu (af upplýsingaspjöldum eða merkingum), með mælingu (málband eða vigt) eða með því að telja.

    Gildin eru tilkynnt af skoðunarstofu ökutækja í tengslum við skráningarskoðun eða breytingaskoðun (eða leiðréttingar) á rafrænu eyðublaði US.111. Þegar skylda er að skrá gildið og upplýsingar um það liggja ekki fyrir við skráningaskoðun eða breytingarskoðun, skal skoðun og skráningu ökutækisins hafnað.


    Fjöldi farþega

    Fjöldi sæta er fundinn út með því að telja leyfileg sæti (sem uppfylla kröfur samkvæmt skoðunarhandbókar m.t.t. staðsetningar og öryggis). Í hópbílum skilti um farþegafjölda borið saman við raunverulegan sæta/stæðafjöldi og borin saman við samþykkta teikningu (þó ekki krafist teikningar við nýskráningu gerðarviðurkenndrar hópbifreiðar).

    • Heildarfjöldi farþega (heiltala í stk): Fjöldi farþega (ekki áhafnar) í sætum og stæðum (þ.e. án ökumanns og án leiðsögumanns/-manna), þar með talin pláss fyrir hjólastóla (svæði fyrir hjóla­stóla í athugasemdum SH1, SH2 og SH3) sem koma til viðbótar hefðbundnum sætum.

    • Þ.a. hjá ökumanni (heiltala í stk): Hér er átt fjölda þeirra farþegasæta (af heildar farþegasætum) sem eru við hlið ökumanns (má segja að tilheyri sömu sætaröð og sæti ökumanns). Ef ekkert sæti er við hlið ökumanns (eða einhver vafi er á því vegna staðsetningar sæta hvort farþegasæti telst við hlið ökumanns eður ei) er skráð núll í þennan reit.

    • Þ.a. stæði (heiltala í stk): Fjöldi stæða fyrir standandi farþega í hópbifreið ef um það er að ræða (eingöngu fyrir hópbifreið).

    Breytingar á farþegafjölda getur verið af eftirfarandi ástæðum (meðal annars):

    • Við forskráningu vantar þessi gildi stundum (eða eru ónákvæm) og þá er skoðunarstofu látið eftir að skrá þau í tengslum við nýskráningu (mega ekki vera auð).

    • Breytingar á skipan farþegarýmis eða farmrýmis í hópbifreið (fjölgun eða fækkun á farþegum meðal annars). Þarf samþykki Samgöngustofu fyrirfram.

    • Breytingar á farþegafjölda fólks-, sendi- og vörubifreiða af ýmsum ástæðum, hvort sem því fylgir tilfærsla milli þessara ökutækisflokka eða ekki. Þarf ekki samþykki Samgöngustofu fyrirfram.


    Afköst og slagrými brunahreyfils

    Afköst og slagrými brunahreyfils eru tilkynnt þegar verið er að breyta hreyfli, og sú breyting hefur hlotið samþykki Samgöngustofu fyrirfram. Við skoðun eru gögnin notuð við að staðfesta að hinn nýi hreyfill sé kominn í ökutækið.

    • Afl hreyfils (rauntala í hestöflum): Afl (afköst) er gefið upp bæði í kílóvöttum (kW) og hestöflum (hö eða hp). Til að breyta á milli eru notaðar eftirfarandi formúlur (notaðir eru 4 aukastafir á stuðulinn), annars vegar "1 kW er 1,3410 hö" og hins vegar "1 hö er 0,7457 kW". Skráð inn samkvæmt upplýsingum á samþykktum gögnum.

    • Slagrými hreyfils (heiltala í cm3): Hér er um að ræða rúmtak brunahólfa í brunahreyflum, mælt í rúmsentimetrum. Skráð inn samkvæmt upplýsingum á samþykktum gögnum.

    Skráning eða breyting á hreyfilgerð eða afkastagetu getur verið af eftirfarandi ástæðum (meðal annars):

    • Við forskráningu eru þessar upplýsingar alltaf skráðar af Samgöngustofu.

    • Skipt er um brunahreyfil og annar nákvæmlega eins er settur í (hefðbundið viðhald). Þarf ekki samþykki Samgöngustofu eða gerir kröfu um breytingaskoðun.

    • Skipt er um brunahreyfil sem hefur annan orkugjafa, afköst og/eða slagrými. Þarf samþykki Samgöngustofu fyrirfram.

    • Mögulegt er að breyta afli heildargerðarviðurkenndra bifhjóla vegna ökuréttinda. Við slíka breytingu færist bifhjólið milli ökutækisflokka. Þarf eingöngu samþykki Samgöngustofu (breytingaskoðunar ekki krafist).


    Breidd og lengd ökutækis

    Breidd og lengd ökutækja er mæld með málbandi.

    • Lengd (heiltala í mm): Lengd ökutækis skal mæld milli þeirra hluta sem standa lengst fram og lengst aftur (tengibúnaður þó ekki mældur með). Þó skal mæla lengd eftirvagns frá hugsaðri lóðréttri línu í gegnum miðju tengihluta hans að aftasta hluta eftirvagnsins.

    • Breidd (heiltala í mm): Breidd ökutækis skal mæld milli þeirra hluta þess sem standa lengst til hliðar. Speglar eða ljósker, önnur en aðal-, vinnu- og hliðarljósker, svo og keðjur á hjólum, eru ekki talin til breiddar ökutækis. Sama gildir um festingar fyrir yfirbreiðslu og vörn þeirra. Belgur neðst á dekkjum dráttarvéla er ekki talin til breiddar hennar.

    Skráning eða breyting á breidd og lengd ökutækja getur verið eftirfarandi ástæðum (meðal annars):

    • Við forskráningu vantar þessi gildi stundum (eða eru ónákvæm) og þá er skoðunarstofu látið eftir að skrá þau í tengslum við nýskráningu (mega ekki vera auð).

    • Við breytingu á yfirbyggingu vörubifreiða, þó skulu útskiptanlegar yfirbyggingar eða útskiptanlegur áfestur búnaður ekki vera hluti breiddar eða lengdar ökutækisins (það er skráð í athugasemd með viðkomandi yfirbyggingu eða búnaði). Þarf ekki samþykki Samgöngustofu fyrirfram.

    • Við óverulega breytingu á breidd eða lengd eftirvagns í tengslum við viðhald og endurbætur hans. Miða skal við að hámarki 5% stærðarbreytingu frá upprunalega skráðri stærð. Þarf ekki samþykki Samgöngustofu fyrirfram. Allar meiri stærðarbreytingar þarfnast samþykkis Samgöngustofu fyrirfram (enda þá líklegt að verði sé að nota eldri skráningu eftirvagns á annan vagn og m.a. þurfi að greiða aðvinnslugjald af vinnunni og sækja um skráningu á nýjum eftirvagni).


    Leyfð heildarþyngd ökutækis

    Leyfð heildarþyngd ökutækis er gefin upp á upplýsingaspjaldi (sjá neðst).

    • Leyfð heildarþyngd (heiltala í kg): Mesta leyfða heildarþyngd ökutækisins sem framleiðandi ákveður á grundvelli tæknilegra forsendna.

    Skráning eða breyting á leyfðri heildarþyngd ökutækja getur verið eftirfarandi ástæðum (meðal annars):

    • Við forskráningu vantar þetta gildi stundum og þá er skoðunarstofu látið eftir að skrá það í tengslum við nýskráningu (má ekki vera autt, undanskilin eru þó bifhjól, torfærutæki, utanvegaökutæki og fornökutæki).

    • Framleiðandi má breyta gildinu ef viðurkenning ökutækisins heimilar það (gildir oft um ökutæki í atvinnuakstri). Þarf samþykki Samgöngustofu fyrirfram. Setja verður nýtt upplýsingaspjald í ökutækið samkvæmt fyrirmælum Samgöngustofu.


    Leyfðar ásþyngdir

    Leyfðar ásþyngdir ökutækis eru gefnar upp á upplýsingaspjaldi (sjá neðst).

    • Leyfð ásþyngd x. ás (heiltala í kg): Mesta leyfða heildarþyngd sérhvers áss sem framleiðandi ákveður á grundvelli tæknilegra forsendna. Alls eru þetta fimm reitir (fyrir fyrstu fimm ása ökutækisins, afgangurinn er tilkynntur í athugasemdareit).

    Skráning eða breyting á leyfðum ásþyngdum ökutækja getur verið eftirfarandi ástæðum (meðal annars):

    • Við forskráningu vantar þessi gildi stundum (eða eru ónákvæm) og þá er skoðunarstofu látið eftir að skrá þau í tengslum við nýskráningu (mega ekki vera auð, undanskilin eru þó bifhjól, torfærutæki, utanvegaökutæki og fornökutæki).

    • Við skipti á ásum má setja öflugari ás undir ökutækið og nota upplýsingar frá framleiðanda ássins sem nýja leyfða heildarþyngd ássins. Þarf ekki samþykki Samgöngustofu fyrirfram.

    • Við fjölgun ása undir eftirvagni. Ekki verður þó heimilt að hækka leyfða heildarþyngd eftirvagnsins, slík breyting á einungis að vera til að auka akstursöryggi hans. Þarf samþykki Samgöngustofu fyrirfram (enda gæti m.a. þurft að greiða aðvinnslugjald af vinnunni).


    Eigin þyngd ökutækis

    Eigin þyngd ökutækis mæld á bílavog og skráð inn samkvæmt vigtarseðli sem gefinn er út af löggiltum vigtarmanni.

    • Eiginþyngd (heiltala í kg): Eigin þyngd ökutækis er þyngd ökutækis sem tilbúið er til notkunar, að meðtöldum búnaði sem því fylgir að jafnaði, eldsneyti, smurolíu, kælivatni, varahjóli, verkfærum og þess háttar. Hún er án ökumanns.

    Vigtarseðill er skjal sem löggiltur vigtarmaður gefur út að lokinni vigtun á löggiltri vog til staðfestingar á þyngd þess sem vegið er (sjá nánar um fylgigögn með US.111). Við vigtun ökutækja skal miðað við að þau séu í því ástandi að gefa raunsannar upplýsingar um eiginþyngd miðað við skilgreiningu á eiginþyngd. Að auki gildir:

    • Heimilt er að vigta vöru- og hópbifreið (ekki fólks- eða sendibifreið eða önnur ökutæki) þótt eldsneytisgeymir hennar sé ekki fullur, enda leggi vigtarmaður þá mat á magn í geymi (út frá eldsneytismæli, 25%, 50% eða 75%). Til að skoðunarstofa geti móttekið vigtarseðilinn skulu fylgja með upplýsingar um stærð eldsneytisgeymanna og ber eigandi (umráðandi) ábyrgð á að útvega þær upplýsingar frá umboði ökutækis, framleiðanda, tækniþjónustu eða frá sambærilegum aðila.

    • Hafi eldsneytisgeymar bifreiða verið stækkaðir eða þeim fjölgað skal við vigtun og skráningu eiginþyngdar einungis miða við eldsneytismagn sem samsvarar upphaflegri geymastærð bifreiðarinnar.

    • Við móttöku vigtarseðils í skoðunarstofu (í tengslum við skoðun ökutækis) má hann ekki vera eldri en 7 daga gamall.

    Skráning eða breyting á eigin þyngd ökutækja getur verið eftirfarandi ástæðum (meðal annars). Eigin þyngd skal breytt í samræmi við vigtarseðil ef munur á vigtarseðli og skráðri eigin þyngd er meiri en 50 kg:

    • Við forskráningu vantar þetta gildi stundum (eða er ónákvæmt) og þá er skoðunarstofu látið eftir að skrá það í tengslum við nýskráningu (má ekki vera autt).

    • Breytingar eru gerðar á fjölda og/eða gerð ása vörubifreiða samkvæmt fyrirmælum framleiðanda. Þarf samþykki Samgöngustofu fyrirfram.

    • Breytingar eru gerðar á grind og yfirbyggingum vöru- og hópbifreiða samkvæmt fyrirmælum framleiðanda. Þarf ekki samþykki Samgöngustofu fyrirfram.

    • Breytingar eru gerðar á innra skipulagi fólks- og farmrýma hópbifreiða (innan þeirra marka sem framleiðandi hefur sett). Þarf samþykki Samgöngustofu fyrirfram.

    • Gerðar eru breytingar á farþegafjölda (bæði í hópbifreið og öðrum ökutækjum). Þarf samþykki Samgöngustofu fyrirfram ef um hópbifreið er að ræða, annars ekki.

    • Breytingar eru gerðar á gerð eða stærð hreyfils eða viðbótarorkugjafa. Þarf samþykki Samgöngustofu fyrirfram.

    • Við úttekt á sérbúnaði fyrir hreyfihamlaða ökumenn. Þarf ekki samþykki Samgöngustofu fyrirfram.

    • Þegar veigamiklum atriðum bifreiðar hefur verið breytt frá upprunalegri útfærslu framleiðanda (verður breytt bifreið). Þarf ekki samþykki Samgöngustofu fyrirfram.

    • Notkunarflokki er breytt í húsbifreið eða rallbifreið, og líka ef breytt er til baka í almenna notkun úr þessum notkunarflokkum. Þarf ekki samþykki Samgöngustofu fyrirfram.

    • Ökutækið er fært milli ökutækisflokka (þarf þó ekki ef fólksbifreið eða sendibifreið er færð til baka í upprunalegt horf því þá má nota fyrra gildi). Þarf ekki samþykki Samgöngustofu fyrirfram.


    Leyfð þyngd vagnlestar

    Leyfð þyngd vagnlestar er gefin upp á upplýsingaspjaldi (sjá neðst).

    • Þyngd vagnlestar (heiltala í kg): Leyfileg hámarksþyngd bifreiðar og eftirvagnsins sem hann dregur sem framleiðandi ákveður á grundvelli tæknilegra forsendna.

    Skráning eða breyting á leyfðri þyngd vagnlestar getur verið eftirfarandi ástæðum (meðal annars):

    • Við forskráningu vantar þetta gildi stundum og þá er skoðunarstofu látið eftir að skrá það í tengslum við nýskráningu sé það til staðar (má samt vera autt).


    Leyfð þyngd eftirvagns (dráttargeta)

    Leyfð þyngd eftirvagns er gefin upp á upplýsingaspjaldi. Horft er til raunþyngdar eftirvagnsins sem dreginn er (þyngd hans með hlassi) í þessu tilviki (en minnt á að viðeigandi ökuréttindi þarf líka).

    • Heimil þyngd óhemlaðs eftirvagns (heiltala í kg): Mesta þyngd eftirvagns (sem hefur ekki neina hemla) sem ökutækið má draga.

    • Heimil þyngd hemlaðs eftirvagns (heiltala í kg): Mesta þyngd eftirvagns (sem hefur sína eigin hemla) sem ökutækið má draga.

    Skráning eða breyting á dráttargetu ökutækja getur verið eftirfarandi ástæðum (meðal annars):

    • Við forskráningu vantar þessi gildi stundum og þá er skoðunarstofu látið eftir að skrá það í tengslum við nýskráningu (mega ekki vera auð ef ökutækið hefur tengibúnað).

    • Við ásetningu eða breytingu á tengibúnaði. Þarf ekki samþykki Samgöngustofu fyrirfram.