Skráningareglur ökutækja
Þjónustuaðili:
Gildir frá: 01.06.2024. Skráningareglur ökutækja eru fyrir fagaðila sem sinna skráningum í umboði Samgöngustofu eða tilkynna breytingar í ökutækjaskrá samkvæmt lögum.
Tækniupplýsingaskráningar
Eftirtaldir aðilar geta gert samning um að vinna í umboði Samgöngustofu hvað varðar öflun upplýsinga af ökutæki, staðfestingu á upplýsingum um ökutæki og um breytingar á skráningu ökutækja í tengslum við opinberar skoðanir þeirra (kallaðir þjónustuaðilar):
Faggiltar skoðunarstofur ökutækja
Umboð (ökutækja) með fulltrúa B (og C)
Upplýsingar á skráningarskírteini
Skráningarskírteini ökutækja inniheldur mikið af gagnlegum upplýsingum um ökutækið. Upplýsingarnar eru settar fram með sam-evrópskum hætti þannig að reitir skírteinisins eru samræmdir og merktir.
Reitir A: Skráningarnúmer / fastanúmer
A: Skráningarnúmerið er áletrunin á númeraplötum ökutækisins. Áletrunin er mest sex rittákn, blanda af bókstöfum og tölustöfum.
Fastanúmer: Öllum ökutækjum er úthlutað fastanúmeri við skráningu og er það yfirleitt sú áletrun sem er á skráningarmerkinu (reiturinn við hliðina á A-reit). Hafi ökutækið einkamerki eða númer af eldri gerð er áletrunin á skráningarmerkinu önnur.
Skráningarflokkur: Gerð skráningarmerkis sem er á ökutækinu, s.s. almenn merki, VSK-merki eða einkamerki.
Reitir B: Dagsetning fyrstu skráningar ökutækis / nýskráning
B: Dagsetning fyrstu skráningar er sá dagur sem ökutækið var fyrst tekið í notkun. Ökutækið gæti fyrst hafa verið skráð erlendis (flutt inn notað) eða hérlendis (flutt inn nýtt) og sést það í reitnum innflutningsástand.
Nýskráningardagur: Reiturinn fyrir neðan B-reit er nýskráningardagur, það er dagurinn sem ökutækið var fyrst skráð á Íslandi.
Framleiðsluár: Þess er yfirleitt ekki getið nema á eldri ökutækjum og skráningu þess er að mestu hætt. Þetta er það ár sem framleiðandi gefur upp að smíði ökutækisins hafi lokið.
Árgerð: Hennar er yfirleitt ekki getið nema á eldri ökutækjum og skráningu hennar var almennt hætt um síðustu aldamót. Árgerð er óljóst hugtak og enginn sameiginlegur skilningur á því. Það getur þó skipt máli í tilviki fornbifreiða vegna gjalda.
Reitir C: Eigandi / umráðandi
C.1.1+C.1.3: Nafn og heimilsfang handhafa skráningarskírteinisins (þarna kemur umráðandi ef hann er skráður, annars eigandi). Aðili er móttakandi bréfa og upplýsinga um ökutækið frá hinu opinbera og ber ábyrgð á því samkvæmt umferðarlögum.
C.2.1: Nafn eiganda og reiturinn við hliðina inniheldur kennitölu hans.
C.3.1: Nafn umráðanda og reiturinn við hliðina inniheldur kennitölu hans.
Eigendaskráning: Reitur þarna hjá C-reitunum fyrir skráningardag núverandi eiganda.
Reitir D: Tegund og útfærsla ökutækis
D.1: Tegund ökutækis, yfirleitt nafn framleiðands (til dæmis Renault).
D.2: Gerð, afbrigði og útfærsla ökutækis, sem eru nákvæmari upplýsingar um þessa ákveðnu gerð ökutækisins (geta verið orð og/eða kóðar).
D.3: Undirtegund ökutækisins (til dæmis Class C).
Reitur E: Verksmiðjunúmer ökutækis (VIN)
E: Verksmiðjunúmer, eða VIN, er einnig þekkt sem grindarnúmer. Þetta er einkvæmt númer sem auðkennir ökutækið á líftíma þess. Það er vel sýnilegt og þarf reglulega að yfirfara það, t.d. við reglubundna skoðun. Óheimilt er að eiga við, hylja, skemma, færa til eða fjarlægja verksmiðjunúmer nema með samþykki Samgöngustofu.
Reitir F: Leyfð heildarþyngd ökutækis
F.1: Leyfð heildarþyngd ökutækisins eins og hún er gefin upp af framleiðanda. Þetta er tæknilega leyfð hámarksþyngd, þ.e. hámarksþyngd sem ökutækið getur borið í akstri, með farmi og farþegum.
F.3 (athugasemd): Leyfð þyngd vagnlestar, þ.e. leyfileg hámarksþyngd bifreiðar og eftirvagnsins sem hann dregur. Þetta gildi birtist í reitnum "Athugasemdir" þegar það er skráð (ekki sérstakur reitur).
Burðargeta: Útreiknaður mismunur leyfðrar heildarþyngdar og eiginþyngdar (í kg), uppgefið til þæginda.
Reitur G: Eigin þyngd ökutækis
G: Eigin þyngd ökutækis er þyngd ökutækis sem tilbúið er til notkunar, að meðtöldum búnaði sem því fylgir að jafnaði, eldsneyti, smurolíu, kælivatni, varahjóli, verkfærum og þess háttar. Eigin þyngd inniheldur almennt ekki ökumann.
Reitur H: Gildistími skráningarskírteinis
H: Venjulega er þessi reitur tómur þar sem gildistími skráningarskírteinisins er ótakmarkaður. Hins vegar geta verið undantekningar og þá er dagsetning í þessum reit (þegar um tímabundna skráningu er að ræða) og verður notkun ökutækisins óheimil eftir það.
Reitur I: Útgáfudagur skráningarskírteinisins
I: Þetta er sá dagur sem skírteinið var prentað út (eða gefið út á rafrænu formi).
Reitur J: Ökutækisflokkur
J: Ökutækisflokkur er Evrópuflokkun ökutækisins. Ökutæki flokkast í M (bifreiðir til fólksflutninga), N (bifreiðir til vöruflutninga), O (eftirvagna bifreiða), L (tví/þrí/fjórhjól), T (dráttarvélar) og R (eftirvagna dráttarvéla). Einnig er flokkurinn TO (torfærutæki), en hann er séríslenskur.
Notkunarflokkur: Reitur fyrir neðan, tilgreinir þann staðlaða notkunarflokk sem nauðsynlegt er að skrá af ýmsum ástæðum, t.d. varðandi skoðunarreglu, heimildir í tengslum við gerð og búnað, eða af skattalegum ástæðum.
Reitur K: Gerðarviðurkenning
K: Gerðarviðurkenningarnúmer sem segir til um þá viðurkenningu sem ökutækið er skráð á. Þetta er eingöngu mikilvægt fyrir skráningaraðila í tengslum við fyrstu skráningu í sérhverju landi.
Reitir N: Leyfðar ástþyngdir ökutækisins
N.1, N.2, N.3 og N.4: Leyfð ásþyngd á fyrstu fjóra ásana (í kg), uppgefið af framleiðanda. Þessi gildi eru aðallega notuð á atvinnubílstjórum í tengslum við hleðslu bílanna.
Reitir O: Dráttargeta vélknúinna ökutækja
O.1: Þyngd hemlaðs eftirvagns (í kg) sem gefur upp mestu þyngd eftirvagns (sem hefur sína eigin hemla) sem ökutækið má draga. Horft er til raunþyngdar eftirvagnsins sem dreginn er (þyngd hans með hlassi) í þessu tilviki, en minnt er á að hafa verður ökuréttindi til að draga eftirvagn og miðast þau réttindi alltaf við skráða leyfða heildarþyngd eftirvagnsins.
O.2 Þyngd óhemlaðs eftirvagns (í kg) sem gefur upp mestu þyngd eftirvagns (sem hefur ekki neina hemla) sem ökutækið má draga. Að öðru leyti gildir það sama og um O.1.
Reitir P: Hreyfill og afköst ökutækisins
P.1: Slagrými (í rúmsentimetrum) brunahreyfils. Hér er ekkert gildi annars, t.d. þegar rafmótor er í ökutæki.
P.2: Afl hreyfils eða svokölluð hámarksafköst (í kW). Ef ökutækið hefur fleiri en einn hreyfil eru afköstin annað hvort öll lögð saman (og er þá bara ein tala) eða samanlögð afköst hverrar hreyfilgerðar um sig eru tilgreind (með + á milli) - frá 01.01.2025.
P.3: Tegund(ir) orkugjafa sem notaðir eru til að knýja ökutækið (sem þarf að fylla reglulega á). Þegar orkugjafar eru fleiri en einn, t.d. bensín og rafhleðsla (tengdur í rafmagn), er þeirra getið með skástriki á milli.
Reitur Q: Aflþyngdarhlutfall í kW/kg
Q: Afl/þyngdarhlutfall bifhjóls (aðeins skráð fyrir bifhjól, þ.e. tví/þrí/fjórhjól).
Reitur R: Litur ökutækisins
R: Litur ökutækisins í einfaldri mynd, þ.e. ekki nákvæm útfærsla lakks eða neitt slíkt. Ef ökutæki er tvílitt er reynt að skrá þá samsetningu.
Reitir S: Fjöldi sitjandi og standandi í ökutækinu á ferð
S.1: Sætafjöldi, að meðtöldu sæti fyrir ökumann og aðra í áhöfn, og fyrir hjólastóla (nema í strætó ef hjólastóll tekur pláss frá standandi farþegum). Þessi tala sýnir þann fjölda sem mest getur verið í ökutækinu í akstri (önnur sæti sem kunna að vera í ökutækinu er þá eingöngu heimilt að nota þegar það er kyrrstætt, t.d. eins og getur verið að finna í húsbíl).
S.2: Stæðafjöldi, þetta er hámarksfjöldi standandi farþega í hópbifreiðum (eingöngu) sem heimilt er að hafa í þeim í akstri (t.d. strætó).
Reitir U: Hávaðamengun ökutækis
U.1 (athugasemd): Hávaðamæling í kyrrstöðu (í dB(A)). Þetta gildi birtist í reitnum "Athugasemdir" þegar það er skráð (ekki sérstakur reitur) - frá 01.01.2025.
U.2 (athugasemd): Snúningshraði brunahreyfils (í snúningum á mínútu) þegar hávaðinn í reit U.1 mældist. Þetta gildi birtist í reitnum "Athugasemdir" þegar það er skráð (ekki sérstakur reitur) - frá 01.01.2025.
Reitir V: Losunarmengun ökutækis
V.7: Útblástur CO2 (í g/km) sýnir magn CO2 sem ökutækið losar á hverjum kílómetra (í grömmum). Því hærri sem talan er, því meira mengar ökutækið og því hærri verða oft innflutningsgjöld. Fleiri gildi um losun kunna að birtast í athugasemdareit (séu þau skráð).
V.9 (athugasemd): Mengunarstaðall ökutækisins eða umhverfisflokkur. Þetta er hinn svokallaði Euro staðall sem byrjaði á tölunni 1 þannig að hærra gildi þýðir umhverfisvænna ökutæki. Þetta gildi birtist í reitnum "Athugasemdir" þegar það er skráð (ekki sérstakur reitur) - frá 01.01.2025.
Aðrir reitir
Lengd og breidd: Reitir fyrir lengd og breidd ökutækisins (í mm).
Efni kaflans
Yfirferð í samanburðarskoðun og fulltrúaskoðun
Forskráning gerðarviðurkenndra ökutækja byggir á gögnum frá bæði framleiðanda og gerðarviðurkenningaraðila og á að endurspegla nákvæma gerð og búnað viðkomandi ökutækis. Gerðarviðurkennt ökutæki er auðkennt í ökutækjaskrá með textunum "Nýtt gvk." eða "Notað gvk." í reitnum "Innflutningsástand".
Við samanburðarskoðun (sem framkvæmd er á skoðunarstofu ökutækja) og fulltrúaskoðun (sem framkvæmd er af fulltrúa B hjá umboði) fer fram athugun á því hvort gerðarviðurkennt ökutæki sé í samræmi við tilteknar upplýsingar sem forskráðar hafa verið í ökutækjaskrá. Einnig til að skrá tilteknar viðbótarupplýsingar sem ekki hafa verið skráðar við forskráningu.
Óheimilt er með öllu að gera breytingar á gerðarviðurkenndu ökutæki áður en það er nýskráð. Gildir það um öll gerðarviðurkennd ökutæki sem verið er að nýskrá, hvort sem þau eru viðurkennd sem ný eða notuð. Þetta gildir um allar breytingar sem hafa áhrif á skráningu ökutækisins í ökutækjaskrá. Uppgötvist við skoðun að ökutækinu hefur verið breytt skal hafna skoðun og nýskráningu (sjá um aðferðir við úrlausn neðar).
Komi upp vafatilfelli í forskráningarferlinu þá er henni læst með nýskráningarlás og umráðanda á forskráningu tilkynnt um það. Í þeim tilvikum verður skoðunarstofan eða fulltrúi, eftir atvikum, að vera í sambandi við tæknideild Samgöngustofu þegar skoðunin fer fram til að heimilt verði að aflétta lásnum.
Minnt er á að samanburðarskoðun og fulltrúaskoðun er síðasta skref á viðurkenningu ökutækis til skráningar og notkunar hérlendis. Afar áríðandi er því að vanda vel til verka.
Auðkenni ökutækis og viðurkenning
Yfirfara skal neðangreind atriði og bera saman við það sem hefur verið skráð í ökutækjaskrá. Þegar skylda er að skrá gildi eða heimilt er að breyta þeim eða leiðrétta í skoðun, þá tilkynnir fulltrúi A á eyðublaði US.129 (fulltrúaskoðun), fulltrúi C á eyðublaði US.112 (skráning þjóðargerðarviðurkennds tengibúnaðar) og skoðunarmaður skoðunarstofu á rafrænu eyðublaði US.111 (breytingablað). Ef um frávik er að ræða, sem ekki er hægt að leiðrétta með þeim aðferðum sem lýst er, skal hafna skoðun og skráningu, sjá þó sérstakt verklag er varðar ófullgerð ökutæki.
Verksmiðjunúmer
Sérstök áhersla er lögð á að allt verksmiðjunúmerið sé skoðað og vandlega borið saman við skráningargögn.
Það telst frávik ef skráð gildi í ökutækjaskrá er ekki það sama og skráð er á ökutækið.
Gerðarviðurkenning
Ganga skal úr skugga um að ökutæki sé í samræmi við þá gerð sem það er skráð eftir, að því er varðar hönnun, innréttingu og búnað (á bara við í fulltrúaskoðun, ekki þörf á að gera þetta í samanburðarskoðun).
Það telst frávik ef fulltrúi verður var við annmarka hvað varðar skráningu á gerð.
Ósamræmi sem þarfnast aðgerða
Við fulltrúaskoðun og samanburðarskoðun skal yfirfara neðangreind atriði og bera tæknilega útfærslu ökutækisins saman við það sem hefur verið skráð í ökutækjaskrá.
Ef um frávik er að ræða skal hafna skoðun og skráningu.
Þegar ósamræmi sem heimilt er að laga uppgötvast í fulltrúaskoðun þá tilkynnir fulltrúi um rétt gildi (US.129) og lætur fylgja með nýskráningarbeiðni. Þegar ósamræmið uppgötvast í samanburðarskoðun þá tilkynnir skoðunarmaður um rétt gildi á rafrænu eyðublaði um breytingu á ökutæki (US.111), stundum gæti þurft að skrá upplýsingarnar sem athugasemd.
Litur ökutækis
Bera skal saman skráðan lit og lit á ökutæki. Við val á lit úr lista yfir mögulega liti er horft til þess að hann sé fyrst og fremst notaður til að geta auðkennt ökutækið við ýmis tækifæri, s.s. við eftirlýsingu eða í leigubílaöppum.
Það telst EKKI ósamræmi ef lit vantar eða litur er rangur í ökutækjaskrá. Réttur litur skal tilkynntur.
Þyngdartölur
Bera skal saman þyngdartölur sem skráðar hafa verið í ökutækjaskrá við það sem stendur á ökutæki. Um er að ræða leyfða heildarþyngd (reit F.1), leyfðar ásþyngdir (reiti N.x) og hámarksþyngd vagnlestar (skráð athugasemd). Þessar tölur eru skráðar á upplýsingaspjaldi ökutækja sem að auki inniheldur verksmiðjunúmer ökutækisins. Í bifreiðum og dráttarvélum er spjaldið yfirleitt í hurðarstaf, á eftirvögnum er það yfirleitt fremst á grindarbita og á bifhjólum er það yfirleitt á grind (þó stundum undir sæti eða hlíf sem auðvelt er að fjarlægja).
Það telst frávik ef skráð gildi í ökutækjaskrá er ekki það sama og er á ökutækinu, eða upplýsingar vantar á ökutækið. Það telst ekki frávik ef þyngdartölur vantar í ökutækjaskrá en eru til staðar á ökutækinu en upplýsa skal Samgöngustofu (með athugasemd).
Ljósabúnaður
Athuga skal hvort aðalljósker (lágljós og háljós) séu rétt ljósastillt og stilla þá ljósin rétt ef þörf er á. Einnig er æskilegt að farið sé yfir ljósabúnaðinn að öðru leyti (ljósker, glitaugu og glitmerkingar ef þær eru til staðar) þegar um nýjar gerðir er að ræða, stærri ökutæki eða ökutæki í sérstökum notkun (t.d. húsbifreiðir). Reglur um ljósabúnað er að finna í skoðunarhandbók ökutækja.
Það telst frávik ef ekki er hægt að stilla aðalljós rétt eða ef það uppgötvast að óleyfilegur ljósabúnaður er á ökutækinu.
Farþegafjöldi (sæti og stæði)
Bera skal saman skráðan sætafjölda og sætafjölda í ökutæki. Um er að ræða sætafjölda (reit S.1) og stæðafjölda (reit S.2) sé um hópbifreið að ræða. Undir sætafjölda falla öll sæti ökutækisins (fyrir farþega og áhöfn), hvort sem þau eru föst eða fyrir hjólastóla (á hjólastólasvæði). Öll föst sæti bifreiða og dráttarvéla verða að hafa öryggisbelti (þó þurfa farþegasæti strætisvagna ekki að hafa öryggisbelti).
Það telst frávik ef sætafjölda ber ekki saman á einhvern hátt (og líka ef skráningu á sætafjölda vantar í ökutækjaskrá).
Það telst frávik ef skilti um farþegafjölda í hópbifreið er ekki í samræmi við ökutækið og skráðar upplýsingar.
Það telst frávik ef áskilið öryggisbelti vantar.
Hjólbarðastærð
Bera skal saman hjólbarðastærð ökutækis og skráða hjólbarðastærð. Öll rittákn í skráðri hjólbarðastærð skulu stemma saman.
Það telst frávik ef hjólbarðastærð ökutækis (annarra en dráttarvéla) er önnur en skráð er og sú stærð er ekki í lista yfir leyfilegar stærðir samkvæmt gerðarviðurkenningu.
Það telst EKKI frávik þegar í ljós kemur að hjólbarðastærð ökutækis er önnur en skráð er (eða hana vantar í ökutækjaskrá) en hana er að finna í lista yfir leyfilegar stærðir samkvæmt gerðarviðurkenningu. Í tilviki dráttarvéla eru leyfilegar stærðir ekki uppgefnar og því þarf ekki að bera saman við lista þar. Rétt hjólbarðastærð er tilkynnt.
Lengd og breidd
Sé tilefni til skal mæla bæði lengd og breidd og bera saman við skráð gildi. Á það helst við nýskráningu dráttarvéla (sem afhentar eru á breiðari hjólbarðagerðum), festivagna (vélaflutningavagnar sem eru breiðari og jafnvel lengri) og vöruflutningabifreiða (breiðari vegna yfirbyggingar). Séu ökutæki utan hámarksstærðarmarka eiga þau að vera á undanþágumerkjum eða utanvegamerkjum.
Það telst frávik ef lengd eða breidd ökutækja mælist meiri en skráðar upplýsingar. Athuga að þegar hægt er að breyta lengd ökutækis eða breidd þess með einföldum hætti skal sýnt fram á að það sé hægt svo lengd og breidd passi við það sem skráð er.
Það telst EKKI frávik ef lengd eða breidd ökutækja mælist minni en skráðar upplýsingar. Rétt lengd og breidd er tilkynnt.
Það telst frávik ef stærð ökutækis mælist utan hámarksstærðarmarka og skráningarmerkin til afhendingar eru önnur en undanþágumerki eða utanvegamerki.
Tengibúnaður (ekki viðurkenndur)
Heimilt er að tilkynna að á ökutæki sé kominn þjóðargerðarviðurkenndur tengibúnaður (sem fulltrúi C getur skráð) eða tilkynna tengibúnað sem er hluti af gerðarviðurkenningu frá framleiðanda.
Það telst frávik ef óviðurkenndur tengibúnaður hefur verið settur á ökutækið fyrir nýskráningu. En þegar það hefur gerst fyrir mistök eða vanþekkingu er fulltrúa við fulltrúaskoðun heimilt að leyfa nýskráningu á ökutækinu að þeim skilyrðum uppfylltum að ökutækið verði ekki afhent fyrsta eiganda fyrr en tengibúnaður hefur verið skráður. Við samanburðarskoðun á skoðunarstofu má af sömu ástæðum leyfa nýskráningu á ökutækinu að uppfylltum þeim skilyrðum að tengibúnaður verði strax í kjölfarið tekinn út og samþykktur. Áríðandi er að gera þessa úttekt eftir að ökutækið hefur verið nýskráð af því að breytingaskoðun má ekki koma inn á undan fulltrúaskoðun eða samanburðarskoðun.
Það telst EKKI frávik ef settur hefur verið á ökutæki þjóðargerðarviðurkenndur tengibúnaður eða á ökutæki er tengibúnaður sem er hluti af heildargerðarviðurkenningu þess. Í fyrra tilvikinu er hann tilkynntur af fulltrúa C (US.112) og í því síðara af fulltrúa A (merkt við að ökutækið sé búið gvk-tengibúnaði frá framleiðanda) (US.112-1). Ef tengibúnaðurinn er úttekinn og samþykktur af skoðunarstofu er ásetning hans tilkynnt á US.111 (skrifa í athugasemdareit tækniupplýsingar um dráttarstól).
Skermun hjóla á bifhjólum
Hjól bifhjóls skulu búin hjólhlífum sem uppfylla kröfur um skermun hjóla samkvæmt reglugerð um gerð og búnað ökutækja. Ef ástæða er til skal þetta skoðað (fjölbreytileiki hjólhlífa getur verið nokkur og nota þarf réttar hjólhlífar).
Það telst frávik ef hjólhlífar uppfylla ekki kröfur um skermun hjóla sem lýst er í skoðunarhandbók ökutækja (skermun hjóla).
Áletranir í hópbifreiðum (merkingar)
Áletranir í hópbifreiðum skulu yfirfarnar og tryggt að þær séu í samræmi við kröfur í reglugerð um gerð og búnað ökutækja. Um er að ræða varúðarskilti, skilti um fjölda farþega og leiðsögumenn, skilti um hámarksþyngd farangurs, um staðsetningu slökkvi- og sjúkrakassa, og um bann við reykingum.
Það telst frávik ef merkingar uppfylla ekki kröfur um áletranir, lit, stærð og staðsetningu eins og þeim er lýst í skoðunarhandbók ökutækja (skoðunaratriði 9.9 Áletranir í hópbifreiðum).
Ökutæki breytt eða tjón er á ökutæki
Ökutæki á augljóslega að vera heilt og ekki vera skemmt eða tjónað. Ökutæki má ekki hafa verið breytt í veigamiklum atriðum frá útfærslu framleiðanda.
Það telst frávik ef tjón sést á ökutækinu eða það sést að (augljóslega léleg) viðgerð á fyrra tjóni hefur farið fram.
Það telst frávik hafi ökutæki verið breytt í veigamiklum atriðum frá útfærslu framleiðanda. Það ætti að vera alveg augljóst að það hafi verið gert.
Annar samanburður og skráningar
Staða akstursmælis
Akstursmælir er í flestum vélknúnum ökutækjum. Sé hann ekki til staðar er staðan 1 (talan einn) tilkynnt. Sé akstursmælir til staðar er ætlast til að staða hans sé lesin og tilkynnt. Vanda verður til verka við aflestur og skráningar svo sem minnst hætta sé á mistökum. Ekki skiptir máli í hvaða mælieiningu mælirinn er (ætti þó að vera í km), alltaf skal skrá þá stöðu sem stendur á mælinum óháð mælieiningu (aldrei á að umreikna milli eininga).
Notkunarflokkur
Notkunarflokkur er almennt skráður sem "Almenn notkun" en gæti líka verið annar við forskráningu. Heimilt er að tilkynna um breytingu úr notkunarflokknum "Almenn notkun" yfir í notkunarflokkana "Ökutækjaleiga", "VSK-ökutæki" og "Sendiráðsökutæki". Aðrar breytingar á notkunarflokkum er óheimilt að tilkynna (gera verður breytingaskoðun eftir að nýskráning hefur farið fram - og minnt aftur á að ekki má vera búið að breyta ökutækinu vegna hins nýja notkunarflokks á þessum tímapunkti, sé þörf slíkra breytinga).
Skráningarflokkur (skráningarmerki)
Með skráningarflokki er átt við þann flokk sem skráningarmerki ökutækisins tilheyra t.d. almenn-, vsk- eða sendiráðsmerki. Mikilvægt er að tilkynna réttan flokk í samræmi við þau merki sem sett hafa verið á ökutækið.
Aðferðir til úrlausnar ef hafna hefur þurft skoðun og skráningu
Umsækjandi um forskráningu (umráðandi á forskrá) og/eða fyrsti eigandi geta leitað lausna á misræmi á skráningarupplýsingum í samvinnu við Samgöngustofu.
Stafi frávik af mögulegum skráningarmistökum er haft samband við Samgöngustofu og leitað leiða til leiðréttingar. Þær leiðréttingar verða að hafa farið fram áður en fulltrúaskoðun er kláruð (og fyrir nýskráningu).
Hafi ökutæki verið breytt frá viðurkenningu er nærtækasta lausnin að breyta því baka aftur í upprunalegt horf og færa það á ný til skoðunar. Teljist það ekki raunhæfur möguleiki má leita lausna í samvinnu við Samgöngustofu, sem m.a. geta falist í því að skila inn viðbótargögnum eða breyta viðurkenningu ökutækisins sem mögulega krefst sérstakrar skoðunar. Gera verður ráð fyrir því að úrlausn taki tíma og ekki takist að leysa úr öllum málum.
Náist ekki að leysa úr málinu fæst ökutækið ekki nýskráð, t.d. þegar rétt gögn berast ekki eða breytingar teljast óheimilar eða óöruggar.
Gjaldtaka
Gjald Samgöngustofu fyrir nýskráningu er 5.827 krónur og einnig skal innheimta umferðaröryggisgjald 500 krónur.
Samgöngustofa tekur ekki gjöld vegna samanburðarskoðunar eða fulltrúaskoðunar.
Gjald Samgöngustofu fyrir leiðréttingar á viðurkenningu sem eiga upptök sín í röngum upplýsingum frá umboði er 1.071 króna.
Gjald Samgöngustofu fyrir mat á nýjum gögnum er varðar viðurkenningu eða aðra úrlausn vegna þess að hafna hefur þurft skoðun eða skráningu er innheimt tímavinna samkvæmt gjaldskrá, 11.008 krónur á klukkutíma.
Tölvuvinnsla
Þjónustuaðilar nota eigin kerfi við að tengjast vefþjónustunum Samgöngustofu.
Efni kaflans
Yfirferð í skráningarskoðun
Forskráning skráningarviðurkenndra ökutækja (þeirra sem eru ekki gerðarviðurkennd) byggir á gögnum m.a. frá framleiðanda og viðurkenndum tækniþjónustum og á að gefa raunsanna mynd af gerð og búnað þeirra. Skráningarviðurkennt ökutæki er auðkennt í ökutækjaskrá með textunum "Nýtt" eða "Notað" í reitnum "Innflutningsástand".
Við skráningarskoðun (sem framkvæmd er á skoðunarstofu ökutækja) fer fram athugun á því hvort skráningarviðurkennt ökutæki sé í samræmi við tilteknar upplýsingar sem forskráðar hafa verið í ökutækjaskrá. Einnig til að skrá tilteknar viðbótarupplýsingar sem ekki hafa verið skráðar við forskráningu.
Óheimilt er með öllu að gera breytingar á skráningarviðurkenndu ökutæki áður en það er nýskráð. Gildir það um öll skráningarviðurkennd ökutæki sem verið er að nýskrá, hvort sem þau eru viðurkennd sem ný eða notuð (sjá þó sérstakt verklag um ófullgerð ökutæki). Þetta gildir um allar breytingar sem hafa áhrif á skráningu ökutækisins í ökutækjaskrá. Uppgötvist við skoðun að ökutækinu hefur verið breytt skal hafna skoðun og nýskráningu (sjá um aðferðir við úrlausn neðar).
Komi upp vafatilfelli í forskráningarferlinu þá er henni læst með nýskráningarlás og umráðanda á forskrá tilkynnt um það. Í þeim tilvikum verður skoðunarstofa að vera í sambandi við tæknideild Samgöngustofu þegar skoðunin fer fram til að heimilt verði að aflétta lásnum.
Minnt er á að skráningarskoðun er síðasta skref á viðurkenningu ökutækis til skráningar og notkunar hérlendis. Afar áríðandi er því að vanda vel til verka.
Atriði til yfirferðar
Við skráningarskoðun skal yfirfara neðangreind atriði og bera tæknilega útfærslu ökutækisins saman við það sem hefur verið skráð í ökutækjaskrá. Þegar skylda er að skrá gildi eða heimilt er að breyta þeim eða leiðrétta í skráningarskoðun, þá tilkynnir skoðunarmaður um rétt gildi á rafrænu eyðublaði um breytingu á ökutæki (US.111). Ef um frávik er að ræða, sem ekki er hægt að skrá eða leiðrétta með þeim aðferðum sem lýst er, skal hafna skoðun og skráningu.
Verksmiðjunúmer
Hefur undantekningarlaust verið skráð við forskráningu. Sérstök áhersla er lögð á að allt verksmiðjunúmerið sé skoðað og vandlega borið saman við skráningargögn.
Það telst frávik ef skráð gildi í ökutækjaskrá er ekki það sama og skráð er á ökutækið.
Ökutækisflokkur
Hefur undantekningarlaust verið skráður við forskráningu.
Það telst frávik ef útfærsla ökutækis uppfyllir ekki skráðan ökutækisflokk og ljóst að ekki verður bætt úr annmörkum með einföldum hætti.
Notkunarflokkur
Hefur undantekningarlaust verið skráður við forskráningu. Ef útfærsla ökutækis uppfyllir kröfur annars flokks (hvort sem eigandi (umráðandi) óskar eftir breytingu í þann flokk eða ökutækið ætti að tilheyra öðrum flokki af tæknilegum ástæðum) skal notkunarflokki breytt.
Það telst frávik ef útfærsla ökutækis uppfyllir ekki neinn flokk (breytingar yfir í annan flokk eða útfærsla uppfyllir ekki kröfur).
Litur ökutækis
Hefur ekki alltaf verið skráð við forskráningu. Bera skal saman skráðan lit og lit á ökutæki. Ef lit vantar eða litur er rangur í ökutækjaskrá skal réttur litur tilkynntur. Við val á lit úr lista yfir mögulega liti er horft til þess að hann sé fyrst og fremst notaður til að geta auðkennt ökutækið við ýmis tækifæri, s.s. við eftirlýsingu eða í leigubílaöppum.
Orkugjafi
Hefur undantekningarlaust verið skráður við forskráningu.
Það telst frávik ef skráð gildi í ökutækjaskrá er ekki það sama og á við um ökutækið.
Breidd og lengd
Hefur ekki alltaf verið skráð við forskráningu. Mæla skal lengd og breidd ökutækisins. Tilkynna rétt gildi.
Það telst frávik ef ökutæki er utan hámarksstærðarmarka (nema það verði skráð á undanþágumerki eða utanvegamerki).
Eiginþyngd
Hefur ekki alltaf verið skráð við forskráningu. Vigtarseðli skal framvísað hafi hún ekki verið skráð. Tilkynna rétt gildi.
Það telst frávik ef gildi er autt (eða núll) og vigtarseðli er ekki framvísað (eða hann er ógildur).
Það telst frávik ef tilkynnt eiginþyngd gefur ekki nægilega burðargetu (fyrir ökumann, farþega og farm, eftir því sem við á).
Leyfðar heildarþyngdir
Hafa ekki alltaf verið skráðar inn við forskráningu. Þetta eru leyfð heildarþyngd, leyfðar ásþyngdir allra ása, leyfð þyngd vagnlestar bifreiðar (ef framleiðandi gefur hana upp) og dráttargeta bifreiðar fyrir hemlaðan og óhemlaðan eftirvagn (ef framleiðandi gefur þær upp). Lesa af upplýsingaspjaldi ökutækis. Tilkynna rétt gildi.
Það telst frávik ef leyfða heildarþyngd bifreiðar, eftirvagns eða dráttarvélar vantar og gildin eru ekki á upplýsingaplötu eða hún er ekki á ökutæki. Undanskilin eru bifhjól, torfærutæki, utanvegaökutæki og fornökutæki.
Það telst frávik ef leyfðar ásþyngdir bifreiðar, eftirvagns eða dráttarvélar vantar og gildin eru ekki á upplýsingaplötu eða hún er ekki á ökutæki. Undanskilin eru bifhjól, torfærutæki, utanvegaökutæki og fornökutæki.
Það telst frávik ef tilkynnt leyfð heildarþyngd ökutækis gefur ekki nægilega burðargetu (fyrir ökumann, farþega og farm, eftir því sem við á) og/eða er í ósamræmi við þann ökutækisflokk sem forskráður hefur verið.
Stærð hjólbarða
Hefur ekki alltaf verið skráð við forskráningu. Lesa skal stærðarmerkingar á hjólbörðum. Vanti stærð í ökutækjaskrá skal hún tilkynnt. Sé stærð hjólbarða innan við 10% stærri eða minni en skráð stærð má ekki tilkynna breytingu.
Það telst frávik sé raunstærð hjólbarða meira en 10% stærri eða minni en skráð stærð.
Það telst frávik ef rökstuddur grunur er um að raunstærð hjólbarða sé meiri en 10% stærri eða minni en framleiðandi ákvað (í þeim tilvikum þegar stærðarmerking hefur ekki verið skráð við forskráningu). Augljóst ætti að vera að ökutækinu hefur verið breytt frá upprunalegri útfærslu framleiðanda og upplýsingum um það ekki framvísað við forskráningu.
Farþegafjöldi (sæti og stæði)
Hefur ekki alltaf verið skráður við forskráningu. Telja þarf og yfirfara öll sæti (og stæði hópbifreiðar ef við á), hvort sem þau eru fyrir almenna farþega eða áhöfn, bæði þau sem eru föst og þau sem eru fyrir hjólastóla á hjólastólasvæði (eigi það við). Tilkynna rétt gildi ef hann var ekki skráður við forskráningu.
Það telst frávik ef skráðum sætafjölda á forskrá (þegar sætafjöldi hefur verið skráður) ber ekki saman við raunverulegan sætafjölda í ökutækinu. Þó má muna einu sæti ef sú breyting hefur ekki áhrif á skráningu ökutækisins að öðru leyti (t.d. ökutækisflokkun þess eða varðandi burðargetu).
Það telst frávik ef sæti eru til staðar sem uppfylla ekki skilyrði og ljóst að ekki verður bætt úr annmörkum með einföldum hætti (t.d. telst það frávik ef áskilið öryggisbelti vantar).
Það telst frávik ef samþykkt teikning hópbifreiðar er ekki til staðar eða ef sæta- eða stæðaskipan í hópbifreið er ekki í samræmi við teikninguna. Þetta gildir þó ekki hafi Samgöngustofa vikið frá kröfu um teikningu og upplýst skoðunarstofuna fyrirfram um það.
Það telst frávik ef skilti um farþegafjölda í hópbifreið er ekki í samræmi við ökutækið og skráðar upplýsingar.
Yfirbygging
Skylda er að skrá yfirbyggingu á vörubifreið (N2 og N3) og stærri eftirvögnum (O3 og O4) en hana má skrá á sendibifreið (N1) en ekki aðra ökutækisflokka. Hefur sjaldnast verið skráð við forskráningu. Taka skal út yfirbyggingar þegar við á. Tilkynna rétt gildi.
Það telst frávik vanti yfirbyggingu á ökutæki sem skylda er að skrá.
Það telst frávik ef skylduskráð yfirbygging uppfyllir ekki kröfur og ljóst er að ekki verður bætt úr annmörkum með einföldum hætti.
Sérbúnaður
Skylda er að skrá tiltekinn sérbúnað sé hann til staðar og uppfylli kröfur. Hefur sjaldnast verið skráður við forskráningu. Taka skal út sérbúnað. Tilkynna rétt gildi.
Það telst frávik sé á ökutæki sérbúnaður sem skylt er að skrá sem uppfyllir ekki kröfur og ljóst er að ekki verður bætt úr annmörkum með einföldum hætti.
Breytingar breyttra bifreiða
Hafi veigamiklar breytingar verið gerðar á ökutæki fyrir innflutning og þær samþykktar af viðurkenndum erlendum skráningaryfirvöldum eru þær skráðar við forskráningu.
Það telst frávik hafi ökutæki verið breytt í veigamiklum atriðum frá útfærslu framleiðanda og ekki búið að skrá þær breytingar.
Ökutæki breytt
Ökutæki má ekki hafa verið breytt í veigamiklum atriðum frá útfærslu framleiðanda. Þó getur Samgöngustofa viðurkennt slíkar breytingar í forskráningarferlinu sem gerðar hafa verið fyrir innflutning hafi þær verið þær samþykktar af viðurkenndum erlendum skráningaryfirvöldum - þær eru þá skráðar inn við forskráningu.
Það telst frávik hafi ökutæki augljóslega verið breytt í veigamiklum atriðum frá útfærslu framleiðanda og engar upplýsingar um þær skráðar við forskráningu (ósamþykkt af Samgöngustofu).
Tjón er á ökutæki
Ökutæki á augljóslega að vera heilt og ekki vera skemmt eða tjónað.
Það telst frávik ef tjón sést á ökutækinu eða það sést að (augljóslega léleg) viðgerð á fyrra tjóni hefur farið fram.
Aðferðir til úrlausnar ef hafna hefur þurft skoðun og skráningu
Umsækjandi um forskráningu (umráðandi á forskrá) og/eða fyrsti eigandi geta leitað lausna á misræmi á skráningarupplýsingum í samvinnu við Samgöngustofu.
Hafi ökutæki verið breytt frá viðurkenningu er nærtækasta lausnin að breyta því baka aftur í upprunalegt horf og færa það á ný til skoðunar. Teljist það ekki raunhæfur möguleiki má leita lausna í samvinnu við Samgöngustofu, sem m.a. geta falist í því að skila inn viðbótargögnum eða breyta viðurkenningu ökutækisins sem mögulega krefst sérstakrar skoðunar. Gera verður ráð fyrir því að úrlausn taki tíma og ekki takist að leysa úr öllum málum.
Náist ekki að leysa úr málinu fæst ökutækið ekki nýskráð, t.d. þegar rétt gögn berast ekki eða breytingar teljast óheimilar eða óöruggar.
Gjaldtaka
Gjald Samgöngustofu fyrir nýskráningu 5.827 krónur og einnig skal innheimta umferðaröryggisgjald 500 krónur.
Samgöngustofa tekur ekki gjöld vegna skráningarskoðunar.
Gjald Samgöngustofu fyrir mat á nýjum gögnum er varðar viðurkenningu eða aðra úrlausn vegna þess að hafna hefur þurft skoðun eða skráningu er innheimt tímavinna samkvæmt gjaldskrá, 11.008 krónur á klukkutíma.
Tölvuvinnsla
Þjónustuaðilar útfylla breytingablað US.111 sem er hluti af Vefekju (Samgöngustofu).
Efni kaflans
Skráning tölulegra gilda á US.111
Töluleg gildi geta verið skráð sem heiltala eða rauntala. Gildi eru fengin með aflestri af ökutækinu (af upplýsingaspjöldum eða merkingum), með mælingu (málband eða vigt) eða með því að telja.
Gildin eru tilkynnt af skoðunarstofu ökutækja í tengslum við skráningarskoðun eða breytingaskoðun (eða leiðréttingar) á rafrænu eyðublaði US.111. Þegar skylda er að skrá gildið og upplýsingar um það liggja ekki fyrir við skráningaskoðun eða breytingarskoðun, skal skoðun og skráningu ökutækisins hafnað.
Fjöldi farþega
Fjöldi sæta er fundinn út með því að telja leyfileg sæti (sem uppfylla kröfur samkvæmt skoðunarhandbókar m.t.t. staðsetningar og öryggis). Í hópbílum skilti um farþegafjölda borið saman við raunverulegan sæta/stæðafjöldi og borin saman við samþykkta teikningu (þó ekki krafist teikningar við nýskráningu gerðarviðurkenndrar hópbifreiðar).
Heildarfjöldi farþega (heiltala í stk): Fjöldi farþega (ekki áhafnar) í sætum og stæðum (þ.e. án ökumanns og án leiðsögumanns/-manna), þar með talin pláss fyrir hjólastóla (svæði fyrir hjólastóla í athugasemdum SH1, SH2 og SH3) sem koma til viðbótar hefðbundnum sætum.
Þ.a. hjá ökumanni (heiltala í stk): Hér er átt fjölda þeirra farþegasæta (af heildar farþegasætum) sem eru við hlið ökumanns (má segja að tilheyri sömu sætaröð og sæti ökumanns). Ef ekkert sæti er við hlið ökumanns (eða einhver vafi er á því vegna staðsetningar sæta hvort farþegasæti telst við hlið ökumanns eður ei) er skráð núll í þennan reit.
Þ.a. stæði (heiltala í stk): Fjöldi stæða fyrir standandi farþega í hópbifreið ef um það er að ræða (eingöngu fyrir hópbifreið).
Breytingar á farþegafjölda getur verið af eftirfarandi ástæðum (meðal annars):
Við forskráningu vantar þessi gildi stundum (eða eru ónákvæm) og þá er skoðunarstofu látið eftir að skrá þau í tengslum við nýskráningu (mega ekki vera auð).
Breytingar á skipan farþegarýmis eða farmrýmis í hópbifreið (fjölgun eða fækkun á farþegum meðal annars). Þarf samþykki Samgöngustofu fyrirfram.
Breytingar á farþegafjölda fólks-, sendi- og vörubifreiða af ýmsum ástæðum, hvort sem því fylgir tilfærsla milli þessara ökutækisflokka eða ekki. Þarf ekki samþykki Samgöngustofu fyrirfram.
Afköst og slagrými brunahreyfils
Afköst og slagrými brunahreyfils eru tilkynnt þegar verið er að breyta hreyfli, og sú breyting hefur hlotið samþykki Samgöngustofu fyrirfram. Við skoðun eru gögnin notuð við að staðfesta að hinn nýi hreyfill sé kominn í ökutækið.
Afl hreyfils (rauntala í hestöflum): Afl (afköst) er gefið upp bæði í kílóvöttum (kW) og hestöflum (hö eða hp). Til að breyta á milli eru notaðar eftirfarandi formúlur (notaðir eru 4 aukastafir á stuðulinn), annars vegar "1 kW er 1,3410 hö" og hins vegar "1 hö er 0,7457 kW". Skráð inn samkvæmt upplýsingum á samþykktum gögnum.
Slagrými hreyfils (heiltala í cm3): Hér er um að ræða rúmtak brunahólfa í brunahreyflum, mælt í rúmsentimetrum. Skráð inn samkvæmt upplýsingum á samþykktum gögnum.
Skráning eða breyting á hreyfilgerð eða afkastagetu getur verið af eftirfarandi ástæðum (meðal annars):
Við forskráningu eru þessar upplýsingar alltaf skráðar af Samgöngustofu.
Skipt er um brunahreyfil og annar nákvæmlega eins er settur í (hefðbundið viðhald). Þarf ekki samþykki Samgöngustofu eða gerir kröfu um breytingaskoðun.
Skipt er um brunahreyfil sem hefur annan orkugjafa, afköst og/eða slagrými. Þarf samþykki Samgöngustofu fyrirfram.
Mögulegt er að breyta afli heildargerðarviðurkenndra bifhjóla vegna ökuréttinda. Við slíka breytingu færist bifhjólið milli ökutækisflokka. Þarf eingöngu samþykki Samgöngustofu (breytingaskoðunar ekki krafist).
Breidd og lengd ökutækis
Breidd og lengd ökutækja er mæld með málbandi.
Lengd (heiltala í mm): Lengd ökutækis skal mæld milli þeirra hluta sem standa lengst fram og lengst aftur (innfellanlegar vindskeiðar sem bæta orkunýtni og tengibúnaður þó ekki mældur með). Þó skal mæla lengd eftirvagns frá hugsaðri lóðréttri línu í gegnum miðju tengihluta hans að aftasta hluta eftirvagnsins.
Breidd (heiltala í mm): Breidd ökutækis skal mæld milli þeirra hluta þess sem standa lengst til hliðar. Speglar eða ljósker, önnur en aðal-, vinnu- og hliðarljósker, svo og keðjur á hjólum, eru ekki talin til breiddar ökutækis. Sama gildir um festingar fyrir yfirbreiðslu og vörn þeirra. Belgur neðst á dekkjum dráttarvéla er ekki talin til breiddar hennar.
Leyfileg lengd ökutækja sem heimilt er að nota í almennri umferð án undanþágu er þessi:
Bifreið (önnur en hópbifreið) - mest 12,00 m.
Hópbifreið - mest 15,00 m (með fleiri en tvo ása) - mest 13,50 m (með tvo ása) - mest 18,75 m (sem er liðvagn).
Eftirvagn bifreiðar (annar en festivagn) - mest 12,00 m.
Festivagn - mest 12,00 m og að auki gildir að lárétt fjarlægð frá hugsaðri lóðréttri línu í gegnum miðju tengipinna að hvaða hluta sem er fremst á festivagninum má mest vera 2,04 m.
Bifhjól (tví-/þrí-/fjórhjól) - mest 4,00 m.
Eftirvagn bifhjóls - mest 2,50 m.
Dráttarvél - mest 12,00 m.
Eftirvagn dráttarvélar - mest 12,00 m.
Leyfileg breidd ökutækja sem heimilt er að nota í almennri umferð án undanþágu er þessi:
Bifreið - mest 2,55 m (yfirbygging jafnhitakassa má mest vera 2,60 m).
Eftirvagn bifreiðar - mest 2,55 m (yfirbygging jafnhitavagns má mest vera 2,60 m) - breidd eftirvagns má ekki vera meiri en sem nemur 30 cm út fyrir hvora hlið bifreiðar.
Bifhjól (tví-/þrí-/fjórhjól) - mest 1,00 m (tveggja hjóla) - mest 2,00 m (önnur bifhjól).
Eftirvagn bifhjóls - mest 1,00 m.
Dráttarvél - mest 2,55 m (leyfileg breidd til landbúnaðarstarfa eða vegavinnu er 3,30 m).
Eftirvagn dráttarvélar - mest 2,55 m (leyfileg breidd til landbúnaðarstarfa eða vegavinnu er 3,30 m).
Leyfileg hæð ökutækja sem heimilt er að nota í almennri umferð án undanþágu er þessi:
Fólksbifreið og sendibifreið - mest 4,00 m.
Vörubifreið og hópbifreið - mest 4,20 m.
Eftirvagn bifreiðar - mest 4,00 m.
Bifhjól (tví/þrí/fjórhjól) - mest 2,50 m.
Eftirvagn bifhjóls - mest 2,50 m.
Dráttarvél - mest 4,00 m.
Eftirvagn dráttarvélar - mest 4,00 m.
Til fróðleiks um vagnlestir (gildir án sérstakra undanþága):
Vagnlest, hópbifreið með eftirvagn - mest 18,75 m.
Vagnlest, bifreið (önnur en hópbifreið) með festi- eða hengivagn - mest 18,75 m.
Vagnlest, bifreið (önnur en hópbifreið) með tengivagn - mest 22,00 m (allt að 25,25 m hafi bifreið og vagn hemlalæsivörn og lengd farmrýmis vagnsins sé mest 13,60 m).
Bifreið, svo og vagnlest, skal vera hægt að aka innan snúningsboga með 12,50 m radíus í ytri hring og 5,30 m radíus í innri hring. Ákvæði þetta telst vera uppfyllt fyrir vagnlest með festivagni ef fjarlægð frá tengipinna vagnsins til miðju fræðilegs afturáss er ekki meiri en 9,20 m.
Fjarlægð, mæld samhliða lengdarási vagnlestar með tengivagni, frá fremsta hluta farmrýmis aftan við stýrishús að aftasta hluta tengivagnsins, að frádreginni fjarlægðinni milli afturenda dráttartækisins og framenda vagnsins, má mest vera 18,90 m.
Fjarlægð, mæld samhliða lengdarási vagnlestar með tengivagni, frá fremsta hluta farmrýmis aftan við stýrishús að aftasta hluta tengivagnsins, má mest vera 19,65 m.
Fjarlægð milli aftasta áss bifreiðar og fremsta áss tengivagns má ekki vera minni en 3,00 m.
Skráning eða breyting á breidd og lengd ökutækja getur verið eftirfarandi ástæðum (meðal annars):
Við forskráningu vantar þessi gildi stundum (eða eru ónákvæm) og þá er skoðunarstofu látið eftir að skrá þau í tengslum við nýskráningu (mega ekki vera auð).
Við breytingu á yfirbyggingu vörubifreiða, þó skulu útskiptanlegar yfirbyggingar eða útskiptanlegur áfestur búnaður ekki vera hluti breiddar eða lengdar ökutækisins (það er skráð í athugasemd með viðkomandi yfirbyggingu eða búnaði). Þarf ekki samþykki Samgöngustofu fyrirfram.
Við óverulega breytingu á breidd eða lengd eftirvagns í tengslum við viðhald og endurbætur hans. Miða skal við að hámarki 5% stærðarbreytingu frá upprunalega skráðri stærð. Þarf ekki samþykki Samgöngustofu fyrirfram. Allar meiri stærðarbreytingar þarfnast samþykkis Samgöngustofu fyrirfram (enda þá líklegt að verði sé að nota eldri skráningu eftirvagns á annan vagn og m.a. þurfi að greiða aðvinnslugjald af vinnunni og sækja um skráningu á nýjum eftirvagni).
Leyfð heildarþyngd ökutækis
Leyfð heildarþyngd ökutækis er gefin upp á upplýsingaspjaldi (sjá neðst).
Leyfð heildarþyngd (heiltala í kg): Mesta leyfða heildarþyngd ökutækisins sem framleiðandi ákveður á grundvelli tæknilegra forsendna.
Skráning eða breyting á leyfðri heildarþyngd ökutækja getur verið eftirfarandi ástæðum (meðal annars):
Við forskráningu vantar þetta gildi stundum og þá er skoðunarstofu látið eftir að skrá það í tengslum við nýskráningu (má ekki vera autt, undanskilin eru þó bifhjól, torfærutæki, utanvegaökutæki og fornökutæki).
Framleiðandi má breyta gildinu ef viðurkenning ökutækisins heimilar það (gildir oft um ökutæki í atvinnuakstri). Þarf samþykki Samgöngustofu fyrirfram. Setja verður nýtt upplýsingaspjald í ökutækið samkvæmt fyrirmælum Samgöngustofu.
Leyfðar ásþyngdir
Leyfðar ásþyngdir ökutækis eru gefnar upp á upplýsingaspjaldi (sjá neðst).
Leyfð ásþyngd x. ás (heiltala í kg): Mesta leyfða heildarþyngd sérhvers áss sem framleiðandi ákveður á grundvelli tæknilegra forsendna. Alls eru þetta fimm reitir (fyrir fyrstu fimm ása ökutækisins, afgangurinn er tilkynntur í athugasemdareit).
Skráning eða breyting á leyfðum ásþyngdum ökutækja getur verið eftirfarandi ástæðum (meðal annars):
Við forskráningu vantar þessi gildi stundum (eða eru ónákvæm) og þá er skoðunarstofu látið eftir að skrá þau í tengslum við nýskráningu (mega ekki vera auð, undanskilin eru þó bifhjól, torfærutæki, utanvegaökutæki og fornökutæki).
Við skipti á ásum má setja öflugari ás undir ökutækið og nota upplýsingar frá framleiðanda ássins sem nýja leyfða heildarþyngd ássins. Þarf ekki samþykki Samgöngustofu fyrirfram.
Við fjölgun ása undir eftirvagni. Ekki verður þó heimilt að hækka leyfða heildarþyngd eftirvagnsins, slík breyting á einungis að vera til að auka akstursöryggi hans. Þarf samþykki Samgöngustofu fyrirfram (enda gæti m.a. þurft að greiða aðvinnslugjald af vinnunni).
Eigin þyngd ökutækis
Eigin þyngd ökutækis mæld á bílavog og skráð inn samkvæmt vigtarseðli sem gefinn er út af löggiltum vigtarmanni.
Eiginþyngd (heiltala í kg): Eigin þyngd ökutækis er þyngd ökutækis sem tilbúið er til notkunar, að meðtöldum búnaði sem því fylgir að jafnaði, eldsneyti, smurolíu, kælivatni, varahjóli, verkfærum og þess háttar. Hún er án ökumanns.
Vigtarseðill er skjal sem löggiltur vigtarmaður gefur út að lokinni vigtun á löggiltri vog til staðfestingar á þyngd þess sem vegið er (sjá nánar um fylgigögn með US.111). Við vigtun ökutækja skal miðað við að þau séu í því ástandi að gefa raunsannar upplýsingar um eiginþyngd miðað við skilgreiningu á eiginþyngd. Að auki gildir:
Heimilt er að vigta vöru- og hópbifreið (ekki fólks- eða sendibifreið eða önnur ökutæki) þótt eldsneytisgeymir hennar sé ekki fullur, enda leggi vigtarmaður þá mat á magn í geymi (út frá eldsneytismæli, 25%, 50% eða 75%). Til að skoðunarstofa geti móttekið vigtarseðilinn skulu fylgja með upplýsingar um stærð eldsneytisgeymanna og ber eigandi (umráðandi) ábyrgð á að útvega þær upplýsingar frá umboði ökutækis, framleiðanda, tækniþjónustu eða frá sambærilegum aðila.
Hafi eldsneytisgeymar bifreiða verið stækkaðir eða þeim fjölgað skal við vigtun og skráningu eiginþyngdar einungis miða við eldsneytismagn sem samsvarar upphaflegri geymastærð bifreiðarinnar.
Við móttöku vigtarseðils í skoðunarstofu (í tengslum við skoðun ökutækis) má hann ekki vera eldri en 7 daga gamall.
Skráning eða breyting á eigin þyngd ökutækja getur verið eftirfarandi ástæðum (meðal annars). Eigin þyngd skal breytt í samræmi við vigtarseðil ef munur á vigtarseðli og skráðri eigin þyngd er meiri en 50 kg:
Við forskráningu vantar þetta gildi stundum (eða er ónákvæmt) og þá er skoðunarstofu látið eftir að skrá það í tengslum við nýskráningu (má ekki vera autt).
Breytingar eru gerðar á fjölda og/eða gerð ása vörubifreiða samkvæmt fyrirmælum framleiðanda. Þarf samþykki Samgöngustofu fyrirfram.
Breytingar eru gerðar á grind og yfirbyggingum vöru- og hópbifreiða samkvæmt fyrirmælum framleiðanda. Þarf ekki samþykki Samgöngustofu fyrirfram.
Breytingar eru gerðar á innra skipulagi fólks- og farmrýma hópbifreiða (innan þeirra marka sem framleiðandi hefur sett). Þarf samþykki Samgöngustofu fyrirfram.
Gerðar eru breytingar á farþegafjölda (bæði í hópbifreið og öðrum ökutækjum). Þarf samþykki Samgöngustofu fyrirfram ef um hópbifreið er að ræða, annars ekki.
Breytingar eru gerðar á gerð eða stærð hreyfils eða viðbótarorkugjafa. Þarf samþykki Samgöngustofu fyrirfram.
Við úttekt á sérbúnaði fyrir hreyfihamlaða ökumenn. Þarf ekki samþykki Samgöngustofu fyrirfram.
Þegar veigamiklum atriðum bifreiðar hefur verið breytt frá upprunalegri útfærslu framleiðanda (verður breytt bifreið). Þarf ekki samþykki Samgöngustofu fyrirfram.
Notkunarflokki er breytt í húsbifreið eða rallbifreið, og líka ef breytt er til baka í almenna notkun úr þessum notkunarflokkum. Þarf ekki samþykki Samgöngustofu fyrirfram.
Ökutækið er fært milli ökutækisflokka (þarf þó ekki ef fólksbifreið eða sendibifreið er færð til baka í upprunalegt horf því þá má nota fyrra gildi). Þarf ekki samþykki Samgöngustofu fyrirfram.
Leyfð þyngd vagnlestar
Leyfð þyngd vagnlestar er gefin upp á upplýsingaspjaldi (sjá neðst).
Þyngd vagnlestar (heiltala í kg): Leyfileg hámarksþyngd bifreiðar og eftirvagnsins sem hann dregur sem framleiðandi ákveður á grundvelli tæknilegra forsendna.
Skráning eða breyting á leyfðri þyngd vagnlestar getur verið eftirfarandi ástæðum (meðal annars):
Við forskráningu vantar þetta gildi stundum og þá er skoðunarstofu látið eftir að skrá það í tengslum við nýskráningu sé það til staðar (má samt vera autt).
Leyfð þyngd eftirvagns (dráttargeta)
Leyfð þyngd eftirvagns er gefin upp á upplýsingaspjaldi. Horft er til raunþyngdar eftirvagnsins sem dreginn er (þyngd hans með hlassi) í þessu tilviki (en minnt á að viðeigandi ökuréttindi þarf líka).
Heimil þyngd óhemlaðs eftirvagns (heiltala í kg): Mesta þyngd eftirvagns (sem hefur ekki neina hemla) sem ökutækið má draga.
Heimil þyngd hemlaðs eftirvagns (heiltala í kg): Mesta þyngd eftirvagns (sem hefur sína eigin hemla) sem ökutækið má draga.
Skráning eða breyting á dráttargetu ökutækja getur verið eftirfarandi ástæðum (meðal annars):
Við forskráningu vantar þessi gildi stundum og þá er skoðunarstofu látið eftir að skrá það í tengslum við nýskráningu (mega ekki vera auð ef ökutækið hefur tengibúnað).
Við ásetningu eða breytingu á tengibúnaði. Þarf ekki samþykki Samgöngustofu fyrirfram.
Efni kaflans
Skráning í textareiti á US.111
Textareitir geta verið skráðir sem bókstafir eingöngu eða blanda af bókstöfum, tölstöfum og öðrum rittáknum. Gildi eru fengin með aflestri af ökutækinu (af upplýsingaspjöldum eða merkingum) eða með mælingum (málband).
Gildin eru tilkynnt af skoðunarstofu ökutækja í tengslum við skráningarskoðun eða breytingaskoðun (eða leiðréttingar) á rafrænu eyðublaði US.111. Þegar skylda er að skrá gildið og upplýsingar um það liggja ekki fyrir við skráningaskoðun eða breytingarskoðun, skal skoðun og skráningu ökutækisins hafnað.
Stærð hjólbarða
Stærð hjólbarða er lesin af hjólbörðunum sjálfum.
Stærð hjólbarða x. ás (merking á hjólbarða): Stærð hjólbarða eins og það er skráð á hjólbarðann (og alltaf reiknað með að það sé sama hjólbarðastærð á öllum hjólbörðum sama áss þótt það finnist frávik frá þeirri reglu). Þetta geta því verið allskonar áletranir sem almennt gefa upplýsingar um þvermál, breidd og felgustærð. Alls eru þetta fimm reitir (fyrir fyrstu fimm ása ökutækisins, afgangurinn er tilkynntur í athugasemdareit).
Skráning eða breyting á hjólbarðastærðum ökutækja getur verið eftirfarandi ástæðum (meðal annars):
Við forskráningu vantar þessar stærðir stundum (eða eru ónákvæmar) og þá er skoðunarstofu látið eftir að skrá þau í tengslum við nýskráningu (mega ekki vera auð).
Við breytingu á hjólbarðastærð umfram 10% á að skrá nýja hjólbarðastærð sem viðurkennd verður á breyttri bifreið og hraðamælir hefur verið vottaður fyrir. Þarf ekki samþykki Samgöngustofu fyrirfram.
Athugasemdir
Í þessum reit getur skoðunarstofa komið skilaboðum til Samgöngustofu og útskýrt í hverju breytingar eru fólgnar ef það er ekki alveg augljóst. Afar mikilvægt er að þessi reitur sé nýttur til að einfalda og hraða samþykkt breytinga hjá Samgöngstofu og til að fyrirbyggja misskilning og óþarfa tafir.
Efni kaflans
Skráning gilda úr valtöflum á US.111
Gildi í valtöflum eru valin úr listum eða hakað við gildi. Um er að ræða upplýsingar sem einkenna ökutækið eða eru tækniupplýsingar sem skráðar eru kóðar í ökutækjaskrá.
Gildin eru tilkynnt af skoðunarstofu ökutækja í tengslum við skráningarskoðun eða breytingaskoðun (eða leiðréttingar) á rafrænu eyðublaði US.111. Þegar skylda er að skrá gildið og upplýsingar um það liggja ekki fyrir við skráningaskoðun eða breytingarskoðun, skal skoðun og skráningu ökutækisins hafnað.
Litur
Litur er valinn miðað við lit ökutækisins.
Litur: Litur ökutækisins í einfaldri mynd, þ.e. ekki nákvæm útfærsla lakks eða neitt slíkt. Ef ökutæki er tvílitt er reynt að skrá þá samsetningu. Marglit ökutæki eru bara skráð marglit.
Skráning eða breyting á lit ökutækja getur verið eftirfarandi ástæðum (meðal annars):
Við forskráningu vantar þessar upplýsingar stundum (eða eru ónákvæmar) og þá er skoðunarstofu látið eftir að skrá þær í tengslum við nýskráningu (má ekki vanta).
Við breytingu á lit ökutækis. Þarf ekki samþykki Samgöngustofu fyrirfram.
Orkugjafi
Orkugjafi er tilkynntur þegar verið er að breyta hreyfli, og sú breyting hefur hlotið samþykki Samgöngustofu fyrirfram. Við skoðun eru gögnin notuð við að staðfesta að hinn nýi orkugjafi sé kominn í ökutækið.
Orkugjafi: Sá miðill eða það eldsneyti sem notað er til að knýja vélknúið ökutæki. Getur samanstaðið af fleiri en einum miðli. Hreinraforku kallast það svo þegar vélknúið ökutæki er knúið raforku eingöngu (ekki öðrum orkugjöfum). Orkugjafar flokkast svo í hópa (m.a. tegundir tvíorku).
Valtafla orkugjafa er þessi:
(1) "Bensín": Notar bensín (fljótandi).
(D) "Bensín /Raf.tengill“: Tvíorku, notar bensín (fljótandi) og rafmagn með rafhlöðu sem hægt er að hlaða með raftengli (plug-in).
(6) "Bensín /Rafmagn": Tvíorku, notar bensín (fljótandi) og rafmagn með rafhlöðu sem ekki er hægt að hlaða með raftengli.
(A) "Bensín /Metan": Tvíorku, notar bensín (fljótandi) og metangas (yfirleitt á gasformi undir um 250 bara þrýstingi, CNG Compressed Natural Gas, en getur verið á vökvaformi, LNG Liquified Natural Gas, ef það er á kæligeymum með undir -161° frosti).
(H) "Bensín /Própan": Tvíorku, notar bensín (fljótandi) og própangas (fljótandi undir um 7 bara þrýstingi).
(2) "Dísel": Notar dísel (fljótandi).
(E) "Dísel /Raf.tengill": Tvíorku, notar dísel (fljótandi) og rafmagn með rafhlöðu sem hægt er að hlaða með raftengli (plug-in).
(C) "Dísel /Rafmagn": Tvíorku, notar bensín (fljótandi) og rafmagn með rafhlöðu sem ekki er hægt að hlaða með raftengli.
(B) "Dísel /Metan": Tvíorku, notar dísel (fljótandi) og metangas (yfirleitt á gasformi undir um 250 bara þrýstingi, CNG Compressed Natural Gas, en getur verið á vökvaformi, LNG Liquified Natural Gas, ef það er á kæligeymum með undir -161° frosti).
(5) "Vetni": Notar vetni (á gasformi við 350-700 bara þrýsting).
(G) "Vetni /Raf.tengill": Tvíorku, notar vetni (á gasformi við 350-700 bara þrýsting) sem efnarafall umbreytir í raforku og fyllir á rafhlöður sem líka er hægt að hlaða með raftengli (plug-in).
(F) "Vetni /Rafmagn": Tvíorku, notar vetni (á gasformi við 350-700 bara þrýsting) sem efnarafall umbreytir í rafmagn sem knýr rafmótora.
(3) "Rafmagn": Notar rafmagn eingöngu (hlaðinn með raftengli að sjálfsögðu!).
(8) "Metan": Notar metangas (yfirleitt á gasformi undir um 250 bara þrýstingi, CNG Compressed Natural Gas, en getur verið á vökvaformi, LNG Liquified Natural Gas, ef það er á kæligeymum með undir -161° frosti).
(9) "Óþekkt": Einungis heimilt að nota fyrir ökutækisflokk Vinnuvél (VV).
(0) "Vélarlaus": Dregið ökutæki (eftirvagn).
Skráning eða breyting á orkugjafa getur verið af eftirfarandi ástæðum (meðal annars):
Við forskráningu eru þessar upplýsingar alltaf skráðar af Samgöngustofu.
Skipt er um brunahreyfil og sá nýi hefur annan orkugjafa, t.d. bensínhreyfils og díselheyfils. Þarf samþykki Samgöngustofu fyrirfram.
Settur er (eða fjarlægður) viðbótarorkugjafi, t.d. metan. Þar samþykki Samgöngustofu fyrirfram.
Yfirbygging (ábygging)
Yfirbygging (ábygging) skal skráð fyrir vörubifreiðir (N2 og N3) og fyrir stærri eftirvagna (O3 og O4). Heimilt er að skrá yfirbyggingar á N1 og O2 (sérstaklega þær sem eru til sérstakra nota) og R3 og R4. Ökutæki getur verið búið fleiri en einni ábyggingu (sem allar eru notaðar í einu) eða útskiptanlegum ábyggingum (sem eru ekki allar notaðar í einu).
Yfirbygging: Allar gerðir af ábyggingum sem gera það að verkum að ökutækið getur talist flytja farm (t.d. með pall eða tank) eða hafa áfastan búnað til sérstakra verka (t.d. búnað til snjómoksturs eða steypudælu).
Merkt er við þá gerð yfirbyggingar (ábyggingar), eina eða fleiri, eftir því sem við á:
(001) "Dráttarbíll (m/stól)": Bifreið aðeins ætluð til dráttar á festivagni og því eingöngu með dráttarstól. (heiti breytt úr „Dráttarstóll“ þann 17.05.2024 og atriði virkjað á ný)
(002) "Olíutankur": Bifreið eða eftirvagn með tank til flutnings á olíu eða sambærilegum eldfimum vökva eða eldfimum lofttegundum. (vegna ADR)
(043) "Flugvélaeldsneytisdæla": Sérhæfð afgreiðslubifreið sem er sérútbúin til að afgreiða eldsneyti á flugvélar, m.a. með eldsneytistank sem dælt er úr. (vegna olíumerkja + notkunarflokkur 119 Flugvallarökutæki) (stofnað 24.04.2024)
(003) "Mjólkurtankur": Vörubifreið eða eftirvagn með tank sem er sérstaklega útbúinn til að safna mjólk frá búum. (vegna olíumerkja)
(004) "Steyputunna": Vörubifreið eða eftirvagn með tunnu sem er sértaklega útbúin til að flytja steypu. (vegna olíumerkja)
(026) "Steypudæla": Vörubifreið sem sérhönnuð er til að dæla steypu um langan barka sem er hægt að stjórna og fylla í steypumót á verkstað. (vegna olíumerkja)
(016) "Tankur": Vörubifreið eða eftirvagn með hverskonar tank eða síló sem eru til flutnings eða söfnunar á vökvum og efnum, öðrum en olíum og eldfimum efnum eða gastegundum (til aðgreiningar frá mjólkurtanki og olíutanki). Þetta geta verið þurrefnistankar, vatnstankar, óeldfimir gastankar o.fl.
(008) "Kassi": Vörubifreið eða eftirvagn með flutningakassa fyrir vöruflutninga. (ekki meira en 2,55 að breidd og til aðgreiningar frá kælikassa/jafnhitakassa)
(025) "Jafnhitakassi": Vörubifreið eða eftirvagn með einangruðum flutningakassa sem hannaður er til að halda sem mest jöfnum hita á því sem flutt er í kassanum. Getur verið með eða án hita- eða kælibúnaðar. (vegna heimildar til að mega vera allt að 2,6 m að breidd) (heiti breytt úr „Kælikassi“ þann 24.04.2024)
(019) "Sorpkassi": Vörubifreið eða eftirvagn sem eru sérstaklega útbúin og hönnuð til söfnunar á sorpi og hafa sorpgeymslukassa, með eða án sorpþjöppu.
(012) "Vörulyfta" eða eftirvagn með lyftupalli aftan á kassa sem hönnuð er til að auðvelda vöruflutninga úr og í kassa. (heiti breytt úr "Lyftibúnaður" þann 24.04.2024)
(010) "Gámagrind" eða eftirvagn með grind sem ætluð er til flutnings á stöðluðum gámaeiningum (20 fet eða 40 fet) og búin stöðluðum gámalæsingum.
(011) "Gámalyfta": Vörubifreið eða eftirvagn með gámagrind og eigin lyftibúnaði til að lyfta stöðluðum gámaeiningum upp á sig. Gámum er lyft frá hlið upp á grindina. Á grindinni eru staðlaðir gámalásar.
(027) "Krókheysi": Vörubifreið til flutnings á smágámum (t.d. ruslagámum, bæði opnum og lokuðum) sem eru dregnir upp á bifreiðina með króklyftu (gámarnir dregnir upp á bifreiðina aftan frá með króknum og læst í gámalása aftast). (heiti breytt úr „Króklyfta“ þann 24.04.2024)
(006) "Flatpallur": Vörubifreið eða eftirvagn með föstum palli, þ.e. flutningapalli sem hvorki er lyftanlegur né verður fjarlægður tímabundið. Getur verið með eða án skjólborða. Nær einnig yfir skúffu lítilla vörubíla (pallbíla). (vegna olíumerkja + 033 Krani >25 tonnmetrum)
(007) "Sturtupallur": Vörubifreið eða eftirvagn með farmflutningapalli sem er lyftanlegur, þ.e. hægt að sturta, hvort sem það er aftur úr eða á hlið, oftast til einhverskonar efnisflutninga (möl, jarðvegur). (til aðgreiningar frá flatpalli)
(035) "Færslupallur": Vörubifreið með pall sem hægt er að renna aftur og leggja afturhlutann niður við jörð til að mynda ramp svo aka megi ökutækjum upp á hann (eða draga þau upp á hann), t.d. vegna bílaflutninga eða tækjaflutninga. Pallinum er svo rennt fram og í lárétta stöðu áður en ekið er af stað.
(038) "Ökutækjaflutningur": Vörubifreið eða eftirvagn sem er sérstaklega hannaður til að flytja ökutæki (oftast bifreiðir) á einni hæð eða tveimur. Rampar eru notaðir til að útbúa braut til að aka ökutækjum upp, fyrst upp á efri hæðina (hún látin síga niður) og svo á neðri hæðina.
(029) "Sérhæfður flutningavagn": Eftirvagn sem er sérstaklega hannaður til að flytja ákveðnar farmeiningar sem ekki verða fluttar (með góðu móti) á hefðbundnum eftirvagni, s.s. til flutnings á húseiningum. Hönnun vagnsins felur það í sér að gólf er t.d. lægra að hluta, sérhvert hjól getur verið sjálfstætt (ekki á heilum ásum) og á honum eru sérhæfðar festingar fyrir farminn (ætlaðar til þess).
(039) "Bílkrani (> 25 tm)": Krani á hjólum (yfirleitt stórum og mörgum hjólum, jafnan með lágan hámarkshraða) og er ekki er ætluð til fólks- eða farmflutninga að öðru leyti. (vegna olíumerkja + 006 Flatpallur) (stofnað 24.04.2024)
(017) "Krani <= 25 tonnmetrum": Vörubifreið með krana sem er 25 tonnmetrar eða undir (hefðbundin vörubifreið sem hefur verið settur krani á fyrir aftan stýrishús). (til aðgreiningar frá stærri krananum (heiti breytt úr "Krani" þann 24.04.2024)
(033) "Krani > 25 tonnmetrum" með krana yfir 25 tonnmetrum (hefðbundin vörubifreið sem hefur verið settur á krani fyrir aftan stýrishús). (vegna olíumerkja + 006 Flatpallur)
(013) "Hreinsibúnaður": Vörubifreið sem er sérstaklega útbúin og hönnuð til hreinsunar á götum, holræsum, stíflulosunar, lagnahreinsunar, þ.m.t. þurrsugubifreið með sogdælu. (vegna olíumerkja)
(032) "Úðunarbúnaður v/vegamálningar": Vörubifreið sem sérstaklega er útbúin til úðunar á vegi eða við vegagerð. Búnaðurinn samanstendur af dælum, slöngum, stútum, geymslurýmum (palli) fyrir málningu og mögulega litlum hífingarkrana fyrir efni. Ekki skal skrá slíka geymslupalla og smákrana sem sérstakar yfirbyggingar. (vegna olíumerkja)
(014) "Jarðbor": Vörubifreið eða eftirvagn með borkrana sem notaður er til að bora í jörð eftir t.d. vatni. (vegna olíumerkja)
(018) "Karfa": Vörubifreið með körfu sem ætluð er til að lyfta fólki í rétta hæð vegna vinnu sinnar, t.d. vegna slökkvistarfa eða til að skipta um perur í ljósastaurum. (vegna olíumerkja)
(031) "Slökkvidæla": Vörubifreið sem er dælubifreið vegna slökkvistarfa, þ.e. að dæla vatni eða vökva á eld. (vegna olíumerkja)
(005) "Vélbúnaður/tæki": Vörubifreið eða eftirvagn með hverskonar vélbúnað eða tæki sem ekki fellur í aðra flokka, t.d. loftpressu, rafstöð, dælu eða kapalkefli. (heiti breytt úr "Loftpressa" 24.04.2024)
(051) "Snjótönn": Vörubifreið með hverskonar búnað til snjóhreinsunar af vegi, s.s. snjótönn eða snjóblásari. Athuga að þessi búnaður getur verið útskiptanlegur og stendur yfirleitt töluvert út fyrir bifreiðina í notkunarstöðu. (stofnuð 24.04.2024)
(052) "Hálkuvarnarbúnaður": Vörubifreið með hverskonar búnað til hálkuvarna, s.s. saltdreifara eða sanddreifara, stendur yfirleitt aftur úr bifreiðinni. Athuga að þessi búnaður getur verið útskiptanlegur. (stofnuð 24.04.2024)
(036) "Árekstrapúði": Sérstakur árekstrarvarnarbúnaður sem er aftan á bifreið eða eftirvagni til að draga úr hættu á alvarlegu slysi aki einhver aftan á þau. Er settur í notkunarstöðu þegar bifreiðinni (eftirvagninum) er stillt upp á vegi fyrir aftan tæki og fólk sem er við vegavinnu eða ekið rólega á eftir tækjunum á meðan þau eru við vinnu á vegi. Búnaðinum fylgir yfirleitt áberandi ljósavísir til að vara þá við sem á eftir koma. Athuga að þessi búnaður getur verið útskiptanlegur.
Eftirfarandi yfirbyggingar geta átt við bifreiðir (aðrar en hópbifreiðir) sem eru notaðar vegna skráningar í sérstök not (olíumerki):
(041) "Myndavélabifreið": Bifreið sem ætluð er til notkunar við myndatöku (t.d. við umferðarlöggæslu) og útbúin þannig að uppsetning myndavéla og myndataka er möguleg innan úr bifreiðinni. (vegna olíumerkja) (stofnuð 24.04.2024)
(042) "Efnablöndunarbúnaður": Bifreið sem útbúin er til blöndunar og hleðslu á sérstökum efnablöndum sem ætlaðar eru til sprenginga. (vegna olíumerkja) (stofnuð 24.04.2024)
Sérbúnaður
Sérbúnaður er ýmiskonar búnaður sem telst vera sérstakur búnaður sem nauðsynlegt er að tilgreina í ökutækjaskrá. Sérbúnaður er tekinn út af skoðunarstofu og skráður standist hann kröfur. Ökutæki getur verið búið fleiri en en einum sérbúnaði.
Sérbúnaður: Tengibúnaður
Tengibúnaður er notaður til að tengja saman vélknúið ökutæki og eftirvagn sem það dregur. Krafa er um að tengibúnaður bifreiðar skuli skoðaður og skráður í ökutækjaskrá eftir ásetningu. Skoðunarstofa tekur út tengibúnað eins og lýst er í skoðunarhandbók ökutækja.
Á tengibúnaði bifreiðar skal vera greinileg og varanleg merking um framleiðanda og mestu leyfða heildarþyngd eftirvagns sem tengja má við tengibúnaðinn.
Til að ásetning tengibúnaðar sé heimil skulu hafa verið skráðar upplýsingar um leyfða dráttargetu og þyngd vagnlestar (þó er heimil ásetning kúlutengis á bifreið sem skráð var 2009 eða fyrr þótt engin dráttargeta hafi verið skráð, Samgögustofa reiknar þá út heimilaða hámarksdráttargetu). Þegar ásetning tengibúnaðar ekki heimil er skráð 0 kg í dráttargetu ásamt því að skráð er stöðluð athugasemd "ATB Tengibúnaður óheimill".
Berist Samgöngustofu tilkynning um ásetningu óleyfilegs tengibúnaðar er henni hafnað og ber skoðunarstofu að tryggja að sú afgreiðsla skili sér til eiganda (umráðanda), þ.e. að ekki megi nota tengibúnaðinn og það þurfi að fjarlægja hann.
Merkt er við þann tengibúnað sem skal skrá á bifreiðina og upplýsingar um hann skráðar (bæði texti og tölur):
Tengibúnaður (merkt við 013 Kúlutengi, 014 Boltatengi og/eða 015 Dráttarstóll).
Tegund og undirtegund (texti): Framleiðandi eða tegundarheiti tengibúnaðar eins og kemur fram á varanlegu merkingunni.
Dráttargeta skv. tengibúnaði (rauntala í kg): Þegar þetta gildi er gefið upp fyrir kúlutengi skal það skráð.
D-gildi (rauntala í kN) og/eða Dc-gildi (rauntala í kN): Fyrir allar gerðir á þetta að koma fram. Gildið lýsir samhengi leyfðrar heildarþyngdar bifreiðar (T) og eftirvagns (C), þannig: D=9,81x(TxC)/(T+C).
S-gildi (rauntala í kg), V-gildi (rauntala í kN) eða U-gildi (rauntala í tonnum): Fyrir kúlutengi (S), boltatengi (S og/eða V) og stóltengi (U) á þetta gildi að koma fram. Gildin lýsa hámarks lóðréttri þyngd sem leggja má á tengibúnaðinn.
Við skráningu upplýsinga um tengibúnað hjá Samgöngustofu er athugað hvort dráttargeta hans er lægri en það sem skráð er á bifreiðina. Ef svo er þá er dráttargeta bifreiðarinnar lækkuð niður í dráttargetu tengibúnaðarins, en sé hún jafnhá eða hærri er engin breyting gerð á dráttargetu bifreiðarinnar. Skráðri hámarksþyngd vagnlestar, sé hún til staðar, er þó aldrei breytt.
Sérbúnaður: Festingar fyrir hjólastóla
Alltaf þegar það er festing fyrir hjólastól, hvort sem hjólastóllinn kemur í stað hefðbundins sætis eða til viðbótar, er þessi sérbúnaður skráður. Skoðunarstofa tekur út þessar festingar eins og lýst er í skoðunarhandbók ökutækja.
Merkt er við þann fjölda festinga sem skal skrá í bifreiðina fyrir hjólastóla:
Festingar fyrir hjólastóla (021), (022), (023) og (024): Úttekin og samþykkt festing fyrir hjólastól (1, 2, 3 eða 4 festingar).
Ef hjólastóll hefur eigið svæði er bifreiðin gerð fyrir viðbótarfarþega (þ.e. ekki þarf að fjarlægja sæti til að koma stólnum fyrir). Þá mun til viðbótar verða skráð athugasemd "SHx Til sætafjölda telst x hjólastólasvæði" í ökutækjaskrá (þar sem x er fjöldi hjólastólasvæða), til að farþeginn sé skráður. Skoðunarstofa þarf að taka þetta fram í athugasemdarreit á US.111.
Sérbúnaður: Leiðsögumenn í hópbifreið
Sérstakt sæti fyrir leiðsögumann í hópbifreið (sem samþykkt er sem slíkt samkvæmt teikningu) er skráð inn sem þessi sérbúnaður. Sætið er ekki ætlað fyrir almenna farþega, enda stenst það ekki kröfur sem slíkt. Sætið er ekki talið með í reitnum "Heildarfjölda farþega" á US.111 (en telst með í reitinn S.1 Sætafjöldi á skráningarskírteini).
Skoðunarstofa tekur út sérstakt leiðsögumannssæti eins og lýst er í skoðunarhandbók ökutækja, sætið kemur fram á teikningu um sætaskipan hópbifreiðar (sem samþykkt er fyrirfram af Samgöngustofu) og á merking þess í bílnum að vera til samræmis. Þegar ekki þarf að framvísa teikningu (gerðarviðurkennd hópbifreið) hefur Samgöngustofa skráð leiðsögumannssæti (og má skoðunarstofa ekki gera neinar breytingar við nýskráningu þeirra), sé ósamræmi þar á ber að hafna bæði skoðun og skráningu.
Leiðsögumannssæti (011 eitt og 012 tvö): Sérstakt sæti fyrir leiðsögumann (sem er skráð sem sérbúnaður og stenst ekki kröfur til almenns farþegasætis).
Við skráningu upplýsinga um fjölda sæta hópbifreiðar hjá Samgöngustofu er lagður saman fjöldi farþega í reitnum "Heildarfjöldi farþega" og fjöldi tilkynntra sérbúinna leiðsögumannasæta (ásamt fjölda hjólastólasvæða ef við á), að frádregnum fjölda standandi farþega í reitnum "Þ.a. stæði", og þessar upplýsingar birtar í reitnum S.1 Sætafjöldi á skráningarskírteini.
Sérbúnaður: Búnaður fyrir fatlaðan ökumann
Búnaður fyrir fatlaðan ökumann getur verið allt frá því að vera mjög einfaldur aðstoðarbúnaður, t.d. hnúður á stýrishjóli, yfir í að vera mjög flókinn búnaður sem hefur áhrif á flestöll stjórntæki. Skoðunarstofa tekur út búnað fyrir fatlaðan ökumann eins og lýst er í skoðunarhandbók ökutækja
Búnaður fyrir fatlaðan ökumann (005): Úttekinn og samþykktur sérbúnaður sem fatlaður ökumaður notar til að stjórna ökutækinu.
Við skráningu upplýsinga um sérbúnað fyrir fatlaðan ökumann þarf helst að koma skýrt fram um hvers konar búnað er að ræða. Skoðunarstofa þarf að taka þetta fram í athugasemdarreit á US.111, dæmi:
"Hnúður á stýri - bensíngjöf og bremsa handvirkar"
"Búnaður fyrir inngjöf bílstjóra og kúla á stýri"
"Stöng fyrir bensíngjöf og bremsu"
"Handfang fyrir bensín/bremsu"
"Handstýring"
"Bremsu- og bensínstöng við stýri, lyfta fyrir tóman hjólastól aftan við bílstjóra"
"Hjólastólafesting í stað ökumannssætis"
Ökutækisflokkur
Sjá tvö skjöl um skráningu ökutækisflokka, annars vegar yfirlitsskjal með öllum flokkum og hins vegar skjal með nánari skilgreiningu á hverjum yfirflokki ökutækisflokkanna og reglum um breytingu á milli þeirra.
Notkunarflokkur
Sjá kafla um skráningu notkunarflokka þar sem er að finna nákvæma skilgreiningu á hverjum notkunarflokki og reglum um skráningu í hvern þeirra.
Efni kaflans
Sending fylgigagna með US.111
Gögn sem skoðunarstofa þarf að móttaka í tengslum við skráningu (með eða án skoðunar) skulu uppfylla viðeigandi skilyrði. Þeim ber að skila inn með US.111 (skönnuðu skjali eða skjal sem móttekið hefur verið á rafrænu formi). Þegar skylda er að skila gagninu og það liggur ekki fyrir við afgreiðslu eða skoðun, skal afgreiðslu hafnað og viðkomandi skoðun hafnað (skráningarskoðun og breytingaskoðun).
Vigtarseðill
Við vigtun á eiginþyngd ökutækja skal framkvæmd af löggiltum vigtarmanni. Notuð er löggilt vog við vigtunina. Mælt er með að nota form US.114. Ef áskildar upplýsingar koma ekki fram eða eru ófullnægjandi, er vigtarseðillinn ógildur. Vigtarseðill gildir í 7 daga frá útgáfudegi.
Að öllum skilyrðum uppfylltum er vigtarseðillinn skannaður inn (eða tekin af honum mynd) og settur sem viðhengi með tilkynningu á US.111. Frumritið er ekki sent til Samgöngustofu.
Eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram á vigtarseðli (að fyrirmynd US.114):
Auðkenni ökutækis: Fastanúmer, skráningarnúmer eða verksmiðjunúmer ökutækis sem vigtað var.
Auðkenni vigtar: Nafn vigtar.
Auðkenni vigtarmanns: Nafn löggilts vigtarmanns og fyrstu sex tölurnar í kennitölu hans. Skilyrði er að vigtarmaður sé skráður á lista HMS yfir löggilta vigtarmenn á vigtunardegi.
Dagsetning vigtunar.
Akstursmælir: Staða akstursmælis ökutækisins (sé það búið akstursmæli).
Eldsneytismagn: Staðfesting vigtarmanns á magn eldsneytis í geymum (samkvæmt þeim skilyrðum sem gilda, frekari upplýsingar á vigtarseðli).
Eiginþyngd: Eigin þyngd ökutækisins í kílóum.
Ásþyngdir: Vegna vigtunar á hópbifreið og breyttri bifreið: Ásþyngdir í kílóum (eða nægar upplýsingar til að hægt sé að reikna þær).
Staðfesting vigtarmanns: Undirskrift og/eða stimpill löggilts vigtarmanns.
Staðfesting umbeiðanda: Nafn og undirskrift þess sem fór með ökutækið í vigtun.
Hraðamælavottorð
Skoðunarstofur ökutækja mega gefa út staðfestingu á hraðamæli (valkvætt). Notað er GPS tæki til að mæla raunhraða á meðan ekið er. Gefið er út vottorð á eyðublaði US.139 ef hraðamælir er innan vikmarka. Ef áskildar upplýsingar koma ekki fram eða eru ófullnægjandi, er hraðamælavottorðið ógilt. Hraðamælavottorð gildir í 7 daga frá útgáfudegi.
Að öllum skilyrðum uppfylltum er vottorðið skannað inn (eða tekin af því mynd) og sett sem viðhengi með tilkynningu á US.111. Frumritið er ekki sent til Samgöngustofu.
Eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram á hraðamælavottorði (US.139):
Staður og dagsetning: Nafn skoðunarstofu, staður og starfsmaður, ásamt dagsetningu úttektar.
Ökutæki: Fastnúmer, tegund og undirtegund, og dekkjastærð (bæði lesin og mæld).
Hjólbarðastærð: Skráð stærð á hjólbarða og ummál (radíus ×2π).
Hraðagildi: Fyrir báða mælipunkta er skráður raunhraði og leyfileg vikmörk.
Niðurstaða: Niðurstaða mælingar (innan marka eða ekki).
Undirskrift: Undirritun úttektaraðila.
Mælingar á hraða eru gerðar með GPS tæki. Kröfur til þeirra eru þessar:
Hnettir: Tækið þarf að geta læst á a.m.k. 4 hnetti.
Aflestur: Æskilegt að hægt sé að frysta hraðagildi, eða hægt sé að fletta upp í log til að sjá hraða á ákveðnum tímapunkti (og þá þarf að vera auðvelt að skrá hjá sér tímapunktinn).
Hraði: Birta hraðagildi á ekki sjaldnar en sekúndu fresti. Ef það er meðaltal yfir tímabil þá má það ekki vera meðaltal yfir lengra tímabil en síðustu 2 sekúndna.
Undirbúningur, aðstæður og vikmörk við mælingu eru þessar:
Úttektaraðili: Starfsmaður skoðunarstofu.
Vegur/aðstæður: Vegur sé beinn, því sem næst láréttur, helst fjarri háum húsum, og kaflinn sé það langur að hægt sé að halda umbeðnum hraða í 5-10 sekúndur.
Hjólbarðastærð: Hjólbarðastærð er lesin (af hjólbarða, reikna með að allir hjólbarðar séu af sömu stærð) og radíus hjólbarðans mældur (mælt frá jörðu upp í mitt hjólnaf).
Ferill úttektar er þessi:
Akstur og aflestur: Úttektaraðili situr í bíl með ökumanni þannig að hann geti lesið tryggilega af hraðamæli.
Mælipunktar: Miðað er við hraða samkvæmt hraðamæli. Misjafnt er hvaða merkingar eru á hraðamælaskífu, en mælt er á hraða sem merktur er á skífuna. Helst á að mæla við 30 km/klst. og 50 km/klst., en ef þeir hraðar eru ekki merktir á skífuna ber að mæla við 40 km/klst. og 60 km/klst.
Aflestur: Þegar viðkomandi hraða er náð er honum haldið í um 3-5 sek og þá lesið af GPS-tæki.
Leyfileg vikmörk: Hraðamælir má ekki sýna meira en 4% minni hraða og 10% meiri hraða en raunverulegt er skv. GPS-tæki til að hægt sé að staðfesta að hraðamælir sé innan marka.
Upplýsingaplata
Þurfi að lesa upplýsingar af upplýsingaspjaldi og skila til Samgöngustofu er tekin mynd spjaldinu og sett sem viðhengi með tilkynningu US.111 (verður hluti af skráningargögnum sem geymast í ökutækjaskrá).
Á öllum ökutækjum ætti að vera sérstakt upplýsingaspjald þar sem fram koma nokkrar upplýsingar ásamt verksmiðjunúmeri ökutækisins. Upplýsingaspjaldið er oftast harðspjald (plata en ekki miði) sem þannig er fest á og útfært að það verður ekki tekið af (eða flutt á milli öktuækja) öðruvísi en það skemmist eða eyðileggist (og þannig megi augljóslega sjá að átt hafi verið við það og það teljist ógilt).
Í bifreiðum og dráttarvélum er spjaldið yfirleitt í hurðarstaf, á eftirvögnum er það yfirleitt fremst á grindarbita og á bifhjólum er það yfirleitt á grind (þó stundum undir sæti eða hlíf sem auðvelt er að fjarlægja).
Á spjaldinu geta eftirfarandi upplýsingar komið fram. Áríðandi er að lesa eininguna á tölugildum vel og breyta þeim í kg (þyngd í lbs er breytt yfir kg með því að margafalda með 0,4536):
Verksmiðjunúmer ökutækisins (VIN): Er nær undantekningarlaust. Fremst og aftast er yfirleitt sama rittákn (t.d. stjarna) til að tákna upphaf og endi þess.
Gerðarnúmer: Viðurkenningarnúmer samkvæmt evrópskum reglum, t.d. e1*2018/858*0250*25.
Leyfð heildarþyngd ökutækisins: Getur verið GVWR (Gross Vehicle Weight Rating), Gross Weight Maximum, Gross Weight, Total Permissible Mass, Max Vehicle Laden Weight o.fl. Stundum er talan efst á spjaldinu án skýringar, jafnvel tvær tölur án skýringar og þá á að nota hærri töluna (sú lægri er einhverskonar eiginþyngd). Á eftirvögnum gæti verið ATM (Aggregate Trailer Mass).
Leyfð ásþyngd sérhvers áss: Getur verið GAWR (Gross Axle Weight Rating), Max Axle Loading, Max Axle Wt o.fl. Svo er ásinn tilgreindur (eða tilgreindur án frekari skýringa), annað hvort talið frá fremsta ás (númer 1) eða Front (fremri) og Rear (aftari). Á dráttarvélum er oft notað A-1 og A-2 (fyrir fremri og aftari ás).
Leyfð vagnlest vélknúins ökutækis: Getur verið GCWR (Gross Combined Weight Rating), GTW (Gross Train Weight), Gross Train Mass o.fl.
Dráttargeta óhemlaðs eftirvagns vélknúins ökutækis: Getur verið Unbraked Towable Mass o.fl. Á dráttarvélum er oft notað B-1.
Dráttargeta hemlaðs eftirvagns vélknúins ökutækis: Getur verið Maximum Towable Mass o.fl. Á dráttarvélum er oft notað B-2.
Komið getur fyrir að fleiri en ein upplýsingaplata er á ökutæki, allar með umbeðnum upplýsingum en samt einhver mismunur á gildum. Einnig getur stundum verið erfitt að átta sig nákvæmlega á því hvaða hvaða tölu á að velja. Í þessum tilvikum skal ekki skráð neitt gildi í viðkomandi þyngdarreit en í staðinn skrifuð athugasemdin "Samgöngustofa beðin um að lesa úr upplýsingaplötu fyrir xxxþyngd" (þar sem xxx er sú þyngd sem er óljós). Samgöngustofa skoðar þá plötuna/plöturnar á myndinni sem send er og finnur út úr réttu gildi.
Hjólastöðuvottorð
Vottun á hjólastöðu skal framkvæmd af vottuðum mælingamanni. Notuð eru sérstök mælitæki við mælinguna. Áskilið er að nota form US.136. Ef áskildar upplýsingar koma ekki fram eða eru ófullnægjandi, er vottorðið ógilt. Vottorðið hefur ekki takmörkun á gildistíma en skal gefið út eftir að breyting, viðgerð eða skoðun fór fram (sem kallaði á útgáfu vottorðsins).
Að öllum skilyrðum uppfylltum er vottorðið skannað inn (eða tekin af því mynd) og sett sem viðhengi með tilkynningu á US.111. Frumritið er ekki sent til Samgöngustofu.
Eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram á hjólastöðuvottorði (US.136):
Auðkenning: Fastanúmer ökutækis og verksmiðjunúmer.
Verkstæði: Nafn og kennitala verkstæðis.
Mælingamaður: Nafn og kennitala mælingamanns.
Akstursmælir: Staða akstursmælis við mælingu.
Útgáfuástæða: Ástæða útgáfu vottorðs (vegna viðgerðar á tjónaökutæki eða vegna breytinga/skoðunar ökutækis).
Staðfesting: Undirskrift og dagsetning mælingamanns ásamt staðfestingu á að hjólastaða sé innan marka.
Burðarvirkisvottorð
Vottun á burðarvirki skal framkvæmd af vottuðum mælingamanni. Notuð eru sérstök mælitæki við mælinguna. Áskilið er með að nota form US.135. Ef áskildar upplýsingar koma ekki fram eða eru ófullnægjandi, er vottorðið ógilt. Vottorðið hefur ekki takmörkun á gildistíma en skal gefið út eftir að breyting eða viðgerð fór fram (sem kallaði á útgáfu vottorðsins).
Að öllum skilyrðum uppfylltum er vottorðið skannað inn (eða tekin af því mynd) og sett sem viðhengi með tilkynningu á US.111. Frumritið er ekki sent til Samgöngustofu.
Eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram á burðarvirkisvottorði (US.135):
Auðkenning: Fastanúmer ökutækis og verksmiðjunúmer.
Verkstæði: Nafn og kennitala verkstæðis.
Mælingamaður: Nafn og kennitala mælingamanns.
Akstursmælir: Staða akstursmælis við mælingu.
Útgáfuástæða: Ástæða útgáfu vottorðs (vegna viðgerðar á tjónaökutæki eða vegna breytinga á burðarvirki ökutækis).
Staðfesting: Undirskrift og dagsetning mælingamanns ásamt staðfestingu á að burðarvirki sé innan marka og á grundvelli hvers sú staðfesting er gerð.
Metanvottorð (metanísetning)
Breyting á brunahreyfil til að hann geti notað metan (þjappað jarðgas, CNG) sem orkugjafa skal framkvæmd af viðurkenndum ísetningaraðila (á lista US.366) og útbýr hann vottorð. Áskilið er að nota form US.184. Ef áskildar upplýsingar koma ekki fram eða eru ófullnægjandi, er vottorðið ógilt. Vottorðið hefur ekki takmörkun á gildistíma en skal gefið út eftir að breyting fór fram (sem kallaði á útgáfu vottorðsins).
Að öllum skilyrðum uppfylltum er vottorðið skannað inn (eða tekin af því mynd) og sett sem viðhengi með tilkynningu á US.111. Frumritið er ekki sent til Samgöngustofu.
Eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram á metanvottorði (US.184):
Auðkenning: Fastanúmer, skráningarnúmer eða verksmiðjunúmer ökutækisins, ásamt tegund ökutækis.
Ísetningaraðili: Nafn ísetningaraðila og ábyrgðarmanns.
Upplýsingar um kerfið: Upplýsingar um kerfið sem sett var í, þar á meðal nafn framleiðanda kerfisins, að kerfið sé viðbótarorkugjafi, og að til staðar sé sjálfvirkur loki (v/þrýstingsfalls), einstreymisloki, yfirþrýstingsloki, hitastýrður yfirþrýstingsbúnaður, yfirflæðisloki og þrýstijafnari. Staðfestingar á að allur þessi búnaður, ásamt áfyllingarbúnaði, gasfæðibúnaði (til að fæða sprengirými) og stjórntölva sé ECE110 vottuð.
Upplýsingar um geyma: Upplýsingar um þrýstigeymana sem settir voru í (stærð í lítrum og gildistími). Staðfestingar á að þeir séu ECE110 eða ISO11439 vottaðir.
Lekaprófun: Staðfesting á að kerfið hafi verið lekaprófað.
Staðfesting: Undirskrift og dagsetning ísetningaraðila.
Nýskráningarblað/Endurskráningarblað
Sé umsókn um nýskráningu eða umsókn um endurskráningu skilað til skoðunarstofu á pappír er umsóknin skönnuð inn (eða tekin af henni mynd) og sett sem viðhengi með tilkynningu á US.111. Frumritið berist til Samgöngustofu innan 10 virkra daga.
Nánari upplýsingar er að finna í reglum um nýskráningu og endurskráningu ökutækis.
Vottorð um sérsmíði í stýrisbúnaði
Sé hlutur í stýrisbúnaði breyttrar bifreiðar sérsmíðaður ber að óháðum rannsóknaraðila að votta smíðina. Hann útbýr vottorð þess efnis (ekki ákvæði um tiltekið form). Vottorðið hefur ekki takmörkun á gildistíma en skal gefið út eftir að breyting fór fram (sem kallaði á útgáfu vottorðsins).
Að öllum skilyrðum uppfylltum er vottorðið skannað inn (eða tekin af því mynd) og sett sem viðhengi með tilkynningu á US.111. Frumritið er ekki sent til Samgöngustofu.
Efni kaflans
Skráning og breyting ökutækisflokka
Gildi í valtöflum eru valin úr listum. Ökutækisflokkur einkennir ökutækið.
Gildin eru tilkynnt af skoðunarstofu ökutækja í tengslum við skráningarskoðun eða breytingaskoðun á rafrænu eyðublaði US.111. Ef upplýsingar um gildið liggja ekki fyrir við skráningaskoðun eða breytingarskoðun, eða ökutækið uppfyllir ekki sett skilyrði, skal skoðun og skráningu ökutækisins hafnað.
Yfirlit ökutækisflokka bifreiða
Í töflunni eru gildir ökutækisflokkar bifreiða í ökutækjaskrá. Með lhþ er átt við leyfða heildarþyngd.
Kóði | Ökutækisflokkur | U.kóði | U.kóði heiti | Skýring |
M1 | Fólksbifreið (M1) |
|
| Fyrir 8 farþega eða færri |
M1 | Fólksbifreið (M1) | G | Torfærubifreið | Fyrir 8 farþega eða færri |
M2 | Hópbifreið I (M2) | UA / UB | U-A / U-B | Fleiri en 8 farþegar. Lhþ <5.000 kg |
M2 | Hópbifreið I (M2) | U1 / U2 / U3 | U-I / U-II / U-III | Fleiri en 8 farþegar. Lhþ <5.000 kg |
M2 | Hópbifreið I (M2) | UBG | U-B Torfærubifreið | Fleiri en 8 farþegar. Lhþ <5.000 kg |
M3 | Hópbifreið II (M3) | UA / UB | U-A / U-B | Fleiri en 8 farþegar. Lhþ >5.000 kg |
M3 | Hópbifreið II (M3) | U1 / U2 / U3 | U-I / U-II / U-III | Fleiri en 8 farþegar. Lhþ >5.000 kg |
M3 | Hópbifreið II (M3) | UBG / U3G / G | U-B / U-III Torfærubifreið | Fleiri en 8 farþegar. Lhþ >5.000 kg |
N1 | Sendibifreið (N1) |
|
| Hámark 6 farþegar. Til vöruflutninga. Lhþ ≤3.500 kg |
N2 | Vörubifreið I (N2) |
|
| Hámark 6 farþegar. 3.500 kg < lhþ ≤ 12.000 kg |
N3 | Vörubifreið II (N3) |
|
| Hámark 6 farþegar. Lhþ > 12.000 kg |
Yfirlit ökutækisflokka eftirvagna
Í töflunni eru gildir ökutækisflokkar eftirvagna (annarra en eftirvagna dráttarvéla) í ökutækjaskrá. Með lhþ er átt við leyfða heildarþyngd og lhþá er átt við leyfða heildarþyngd á ásasett (eða ás ef bara einn).
Kóði | Ökutækisflokkur | U.kóði | U.kóði heiti | Skýring |
O1 | Eftirvagn I (O1) | EF1 | Tengivagn | Lhþ ≤ 750 kg |
O1 | Eftirvagn I (O1) | EF3 | Hengivagn | Lhþ ≤ 750 kg |
O2 | Eftirvagn II (O2) | EF1 | Tengivagn | 750 kg < lhþ ≤ 3.500 kg |
O2 | Eftirvagn II (O2) | EF2 | Festivagn | 750 kg < lhþ ≤ 3.500 kg |
O2 | Eftirvagn II (O2) | EF3 | Hengivagn | 750 kg < lhþ ≤ 3.500 kg |
O3 | Eftirvagn III (O3) | EF1 | Tengivagn | 3.500 kg < lhþ ≤ 10.000 kg |
O3 | Eftirvagn III (O3) | EF2 | Festivagn | 3500 kg < lhþ ≤ 10.000 kg |
O3 | Eftirvagn III (O3) | EF3 | Hengivagn | 3500 kg < lhþ ≤ 10.000 kg |
O4 | Eftirvagn IV (O4) | EF1 | Tengivagn | Lhþ > 10.000 kg |
O4 | Eftirvagn IV (O4) | EF2 | Festivagn | Lhþ > 10.000 kg |
O4 | Eftirvagn IV (O4) | EF3 | Hengivagn | Lhþ > 10.000 kg |
O4 | Eftirvagn IV (O4) | EF4 | Tengivagn / Festivagn | Lhþ > 10.000 kg |
Yfirlit ökutækisflokka bifhjóla (tví-/þrí-/fjórhjóla)
Í töflunni eru gildir ökutækisflokkar bifhjóla í ökutækjaskrá. Með lhþ er átt við leyfða heildarþyngd.
Kóði | Ökutækisflokkur | U.kóði | U.kóði heiti | Skýring |
L1e | Létt bifhjól (L1e) | Á tveimur hjólum, slagrými <50cc eða rafknúið, hám.hraði ≤45 km/klst. Sjá nánar í 168/2013/EB, viðauka I | ||
L1e | Létt bifhjól (L1e) | A | Vélknúið hjól ≤25 km/klst | Á tveimur hjólum, slagrými <50cc eða rafknúið, hám.hraði ≤25 km/klst. Sjá nánar í 168/2013/EB, viðauka I |
L1e | Létt bifhjól (L1e) | B | Létt bifhjól á tveimur hjólum | Á tveimur hjólum, slagrými <50cc eða rafknúið, hám.hraði ≤45 km/klst. Sjá nánar í 168/2013/EB, viðauka I |
L2e | Létt bifhjól (L2e) |
|
| Á þremur hjólum, slagrými <50cc eða rafknúið, hám.hraði ≤45 km/klst |
L2e | Létt bifhjól (L2e) | P | Hannað til farþegaflutninga | Á þremur hjólum, slagrými <50cc eða rafknúið, hám.hraði ≤45 km/klst |
L3e | Bifhjól (L3e) | A2T | Klifurhjól með miðlungs afl | Á tveimur hjólum og flokkast ekki undir létt bifhjól |
L3e | Bifhjól (L3e) | A3 | Bifhjól með mikið afl | Á tveimur hjólum og flokkast ekki undir létt bifhjól |
L3e | Bifhjól (L3e) | A1 | Bifhjól með lítið afl | Á tveimur hjólum og flokkast ekki undir létt bifhjól |
L3e | Bifhjól (L3e) | A2 | Bifhjól með miðlungsafl | Á tveimur hjólum og flokkast ekki undir létt bifhjól |
L3e | Bifhjól (L3e) |
|
| Á tveimur hjólum og flokkast ekki undir létt bifhjól |
L3e | Bifhjól (L3e) | A3E | Torfæruhjól með mikið afl | Á tveimur hjólum og flokkast ekki undir létt bifhjól |
L3e | Bifhjól (L3e) | A2E | Torfæruhjól með miðlungsafl | Á tveimur hjólum og flokkast ekki undir létt bifhjól |
L3e | Bifhjól (L3e) | A1E | Torfæruhjól með lítið afl | Á tveimur hjólum og flokkast ekki undir létt bifhjól |
L3e | Bifhjól (L3e) | A1T | Klifurhjól með lítið afl | Á tveimur hjólum og flokkast ekki undir létt bifhjól |
L4e | Bifhjól (L4e) |
|
| Á tveimur hjólum með hliðarvagni og flokkast ekki undir létt bifhjól. |
L5e | Bifhjól (L5e) | A | Hannað til farþegaflutninga | Á þremur hjólum og flokkast ekki undir létt bifhjól. |
L5e | Bifhjól (L5e) |
|
| Á þremur hjólum og flokkast ekki undir létt bifhjól. |
L5e | Bifhjól (L5e) | B | Hannað til vöruflutninga | Á þremur hjólum og flokkast ekki undir létt bifhjól. |
L6 | Létt bifhjól (L6e) | A | Létt fjórhjól til aksturs á vegum | Létt fjórhjól skv. 168/2013/ESB |
L6e | Bifhjól (L6e) | B | Létt ökutæki með fjórum hjólum | Á fjórum hjólum heildarþyngd minni en 350 kg án farms og án rafgeyma sé það rafknúið |
L6e | Bifhjól (L6e) |
|
| Á fjórum hjólum heildarþyngd minni en 350 kg án farms og án rafgeyma sé það rafknúið |
L6e | Bifhjól (L6e) | BP | Létt ökutæki á fjórum hjólum til farþegaflutninga | Á fjórum hjólum heildarþyngd minni en 350 kg án farms og án rafgeyma sé það rafknúið |
L7e | Bifhjól (L7e) | CP | Hannað til farþegaflutninga | Á fjórum eða sex hjólum, ekki yfir 400 kg án farms og ekki yfir 550 kg án rafgeyma sé það rafknúið |
L7e | Bifhjól (L7e) | B2 | Þungt fjórhjól fyrir tvo samhliða | Á fjórum eða sex hjólum, ekki yfir 400 kg án farms og ekki yfir 550 kg án rafgeyma sé það rafknúið |
L7e | Bifhjól (L7e) | CU | Hannað til vöruflutninga | Á fjórum eða sex hjólum, ekki yfir 400 kg án farms og ekki yfir 550 kg án rafgeyma sé það rafknúið |
L7e | Bifhjól (L7e) | B1 | Þungt fjórhjól til torfæruaksturs | Á fjórum eða sex hjólum, ekki yfir 400 kg án farms og ekki yfir 550 kg án rafgeyma sé það rafknúið |
L7e | Bifhjól (L7e) |
|
| Á fjórum eða sex hjólum, ekki yfir 400 kg án farms og ekki yfir 550 kg án rafgeyma sé það rafknúið |
Yfirlit ökutækisflokka dráttarvéla og eftirvagna þeirra
Flokkar dráttarvéla og eftirvagna þeirra ásamt hámarksstærð. Athuga að við mælingu á breidd telst belgur hjólbarðans þar sem hjólbarðinn snertir vegyfirborðið ekki með (eingöngu mæla að ytri mörkum snertiflatar við veg en ekki út fyrir belginn).
Ökutækis-flokkur | Skilgreining | Lengd | Breidd | Hæð |
---|---|---|---|---|
T | Dráttarvél á hjólum (undirfl a ≤ 40 km/klst, undirfl b > 40 km/klst). | 12 m | 2,55 m | 4 m |
C | Dráttarvél á beltum eða bæði á hjólum og beltum. | 12 m | 2,55 m | 4 m |
R | Eftirvagn dráttarvélar (undirfl a ≤ 40 km/klst, undirfl b > 40 km/klst). | 12 m | 2,55 m | 4 m |
S | Landbúnaðartæki eða búnaður sem dráttarvél dregur. | 12 m | 3,30 m | 4 m |
Undirflokkar dráttarvéla á hjólum (T).
Ökutækisflokkur | Skilgreining |
---|---|
T1 | Dráttarvél á hjólum með lágmarks sporvídd 1.150 mm á þeim ási sem er næstur ökumanni, að eigin þyngd yfir 600 kg, og með að hámarki 1.000 mm undir hæsta punkt (þegar hægt er snúa akstursátt við, með snúanlegu sæti og stýri, er ásinn næst ökumanni sá ás sem hefur mesta þvermálið). |
T2 | Dráttarvél á hjólum með lágmarks sporvídd undir 1.150 mm, að eigin þyngd yfir 600 kg, með að hámarki 600 mm undir hæsta punkt; hönnunarhraði gæti verið takmarkaður við 30 km/klst (af stöðugleikaástæðum). |
T3 | Dráttarvél á hjólum að eigin þyngd 600 kg að hámarki. |
T4 | Dráttarvélar á hjólum í sérhæfð verk (í þremur undirflokkum; 1 háfættar, 2 breiðar, 3 lágfættar). |
Undirflokkar eftirvagna dráttarvéla (R og S).
Ökutækisflokkur | Skilgreining |
---|---|
R1 | Hefur samanlagða burðargetu ása ≤ 1.500 kg. |
R2 | Hefur samanlagða burðargetu ása > 1.500 og ≤ 3.500 kg. |
R3 | Hefur samanlagða burðargetu ása > 3.500 og ≤ 21.000 kg. |
R4 | Hefur samanlagða burðargetu ása > 21.000 kg. |
S1 | Hefur samanlagða burðargetu ása ≤ 3.500 kg. |
S2 | Hefur samanlagða burðargetu ása > 3.500 kg. |
Í töflunni eru gildir ökutækisflokkar dráttarvéla í ökutækjaskrá. Með lhþ er átt við leyfða heildarþyngd, eþ er eigin þyngd, lp þýðir lægsta punkt og spv þýðir sporvídd.
Kóði | Ökutækisflokkur | U.kóði | U.kóði heiti | Skýring |
T1 | Dráttarvél I (T1) | b | >40 km/klst | Spv ≥1150 mm, eþ >600 kg, lp <1000 mm |
T1 | Dráttarvél I (T1) | Spv ≥1150 mm, eþ >600 kg, lp <1000 mm | ||
T1 | Dráttarvél I (T1) | a | ≤40 km/klst | Spv ≥1150 mm, eþ >600 kg, lp <1000 mm |
T2 | Dráttarvél II (T2) | b | >40 km/klst | Spv <1150 mm, eþ >600 kg, lp <600 mm, ef lp/spv >0,9 þá hám.hraði < 30 km/klst |
T2 | Dráttarvél II (T2) | Spv <1150 mm, eþ >600 kg, lp <600 mm, ef lp/spv >0,9 þá hám.hraði <30 km/klst | ||
T2 | Dráttarvél II (T2) | a | ≤40 km/klst | Spv <1150 mm, eiginþ >600 kg, lægra en 600 mm undir lp. Lp/spv > 0.9 þá hám.hraði <30 km/klst |
T3 | Dráttarvél III (T3) | Eþ <600 kg | ||
T3 | Dráttarvél III (T3) | b | >40 km/klst | Eþ <600 kg |
T3 | Dráttarvél III (T3) | a | ≤40 km/klst | Eþ <600 kg |
T4 | Dráttarvél IV (T4) | Önnur dráttarvél en I,II eða III | ||
T43 | Dráttarvél 4.3 | a | ≤40 km/klst | Dráttarvélar á hjólum til sérstakra með lítilli fríhæð |
T5 | Dráttarvél V (T5) | Önnur dráttarvél en I, II, III eða IV sem hönnuð er til hraðari aksturs en 40 km/klst |
Í töflunni eru gildir ökutækisflokkar eftirvagna dráttarvéla í ökutækjaskrá.
Kóði | Ökutækisflokkur | U.kóði | U.kóði heiti | Skýring |
R1 | Eftirvagn fyrir landbúnað (R1) | a | ≤40 km/klst | Eftirvagn fyrir landbúnað eða skógrækt þar sem tæknilega leyfilegur massi á hvern ás er samanlagt ekki meiri en 1.500 kg |
R1 | Eftirvagn fyrir landbúnað (R1) | b | >40 km/klst | Eftirvagn fyrir landbúnað eða skógrækt þar sem tæknilega leyfilegur massi á hvern ás er samanlagt ekki meiri en 1.500 kg |
R2 | Eftirvagn fyrir landbúnað (R2) | a | ≤40 km/klst | Eftirvagn fyrir landbúnað eða skógrækt þar sem tæknilega leyfilegur massi á hvern ás er samanlagt meiri en 1.500 kg en ekki meiri en 3.500 kg |
R2 | Eftirvagn fyrir landbúnað (R2) | b | >40 km/klst | Eftirvagn fyrir landbúnað eða skógrækt þar sem tæknilega leyfilegur massi á hvern ás er samanlagt meiri en 1.500 kg en ekki meiri en 3.500 kg |
R3 | Eftirvagn fyrir landbúnað (R3) | a | ≤40 km/klst | Eftirvagn fyrir landbúnað eða skógrækt þar sem tæknilega leyfilegur massi á hvern ás er samanlagt meiri en 3.500 kg en ekki meiri en 21.000 kg |
R3 | Eftirvagn fyrir landbúnað (R3) | b | >40 km/klst | Eftirvagn fyrir landbúnað eða skógrækt þar sem tæknilega leyfilegur massi á hvern ás er samanlagt meiri en 3.500 kg en ekki meiri en 21.000 kg |
R4 | Eftirvagn fyrir landbúnað (R4) | b | >40 km/klst | Eftirvagn fyrir landbúnað eða skógrækt þar sem tæknilega leyfilegur massi á hvern ás er samanlagt meiri en 21.000 kg |
R4 | Eftirvagn fyrir landbúnað (R4) | a | ≤40 km/klst | Eftirvagn fyrir landbúnað eða skógrækt þar sem tæknilega leyfilegur massi á hvern ás er samanlagt meiri en 21.000 kg |
S1 | Landbúnaðartæki eða búnaður sem dráttarvél dregur (S1) | a / b | Hefur samanlagða burðargetu ása ≤ 3.500 kg. | |
S2 | Landbúnaðartæki eða búnaður sem dráttarvél dregur (S2) | a / b | Hefur samanlagða burðargetu ása > 3.500 kg. |
Efni kaflans
Ökutækisflokkur
Þetta er flokkun ökutækisins í ökutækjaskrá til samræmis við gildandi lög og reglugerðir. Þetta er mjög mikilvægt skráningaratriði í ökutækjaskrá og hefur áhrif víða, s.s. hvað varðar tæknilegar kröfur og álagningu og upphæð opinberra gjalda.
Yfirökutækisflokkar
Allir neðangreindir ökutækisflokkar eru skráningarskyldir í ökutækjaskrá.
Bifreið (M-N)
Bifreið er vélknúið ökutæki sem er yfir 400 kg að eigin þyngd og hannað til hraðari aksturs en 30 km/klst. Er á hjólum eða er búið beltum og stýrimeiðum/stýrihjólum. Er aðallega ætlað til farþega-/farmflutninga eða til að draga annað ökutæki.
Yfirflokkun bifreiða er þessi:
M : Bifreið sem er hönnuð og smíðuð í þeim tilgangi að flytja farþega og farangur þeirra. Einnig ef fleiri en 8 sætisrými eru til viðbótar við sætisrými ökumanns jafnvel þótt bifreiðin sé ætluð til annarra nota. Heimilt að hafa svæði fyrir standandi farþega. Þessar bifreiðir kallast fólksbifreiðir og hópbifreiðir, fer eftir fjölda sætisrýma.
N : Bifreið sem er hönnuð og smíðuð í þeim tilgangi að flytja vörur og/eða hefur áfastan búnað. Má hafa mest 6 (N1) eða 8 (N2 og N3) sætisrými til viðbótar við sætisrými ökumanns. Ekki heimilt að hafa svæði fyrir standandi farþega. Skilyrði gilda um útfærslu farmrýmis og áfasts búnaðar og miða skal flokkun í þennan flokk við tæknilega útfærslu. Þessar bifreiðir kallast sendibifreiðir og vörubifreiðir, fer eftir leyfðri heildarþyngd.
Eftirvagn (O)
Eftirvagn er ökutæki sem hannað er til að vera dregið af öðru vélknúnu ökutæki (þó ekki af dráttarvél eða vinnuvél). Eftirvagn getur bæði verið ætlaður til flutninga (á farmi eða fólki) eða ekki. Þegar eftirvagn er ekki ætlaður til flutninga þá er um að ræða einhverskonar einingu á hjólum, til dæmis matarvagn, vinnuskúr, ljósavél, loftpressu, borkjarnavagn, tjaldvagn, fellihýsi eða hjólhýsi. Í eldri umferðarlögum voru þessar einingar á hjólum skilgreindar sem tengitæki og voru þau óskráningarskyld (og óskoðunarskyld) en þurftu þó að uppfylla allar tæknilegar kröfur eins og um sambærilegan eftirvagn væri að ræða. Með núgildandi umferðarlögum voru hins vegar ákvæði um tengitæki felld úr gildi og eru þau núna eftirvagnar. Um leið urðu þau skráningarskyld (ökutæki flutt inn eða tekin í notkun frá og með 1. janúar 2020) og þar með líka skoðunarskyld. Heimilt er að skrá tengitæki sem verið hafa á götunum fyrir þennan tíma.
Yfirflokkun eftirvagna er þessi:
O : Eftirvagn (annarra vélknúinna ökutækja en dráttarvéla og vinnuvéla).
Bifhjól (L) - tví/þrí/fjórhjól
Bifhjól er vélknúið ökutæki að hámarki 4 m langt, 2 m breitt og 2,5 m að hæð og hannað til hraðari aksturs en 25 km/klst. Það getur verið á tveimur hjólum, með eða án hliðarvagns, á þremur eða fjórum hjólum. Er aðallega ætlað til farþega- eða farmflutninga.
Yfirflokkun bifhjóla er þessi:
L : Bifhjól.
Dráttarvél (T)
Dráttarvél er vélknúið ökutæki sem aðallega er hannað til að draga annað ökutæki og draga, ýta, flytja og knýja vinnutæki og er á hjólum og/eða beltum.
Grunnflokkun dráttarvéla er þessi:
T : Dráttarvél á hjólum.
Torfærutæki (TO)
Torfærutæki er vélknúið ökutæki sem er aðallega ætlað notkunar utan vega (fólks- eða farmflutninga og/eða til að draga annað ökutæki) og er að hámarki 400 kg að eigin þyngd (þó 550 kg ef til farmflutninga). Er á hjólum eða er búið beltum og stýrimeiðum/stýrihjólum. Þetta er séríslenskur ökutækisflokkur fyrir þau ökutæki sem eru á stærð við bifhjól sem ekki uppfylla skilyrði til skráningar í almenna umferð vegna hönnunar og ætlaðrar notkunar (hönnuð til notkunar utan vega). Sé ökutæki, sem sama gildir um, á stærð við bifreið flokkast það sem skráningarskyld bifreið til utanvega- eða undanþáguaksturs eða sem skráningarskyld dráttarvél.
Grunnflokkun torfærutækja er þessi:
TO : Torfærutæki.
Færsla milli ökutækisflokka
Fyrsta flokkun gerðarviðurkenndra ökutækja við forskráningu er alltaf sú sem kemur fram á samræmisvottorði ökutækjanna. Við fyrstu flokkun skráningarviðurkenndra ökutækja við forskráningu er horft til hönnunar og smíði, leyfðrar heildarþyngdar og jafnvel eiginþyngdar, fjölda farþega, og skilyrða um útfærslu farmrýmis og áfests búnaðar. Samgöngustofa metur útfærsluna heildstætt og mögulega í samhengi við notkunarflokk. Skráður ökutækisflokkur gildir þar til annað fæst samþykkt, fáist breyting ekki samþykkt ber að breyta ökutækinu til baka án tafar.
Eftir fyrstu flokkun er heimilt að færa ökutæki milli ökutækisflokka innan yfirökutækisflokkanna (ekki milli yfirökutækisflokka). Sú tilfærsla skal þó alla jafna eiga sér stað eftir nýskráningu (þá megi breyta því til að falla í annan flokk). Þar sem flokkun ökutækja í ökutækisflokka er ein af grundvallarflokkun í ökutækjaskrá geta komið upp ýmis vafatilvik og þá úrskurðar Samgöngustofa. Með eftirfarandi punktum er þó reynt að útskýra algeng tilvik.
Samkvæmt reglugerð um gerð og búnað ökutækja þá skal ökutæki sem flutt er á milli ökutækisflokka uppfylla öll ákvæði reglugerðarinnar sem varða nýjan ökutækisflokk. Ekki er krafist nýrra staðfestinga eða tæknivottorða en miða verður við að hin breyttu atriði standist skoðun miðað við núgildandi reglur (s.s. gerð og búnaður fólks- og farmrýma, ljósabúnaður, hraðatakmarkari og þess háttar).
Sé ökutæki fært til skoðunar og það uppgötvast að því hafi verið breytt þannig að það uppfyllir ekki skráðan ökutækisflokk ber að hafna skoðun og ber eiganda (umráðanda) að breyta henni til baka. Sé ætlunin hins vegar að óska eftir breytingu á ökutækinu til samræmis við nýjan ökutækisflokk er ökutækið tekið til breytingaskoðunar (með þeim skilyrðum sem um þá skoðun gildir), þó ber að hafna þeirri skoðun uppfylli ökutækið ekki í meginatriðum nýjan ökutækisflokk (og sérstaklega ef ljóst er að bifreiðin er ekki að fara að uppfylla kröfur nýs ökutækisflokks nema með sérstaklega umfangsmiklum eða kostnaðarsömum breytingum).
Bifreið sem hefur fleiri en 8 sæti til viðbótar við sætisrými ökumanns fellur alltaf undir það að vera hópbifreið (flokka M2 eða M3, eftir leyfðri heildarþyngd). Sé slík bifreið ætluð til annarra nota líka (hópbifreið ætluð til vöruflutninga eða með áfastan búnað) skal sá hluti bifreiðarinnar uppfylla þau skilyrði sem gilda um bifreið í flokkum N af sömu leyfðu heildarþyngd (s.s. um útfærslu farmrýmis og festingar áfasts búnaðar).
Aðeins má skrá í ökutækjaskrá farþega í svæði fyrir standandi farþega í hópbifreiðum (flokkum M2 og M3). Komi í ljós í skoðun að svæði, ætlað standandi farþegum í hópbifreið sem skráð er fyrir standandi farþega, uppfyllir ekki skilyrði sem til þess eru gerð (s.s. um handslár eða handföng fyrir farþega), skal annað hvort bæta úr og koma svæðinu í lögmætt ástand eða fjarlægja skráða standandi farþega úr ökutækjaskrá (og uppfæra merkingar m.t.t. farþegafjölda í bifreiðinni) og uppfæra undirflokk hópbíla (í III eða B í stað I, II eða A).
Bifreið sem skráð er í N-flokkana þarf alltaf að uppfylla skilyrði um útfærslu farmrýmis, áfasts búnaðar og þyngdarskiptingu farþega og farms. Ekki heimilt að taka eitthvert þessara skilyrða úr sambandi með tiltölulega einfaldri breytingu bara til að geta fengið að skrá bifreiðina í flokk M1. Samgöngustofa getur þó heimilað að torfærubifreið undir 5 tonnum að leyðfri heildarþyngd, sem breytt hefur verið og þyngst við þá breytingu, verði breytt í M1.
Heimilt er að fækka sætisrýmum í fólksbifreið M1 með það fyrir augum að stækka farangursrýmið (enda farþegar og farangur í sameiginlegu rými). Ekki er skylt að breyta farþegaskráningu bifreiðarinnar (fækka farþegum) ef um tímabundna breytingu er að ræða en við reglubundna skoðun bifreiðarinnar skulu þó öll skráð sæti vera til staðar. Sé ætlunin að gera þessa breytingu varanlega er ekki skylt að breyta bifreiðinni yfir í N-flokk, jafnvel þótt þyngdarskipting fólks og farms gefi það til kynna að bifreiðin eigi frekar að tilheyra N-flokki (þá gætu önnur skilyrði verið óuppfyllt, eins og um festingar farms og farmskilrúm). Á móti kemur að óheimilt er að breyta bifreið í flokki N1, sem uppfyllir öll skilyrði sem slík, í fólksbifreið með einhverjum málamyndarbreytingum (fyrri punktur).
Bifreið sem er ekki yfir 3,5 tonnum að leyfðri heildarþyngd og hefur 6 eða færri sætisrými til viðbótar við sætisrými ökumanns getur í sumum tilvikum farið milli flokka M1 eða N1 með einföldum breytingum. Bifreið heldur þó alltaf sínum ökutækisflokki þar til breyting yfir í hinn ökutækisflokkinn uppfyllir öll skilyrði sem til hans eru gerðar (annars verður að breyta til baka).
Bifreið sem er ekki yfir 3,5 tonnum að leyfðri heildarþyngd og hefur 7 eða 8 sætisrými til viðbótar við sætisrými ökumanns má ekki vera N1 (vegna fjölda farþega) og skal því skráð M1 (nema sætin séu fjarlægð). Þar með eru ekki gerðar sérstakar kröfur til útfærslu farmrýma í þeim tilvikum, séu þau til staðar. Sé mögulegt að fjarlægja 7. og 8. sætið getur bifreiðin verið N1 að uppfylltum öðrum skilyrðum um útfærslu farmrýmis og/eða áfasts búnaðar.
Bifreið, sem er yfir 3,5 tonnum að leyfðri heildarþyngd og með 8 sætisrými eða færri til viðbótar við sætisrými ökumanns, flokkast sem N2 eða N3 (eftir leyfðri heildarþyngd) og skal uppfylla viðeigandi skilyrði um þá flokka (s.s. útfærslu farmrýma og/eða áfasts búnaðar, hraðatakmarkara o.fl.). Sú undantekning er þó á þessari reglu að bifreið sem uppfyllir skilyrði til að vera skráð til sérstakra nota í ökutækjaskrá má flokka í M1 og skrá í viðkomandi notkunarflokk.
Eftirvagn ætti ekki að flytjast á milli ökutækisflokka vegna þess að flokkunin byggir á leyfðri heildarþyngd, sem almennt er ekki breytt. Berist slíkt erindi ber að vísa því til Samgöngustofu.
Bifhjóli er heimilt að breyta á milli L3e og L4e ef um aftakanlegan hliðarvagn er að ræða.
Bifhjóli er heimilt að breyta á milli L-flokka við breytingu á afli ef það er samþykkt af framleiðanda. Sótt er um breytinguna til Samgöngustofu.
Óheimilt er að breyta bifhjóli í torfærutæki eða dráttarvél, eða öfugt. Þó gildir sú undantekning að hafi ranglega verið staðið að flokkun í upphafi er heimilt að leiðrétta það, sótt er um athugun á því til Samgöngustofu.
Orðanotkun og skilgreiningar hugtaka
Farmur í N-flokki er hvaðeina sem flutt er, s.s. hlutir í stykkjatali eða tönkum, í föstu formi eða fljótandi, lifandi dýr og óskiptanlegur farmur.
Útfærsla farmrýmis í N-flokkum: Farmrými og fólksrými bifreiða í flokki N ættu, af grundvallarástæðum, að vera algerlega aðskilin rými. Þó er heimilt að flytja farm og farþega í sama rými, að því gefnu að viðurkenndar festingar séu til staðar fyrir farminn og/eða farmskilrúm sé milli farþega og farms, sjá nánar í skoðunarhandbók ökutækja. Útfærsla farmrýmis er skráð sem yfirbygging í ökutækjaskrá.
Farangur ökumanns og farþega er eitthvað sem tilheyrir þeim í ferðinni og telst ekki til farms (vara eða vöruflutnings) og þurfa farangursrými ekki að uppfylla skilyrði til farmrýma. Til farangurs telst einnig flutningur á ýmsu hlutum í persónulegum tilgangi, s.s. með heimilisrusl eða almenn aðföng fyrir heimilið.
Útfærsla farangursrýmis í M-flokkum: Fólks- og farangursrými má vera í sama rými og ekki eru gerðar sérstakar kröfur til festinga eða skilrúma (sem hafa áhrif á flokkun bifreiðar).
Útfærsla áfasts búnaðar í N-flokkum: Áfastur búnaður bifreiðar í flokki N getur verið af ýmsu tagi, s.s. snjótönn, lyfta eða krani, og er skráður í ökutækjaskrá sem yfirbygging.
Þyngdarskipting farþega og farms í N-flokkum: Um bifreið í flokki N gildir að hún verður að hafa sama eða meiri burð fyrir farm en farþega (miðað við 68 kg á farþega). Sé skráð yfirbygging bifreiðar í flokki N2 eða N3 ekki til flutnings á neinu, þ.e. eingöngu áfastur búnaður, er ekki gerð krafa um burð fyrir farm.
Yfirbygging skal skráð á allar bifreiðir í flokkum N2, N3, O3 og O4.
Farþegar eru allir þeir einstaklingar sem hafa heimild til að vera í bifreiðinni á meðan hún er í akstri, fyrir utan ökumann.
Sætisrými í bifreið er sæti sem ætlað er til notkunar á meðan bifreiðin er í akstri og hefur viðurkennt rými umhverfis. Sérhvert stakt sæti og sérhvert breiddarrými sem er að lágmarki 400 mm í samfelldum sætisbekk skal uppfylla viðeigandi skilyrði til sætisrýmis (s.s. hvað varðar sætið og stærð þess, rýmið í kring og öryggisbeltakröfur).
Farþegasæti skulu uppfylla kröfur til sætisrýma.
Sæti fyrir áhöfn eru ökumannsæti og sérstök leiðsögumannssæti (eitt eða tvö, eingöngu í hópbifreið M2 og M3) sem bæði eru ætluð leiðsögumanni en má líka nýta fyrir auka ökumann (sem er í hvíld). Sæti fyrir áhöfn, nema ökumann, eru talin til farþega í reglugerð um ökuskírteini varðandi heimild til flutnings á farþegum.
Ökumannssæti er fyrir ökumann (sem er hluti af áhöfn) og skal uppfylla kröfur til sætisrýma og eftir því sem við á sérstakar kröfur sem gilda um sætisrými ökumanns hópbifreiðar M2 og M3. Ökumannsæti er ekki talið með í farþegafjölda
Leiðsögumannssæti eru sérstök sæti fyrir áhöfn sem merkt eru leiðsögumanni í hópbifreið M2 og M3. Þau þurfa ekki að uppfylla ítrustu kröfur til sætisrýma og má staðsetja í gangvegi eða fyrir dyrum, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum (tæknideild tekur út við yfirferð hópbílateikninga), eða framar en sæti ökumanns (sem annars má ekki nota fyrir aðra farþega).
Farþegar hjá ökumanni er fjöldi þeirra farþegasæta (af heildar farþegasætum) sem eru við hlið ökumanns (má segja að tilheyri sömu sætaröð og sæti ökumanns).
Óvirk sæti eru sæti í bifreið sem ekki eiga að falla undir það að vera sætisrými og þar af leiðandi eingöngu notuð í tilteknum tilgangi þegar ökutæki er kyrrstætt. Þau skulu merkt með skýrum hætti (mynd og/eða texti) í bifreiðinni. Í þessum tilvikum skulu sætin hafa sérstakan tilgang sem tengja má við skráða notkun ökutækisins (t.d. bekki í lögreglubifreið, vinnusæti í sjúkrabifreið, vinnusæti og bekki í matarvagni og samkomusæti í húsbifreið). Að öðrum kosti eru slík sæti óheimil og ber að fjarlægja eða koma þeim í lögmætt ástand sem sætisrými. Óvirk sæti eru ekki skráð sem sæti í ökutækjaskrá eða birt í skráningarskírteini.
Stæði fyrir standandi farþega má skrá í hópbifreiðum M2 og M3. Þeir bílar falla þá í undirökutækisflokka I, II eða A (en ekki III eða B).
Hjólastólasæti eru sætisrými sem gerð eru fyrir hjólastóla (fyrir farþega). Þessi sætisrými eru hluti af skráðum fjölda sæta í ökutækinu. Þau eru skráð í skráningarskírteini sem sérbúnaður (021-024, festing fyrir hjólastól) fyrir sérhverja úttekna festingu. Nota má sætisrými sem gert er fyrir hjólastól fyrir hefðbundið sæti þegar hjólastóll er ekki í notkun, athuga þó að ef koma má fyrir tveimur (eða fleiri) hefðbundnum sætum þegar hjólastóll er ekki í notkun er sætafjöldinn miðaður við mesta fjölda hefðbundinna sæta (hjólastóllinn kemur ekki sem viðbót).
Flutningur liggjandi, eins og sjúklingur í börum í sjúkrabifreið, telst ekki sem farþegi. Sama gildir um látinn einstakling í kistu í líkbifreið. Minnt er á að óheimilt er að liggja í rúmi, bekk, sófa eða þessháttar á meðan ökutæki er á ferð (eru allt óvirk sæti).
Þyngd farþega, við útreikning er miðað við 68 kg, en þó 71 kg í hópbifreið í undirflokkum II, III og B. Þyngd farþega í hjólastól í M1, N og O reiknast 160 kg og í M2 og M3 reiknast hann 250 kg.