Fara beint í efnið

Skráningareglur ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. nóvember 2024 -

Gildir frá: 01.06.2024. Skráningareglur ökutækja eru fyrir fagaðila sem sinna skráningum í umboði Samgöngustofu eða tilkynna breytingar í ökutækjaskrá samkvæmt lögum.

    Almenn atriði

    Ýmsar upplýsingar um skráningarmálefni, skoðunarmiða, eyðublöð, eftirlit og annað.

    Efni kaflans

    Skoðunarmiðar

    Aðilar sem hafa samninga um meðhöndlun skoðunarmiða (þjónustuaðilar) kaupa skoðunarmiða sem þeir þurfa að nota af Samgöngustofu og annast álímingu þeirra á skráningarmerkja eða afhendingu þeirra, eftir því sem við á. Miðar fást í afgreiðslu Samgöngustofu.

    Ekki er hægt að skila ónotuðum skoðunarmiðum og fá þá endurgreidda.

    Notkun og álíming skoðunarmiða

    Óheimilt er að nota skoðunarmiða í öðrum tilgangi en þeim sem lýst er í skráningareglum þessum. Álíming eða afhending skoðunarmiða fer þannig fram:

    • Við skráningarskoðun og aðalskoðun ökutækja og endurskoðun vegna þeirra. Skoðunarmiði sem endurspeglar niðurstöðu skoðunarinnar og gildandi skoðunarreglu skal límdur á af skoðunarmanni.

    • Við samanburðarskoðun og fulltrúaskoðun ökutækja. Skoðunarmiði sem endurspeglar gildandi skoðunarreglu skal límdur á af skoðunarmanni eða fulltrúa B hjá umboði, eftir því sem við á.

    • Við auka aðalskoðun ökutækja, þ.e. þegar reglubundinnar skoðunar er krafist í sérstökum tilvikum óháð því hvort ökutækið er með gilda skoðun eða ekki (skráð sem hefðbundin aðalskoðun á skoðunarvottorð). Skoðunarmiði sem endurspeglar niðurstöðu skoðunarinnar og gildandi skoðunarreglu skal límdur á af skoðunarmanni.

    • Við breytingaskoðun ökutækja og endurskoðun vegna hennar. Skoðunarmiði sem endurspeglar niðurstöðu skoðunarinnar og gildandi skoðunarreglu skal límdur á af skoðunarmanni. Séu breytingar sem hafa í för með sér nýja skoðunarreglu samþykktar í breytingaskoðuninni og tilkynntar á US.111 samhliða, skal passað að skoðunarmiði endurspegli hina nýju reglu.

    • Við umsókn um notkunarflokksbreytingu sem ekki krefst breytingaskoðunar en breytir skoðunarreglu. Skoðunarmiði sem endurspeglar niðurstöðu síðustu skoðunar og nýja skoðunarreglu er límdur á af skoðunarmanni. Sé ökutækið ekki á staðnum er skoðunarmiði afhentur eiganda (umráðanda) af skoðunarmanni eða öðrum starfsmanni skoðunarstofu sem hefur til þess heimild frá tæknilegum stjórnanda.

    • Við úttekt skráningarmerkja (skráning í umferð eftir innlögn). Skoðunarmiði sem endurspeglar niðurstöðu síðustu skoðunar og gildandi skoðunarreglu skal límdur á skráningarmerkin af skoðunarmanni eða öðrum starfsmanni skoðunarstofu sem hefur til þess heimild frá tæknilegum stjórnanda.

    • Við skráningu í umferð með endurnýjun skoðunarmiða. Skoðunarmiði sem endurspeglar niðurstöðu síðustu skoðunar og gildandi skoðunarreglu er afhentur eiganda (umráðanda) af skoðunarmanni eða öðrum starfsmanni skoðunarstofu sem hefur til þess heimild frá tæknilegum stjórnanda. Heimilt er að senda miða í umslagi með pósti (þarf ekki að vera í ábyrgð). Með miðanum þurfa að fylgja skýr skilaboð um meðferð (sjá neðar).

    • Við skráningu úr umferð með yfirlímingu skoðunarmiða. Akstursbannsmiði er afhentur eiganda (umráðanda) af skoðunarmanni eða öðrum starfsmanni skoðunarstofu sem hefur til þess heimild frá tæknilegum stjórnanda. Heimilt er að senda miða í umslagi með pósti (þarf ekki að vera í ábyrgð). Með miðanum þurfa að fylgja skýr skilaboð um meðferð (sjá neðar).

    • Við afhendingu skráningarmerkja, þ.e. þegar skráningarmerki eru afhent við nýskráningu, endurskráningu eða í skiptum fyrir önnur skráningarmerki sem eru á ökutækinu. Skoðunarmiði sem endurspeglar niðurstöðu síðustu skoðunar og gildandi skoðunarreglu skal límdur á skráningarmerkin af skoðunarmanni eða öðrum starfsmanni skoðunarstofu sem hefur til þess heimild frá tæknilegum stjórnanda.

    Einnig gildir:

    • Í þeim tilvikum sem skráningarmerki sem bera skoðunarmiða eru ekki á ökutækinu við skoðun er ekkert aðhafst varðandi álímingu skoðunarmiða, þ.e. ekki á að leita uppi skráningarmerkin í geymslu og skipta um skoðunarmiða á þeim þá. Tryggt á að vera að við úttekt eða afhendingu skráningarmerkjanna verði réttur skoðunarmiði límdur á þau.

    • Óheimilt er við skoðun að líma skoðunarmiða á ökutæki eða skráningarmerki miðað við væntanlega skoðunarreglu, þ.e. nýjan notkunarflokk eða ökutækisflokk sem eigandi (umráðandi) hyggst sækja um síðar. Annað hvort þarf skoðunarreglan að vera í gildi þegar skoðun fer fram eða skoðunarstofa eða fulltrúi umboðs er samhliða skoðun að tilkynna inn breytingu á ökutæki eða annan notkunarflokk sem hefur í för með sér nýja skoðunarreglu.

    Skilaboð til eiganda (umráðanda) um meðferð miða

    Þegar eiganda (umráðanda) eru afhentir skoðunarmiðar til álímingar á viðeigandi stað á ökutækinu (eða komið til hans í umslagi með öðrum leiðum, t.d. pósti), þurfa að fylgja eftirfarandi skilaboð:

    • Skoðunarmiðar skulu strax við móttöku límdir á viðeigandi stað á ökutækinu, þ.e. yfir skoðunarmiðana sem eru á skráningarmerkjum eða í stað skoðunarmiða sem er í rúðu.

    • Ökutæki sem skráð eru úr umferð er óheimilt að nota, hvort sem það eru bifreiðir, eftirvagnar eða önnur ökutæki. Óheimilt er að nota ökutæki sem er með akstursbannsmiða.

    • Lögregla hefur heimild til að klippa skráningarmerki af ökutæki sem skráð eru úr umferð ef ekki hefur verið límdur akstursbannsmiði á þau. Þetta gildir líka þótt ökutækið sé ekki í neinni notkun (standi óhreyft).

    Geymsla og förgun ónotaðra miða

    Flutningur og varðveisla skoðunarmiða verður að vera með öruggum hætti hjá þjónustuaðila, s.s. geymdir í læstum geymslum, svo tryggt sé að óviðkomandi hafi ekki aðgang að þeim.

    Þegar farga þarf skoðunarmiðum sem ekki er hægt að nota lengur ber að gera það með öruggum hætti þannig að tryggt sé að þeir verði ekki nothæfir lengur.

    Eftirfarandi einstaklingar bera þessa ábyrgð fyrir hönd aðila:

    • Tæknilegur stjórnandi skoðunarstofu fyrir hönd skoðunarstofu ökutækja.

    • Tæknilegur stjórnandi endurskoðunarverkstæðis fyrir hönd endurskoðunarverkstæðis.

    • Fulltrúi umboðs fyrir hönd umboðs.

    Gjaldtaka

    • Gjald Samgöngustofu fyrir skoðunarmiða er 39 krónur fyrir hvern miða.