Fara beint í efnið

Skoðunarhandbók ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. nóvember 2024 -

Gildir frá: 01.03.2023. Í skoðunarhandbók ökutækja eru verklagsreglur fyrir skoðunarstofur og endurskoðunarverkstæði um hvernig haga skuli skoðun og dæmingum einstakra skoðunaratriða.

    Verklagsbók fyrir reglubundnar skoðanir o.fl.

    Í verklagsbókinni er lýst allri framkvæmd aðalskoðunar ásamt skoðun á ástandi í skráningarskoðun, breytingaskoðun og endurskoðun­um þeirra. Lýsing á skoðunar­aðferðum, verklýsingar og dæmingar einstakra skoðunaratriða.

    Skoðunaratriðin og dæmingar þeirra ásamt stuttri lýsingu á skoðunaraðferðum, verklýsingum, athugasemdum og túlkunum er að finna í pdf-skjali. Ítarlegri leiðbeiningar um kröfur, mæliaðferðir, skoðunaraðferðir og skráningu einstakra ökutækja, öktækjaflokka eða einstakra hluta ökutækja, er svo að finna þessum köflum.

    Efni kaflans

    Lyftipunktar ökutækja

    Lyftipunktar við aflestun spindilkúla

    Á mynd 1 sjást algengustu útfærslur á sjálfstæðri fjöðrun. Beita þarf mismunandi aðferðum við að lyfta ökutækinu upp til að aflestun spindilkúlna eigi sér stað.

    k165
    k304

    Mynd 1. Tegundir fjöðrunar (gerðir 1, 2 og 3 í efri röð, gerðir 4 og 5 í neðri röð). Örvarnar sýna lyftipunktana sem aflesta spindilkúlurnar.

    Þegar verið er að lyfta upp ökutæki með fjöðrun að framan sem eru með vindustöng eða fjöðrunarkraft sem verkar á neðri spyrnuna verður að lyfta undir neðri spyrnuna til að aflesta spindilkúlurnar. Þetta á við gerðir 1 og 5 á mynd 1. Þar sem ásbitar eru til staðar ætti að lyfta undir þá (gerðir 2, 3 og 4 á mynd 1).

    Sjá einnig sérstakt skjal um skoðun á stýrisbúnaði.

    Aflestun á fóðringum í hjólspyrnum og stífum

    Til að meta slit í fóðringum bifreiða, sem eru minna en 3500 kg af leyfðri heildarþyngd, er notaður skakari og/eða spennujárn.Festingar efri ófergðrar hjólaspyrnu eru athugaðar með því að lyfta framhluta bifreiðarinnar upp með tjakki. Fremri og aftari festingar eru athugaðar með því að taka á hjólinu í fullu stýrisútslagi til hægri og vinstri.Festingar fergðra spyrna eru athugaðar með sjónskoðun. Í vafatilvikum má aflesta festingarnar með spennijárni.Slit í spyrnum á tengivögnum má einnig athuga með því að hemla vagninum og skaka honum afturábak og áfram með dráttarbifreiðina tengda á meðan liðamótin eru athuguð.


    Hjóllegur

    Slag í hjóllegum (St6.2.3.1)

    Ökutæki er lyft upp þannig að hjól hangi laus. Tekið er á hjólum að ofan og að neðan. Við skoðun ökutækja sem eru meira en 3500 kg að leyfðri heildarþyngd skal nota spennijárn.

    Hreyfing hjóls er metin og ef líkur eru á að hún sé nálægt leyfilegum mörkum er hún mæld á eftirfarandi hátt: Vinkill er lagður á gólfið eða á lyftu og að hjólbananum. Mæla skal bilið frá vinkli að felgubrún. Hjólið er tekið út að neðan og inn að ofan þannig að vinkillinn færist með. Síðan er hjólinu ýtt inn að neðan og út að ofan og bilið sem myndast á milli vinkilsins og felgubrúnar mælt. Raunveruleg færsla hjóls fæst með því að draga frá upphaflegu fjarlægðina frá vinkli að felgubrún. Í töflu 1 er að finna upplýsingar um leyfilega færslu hjólbana vegna slags í legu m.v. felgustærðir.

    Tafla 1. Leyfileg færsla hjólbana vegna slags í legu. (St6.2.5.1)

    Felgustærð

    Færsla hjóls

    Felgustærð

    Færsla hjóls

    12"

    2,5 ± 0,1 mm

    18"

    3,5 ± 0,1 mm

    13"

    2,5 ± 0,1 mm

    20"

    4,0 ± 0,1 mm

    14"

    3,0 ± 0,1 mm

    22"

    4,5 ± 0,1 mm

    15"

    3,0 ± 0,1 mm

    24"

    5,0 ± 0,1 mm

    16"

    3,5 ± 0,1 mm


    Hjólspyrnur og stífur

    Fóðringar í hjólspyrnum og stífum og festingar þeirra (St6.3.3.1)

    Til að meta slit í fóðringum bifreiða, sem eru minna en 3500 kg af leyfðri heildarþyngd, er notaður skakari og/eða spennujárn. Festingar efri ófergðrar hjólaspyrnu eru athugaðar með því að lyfta framhluta bifreiðarinnar upp með tjakki. Fremri og aftari festingar eru athugaðar með því að taka á hjólinu í fullu stýrisútslagi til hægri og vinstri. Festingar fergðra spyrna eru athugaðar með sjónskoðun. Í vafatilvikum má aflesta festingarnar með spennijárni.

    Slit í spyrnum á tengivögnum má einnig athuga með því að hemla vagninum og skaka honum afturábak og áfram með dráttarbifreiðina tengda á meðan liðamótin eru athuguð.


    Fjaðrir (allar gerðir)

    Varðar krókblað (St6.4.2.1)

    Fjaðrir sem hannaðar eru með krókblaði skulu vera með slíku blaði. Sé skipt um fjöður í heild sinni og sú fjöður ekki hönnuð með krókblaði skal ekki gera kröfu um það þó að slíkt hafi verið í upphaf-legri fjöður ökutækisins.

    Aksturshæð (St6.4.3.4)

    Á ökutækjum með stillanlega aksturshæð, t.d. á ökutækjum með loftpúðafjöðrun, skal aksturshæð vera skilgreind sem 1/3 af fjöðrunarsviðinu, þ.e. fjöðrunarbúnaður undir ökutækinu skal vera útdregin um 1/3 af fjöðrunarsviðinu. Aksturshæðin skal fundin á eftirfarandi hátt:

    • Hámarkshæð er fundin með því að dæla hámarksþrýstingi í loftpúðana og mæla fjarlægð frá jörðu í fastan punkt á yfirbyggingu.

    • Lágmarkshæð skal fundin með því að hleypa öllu lofti úr loftpúðunum og mæla fjarlægð frá jörðu í sama fasta punkt á yfirbyggingu.

    • Dæla skal svo í loftpúðana þannig að fjarlægð í fasta punktinn á yfirbyggingu frá jörðu sé þriðjungur af hæstu og lægstu stöðu.


    Spindilkúlur

    Þessi atriði eru til skoðunar:

    • Skoðun á ísetningu: Ef um nýjar spindilkúlur er að ræða eða líkur eru á rangt ísettri kúlu er athugað hvort merki passi saman, ef þau eru fyrir hendi.

    • Skoðun á splittun: Skoðun fer fram á lyftu eða í gryfju.

    • Skoðun á festingum og sliti: Á ökutækjum minni en 3500 kg að leyfðri heildarþyngd fer athugun á hugsanlegu losi eða slagi fram með skakara með því að beita tog- og þrýstikröftum á spindla. Stundum fyllist liðskál slitinnar spindilkúlu af óhreinindum þannig að ekkert hlaup kemur fram. Yfirleitt gerist þetta vegna ónýts hlífðargúmmís. Í slíkum tilfellum skal gæta sérstaklega að legu kúlunnar í liðnum og hvort lega kúlunnar bendi til þess að hún sé að fara úr kúluhúsinu. Þetta skal athuga sérstaklega ef hlífðargúmmí er skemmt eða vantar. Slag er einnig athugað eftir að spindillinn hefur verið aflestaður. Slagið skal mælt ef líkur eru á því að það sé utan leyfilegra marka.

    Aðferðir við aflestun og skoðun spindilkúla (fergð og ófergð)

    Slit fer eftir því álagi sem spindilkúla verður fyrir. Fergð spindilkúla slitnar oftast í lengdarstefnu en slit í þverstefnu verður yfirleitt mun minna. Ófergð spindilkúla slitnar oftast svipað í lengdar og þverstefnu.

    • Fergð spindilkúla: Ef spindilkúla er höfð milli fjaðrar og hjóls ber hún þunga ökutækisins sem kemur á hjólið. Nefnist hún þá fergð spindilkúla. Fergð spindilkúla yfirfærir því þyngdarkraftinn frá fjöðrum út í spindilkúlu og niður í gegnum hjólið.

    • Ófergð spindilkúla: Hún ber ekki þunga og hefur fyrst og fremst það hlutverk að halda hjólinu í réttri stöðu.

    Við athugun á hlaupi í spindli má ekki nein meiriháttar þyngd hvíla á spindlinum, þ.e.a.s. hann verður að vera álagslaus. Aflesta verður spindilinn óháð gerð hans, gerð bolta, fóðringa eða spindilkúlu. Aðferðin sem notuð er við aflestunina ræðst af því hvernig spindillinn er fergður. Það kemur þó ekki í veg fyrir skoðun þótt þyngd hjólsins hvíli á spindlinum. Hlutir í framvagni svo sem spyrnustífa, jafnvægisstöng og gashöggdeyfir gera aflestun spindilsins erfiðari.

    Hér er lýst búnaði og skoðunaraðferðum í þremur algengustu útfærslum í stýrisbúnaði fólksbifreiða.

    TVÆR SPYRNUR, EFRI SPINDILKÚLA FERGÐ

    k2

    Mynd 1. Tvær spyrnur, efri spindilkúla fergð.

    • Lýsing: Þyngd ökutækis flyst um fjöður, efri spyrnu, efri spindilkúlu, hjólvöl og hjól til jarðar. Þyngd ökutækisins leitast þannig við að þrýsta saman spindilkúlunni sem ber þyngdina. Sjá mynd 1.

    • Ökutækinu lyft: Bifreiðinni er lyft með átaki utan fjaðrabúnaðar þ.e. lyft undir burðarvirki. Á flestum ökutækjum er höggpúði sem heldur við efri spyrnu. Þá hvílir fjaðrarátakið á púðanum þegar framvagn er á lofti svo að ekkert verulegt átak er á spindilkúlunni. Við sum ökutæki, t.d. Saab, þarf að nota sérjárn á milli spyrna til að koma í veg fyrir sundurfjöðrun sem veldur því að spindilkúlur spennast fastar og slag finnst ekki.

    • Skoðun á fergðum spindilkúlum: Aðeins er athugað lengdarhlaup. Hjólinu er lyft upp með því að setja spennijárn undir það. Lega kúlunnar í spindlinum er metin með sjónskoðun. Þegar ætla má að þyngd hjólsins hafi ekki náð að draga völinn niður í neðstu stöðu er notað spennijárn til þess að ná honum niður.

    • Skoðun á ófergðum spindilkúlum: Bæði er athugað lengdar og þverhlaup. Lengdarhlaup er athugað með því að taka á neðri spyrnu upp og niður. Þverhlaup finnst með því að rykkja í hjólið utan frá. Heppilegasta tak á hjóli fer eftir afstöðu spindilkúlu og stýrisenda. Til þess að nota eins lítið átak og unnt er ætti að taka á hjólinu út frá línu um hjólmiðju sem liggur þvert á línu um þá liði sem ekki er verið að athuga. Þverhlaupið finnst því betur sem styttra bil er milli spindilsins sem athugaður er og snúningsáss um hjólið við átakið. Sjá mynd 2.

    u

    Mynd 2. Skoðun á ófergðum spindilkúlum, hvernig tekið er á hjóli.

    TVÆR SPYRNUR, NEÐRI SPINDILKÚLA FERGÐ

    k23

    Mynd 3. Tvær spyrnur og neðri spindilkúla fergð.

    • Lýsing: Þyngdin flyst af framásbita um fjöður, neðri spyrnu, neðri spindilkúlu, hjólvöl og hjól til jarðar. Þyngd ökutækisins leitast þannig við að toga sundur spindilkúluna sem ber þyngdina. Sjá mynd 3.

    • Ökutækinu lyft: Við skoðun er framvagni lyft á neðri spyrnum eins nærri spindilkúlu og kostur er. Þyngdin fer þá um fjöður og neðri spyrnu á tjakkinn. Neðri spindilkúla tekur þá aðeins við þyngd hjólsins.

    • Skoðun á fergðum spindilkúlum: Aðeins er athugað lengdarhlaup. Spindilkúlunni er þrýst upp og niður með spennijárni. Óhreinindi eða frosið vatn í liðnum getur orðið til þess að hlaup komi ekki fram í skemmdri kúlu. Þess vegna þarf einnig að meta með sjónskoðun legu kúlunnar í skálinni.

    • Skoðun á ófergðum spindilkúlum: Athugun á þverhlaupi og e.t.v. einnig lengdarhlaupi er hliðstæð þeim reglum sem lýst var um neðri ófergða spindilkúlu. Þar sem oftast er einfaldara að athuga þverhlaupið beinist athugun fyrst að því. Ef fram kemur þverhlaup skal einnig athuga lengdarhlaup og dæma síðan út frá því.

    McPHERSON

    k28


    Mynd 4. Fjöðrun af gerðinni McPherson með ófergða spindilkúlu.

    • Lýsing: Yfirleitt er sú þyngd ökutækisins sem kemur á hjólið borin beint uppi af hjólvalarstykkinu. Spindilkúlan er ófergð. Þrátt fyrir það kemur oft fram meira lengdarhlaup en þverhlaup í slitnum spindilkúlum í McPherson stýrisbúnaði. Sjá mynd 4.

    • Ökutækinu lyft: Lyft er undir burðarvirki. Þess verður að gæta við sundurfjöðrunina að spindilkúlur geta skorðast fastar þannig að hlaup finnst ekki. Öflugar spyrnustífur eða jafnvægisstöng geta einnig torveldað athugun á þverhlaupi. Því er best að athuga þverhlaup í spindilkúlu með skakaranum áður en ökutækinu er lyft.

    • Athugun á gormlegg: Gormleggir er metnir út frá hlaupi í legu og festingu og stirðleika við snúningshreyfingu. Þegar framvagn er á lofti má finna hlaup í legu með því að toga í og ýta utan á hjólið til skiptis eins og lýst var áður. Ef stýrisendar eru staðsettir lágt má taka á efri brún hjólsins. Sumar leggfestingar eru þannig að hlaup getur komið fram þegar framvagni er lyft undir burðarvirki án þess að slíkt hlaup stafi af bilun, t.d. í VW og Audi. Þegar hlaup finnst skal því einnig athuga búnaðinn í aksturslegu.

    • Skoðun á ófergðum spindilkúlum: Lengdarhlaup er athugað annað hvort með framvagn á lofti eða áður en honum er lyft. Liðnum er þrýst saman og hann togaður sundur með átaki spennijárns á hjólspyrnuna. Þverhlaup finnst með því að rykkja í hjólin utan frá. Heppilegasta tak á hjólunum fer eftir afstöðu stýrisenda. Til þess að nota eins lítið átak og unnt er ætti að grípa á hjólinu eftir því sem fyrr var sagt eða samkvæmt því sem myndirnar hér á eftir sýna. Sjá mynd 5.

    k30

    Mynd 5. Skoðun á ófergðum spindilkúlum, hvernig tekið er á hjóli.

    Leyfilegt slag í spindilkúlum

    Leyfilegt slag er 1 mm nema annað sé tiltekið af framleiðanda (getur bæði heimilað aðeins meira slag en líka tekið alveg fyrir það að nokkurt slag sé sýnilegt).


    Spindilboltar

    Atriði til skoðunar

    • Skoðun á splittun: Skoðun fer fram á lyftu eða í gryfju.

    • Skoðun á festingum og sliti: Á ökutækjum minni en 3500 kg að leyfðri heildarþyngd fer athugun á hugsanlegu losi eða slagi fram með skakara með því að beita tog- og þrýstikröftum á spindla. Slag er einnig athugað eftir að spindillinn hefur verið aflestaður. Slagið skal mælt ef líkur eru á því að það sé utan leyfilegra marka.

    Aðferðir við aflestun og skoðun spindilbolta

    Við athugun á hlaupi í spindli má ekki nein meiriháttar þyngd hvíla á spindlinum, þ.e.a.s. hann verður að vera álagslaus. Aflesta verður spindilinn óháð gerð hans, gerð bolta, fóðringa eða spindilkúlu. Aðferðin sem notuð er við aflestunina ræðst af því hvernig spindillinn er fergður. Það kemur þó ekki í veg fyrir skoðun þótt þyngd hjólsins hvíli á spindlinum. Hlutir í framvagni svo sem spyrnustífa, jafnvægisstöng og gashöggdeyfir gera aflestun spindilsins erfiðari.

    Hér er lýst búnaði og skoðunaraðferðum í algengustu útfærslu spindilbolta í þyngri bifreiðum.

    k25


    Mynd 6. Algeng útfærsla spindilbolta í stærri ökutækjum.

    • Lýsing: Á þungum ökutækjum er spindilbolti algengasta gerð spindla. Þunginn flyst frá framás um legu til hjólvalarstykkis, hjólvalar og hjóls. Sjá mynd 6.

    • Athugun á lengdarhlaupi: Lengdarhlaup er athugað annað hvort þegar ökutækinu er lyft eða með því að setja spennijárn undir hjólið þegar það er á lofti.

    • Athugun á þverhlaupi: Þverhlaup er athugað með því að stinga spennijárni í neðri eða efri hluta felgunnar sbr. mynd 7. Stigið er á fóthemil til þess að hugsanlegt hlaup í hjóllegu valdi ekki röngu mati.

    p

    Mynd 7. Skoðun á þverhlaupi spindilbolta með spennijárni.

    Leyfilegt slag í spindilboltum

    Leyfilegt slag í spindilboltum: (St4.1.5.3)

    • Bifreiðir undir 3.500 kg heildarþyngd: Lengdarslag (endaslag) má mest vera 1 mm og þverslag mest vera 1 mm.

    • Bifreiðir yfir 3.500 kg heildarþyngd: Mest 2 mm (bæði lengdarslag og þverslag).

    k32

    Mynd 8. Línuritið sýnir færslu hjólbarða miðað við 2 mm þverslag í spindilboltum. 1 mm slag fæst með því að deila með 2 í þá tölu sem sýnir leyft þverslag á lárétta ásnum.


    Hjólbarðar

    Merkingar á hjólbörðum (DOT-, e-, E- eða JIS) (St6.1.2.1)

    Frá og með 1. júlí 1990 er krafist e-,E- eða DOT- merkinga á hjólbarða. JIS-merktir hjólbarðar voru viðurkenndir tímabundið eða til 1. janúar 1993. Frá 1. janúar 1993 eru því eingöngu viðurkenndir e-, E- eða DOT-merktir hjólbarðar auk sólaðra.

    Kröfur til hjólbarða og merkinga þeirra eru afturvirkar en þó er heimilt að nota áfram hjólbarða sem voru í notkun við gildistöku reglugerðarinnar.

    Áletrun á hjólbörðum (St6.1.2.2)

    Á hjólbörðum er áletrun sem segir til um stærð þess, framleiðsludag, innri gerð, þvermál felgu, hámarksburð og hámarkshraða. Þessu er lýst í töflum 2 og 3. Á mynd 1 má einnig sjá dæmi um uppbyggingu áletrana.

    k145

    Mynd 1. Sýnishorn af merkingum hjólbarða.

    Dæmi um EU merkingu hjólbarða: 185/70 R14 89T 253:

    • 185: Breidd barða í cm.

    • 70: Hlutfall hæðar og breiddar barða (70%). Í þessu tilviki er hæð barðans 70% af 185 = 130 cm.

    • R: Útfærsla banda þar sem R = Radial (þverbanda) og D = Diagonal (skábanda).

    • 14: Þvermál felgu í tommum.

    • 89: Burðarkóti fyrir leyfilegan hámarksburð dekksins (sjá töflu 2). Í þessu tilviki er 89 u.þ.b. 600 kg.

    • T: Hraðakóti fyrir leyfilegan hámarkshraða dekksins (sjá töflu 3). Í þessu tilviki er T = 190 km/klst hámark.

    • 253: Framleiðsludagur gefinn upp sem vika og ár. Í þessu tilviki er vikan 25 og árið 3 táknar 1993.

    Tafla 2. Burðarkótar fyrir leyfilegan hámarksburð hjólbarða. Burðarkótar eru tilgreindir með hækkandi tölu frá 0–279 og eru nokkur gildi sýnd hér til viðmiðunar.

    Kóti

    Hám.burður

    Kóti

    Hám.burður

    Kóti

    Hám.burður

    20

    81 kg

    90

    600 kg

    160

    4.500 kg

    30

    106 kg

    100

    800 kg

    170

    6.000 kg

    40

    140 kg

    110

    1.060 kg

    180

    8.000 kg

    50

    190 kg

    120

    1.400 kg

    190

    10.600 kg

    60

    250 kg

    130

    1.900 kg

    200

    14.000 kg

    70

    335 kg

    140

    2.500 kg

    80

    450 kg

    150

    3.350 kg

    Tafla 3. Hraðakótar fyrir leyfilegan hámarkshraða hjólbarða (all flestir sem til eru). Hraðakóti gefur til kynna þann hámarkshraða sem hjólbarðinn getur borið uppgefið álag við skv. burðarkóta.

    Kóti

    Hám.hraði

    Kóti

    Hám.hraði

    Kóti

    Hám.hraði

    Kóti

    Hám.hraði

    A2

    10 km/klst

    B

    50 km/klst

    K

    110 km/klst

    S

    180 km/klst

    A3

    15 km/klst

    C

    60 km/klst

    L

    120 km/klst

    T

    190 km/klst

    A4

    20 km/klst

    D

    65 km/klst

    M

    130 km/klst

    U

    200 km/klst

    A5

    25 km/klst

    E

    70 km/klst

    N

    140 km/klst

    H

    210 km/klst

    A6

    30 km/klst

    F

    80 km/klst

    P

    150 km/klst

    V

    240 km/klst

    A7

    35 km/klst

    G

    90 km/klst

    Q

    160 km/klst

    Z

    240 km/klst

    A8

    40 km/klst

    J

    100 km/klst

    R

    170 km/klst

    W

    270 km/klst

    Naglar (St6.1.3.2)

    Stærð eða gerð nagla er metin út frá þeim hluta naglans sem stendur út úr hjólbarðanum og hann borinn saman við “naglasýnishorn” ef vafi leikur á að um nagla skv. reglugerð sé að ræða. Fjöldi nagla er metinn. Ef vafi leikur á að fjöldinn sé yfir mörkum reglugerðar skal telja nagla í einum hjólbarða á 1/4 úr hring hans og margfalda þann naglafjölda með 4 til fá naglafjöldann í hjólbarðanum.

    Mynsturdýpt (St6.1.3.3)

    Hjólum ökutækis er lyft með tjakki og snúið til að finna þann stað á hjólbarðanum þar sem mynsturdýptin er minnst. Mynstrið er skoðað þvert á slitflötinn. Leiki vafi á að mynstur uppfylli kröfur, er það mælt með mynsturmæli eða skífumáli.

    Skemmdir á hjólbarða (St6.1.3.4)

    Hjólum ökutækis er lyft með tjakki og því snúið til að leita skemmda. Þreifað eftir lausum flipum. Athugað er hvort sést í bönd og/eða hvort bönd eru farin að skemmast.

    k120

    Mynd 2. Viðgerðar- og óviðgerðarhæf svæði hjólbarða.


    Felgur

    Engar viðbótarleiðbeiningar hér.


    Breytt stærð hjólbarða

    Breytt stærð hjólbarða (St6.1.4)

    Ef stærð hjólbarða breytist um meira en 10% af upprunalegri stærð sem framleiðandi gefur skal ökutækið fara í breytingarskoðun.

    Framkvæmd mælingar á þvermáli hjólbarða (St6.1.5.2 St6.1.5.3)

    Stærð hjólbarða er þvermál hans og skal það mælt lárétt yfir miðju hjólbarðans, á ystu brúnir hans (þ.e. á slitflöt) við eðlilegan loftþrýsting, sjá mynd 3.

    k35.jpg

    Mynd 3. Mæling á þvermáli hjólbarða - skal mælt lárétt yfir miðju.

    Í töflu 4 er útreikningur á þvermáli hjólbarða miðað við áletrun sem hægt er að nota við mat á því hvort hjólbarðastærð er innan marka. Í töfluna vantar þó hjólbarða merkta „LT“ og verður að reikna út stærð þeirra og annarra sem ekki finnast í töflunni og bera saman við mælt þvemál.

    Formúla til að reikna þvermál hjólbarða er þessi (sjá líka um áletrun á hjólbarða í kaflanum um hjólbarða hér að ofan):Þh = B x H x 2 x 0,01 + Þf x 25,4 þar sem

    • Þh = þvermál hjólbarða í mm

    • B = breidd hjólbarða í mm (áletrun á hjólbarða)

    • H = hlutfall hæðar og breiddar hjólbarða (áletrun á hjólbarða)

    • Þf = þvermál felgu í mm (áletrun á hjólbarða)

    Dæmi: Hjólbarði með áletrun 175/70R13 reiknast þannig: (175 x 70 x 2 x 0,01) + (13 x 25,4) = 575 mm.

    Tafla 4. Þvermál hjólbarða, upprunaleg stærð ásamt 10% þvermálsbreytingu.

    k37 (1)
    k38
    k40 (1)
    k50 (1)
    k51

    Kröfur til mælitækja

    Kröfum til allra skoðunartækja er lýst í skjali kröfur um aðstöðu og búnað á skoðunarstofu, þar með talið mælitækja. Við skoðun þeirra atriða sem lýst er í þessu skjali eru eftirfarandi mælitæki notuð:

    • Handverkfæri: Lengdarmæling (málband, skífmál o.þ.h.).

    • Mynstursdýptarmælir: Vegna mynstursdýptar hjólbarða.

    Lýsingar á mælingum í skjalinu eru almennar (ekki leiðbeiningar fyrir einstakar gerðir mælitækja) og gengið út frá því að skoðunarstofur útbúi eigin notkunarleiðbeiningar fyrir mælitækin sem þær nota.


    Lög og reglur

    Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

    • Umferðarlög nr. 77/2019.

    • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.