Fara beint í efnið

Reglur um leigubíla

Akstur leigubifreiða er leyfisskyld starfsemi og um hana gilda lög um leigubifreiðaakstur nr. 120/2022 og reglugerð um leigubifreiðaakstur nr. 324/2023. Eftirfarandi er umfjöllun um helstu skyldur sem hvíla á leyfishöfum samkvæmt ákvæðum þeirra.  

Auðkenning leigubifreiðar

  • Leigubifreiðar skulu alltaf vera auðkenndar með skýrum hætti þannig að ekki sé vafi á að um leigubifreið sé að ræða.   

  • Leigubifreið sem ekið er samkvæmt gjaldmæli skal vera auðkennd með þakljósi.  

  • Leigubifreið sem er ekið samkvæmt fyrirframumsömdu áætluðu eða endanlegu heildargjaldi skal vera auðkennd með leyfismiða útgefnum af Samgöngustofu í framrúðu bifreiðarinnar.  

  • Leigubifreið sem ekið er frá leigubifreiðastöð þar sem fleiri en ein bifreið hefur afgreiðslu skal vera auðkennd með merki stöðvarinnar neðarlega fyrir miðju í framrúðu og stöðvarnúmeri, á áberandi hátt, ofarlega vinstra megin í afturrúðu bifreiðarinnar.  

 Gjaldmælar eða fyrirframumsamið áætlað heildargjald  

Löggiltir gjaldmælar skulu vera í öllum leigubifreiðum sem seldar eru á leigu fyrir gjald sem tekur mið af ekinni vegalengd eða þeim tíma sem ferðin tekur.  

Heimilt er að aka án gjaldmælis þegar ferð er seld fyrir fyrirframumsamið áætlað eða endanlegt heildargjald. Rekstrarleyfishafi eða eftir atvikum atvinnuleyfishafi ber sönnunarbyrði um að komist hafi á samningur um heildargjald vegna ferðar áður en hún hófst.  

 Sýnileiki verðskrár og leyfisskírteinis  

Þegar ekið er samkvæmt gjaldmæli skal verðskrá alltaf vera áberandi og aðgengileg viðskiptavinum áður en farið er inn í bifreiðina.  

Þegar ferð er seld fyrir fyrirframumsamið áætlað eða endanlegt heildargjald skal verðskrá og þær forsendur sem umsamið heildargjald byggist á vera aðgengilegar viðskiptavini þannig að það sé ljóst hvernig verðlagning er ákveðin.  Sem dæmi er þegar þjónusta leigubifreiðar er boðin eftir pöntun, t.d. á vefsíðu eða í smáforriti, þá skal birta upplýsingar um verð með skýrum hætti áður en neytandi pantar þjónustu.  

Leyfisskírteini rekstrarleyfishafa og atvinnuleyfishafa skal alltaf vera sýnilegt í leigubifreiðinni.  

Skylda til að halda rafræna skrá  

Halda skal rafræna skrá með gervihnattaupplýsingum um upphafs- og endastöð hverrar seldrar ferðar með leigubifreið.  

  • Ef rekstrarleyfishafi starfar sjálfstætt og ekur ekki fyrir aðra leigubifreiðastöð ber hann sjálfur ábyrgð á að halda þessa rafrænu skrá.   

  • Heimilt er að framselja með samningi þessa skyldu rekstrarleyfishafa til leigubifreiðarstöðvar.  

  • Rafræn skrá skal einungis haldin í þeim tilgangi að tryggja öryggi og stuðla að neytendavernd og til að hafa megi eftirlit með því að starfað sé samkvæmt lögum.  

  • Óheimilt er að vinna staðsetningarupplýsingar í öðrum ósamrýmanlegum tilgangi. 

  • Staðsetningarupplýsingarnar skulu vera dulkóðaðar og varðveittar í 60 daga frá því að ferð var ekin.  

Aðbúnaður leigubifreiðar  

Leigubifreið skal uppfylla almennar kröfur sem gerðar eru til bifreiða samkvæmt umferðarlögum og reglugerðum.  

  • Þriggja punkta öryggisbelti skal vera í öllum sætum leigubifreiðar.  

  • Leigubifreið skal vera búin slökkvitæki og sjúkrakassa. 

 Skráning leigubifreiðar í ökutækjaskrá  

Leigubifreið skal vera skráð sem slík í ökutækjaskrá. 
Rekstrarleyfishafi skal einn vera skráður eigandi eða umráðamaður leigubifreiðarinnar. 

Góðir viðskiptahættir  

Rekstrarleyfishafi ber ábyrgð á að rekstur leigubifreiðar fari fram í samræmi við góða viðskiptahætti.   

Þjónustuaðili

Samgöngu­stofa