Prentað þann 13. nóv. 2024
324/2023
Reglugerð um leigubifreiðaakstur.
1. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um leigubifreiðaakstur og fólksbifreiðar sem notaðar eru til leigubifreiðaaksturs.
Leigubifreiðaakstur er þjónustugrein sem telst til almenningssamgangna og felst í því að fólksbifreið er seld á leigu ásamt ökumanni fyrir tiltekið gjald til flutnings á farþegum og farangri þeirra.
2. gr. Auðkenni.
Leigubifreið sem ekið er samkvæmt gjaldmæli skal auðkennd með þakljósi líkt og kveðið er á um í reglugerð um gerð og búnað ökutækja.
Leigubifreið sem ekið er samkvæmt fyrirframumsömdu áætluðu eða endanlegu heildargjaldi skal auðkennd með leyfismiða útgefnum af Samgöngustofu í framrúðu bifreiðarinnar sem gefur til kynna að um leigubifreið sé að ræða.
Enn fremur skal leigubifreið sem ekið er frá leigubifreiðastöð þar sem fleiri en ein bifreið hefur afgreiðslu auðkennd með merki stöðvarinnar neðarlega fyrir miðju í framrúðu og stöðvarnúmeri, á áberandi hátt, ofarlega vinstra megin í afturrúðu bifreiðarinnar.
Leigubifreiðastjóri skal við leiguakstur ávallt hafa meðferðis og sýnilegt leyfisskírteini útgefið af Samgöngustofu til sönnunar á því að hann hafi leyfi til akstursins og staðfestingu á fullnægjandi skráningu upplýsinga í rafrænan gagnagrunn Samgöngustofu.
3. gr. Umsókn og útgáfa leyfis.
Umsækjandi sem óskar leyfis Samgöngustofu, skv. 5.-7. gr. laga nr. 120/2022 um leigubifreiðaakstur, skal sækja um það á þar til gerðu eyðublaði Samgöngustofu. Umsókninni skulu fylgja öll þau gögn og vottorð sem Samgöngustofa gerir kröfu um til staðfestingar þess að umsækjandi, og eftir atvikum fyrirsvarsmaður hans, uppfylli þau skilyrði sem kveðið er á um í lögum. Skulu þau gögn þá ekki vera eldri en þriggja mánaða, nema aldur þeirra skipti ekki máli.
Umsókn um rekstrarleyfi skal að jafnaði fylgja:
- Búsetuvottorð, útgefið af lögbæru stjórnvaldi.
- Staðfesting á starfshæfni, og þar með talin staðfesting á ökuréttindum til farþegaflutninga í atvinnuskyni.
- Búsforræðisvottorð, útgefið af lögbæru stjórnvaldi.
- Vottorð frá innheimtumanni ríkissjóðs, og eftir atvikum sveitarfélagi, þess efnis að umsækjandi sé ekki í vanskilum vegna opinberra gjalda.
- Tilgreining bifreiðar, eða bifreiða, sem umsækjandi hyggst nýta til reksturs, staðfesting á skráningu í ökutækjaflokkinn leigubifreið og staðfesting á viðeigandi tryggingu.
Umsókn lögaðila um rekstrarleyfi skulu fylgja gögn skv. a-, c- og e-lið 2. mgr. auk gagna skv. a-d-lið sömu greinar sem staðfesta að fyrirsvarsmaður umsækjanda uppfylli gerð skilyrði.
Umsókn um atvinnuleyfi skulu fylgja gögn skv. b-lið 2. mgr.
Umsókn um starfsleyfi leigubifreiðastöðvar skulu fylgja gögn til staðfestingar fullnægjandi fjárhagsstöðu skv. 3. mgr. 5. gr. Einnig skulu umsókninni fylgja gögn skv. a- og b-lið 2. mgr., að undanskildum gögnum sem lúta að ökuréttindum og ökuhæfni, sem staðfesta að fyrirsvarsmaður umsækjanda uppfylli gerð skilyrði.
Samgöngustofu er heimilt að krefjast þess að umsækjandi leggi fram frekari gögn en tilgreind eru í 2. mgr. ef þörf krefur í því skyni að gengið verði úr skugga um að umsækjandi uppfylli gerðar kröfur. Einnig er stofnuninni, að eigin frumkvæði, heimilt að afla frekari gagna og skal hún að fengnu samþykki afla upplýsinga úr sakaskrá um umsækjanda eða eftir atvikum fyrirsvarsmann hans.
Á leyfisbréfi skal koma fram nafn leyfishafa og kennitala ásamt númeri leyfisbréfsins og gildistíma þess. Hafi leyfi verið útgefið til lögaðila skal einnig koma fram nafn fyrirsvarsmanns og kennitala hans. Þá skal á leyfisskírteini einstaklings vera mynd af viðkomandi leyfishafa.
4. gr. Námskeið.
Umsækjandi um rekstrarleyfi skal hafa lokið námskeiðum um leigubifreiðaakstur, rekstur, bókhald og skattskil og fleira og hafa staðist próf.
Þegar umsækjandi um rekstrarleyfi er lögaðili skal fyrirsvarsmaður hans hafa lokið námskeiðum um rekstur, bókhald og skattskil og fleira og hafa staðist próf.
Umsækjandi um atvinnuleyfi skal hafa lokið námskeiði um leigubifreiðaakstur og hafa staðist próf.
Námskeið skal fara fram hjá viðurkenndum námskeiðshaldara í samræmi við námskrá Samgöngustofu sem hlotið hefur staðfestingu ráðherra.
Samgöngustofu er heimilt að veita undanþágu frá námskeiði eða einstökum hlutum þess er varða rekstur, bókhald eða skattskil. Aðeins skal veita undanþágu ef umsækjandi eða eftir atvikum fyrirsvarsmaður hans býr yfir fullnægjandi þekkingu og getur sýnt fram á að hafa áður lokið prófi á viðkomandi sviði eða að hafa í störfum sínum til hið minnsta þriggja ára öðlast sambærilega þekkingu.
5. gr. Sérstakar skyldur leigubifreiðastöðvar.
Leigubifreiðastöð skal tilkynna Samgöngustofu að rekstrarleyfishafi hafi afgreiðslu á stöðinni. Framselji rekstrarleyfishafi leigubifreiðastöð skyldur sínar skv. 3. eða 4. mgr. 8. gr. laga um leigubifreiðaakstur, nr. 120/2022, skal það gert skriflega. Rekstrarleyfishafi skal þá upplýsa Samgöngustofu um gerð samningsins og afhenda afrit hans. Verði samningnum sagt upp eða hann endurnýjaður ber rekstrarleyfishafa sömuleiðis að upplýsa Samgöngustofu þar um.
Verði leigubifreiðastöð þess vör að rekstrar- eða atvinnuleyfishafi fari ekki eftir fyrirmælum laga um leigubifreiðaakstur, nr. 120/2022, eða ákvæða reglugerðar þessarar ber leigubifreiðastöð að tilkynna Samgöngustofu um það. Sama gildir ef leigubifreiðastöðinni berst ábending þess efnis.
Leigubifreiðastöð sem fengið hefur starfsleyfi skal við útgáfu leyfis og á leyfistímanum hafa fullnægjandi fjárhagsstöðu. Í því felst að hafa aðgang að nægilegu fjármagni til stofnsetningar og til að tryggja öruggan rekstur. Leigubifreiðastöð verður að hafa eigið fé og sjóði sem jafngilda að minnsta kosti 500.000 kr. fyrir fyrstu bifreið og 100.000 kr. því til viðbótar fyrir hverja bifreið umfram hana sem þar hefur þjónustu.
6. gr. Eigin bifreið.
Rekstrarleyfishafa er heimilt að fá afnot leigubifreiðar sem tryggð er viðeigandi tryggingu, til allt að þriggja mánaða, vegna endurnýjunar eða viðgerðar á bifreið sinni. Slíkt ber að tilkynna Samgöngustofu, og eftir atvikum leigubifreiðastöð eða stöðvum, sem uppfærir gagnagrunn samkvæmt því.
7. gr. Verðskrá.
Verðskrá yfir framboðna þjónustu leigubifreiðar skal höfð sýnileg neytendum með skýrum og aðgengilegum hætti áður en þjónustan er veitt. Gefa skal verðupplýsingar um hvern þjónustulið sem áhrif hefur á heildarverð ásamt heildarverði, þar sem það á við.
Þegar þjónusta leigubifreiðar er boðin eftir pöntun, til dæmis á vefsíðu eða í smáforriti, skal birta verðupplýsingar með aðgengilegum og skýrum hætti áður en neytandi pantar þjónustu.
Verðskrá yfir þjónustu leigubifreiðar sem boðin er án fyrir fram pöntunar skal vera sýnileg áður en farið er inn í bifreiðina. Þar skal að minnsta kosti koma fram upphafsgjald, kílómetragjald og mínútugjald. Inni í leigubifreiðinni skal neytandi hafa auðvelt aðgengi að skýrri og auðlæsilegri verðskrá fyrir alla framboðna þjónustu.
8. gr. Rafrænn gagnagrunnur.
Samgöngustofa sér um að reka rafrænan gagnagrunn sem skal meðal annars geyma upplýsingar um hverjir hafa leyfi skv. II. kafla laga um leigubifreiðaakstur, nr. 120/2022, skráningarnúmer leigubifreiðar sem heyrir undir rekstrarleyfi, hvenær bifreiðin er í leiguakstri og leyfisnúmer þess sem ekur hverju sinni ef það er annar en rekstrarleyfishafi. Gagnagrunnurinn skal starfræktur í þeim tilgangi að tryggja öryggi og stuðla að neytendavernd og til að viðhafa megi eftirlit með því að starfsemi fari fram lögum samkvæmt.
Rekstrarleyfishafi eða eftir atvikum leigubifreiðastöð skal tryggja fullnægjandi skráningu upplýsinga í rafrænan gagnagrunn Samgöngustofu. Þar skulu koma fram upplýsingar um skráningarnúmer bifreiðarinnar, hvenær hún er í leiguakstri og leyfisnúmer ökumanns ef hann er annar en rekstrarleyfishafi.
Samgöngustofa veitir leigubifreiðastöðvum lágmarksaðgang að gagnagrunninum til að geta sannreynt réttindi atvinnuleyfishafa og rekstrarleyfishafa en Samgöngustofa setur nánari reglur um aðgang að gagnagrunninum.
9. gr. Lagastoð og gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í lögum nr. 120/2022 um leigubifreiðaakstur öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um leigubifreiðar, nr. 397/2003.
Innviðaráðuneytinu, 30. mars 2023.
Sigurður Ingi Jóhannsson.
Ragnhildur Hjaltadóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.