Fara beint í efnið

Skráningareglur ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. nóvember 2024 -

Gildir frá: 01.06.2024. Skráningareglur ökutækja eru fyrir fagaðila sem sinna skráningum í umboði Samgöngustofu eða tilkynna breytingar í ökutækjaskrá samkvæmt lögum.

    Notkunarflokkaskráningar

    Eftirtaldir aðilar geta gert samning um að vinna í umboði Samgöngustofu hvað varðar skráningu ökutækja í notkunarflokk í tengslum við opinberar skoðanir þeirra eða nýskráningar (kallaðir þjónustuaðilar):

    • Faggiltar skoðunarstofur ökutækja

    • Umboð (ökutækja) með fulltrúa B

    Efni kaflans

    Skilgreining notkunarflokkana

    Um eftirfarandi notkunarflokka í ökutækjaskrá er að ræða.

    Notkunarflokkur "Almenn notkun"

    Sjálfgefinn notkunarflokkur ökutækja í ökutækjaskrá.

    • Tilvist: Notkunarflokkurinn er til vegna þess að hann er skilgreindur í reglugerð um gerð og búnað ökutækja og er líka notaður sem sjálfgefinn notkunarflokkur af skráarhaldara ökutækjaskrár.

    • Skráningarheimild/skylda: Notaður þegar ekki er um annan flokk að ræða.

    • Fyrir ökutækisflokka: Alla.

    • Skoðunarregla: Skoðunarreglu ökutækisflokksins er fylgt.

    Breyting í almenna notkun (úr öðrum notkunarflokkum)

    Í yfirlitstöflu notkunarflokka er tilgreint hvort skoðunar sé krafist við breytingu í "Almenna notkun".

    • Þegar breytingaskoðunar er krafist felst breytingaskoðunin í því að ganga úr skugga um að aukabúnaður vegna notkunarflokksins hafi verið fjarlægður eða útfærslu breytt til baka.

    • Þegar aðalskoðunar er krafist hefur notkunarflokkurinn sem ökutækið er að breytast úr örari skoðunartíðni (skoða oftar) heldur en skoðunartíðni almennrar notkunar (skoða sjaldnar) fyrir viðkomandi ökutæki. Þá gildir sú regla að hafi reglubundin skoðun ekki verið framkvæmd á ökutækinu á almanaksárinu (frá 1. janúar s.l.) ber að framkvæma hana fyrir notkunarflokksbreytinguna. Alltaf skal nota skoðunartegundina Aðalskoðun í þessum tilvikum (óháð því hvort ökutækið er með gilda aðalskoðun eða ekki).

    • Þegar einungis er krafist umsóknar vegna breytingar (breytingaskoðunar á skoðunarstöð ekki krafist) gæti í einhverjum tilvikum þurft að skipta um skoðunarmiða á ökutækinu. Tryggja skal að það sé gert og má eigandi (umráðandi) sýna fram á að það hafi verið gert í samráði við skoðunarstofu eða Samgöngustofu án þess að færa ökutækið til skoðunar. Þetta á m.a. við þegar skoðunarskyldri dráttarvél, ökutæki með ferðaþjónustuleyfi, fornökutæki, ökutæki í ökutækjaleigu eða eyjaökutæki er breytt í almenna notkun.

    Að auki gildir:

    • Ökutæki hafi gilda reglubundna skoðun þegar skilað er inn umsókn um notkunarflokkabreytingu (eða aðalskoðun tekin samhliða).

    • Líma getur þurft nýjan skoðunarmiða á ökutæki eftir að notkunarflokksbreyting hefur verið samþykkt, verði við það breyting á skoðunarreglu. Þá skal líma nýjan miða með næsta skoðunarári hinnar nýju skoðunarreglu (sjá um álímingu skoðunarmiða).

    Skráningarmerki

    Ökutæki í almennri notkun getur borið allar þær gerðir skráningarmerkja sem tengjast ekki sérstökum notkunarflokkum sem gera kröfu um tiltekna gerð skráningarmerkja.

    Lög og reglur

    Frekari upplýsingar er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

    • Umferðarlög nr. 77/2019.

    • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.

    • Reglugerð um skráningu ökutækja nr. 751/2003.

    • Reglugerð um skoðun ökutækja nr. 414/2021.