Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Skráningareglur ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. október 2025 -

Gildir frá: 01.06.2024. Skráningareglur ökutækja eru fyrir fagaðila sem sinna skráningum í umboði Samgöngustofu eða tilkynna breytingar í ökutækjaskrá samkvæmt lögum.

    Notkunarflokkaskráningar

    Eftirtaldir aðilar geta gert samning um að vinna í umboði Samgöngustofu hvað varðar skráningu ökutækja í notkunarflokk í tengslum við opinberar skoðanir þeirra eða nýskráningar (kallaðir þjónustuaðilar):

    • Faggiltar skoðunarstofur ökutækja

    • Umboð (ökutækja) með fulltrúa B

    Efni kaflans

    Skilgreining notkunarflokkanna

    Um eftirfarandi notkunarflokka í ökutækjaskrá er að ræða.

    Notkunarflokkur "Undanþáguakstur"

    Bifreið, dráttarvél eða eftirvagn sem nær eingöngu eru notuð utan vega eða til sérstakra flutninga á vegi gegn undanþágu. Ástæða undanþágunnar er sú að ökutækin eru of stór (hæð, lengd og/eða breidd).

    • Tilvist: Notkunarflokkurinn er til vegna þess að hann er skilgreindur í reglugerð um gerð og búnað ökutækja og merkja verður sérstaklega ökutæki sem eru í þessum undanþáguakstri.

    • Skráningarheimild/skylda: Það er krafa að skrá ökutæki í þennan notkunarflokk hafi það undanþágu af þessu tagi til aksturs í almennri umferð.

    • Notkun: Til að auðkenna ökutæki í umferðinni sem hafa undanþágu af þessu tagi.

    • Fyrir ökutækisflokka: Bifreið, dráttarvél og eftirvagn.

    • Skoðunarregla: Skoðunarreglu ökutækisflokksins er fylgt.

    Samgöngustofa skráir ökutæki í þennan notkunarflokk við forskráningu sé það stærra en reglugerðir kveða á um en uppfyllir skilyrði til undanþáguflutninga ásamt öðrum kröfum sem gerðar eru til ökutækja í almennri notkun. Í flestum tilfellum er ekki hægt að breyta ökutæki úr þessum notkunarflokki í almenna notkun (sökum sérhönnunar þess til yfirstærðarflutninga).

    Kröfur til ökutækjanna

    Kröfur til ökutækja í undanþáguakstri

    Ökutæki í undanþáguakstri eru sérstaklega hönnuð og gerð til að flytja stærri og/eða þyngri farm sem ekki er hægt að flytja með góðu móti með öðrum hætti. Hönnun ökutækjanna miðast við að hægt sé að aka þeim á opinberum vegum, þótt með takmörkunum sé, og að almennar hönnunarreglur og kröfur um gerð og búnað séu uppfylltar, þótt frávik geti verið á því.

    Sækja þarf um undanþágu til notkunar undanþáguökutækis vegna sérstaks flutnings eða flutninga til Samgöngustofu sem aflar samþykkis Vegagerðar og lögreglustjóra eins og við á í samræmi við verklagsreglur þar um. Undanþágu má veita fyrir einn flutning eða í tiltekinn tíma. Samgöngustofa getur sett nánari skilyrði fyrir leyfi og getur bundið undanþágu við til dæmis veðurfar, ástand vega og mannvirkja hverju sinni og gerð ökutækis.

    Undanþágu má veita frá reglum um lengd, breidd, hæð, heildarþyngd og ásþunga ökutækis og vagnlestar. Þetta á við þegar nauðsyn þykir bera til, vegna óskiptanlegra eða sérstakra flutninga sem ekki geta með góðu móti farið fram með öðrum hætti:

    • flutningur á óskiptanlegum stórum farmi og/eða farmi í yfirþyngd. Þessum farmi er ekki unnt að skipta í tvo eða fleiri hluta til að flytja hann á vegum án ótilhlýðilegs kostnaðar eða hættu á skemmdum og sem af ástæðum sem varða stærð hans og þyngd er ekki unnt að flytja með ökutæki eða vagnlest án undanþágu.

    • undanþága frá lengd, breidd og hæð á skiptanlegum farmi ef augljós hagkvæmnisrök mæla með slíkum flutningum, enda sé umferðaröryggi ekki skert eða aukin hætta á skemmdum á vegamannvirkjum.

    Óheimilt er að nota ökutæki sem skráð er í þennan notkunarflokk nema viðeigandi undanþága liggi fyrir og sé meðferðis.

    Áhrif á skráningarmerki

    Ökutæki í undanþáguakstri ber sérstök skráningarmerki (undanþágumerki).

    Lög og reglur

    Frekari upplýsingar er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

    • Umferðarlög nr. 77/2019.

    • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.

    • Reglugerð um skráningu ökutækja nr. 751/2003.

    • Reglugerð um stærð og þyngd ökutækja nr. 155/2007.