Fara beint í efnið

Skráningareglur ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. ágúst 2024 -

Gildir frá: 01.06.2024. Skráningareglur ökutækja eru fyrir fagaðila sem sinna skráningum í umboði Samgöngustofu eða tilkynna breytingar í ökutækjaskrá samkvæmt lögum.

    Notkunarflokkaskráningar

    Eftirtaldir aðilar geta gert samning um að vinna í umboði Samgöngustofu hvað varðar skráningu ökutækja í notkunarflokk í tengslum við opinberar skoðanir þeirra eða nýskráningar (kallaðir þjónustuaðilar):

    • Faggiltar skoðunarstofur ökutækja

    • Umboð (ökutækja) með fulltrúa B

    Efni kaflans

    Skilgreining notkunarflokkana

    Um eftirfarandi notkunarflokka í ökutækjaskrá er að ræða.

    Notkunarflokkur "VSK-bifreið"

    VSK-bifreið uppfyllir skilyrði til að fá niðurfelldan virðisaukaskatt við öflun hennar.

    • Tilvist: Notkunarflokkurinn er til vegna þess að hann er skilgreindur í reglugerð um gerð og búnað ökutækja og sérstakar kröfur eru gerðar til bifreiða sem heimilt er að merkja með VSK-skráningarmerkjum.

    • Skráningarheimild/skylda: Það er heimilt (ekki krafa) að skrá bifreið í þennan notkunarflokk uppfylli hún kröfurnar sem lýst er í þessu skjali.

    • Fyrir ökutækisflokka: Sendibifreið (N1), vörubifreið I (N2) ≤5.000 kg að leyfðri heildarþyngd og fólksbifreið (M1) með ferðaþjónustuleyfi.

    • Skoðunarregla: Skoðunarreglu ökutækisflokksins er fylgt.

    Samgöngustofa skráir í gerðarlýsingu sendibifreiða og vörubifreiða I við forskráningu hvort gerðin uppfylli VSK-kröfur. Heimilt er að afhenda VSK-merki á slíkar bifreiðir þegar þetta er skráð án þess að bifreiðin sé færð til breytingaskoðunar.

    Í öðrum tilvikum sér skoðunarstofa um að tilkynna ökutæki í notkunarflokkinn á US.111 samhliða breytingaskoðun. Bifreið sem skráð í þennan notkunarflokk má breyta til baka í almenna notkun standist hún breytingaskoðun þar að lútandi.

    Kröfur til ökutækjanna

    Kröfur til farmrýmis sendi- og vörubifreiða

    Í reglugerð um innskatt eru settar fram eftirfarandi kröfur um farmrými og flutningsgetu sendi- og vörubifreiða sem heimilt er að telja til innskatts virðisaukaskatt vegna öflunar, þ.m.t. leigu:

    • Farmrými, opið eða lokað, aftan við öftustu brún sætis eða milliþils skal vera a.m.k. 1.700 mm að hleðsludyrum eða hlera. Sé það styttra skal það þó vera lengra en fólksrýmið, mælt frá miðri framrúðu

    • Í farmrými mega hvorki vera sæti né annar búnaður til farþegaflutninga. Sé fólks- eða hópbifreið breytt í sendi- eða vörubifreið skulu með varanlegum hætti fjarlægð úr farmrými sæti ásamt sætisfestingum og öðrum búnaði til fólksflutninga.

    • Skráð flutningsgeta í fólksrými skal vera minni en helmingur af skráðri burðargetu bifreiðarinnar ef miðað er við að hver farþegi/ökumaður vegi 75 kg.

    Ekki er krafa um farmskilrúm í torfærubifreiðum sem notaðar eru til farþegaflutninga í ferðaþjónustu (ökutæki með ferðarþjónustuleyfi).

    Skráningarmerki

    VSK-bifreið ber sérstök VSK-merki og getur þar með ekki verið á öðrum gerðum skráningarmerkja (má til dæmis ekki bera einkamerki).

    VSK-merki geta eingöngu verið á bifreiðum (ekki öðrum flokkum ökutækja).

    VSK-bifreiðir eru í notkunarflokknum "VSK-bifreið" á meðan þau eru á VSK-merkjum. Ef/þegar breyta á til baka í notkunarflokkinn "Almenn notkun" má afhenda almenn skráningarmerki án breytingaskoðunar (minnt er þó á að ef breyta á litlum sendibíl til baka í fólksbíl (fjölga sætum o.s.frv.) verður að færa bifreiðina til breytingaskoðunar).

    Lög og reglur

    Frekari upplýsingar er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

    • Umferðarlög nr. 77/2019.

    • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.

    • Reglugerð um skráningu ökutækja nr. 751/2003.

    • Reglugerð um innskatt nr. 192/1993.