Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Skráningareglur ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. október 2025 -

Gildir frá: 01.06.2024. Skráningareglur ökutækja eru fyrir fagaðila sem sinna skráningum í umboði Samgöngustofu eða tilkynna breytingar í ökutækjaskrá samkvæmt lögum.

    Notkunarflokkaskráningar

    Eftirtaldir aðilar geta gert samning um að vinna í umboði Samgöngustofu hvað varðar skráningu ökutækja í notkunarflokk í tengslum við opinberar skoðanir þeirra eða nýskráningar (kallaðir þjónustuaðilar):

    • Faggiltar skoðunarstofur ökutækja

    • Umboð (ökutækja) með fulltrúa B

    Efni kaflans

    Skilgreining notkunarflokkanna

    Um eftirfarandi notkunarflokka í ökutækjaskrá er að ræða.

    Notkunarflokkur "Hættulegur farmur (ADR)"

    ADR-viðurkenning (heimild til skráningar ökutækis í flutning á hættulegum farmi) er staðfesting þar til bærra yfirvalda að tiltekið ökutæki ætlað fyrir flutning á hættulegum farmi uppfylli viðeigandi tæknilegar kröfur.

    • Tilvist: Notkunarflokkurinn er til vegna þess að hann er skilgreindur í reglugerðum um gerð og búnað ökutækja og um flutning á hættulegum farmi á landi og sérstakar kröfur eru gerðar til ökutækja til flutnings á hættulegum farmi í samnefndum reglugerðum.

    • Skráningarheimild/skylda: Það er skylt að skrá ökutæki í þennan notkunarflokk eigi að nota það til flutnings á hættulegum farmi.

    • Fyrir ökutækisflokka: Sendi- og vörubifreið (N) og eftirvagn (O)

    • Skoðunarregla: Skoðunarreglu ökutækisflokksins er fylgt. Þó gildir ADR-skoðun ökutækisins að jafnaði í eitt ár frá skoðunardegi, samanber skoðunarhandbók ökutækja.

    Skráning ökutækis í notkunarflokkinn skal ekki fara fram nema fyrir liggi viðurkenning þess að það uppfylli kröfur sem gerðar eru til slíks ökutækis. Skráð er fyrir hvaða flokka/a hættulegs farms ökutækið er viðurkennt. Viðurkenning þessi er hluti af framleiðsluferli ökutækjanna eða samkvæmt viðurkenndum breytingaferlum. Samgöngustofa metur gildi ADR-viðurkenninga og viðurkenningarferla.

    Eigandi (umráðandi) sækir um til Samgöngustofu að ADR-viðurkennt ökutæki verði skráð í notkunarflokkinn (sjá umsóknarferli hér neðar). Í framhaldi af skráningunni verður að færa ökutækið til ADR-skoðunar og svo árlega eftir það. Ökutæki sem skráð í þennan notkunarflokk má breyta til baka í almenna notkun (án breytingaskoðunar).

    Kröfur til ökutækjanna

    Ökutæki þurfa að hafa ADR-viðurkenningu og uppfylla þar með þær kröfur sem gerðar eru til þeirra í ADR-reglum (samanber reglugerð um flutning á hættulegum farmi á landi). Óheimilt er að breyta ökutæki eða íhlutum þess sem verður til þess að það uppfylli ekki lengur kröfur til ADR-flutnings á meðan það er skráð í þá notkun. Að auki þarf ökutæki í þessum notkunarflokki að vera búið tilteknum öryggisbúnaði sem tekinn er út árlega í ADR-skoðun (sjá verklagsbók fyrir ADR-skoðun).

    Viðurkenningarflokkar

    Ökutæki getur haft viðurkenningu fyrir einn eða fleiri flokka hættulegs farms (samanber kafla 9.1 í ADR-reglum). Hér er gróf samantekt:

    • Flokkar EX/II og EX/III: Ökutæki ætlað fyrir flutning á sprengifimum efnum (föstum eða fljótandi) og einingum sem geta sprungið (falla undir "Class 1" í ADR-reglum).

    • Flokkar FL og AT: Ökutæki ætlað fyrir flutning á hættulegum efnum í áföstum tanki (ábygging, e. fixed tank), gámatanki (fer á gámagrind, e. tank-container), farmtanki (tankur sem þolir yfirleitt ekki tilfærslu nema hann sé tómur, e. demountable tank), flutningstanki (tankur sem þolir tilfærslu óháð magni innihalds, e. portable tank), áfastri hylkjastæðu (jafnan þrýstihylki, e. battery-vehicle) eða farmhylkjastæðu (jafnan þrýstihylki, e. multi-element gas container). Með rúmmál umfram 1 m³ í áföstum tanki, farmtanki og áfastri hylkjastæðu. Með rúmmáli umfram 3 m³ hver í gámatanki, flutningstanki og farmhylkjastæðu.

    • Flokkur MEMU: Ökutæki sem uppfyllir skilgreininguna á hreyfanlegri (mobile) framleiðslueiningu fyrir sprengiefni (e. mobile explosives manufacturing unit). Samkvæmt lið 1.2.1 í ADR-reglum.

    Þegar við flutning tiltekins efnis er gerð krafa um EX/III flokk ekki leyfilegt að nota annað ökutæki en það sem skráð er í þann flokk. Sama gildir ef krafa er gerð um FL flokk. Ef krafa er gerð um AT flokk er leyfilegt að nota ökutæki sem skráð er í flokk AT eða FL.

    Aðvörunarmerki

    Við flutning á hættulegum farmi skal ökutæki merkt með tveimur ferhyrndum appelsínugulum merkjum, búnum endurskini. Merkin skulu vera 400 mm að lengd og 300 mm að hæð með 15 mm breiðri svartri umgerð. Þeim skal komið fyrir þannig að þau sjáist vel að framan og aftan á ökutæki eða eftir atvikum vagnlest. Sé erfitt að koma fyrir merkjum af umræddri gerð vegna stærðar eða lögunar ökutækis, má hafa þau 300 mm að lengd, 120 mm að hæð og umgerð 10 mm breiða. Sjá nánar reglugerð um flutning á hættulegum farmi á landi, III. viðauka.

    Umsóknarferli ADR-skráningar

    Liggja verður fyrir að framleiðandi hafi fengið ADR-viðurkenningu fyrir ökutækið eða það hafi áður verið með ADR-skráningu (erlendis eða hérlendis).

    Umsóknar- og skráningarferill

    1. Umsókn: Eigandi (umráðandi) ökutækis sækir um að skrá ökutæki til flutnings á hættulegum farm á vefsíðu Samgöngustofu. Viðeigandi fylgigögn þurfa að fylgja með umsókn eins og er lýst hér að neðan.

    2. Úrvinnsla umsóknar: Samgöngustofa vinnur úr umsókninni. Verði hún samþykkt er skráð hvaða flokka/a hættulegs farms ökutækið er viðurkennt fyrir og það skráð í notkunarflokkinn. Engin gildistími ADR-viðurkenningar er þó skráður. Umsækjanda er tilkynnt að færa þurfi ökutækið til ADR-skoðunar á skoðunarstofu.

    3. Á skoðunarstofu: Ökutækið skoðað eftir verklagsbók fyrir ADR-skoðun í samræmi við viðurkenningarflokka ökutækis í ökutækjaskrá.

    4. Skoðunarmiði: Ekki er límdur sérstakur miði á ökutækið vegna ADR-skoðana.

    5. Gildistími ADR-viðurkenningar: Þegar ADR-skoðun berst ökutækjaskrá skráist gildistími ADR-viðurkenningar samkvæmt skoðun frá skoðunarstofu (eitt ár).

    Fylgigögn umsóknar eftir því sem við á

    1. ADR-viðurkenning sem framleiðandi hefur fengið fyrir ökutækið þar sem fram koma viðurkenningarflokkar þess.

    2. Erlent ADR vottorð (sé það til staðar) og afrit af síðasta skoðunarvottorði.

    3. Fyrir ökutæki með áfastan tank: Gild þrýstiprófun og upplýsingar um tankfestingar.

    Breytingaviðurkenning

    Samgöngustofa getur viðurkennt ferla framleiðanda ökutækja, fulltrúa þeirra og sjálfstæða fagaðila til að taka út og framkvæma breytingar á ökutækjum svo að þau uppfylli tiltekna flokka ADR-skráningar, í eftirfarandi tilvikum:

    • Gerð ökutækis hefur viðurkenningu fyrir ADR-skráningu en ekki hefur verið staðfest af framleiðanda að tiltekið ökutæki af þeirri gerð uppfylli kröfurnar. Þá getur Samgöngustofa heimilað feril framleiðanda, eða fulltrúa hans, við að staðfesta að ökutæki hafi verið tekið út og/eða á því hafi verið gerðar viðeigandi breytingar (í samræmi við gerðarviðurkenninguna) og uppfylli nú kröfur tiltekinna flokka ADR-skráningar.

    • Ökutæki er breytt til að það uppfylli kröfur EX/II flokks.

    Í viðurkenningarferlinu er farið fram á upplýsingar og gögn, eftir atvikum:

    • Upplýsingar um upphafsviðurkenningu gerðar með tilliti til ADR eiginleika.

    • Staðfesting á að aðili sé fulltrúi framleiðanda hvað þetta verkefni varðar.

    • Lýsing á þeim ferlum sem framleiðandi, fulltrúi framleiðanda eða fagaðili hyggst fara eftir við úttektir eða breytingar á viðkomandi ökutækjum.

    • Vottorð um hamlara (fyrir ökutæki með hámarksþyngd yfir 16 tonn eða má draga eftirvagn yfir 10 tonn, sjá lið 9.2.3.1.2 í ADR-reglum).

    • Gild þrýstiprófun (fyrir ökutæki með áfastan tank) ásamt upplýsingum um tankfestingar og stöðugleika samkvæmt UNECE reglugerð númer 111.

    • Aðrar upplýsingar sem Samgöngustofa getur óskað eftir.

    Áhrif á skráningarmerki

    Skráningin hefur engin áhrif á skráningarmerkið.

    Lög, reglugerðir og reglur

    Frekari upplýsingar er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

    • Umferðarlög nr. 77/2019.

    • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.

    • Reglugerð um skráningu ökutækja nr. 751/2003.

    • Reglugerð um flutning á hættulegum farmi nr. 1077/2010.

    • Evrópusamningur um flutninga á hættulegum farmi á vegum (Agreement concerning the International Carriage of Dangerous Goods by Road) - ADR-samþykktir og ADR-reglur.

    • Reglugerð um slökkvitæki nr. 1068/2011.

    • Lög um farþegaflutninga og farmflutninga á landi nr. 28/2017.

    • Reglugerð um leyfi til að stunda farþegaflutninga og farmflutninga á landi nr. 474/2017.