Fara beint í efnið

Skráningareglur ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. ágúst 2024 -

Gildir frá: 01.06.2024. Skráningareglur ökutækja eru fyrir fagaðila sem sinna skráningum í umboði Samgöngustofu eða tilkynna breytingar í ökutækjaskrá samkvæmt lögum.

    Notkunarflokkaskráningar

    Eftirtaldir aðilar geta gert samning um að vinna í umboði Samgöngustofu hvað varðar skráningu ökutækja í notkunarflokk í tengslum við opinberar skoðanir þeirra eða nýskráningar (kallaðir þjónustuaðilar):

    • Faggiltar skoðunarstofur ökutækja

    • Umboð (ökutækja) með fulltrúa B

    Efni kaflans

    Skilgreining notkunarflokkana

    Um eftirfarandi notkunarflokka í ökutækjaskrá er að ræða.

    Notkunarflokkur "Hættulegur farmur (ADR)"

    ADR-viðurkenning (skráning í hættulegan farm) er staðfesting þar til bærra yfirvalda að tiltekið ökutæki ætlað fyrir flutning á hættulegum farmi uppfylli viðeigandi tæknilegar kröfur sem EX/II, EX/III, FL og AT ökutæki eða sem MEMU.

    • Tilvist: Notkunarflokkurinn er til vegna þess að hann er skilgreindur í reglugerð um gerð og búnað ökutækja og sérstakar kröfur eru gerðar til ökutækja til flutnings á hættulegum farmi í samnefndri reglugerð.

    • Skráningarheimild/skylda: Það er skylt að skrá ökutæki í þennan notkunarflokk eigi að nota það til flutnings á hættulegum farmi.

    • Fyrir ökutækisflokka: Sendi- og vörubifreið (N) og eftirvagn (O)

    • Skoðunarregla: Skoðunarreglu ökutækisflokksins er fylgt.

    Skráning ökutækis til flutnings á hættulegum farmi skal ekki fara fram nema fyrir liggi viðurkenning þess að það uppfylli kröfur sem gerðar eru til slíks ökutækis.

    • Skráð er fyrir hvaða flokka/a hættulegs farms ökutækið er viðurkennt.

    • Skráningin tekur til vélknúins ökutækis sem ætlað er til aksturs á vegi, er á fjórum eða fleiri hjólum og hannað fyrir hámarkshraða yfir 25 km/klst, svo og eftirvagns. Þetta á við flokka N og O í ökutækjaskrá.

    • Skráningin tekur ekki til ökutækis sem fer eftir teinum, færanlegrar vélar og dráttarvélar fyrir landbúnað eða skógrækt sem ekki fer hraðar en 40 km/klst.

    Skoðunarstofa sér um að tilkynna ökutæki í notkunarflokkinn á US.111 samhliða ADR-skoðun eða ADR-viðurkenningarskoðun. Ökutæki sem skráð í þennan notkunarflokk má breyta til baka í almenna notkun standist það breytingaskoðun þar að lútandi.

    Kröfur til ökutækjanna

    Sjá verklagsbækur í skoðunarhandbók ökutækja:

    • Verklagsbók fyrir ADR-skoðun

    • Verklagsbók fyrir ADR-viðurkenningarskoðun

    Skilgreining flokka EX/II eða EX/III

    Ökutæki ætlað til flutnings á sprengifimum efnum og hlutum (flokki 1).

    Skilgreining flokks FL

    1. Ökutæki fyrir flutning á vökvum með blossamark allt að 60°C (að undanskildu dísel eldsneyti sem uppfyllir staðalinn EN 590:2013 + A1:2017, gasolía og upphitunarolía (létt) - UN No. 1202 - með blossamarki skilgreindu samkvæmt staðlinum EN 590: 2013 + A1:2017) í föstum tönkum eða lausum tönkum með rúmmál umfram 1 m³ eða í gámatönkum eða flytjanlegum tönkum með rúmmáli umfram 3 m³ hver; eða

    2. ökutæki ætlað fyrir flutning á eldfimum gastegundum í föstum tönkum eða lausum tönkum með rúmmál umfram 1 m³ eða í gámatönkum, flytjanlegum tönkum eða MEGC með rúmmál umfram 3 m³ hver; eða

    3. ökutæki með þrýstihylki (battery-vehicle) með rúmmál umfram 1 m³ ætlað fyrir flutning á eldfimum gastegundum; eða

    4. ökutæki ætlað fyrir flutning á vetnisperoxíð (hydrogen peroxide), stöðuga eða fljótandi lausn, gerð stöðug með meira en 60% vetnisperoxíð (flokkur 5.1, UN No. 2015) í föstum tönkum eða lausum tönkum með rúmmál umfram 1m³ eða í gámatönkum eða flytjanlegum tönkum með rúmmál umfram 3 m³.

    Skilgreining flokks AT

    1. Ökutæki af annarri gerð en EX/III, FL ökutæki eða MEMU, ætlað fyrir flutning á hættulegum farmi í föstum tönkum eða lausum tönkum með rúmmál umfram 1m³ eða í gámatönkum, flytjanlegum tönkum eða MEGC-gámur með rúmmál umfram 3m³ ; eða

    2. ökutæki með þrýstihylki með samtals rúmamál umfram 1m³ þó ekki FL-ökutæki.

    Skilgreining flokks MEMU

    "MEMU" táknar ökutæki sem stenst skilgreininguna á hreyfanlegri (mobile) sprengiefna framleiðslueiningu í ADR reglunum (1.2.1).

    Aðvörunarmerki

    Við flutning á hættulegum farmi skal ökutæki merkt með tveimur ferhyrndum appelsínugulum merkjum, búnum endurskini, samkvæmt reglugerð um flutning á hættulegum farmi á landi nr. 1077/2010 sbr. III. viðauka. Merkin skulu vera 400 mm að lengd og 300 mm að hæð með 15 mm breiðri svartri umgerð. Þeim skal komið fyrir þannig að þau sjáist vel að framan og aftan á ökutæki eða eftir atvikum vagnlest. Sé erfitt að koma fyrir merkjum af umræddri gerð vegna stærðar eða lögunar ökutækis, má hafa þau 300 mm að lengd, 120 mm að hæð og umgerð 10 mm breiða.

    Umsóknarferli ADR-skráningar (með viðurkenningu)

    Þetta umsóknarferli á við þegar viðurkenningarupplýsingar framleiðanda eða ADR-skráning erledis eða hérlendis hefur átt sér stað.

    Umsóknar- og skráningarferill

    1. Umsókn: Eigandi eða umráðamaður ökutækis sækir um að skrá ökutæki til flutnings á hættulegum farm á vefsíðu Samgöngustofu. Viðeigandi fylgigögn þurfa að fylgja með umsókn eins og er lýst hér að neðan.

    2. Á skoðunarstofu: Umsækjandi fer á skoðunarstöð eftir að hafa fengið umsókn sína samþykkta hjá Samgöngustofu, ásamt því ökutæki sem á að ADR-skoða.

    3. ADR-skoðun: Ökutækið er skoðað ADR-skoðun (reglubundin ADR-skoðun) samkvæmt viðeigandi verklagsbók og í samræmi við viðurkennda flokka ökutækis í ökutækjaskrá.

    4. Skoðunarmiði: Ekki er límdur sérstakur miði á ökutækið vegna ADR-skoðana.

    5. ADR-skráning: Samgöngustofa skráir ökutækið til flutnings á hættulegum farmi og fyrir hvaða flokka/a hættulegs farms ökutækið er viðurkennt, gildistími skráist samkvæmt skoðun frá skoðunarstofu.

    Fylgigögn umsóknar eftir því sem við á

    1. Viðurkenning frá framleiðanda um hvaða ADR flokka ökutækið hefur heimild til að vera í.

    2. Erlent ADR vottorð (sé það til staðar) og afrit af síðasta skoðunarvottorði.

    3. Fyrir ökutæki með áfastan tank: Gild þrýstiprófun og upplýsingar um tankfestingar.

    Umsóknarferli ADR-skráningar (án viðurkenningar)

    Þetta umsóknarferli á við þegar viðurkenningarupplýsingar framleiðanda eru ekki tiltækar og ökutækið hefur ekki verið viðurkennt áður. Því þarf að viðurkenna ökutækið með sérstakri ADR-viðurkenningarskoðun, ásamt því að framvísa gögnum.

    Umsóknar- og skráningarferill

    1. Umsókn: Eigandi eða umráðamaður ökutækis sækir um að skrá ökutæki til flutnings á hættulegum farm á vefsíðu Samgöngustofu. Viðeigandi fylgigögn þurfa að fylgja með umsókn eins og er lýst hér að neðan. Samgöngustofa getur óskað eftir frekari upplýsingum ef talið er þörf á því.

    2. Á skoðunarstofu: Umsækjandi fer á skoðunarstöð eftir að hafa fengið umsókn sína samþykkta hjá Samgöngustofu, ásamt því ökutæki sem á að ADR-skoða.

    3. ADR-skoðun: Ökutækið er skoðað samkvæmt ADR-viðurkenningarskoðun samkvæmt viðeigandi verklagsbók og í samræmi við ADR-flokka sem sótt hefur verið um.

    4. Skoðunarmiði: Ekki er límdur sérstakur miði á ökutækið vegna ADR-skoðana.

    5. ADR-skráning: Samgöngustofa skráir ökutækið til flutnings á hættulegum farmi og fyrir hvaða flokka/a hættulegs farms ökutækið er viðurkennt og gildistíma, samkvæmt tilkynningu frá skoðunarstofunni.

    Fylgigögn umsóknar eftir því sem við á

    1. Vottorð um hamlara sbr. 9.2.3.1.2 í 9. kafla ADR. (fyrir ökutæki með hámarksþyngd yfir 16 tonn eða má draga eftirvagn yfir 10 tonn)

    2. Fyrir ökutæki með áfastan tank: Gild þrýstiprófun ásamt upplýsingum um tankfestingar og stöðugleika samkvæmt ECE111.

    3. Aðrar upplýsingar sem Samgöngustofa getur óskað eftir.

    Skráningarmerki

    Skráningin hefur engin áhrif á skráningarmerkið.

    Lög, reglugerðir og reglur

    Frekari upplýsingar er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

    • Umferðarlög nr. 77/2019.

    • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.

    • Reglugerð um skráningu ökutækja nr. 751/2003.

    • Reglugerð um flutning á hættulegum farmi nr. 1077/2010.

    • Evrópusamningur um flutninga á hættulegum farmi á vegum, sem undirritaður var í Genf 1957 / ADR-samþykktir, kafli 9.

    • Reglugerð um slökkvitæki nr. 1068/2011.

    • Lög um farþegaflutninga og farmflutninga á landi nr. 28/2017.

    • Reglugerð um leyfi til að stunda farþegaflutninga og farmflutninga á landi nr. 474/2017.