Fara beint í efnið

Greiða má fyrir ferðir utan heimabyggðar vegna bráðatilvika sem farnar eru samkvæmt ákvörðun læknis og ekki er hægt að sinna á staðnum. Með bráðatilviki er átt við slys eða sjúkdóma sem eru þess eðlis að heilsu er bráð hætta búin sé erindinu ekki sinnt innan 48 klukkustunda.

Umsóknarferli

Til að fá ferðakostnað endurgreiddan þarf:

  1. Læknir sem tekur ákvörðun um að senda sjúkling frá sér vegna bráðatilviks að sækja um endurgreiðslu ferðakostnaðar
    - Læknirinn fyllir út eyðublaðið Skýrsla vegna ferðakostnaðar innanlands

  2. Umsækjandi heldur utan um öll gögn:
    - Eyðublaðinu sem læknirinn hefur fyllt út
    - Greiðslukvittanir vegna flugs, ferju, áætlunarbíls, vegtolla eða almenningssamgangna
    - Greiðslukvittanir vegna eldsneytiskaupa í ferðinni þegar ferðast er með einkabíl
    - Staðfestingu á komu til læknis eða afrit af reikningi ef Sjúkratryggingum hefur ekki borist rafrænar upplýsingar um komu/innlögn frá meðferðaraðila

Umsækjandi sendir öll gögn til umboðs sýslumanns í sinni heimabyggð, umboð áframsenda til Sjúkratrygginga ef þörf er á. Íbúar á höfuðborgarsvæðinu skila gögnum beint til Sjúkratrygginga.

Einnig er hægt að skila inn gögnum rafrænt í gegnum Réttindagátt.

Upphæðir

Að jafnaði er endurgreitt fyrir hverja ferð, miðað við heildarkostnað umsækjanda og fylgdarmanns:

  • 2/3 af fargjaldi með flugi, ferju eða áætlunarbíl. Ef ferðast er með einkabíl er sá kostnaður reiknaður út frá vegalengd og kílómetragjaldi.

  • Kostnaðarhluti umsækjanda (1/3 hluti fargjalds) fer þó aldrei yfir 1.500 kr. í hverri ferð fram og til baka.

  • Kostnaðarhluti umsækjanda lækkar í 500 kr. fyrir hverja ferð ef kostnaður hans fer yfir 10.000 kr. á síðustu 12 mánuðum eða á almanaksári frá 01.01.2024.

Þjónustuaðili

Sjúkra­trygg­ingar