Listi yfir gagnasöfn
Ábyrgðaraðili: Sóttvarnalæknir.
Vinnsluaðili: Sóttvarnalæknir.
Tilgangur: Að fylgjast með þátttöku í bólusetningum á Íslandi og meta hættuna á að upp komi faraldrar sjúkdóma sem bólusett er gegn.
Innihald: Upplýsingar um allar bólusetningar á Íslandi.
Tímabil: Rafrænar upplýsingar um bólusetningar frá 2002/2003.
Uppruni gagna: Rafrænt skráðar bólusetningar á sjúkrastofnunum og skólum á Íslandi.
Skráningaratriði: Nafn, kennitala, fæðingardagur og búseta hins bólusetta. Dagsetning og staðsetning bólusetningar. Sérlyfjaheiti bóluefnis ásamt innihaldsefnum.
Sambærileg eða skyld gagnasöfn: Vísir að sambærilegum skrám er til staðar á hinum Norðurlöndunum.
Úrvinnsla og birting:
Árlega eru unnar upplýsingar um þátttöku í bólusetningum sem sendar eru í alþjóðlega gagnagrunna og einnig er unnið með upplýsingar með aðilum íslenska heilbrigðiskerfisins.
Saga: Miðlæg skrá um bólusetningar hefur ekki verið til á Íslandi fyrr en með tilkomu bólusetningagrunns sóttvarnalæknis. Upplýsingar um eldri bólusetningar en frá árinu 2002 eru einungis til á þeim stöðum þar sem bólusetning fór fram.
Ábyrgðaraðili: Embætti landlæknis
Vinnsluaðili: Embætti landlæknis
Tilgangur: Að safna í eina skrá dánarorsökum hér á landi þar sem beitt er alþjóðlegum flokkunarkerfum til að kóða þau með samræmdum hætti. Skráin nýtist til þess að fylgjast með tíðni dánarmeina, til vöktunar á þróun þeirra hér á landi og með samanburði við önnur lönd.
Innihald: Skráð dánarmein, rafrænt frá og með árinu 1971.
Tímabil: Rafræn skráning dánarmeina hófst 1971.
Uppruni gagna: Frumrit dánarvottorða berast reglulega frá Þjóðskrá Íslands.
Skráningaratriði: Skráð eru persónuauðkenni, dánarmein o.fl. samkvæmt eyðublaði landlæknis fyrir dánarvottorð. Allar dánarorsakir og meðvirkandi sjúkdómsástand fyrir andlát hefur verið kóðað eftir alþjóðlegu flokkunarkerfi sjúkdóma og dánarmeina, nú ICD-10, frá gildistöku þess árið 1996.
Breytulisti: Dánarmeinaskrá - breytulisti
Sambærileg eða skyld gagnasöfn: Sambærilegar skrár eru haldnar í öllum löndum og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin safnar gögnum á heimsvísu um dánarorsakir.
Úrvinnsla og birting: Tölur um dánarorsakir eru birtar á vef landlæknis og sendar í alþjóðagrunna. Auk upplýsinga um dánarorsakir almennt eru tölulegar upplýsingar um tíðni sjálfsvíga og lyfjatengdra andláta aðgengileg í gagnvirkum mælaborðum.
Saga: Sérstakur gagnagrunnur dánarmeina var búinn til hjá embætti landlæknis árið 2012 en í honum eru hýst rafræn gögn frá árinu 1971. Gögn fyrir þann tíma eru til í útgefnum tölfræðiskýrslum Hagstofu Íslands (áður Þjóðskrár), ýmist á vegum eða í samstarfi við landlækni.
Ábyrgðaraðili: Embætti landlæknis
Vinnsluaðili: Embætti landlæknis
Tilgangur: Að fylgjast með ýmsum mælikvörðum sem snerta fæðingar. Að safna saman tölfræði og bera saman við önnur lönd en skráin nýtist einnig við rannsóknir. Fæðingaská tekur þátt í norrænu samstarfi.
Innihald: Tiltekin gögn um allar fæðingar á Íslandi frá og með árinu 1972.
Tímabil: Rafræn skrá frá og með 1981.
Uppruni gagna: Gögn frá öllum fæðingastöðum á landinu eru skráð í fæðingaskrá. Gögn flytjast úr skráningarkerfum heilbrigðisstofnana í fæðingaskrá með rafrænum sendingum.
Skráningaratriði: Ýmis atriði er varða meðgöngu, fæðingu, vandamál í fæðingu, inngrip og fætt barn. Skráð er m.a. fæðingarstaður og stund, meðgöngulengd, fyrri fæðingar, afbrigði fæðingar, meðferð í fæðingu, þyngd og lengd barna og sjúkdómsgreiningar móður og barns.
Breytulisti: Fæðingaskrá - breytulisti
Sambærileg eða skyld gagnasöfn: Sambærilegar skrár eru haldnar á Norðurlöndum.
Úrvinnsla og birting: Fæðingaskráin hefur gefið út ársskýrslu síðan 1995. Tiltekin tölfræði úr fæðingaskrá er birt á vef embættis landlæknis. Tölfræði úr fæðingaskrá er send í alþjóðagagnagrunna.
Saga: Skrá um fæðingar og þætti sem þeim tengjast hefur verið haldin á kvennadeild Landspítalans frá árinu 1972 samkvæmt ákvörðun landlæknis. Fram að þeim tíma hafði landlæknir safnað upplýsingum um allar fæðingar í landinu frá héraðslæknum einu sinni á ári. Á árunum 1970-1971 tók Ísland þátt í könnun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar á skráningu fæðinga. Í framhaldi af þessu starfi ákvað landlæknir í samvinnu við kvennadeild Landspítalans að taka í notkun nýja fæðingatilkynningu á öllu landinu í ársbyrjun 1972. Það var gert til þess að safna ítarlegri upplýsingum en áður og samræma upplýsingaöflun við nágrannalöndin. Á sama tíma var tilhögun fæðingatilkynninga breytt með þeim hætti að í stað þess að héraðslæknar sendu landlækni árlegar upplýsingar um fæðingar þá var eintak af fæðingaskýrslu sent á kvennadeild Landspítala og átti það að gerast viku eftir fæðinguna. Fram til ársins 2021 var skráning og úrvinnsla gagna á vegum deildarinnar og úrvinnsla m.a. send landlækni, sem hefur birt gögn um fæðingar á vefsíðu sinni. Árið 2021 fluttist sú vinnsla yfir til landlæknis sem nú sér um úrvinnslu á gögnum úr fæðingaskrá.
Ábyrgðaraðili: Embætti landlæknis
Vinnsluaðili: Embætti landlæknis og Klappir Grænar Lausnir hf.
Tilgangur: Að miðla upplýsingum um mat á dvalarþörf einstaklinga á milli færni- og heilsumatssnefnda sem framkvæma matið og stofnana sem taka við einstaklingum til dvalar í hjúkrunar- eða dvalarrými. Skránni er einnig ætlað að veita yfirsýn yfir fjölda á biðlistum eftir heilbrigðisumdæmum, aldri, kyni og þjónustuþörf.
Innihald: Félags- og heilsufarsupplýsingar um aldraða sem óska eftir dvöl á öldrunarstofnun frá og með árinu 1992.
Tímabil: Rafræn skrá frá og með 1992.
Uppruni gagna: Færni- og heilsumatssnefndir í hverju heilbrigðisumdæmi, sem gera matið, skrá viðeigandi upplýsingar rafrænt beint í færni- og heilsumatsskrá.
Skráningaratriði: Dagsetning mats, félagslegar aðstæður, líkamlegt og andlegt atgervi, færni, sjúkómar, stigafjöldi úr mati, flokkun á þörf og óskir um dvalarstað.
Úrvinnsla og birting: Reglubundin úrvinnsla sem nýtt hefur verið til eftirlits með biðlistum og framkvæmd færni- og heilsumats.
Saga: Allar umsóknir um færni- og heilsumat (áður vistunarmat) hafa verið færðar inn í rafræna vistunarmatsskrá frá 1. janúar 1992, nú færni- og heilsumatsskrá. Fyrstu árin var gagnasafnið hýst hjá SKÝRR hf. en frá árinu 2003 sá Stiki ehf. um að hýsa og reka skrána samkvæmt samningi þar um. Stiki sameinaðist Klöppum Grænum Lausnum hf. árið 2019. Ábyrgð á skránni var flutt frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti til embættis landlæknis síðla árs 2006.
Ábyrgðaraðili: Embætti landlæknis
Vinnsluaðili: Embætti landlæknis
Tilgangur: Meginmarkmið rannsóknarinnar Heilsa og líðan á Íslandi er að leggja með reglubundnum hætti mat á heilsu, líðan, velferð og lifnaðarhætti fullorðinna. Auk þess að veita mikilvægar upplýsingar um heilsu og líðan fullorðinna á fimm ára fresti gera niðurstöðurnar kleift að fylgjast með breytingum sem kunna að verða í tímans rás. Niðurstöður rannsóknarinnar nýtast embætti landlæknis, stjórnvöldum, háskólasamfélaginu og öðrum sem koma að mikilvægum ákvörðunum er varða heilsu og velferð landsmanna.
Innihald: Gögn úr spurningalistakönnunum frá árunum 2007, 2009, 2012, 2017 og 2022.
Tímabil: Gagnaskrá með svörum þátttakenda frá árunum 2007, 2009, 2012, 2017 og 2022.
Uppruni gagna: Svarblöð úr spurningalistakönnunum árin 2007, 2009, 2012 og 2017 voru skönnuð inn í gagnagrunn. Hluti þátttakenda svaraði spurningalistanum á netinu (rafrænt) árið 2017 og allir árið 2022.
Skráningaratriði: Margvísleg atriði er varða heilsu, líðan, velferð, lifnaðarhætti og sjúkdóma fólks á Íslandi.
Breytulisti: Heilsa og líðan - breytulisti. Á vef embættis landlæknis má einnig finna yfirlit yfir þær spurningar sem lagðar voru fyrir öll árin.
Úrvinnsla og birting: Embætti landlæknis greinir og birtir helstu niðurstöður rannsóknarinnar eftir kyni, aldri, menntunarstigi og fjárhagsstöðu. Niðurstöður eru einnig notaðar í innra starf embættisins og sem grunnur að stefnumótandi aðgerðum embættisins. Þá hefur embættið árlega út lýðheilsuvísa eftir heilbrigðisumdæmum sem byggja að hluta til á niðurstöðum rannsóknarinnar. Gögn úr rannsókninni Heilsa og líðan á Íslandi eru enn fremur nýtt sem efniviður í lokaverkefni nemenda við háskóla landsins en þau eru flest birt í Skemmunni og jafnvel sem vísindagreinar í ritrýndum tímaritum. Nánar um rannsóknina Heilsa og líðan á Íslandi.
Saga: Seinni hluta árs 2007 stóð Lýðheilsustöð (nú embætti landlæknis) fyrir viðamikilli spurningalistakönnun á heilsu, líðan og velferð Íslendinga á aldrinum 18-79 ára. Spurningalistar voru sendir út til tæplega 10 þúsund manna tilviljunarúrtaks og var svarhlutfall 60,3%. Könnunin var unnin í samstarfi við Landlæknisembættið, Vinnueftirlitið, Krabbameinsfélag Íslands og sérfræðinga frá Kennaraháskóla Íslands, Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og Háskólanum á Akureyri. Af þeim sem svöruðu könnuninni samþykktu flestir að taka þátt í framhaldsrannsókn að 4-6 árum liðnum með það að markmiði að kanna breytingar á heilsu og líðan Íslendinga.
Í ljósi breyttra aðstæðna í íslensku samfélagi, í kjölfar bankahrunsins haustið 2008, var hins vegar ákveðið að fara af stað með framhaldsrannsókn síðla árs 2009, þ.e. fyrr en áætlað var. Í endanlegu úrtaki voru tæplega 5.300 fullorðnir Íslendingar sem höfðu samþykkt þátttöku í framhaldsrannsókn með undirskrift sinni í rannsókninni árið 2007 (svarhlutfall 77,3%).
Embætti landlæknis, ásamt samstarfsaðilum, framkvæmdi rannsóknina í þriðja sinn í október 2012. Þá voru spurningalistar sendir til u.þ.b. 3.700 einstaklinga sem samþykkt höfðu áframhaldandi þátttöku í rannsókninni þremur árum áður. Sami spurningalisti var einnig sendur til nýs 6.500 manna tilviljanaúrtaks íslenskra ríkisborgara á aldrinum 18-79 ára með skráða búsetu á Íslandi (svarhlutfall 67,2%).
Embætti landlæknis stýrði fjórðu umferð gagnaöflunar rannsóknarinnar í október 2017. Rannsóknin var þá lögð fyrir ríflega 6.000 einstaklinga sem samþykktu áframhaldandi þátttöku árið 2012 en að auki var tekið nýtt 4.000 manna tilviljunarúrtak íslenskra ríkisborgara, 18 ára og eldri, sem búsettir voru á Íslandi. Fram til þessa hafði spurningalistinn eingöngu verið lagður fyrir á pappírsformi en með fyrirlögninni 2017 varð sú breyting á að helmingi þátttakenda gafst kostur á að svara spurningalistanum á netinu en hinn helmingurinn svaraði á pappír (svarhlutfall 68,5%).
Árið 2022 var rannsóknin Heilsa og líðan á Íslandi lögð fyrir í fimmta sinn og í þetta sinn var hún einungis lögð fyrir á netinu. Ólíkt fyrri umferðum rannsóknarinnar var erlendum ríkisborgurum, með lögheimili á Íslandi, einnig boðið að taka þátt. Rannsóknin var lögð fyrir 6.246 manns sem höfðu samþykkt áframhaldandi þátttöku árið 2017, nýtt 3.906 manna tilviljunarúrtak íslenskra ríkisborgara 18 ára og eldri með búsetu á Íslandi, sem og 7.198 manna tilviljunarúrtak 18 ára og eldra fólks, búsettu á Íslandi með erlent ríkisfang. Heilt yfir var svarhlutfallið 46,5%. Ítarlegri upplýsingar um framkvæmd rannsóknarinnar má finna í framkvæmdaskýrslum hennar.
Ábyrgðaraðili: Embætti landlæknis
Vinnsluaðili: Hjartavernd
Tilgangur: Að safna í eina skrá upplýsingum um öll skráð tilvik bráðrar kransæðastíflu á Íslandi, ásamt upplýsingum um áhættuþætti og meðferð meðal einstaklinga á aldrinum 25-74 ára. Skránni er ætlað að veita upplýsingar um breytingar á tíðni kransæðasjúkdóma og meta að hve miklu leyti slíkar breytingar tengjast breytingum á þekktum áhættuþáttum, daglegum lifnaðarháttum, heilbrigðisþjónustu og félagslegum aðstæðum.
Innihald: Tiltekin gögn um öll tilvik bráðar kransæðastíflu sem greinst hafa frá 1981 meðal fólks á aldrinum 25-74 ára. Byggt á Monica rannsókninni sem var fjölþjóðleg rannsókn unnin í samvinnu og undir yfirumsjón Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Nánari upplýsingar um Monica-rannsóknina eru á vefsíðu Hjartaverndar.
Tímabil: Rafræn skrá frá og með 1981.
Uppruni gagna: Gögn eru unnin upp úr sjúkraskrám á sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum sem og úr vistunarskrá heilbrigðisstofnana og dánarmeinaskrá sem haldnar eru hjá embætti landlæknis.
Skráningaratriði: Skráð eru m.a. sjúkdómsgreining, einkenni, þróun hjartalínurita, niðurstöður hjartaensímmælinga, segaleysandi meðferð, fyrri tilfelli kransæðastíflu og dánarmein.
Sambærileg eða skyld gagnasöfn: Þátttökulönd í MONICA WHO verkefninu frá 1981-1992.
Úrvinnsla og birting:
Niðurstöður úr MONICA rannsókninni á Íslandi 1981-1992 voru birtar í fylgiriti við Heilbrigðisskýrslur landlæknis nr. 2/1997. Gögn úr hjartaáfallaskrá eru auk þess nýtt til vísindarannsókna á heilbrigðissviði.
Saga: Frá árinu 1981 hefur Rannsóknarstöð Hjartaverndar safnað upplýsingum um tíðni kransæðastíflu meðal Íslendinga á aldrinum 25-74 ára, áhættuþætti þessara sjúkdóma og meðferð. Þetta verkefni var upphaflega hluti af MONICA-rannsókn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og fól landlæknir Hjartavernd þátttöku í þessu verkefni fyrir Íslands hönd á sínum tíma. Um starfrækslu Hjartaáfallaskrár gildir sérstakur samningur milli landlæknis og Hjartaverndar.
Ábyrgðaraðili: Embætti landlæknis
Vinnsluaðili: Krabbameinsfélag Íslands
Tilgangur: Að safna í eina skrá upplýsingum um öll krabbamein sem greinast á Íslandi. Skránni er ætlað að veita upplýsingar um krabbamein sem nauðsynlegar eru til gæðaeftirlits á heilbrigðisstofnunum auk annarra rannsókna, einkum vísindarannsókna með sérstakri áherslu á faraldsfræðilegar rannsóknir.
Innihald: Tiltekin gögn um öll krabbamein sem greinst hafa á Íslandi frá og með árinu 1955.
Tímabil: Rafræn skrá. Gögn frá og með 1955.
Uppruni gagna: Gögnum er safnað frá sjúkrahúsum, sjálfstætt starfandi sérfræðingum, rannsóknarstofum og frá embætti landlæknis.
Skráningaratriði: Skráning í krabbameinsskrá er í samræmi við leiðbeiningar Evrópusamtaka krabbameinsskráa (European Network of Cancer Registries, ENCR) og Alþjóðasamtök krabbameinsskráa (International Association of Cancer Registries, IACR). Skráðar eru upplýsingar um sjúkdómsgreiningu, meinafræði, meðferð og afdrif.
Breytulisti: Krabbameinsskrá - breytulisti
Sambærileg eða skyld gagnasöfn: Krabbameinsskrár á Norðurlöndum.
Úrvinnsla og birting: Margvíslegt talnaefni er birt á vef Krabbameinsskrárinnar. Tölfræði úr Krabbameinsskrá Íslands er send í alþjóðagagnagrunna. Gögn úr krabbameinsskrá eru einnig nýtt til vísindarannsókna á heilbrigðissviði.
Saga: Krabbameinsskrá Íslands var stofnuð 10. maí 1954 og í hana hafa alla tíð síðan verið skráð þau krabbamein sem greinst hafa á Íslandi. Skráin er lýðgrunduð og er ein elsta krabbameinsskrá sem starfrækt er í heiminum og nær til heillar þjóðar. Hún hóf starfsemi um svipað leyti og krabbameinskrár á hinum Norðurlöndunum. Það var í upphafi að tillögu ýmissa framsýnna manna að þáverandi landlæknir Vilmundur Jónsson mun hafa farið þess á leit við Krabbameinsfélag Íslands að það tæki að sér að skrá öll krabbamein sem greindust á landinu í eina miðlæga skrá. Allar götur síðan hefur Krabbameinsfélagið starfrækt Krabbameinsskrá Íslands fyrir hönd ábyrgðaraðila skrárinnar sem er landlæknir. Um starfræksluna gildir sérstakur samningur milli embættis landlæknis og Krabbameinsfélags Íslands.
Ábyrgðaraðili: Embætti landlæknis
Vinnsluaðili: Embætti landlæknis
Tilgangur: Að afla þekkingar um lyfjaávísanir og lyfjanotkun, hafa almennt eftirlit með ávísunum lækna á lyf og fylgjast með þróun lyfjanotkunar. Heimilt er að nota upplýsingar úr gagnagrunninum til vísindarannsókna. Læknar sem koma að meðferð skjólstæðinga hafa aðgang að lyfjaupplýsingum skjólstæðinga sinna og einstaklingar hafa aðgang að eigin lyfjaupplýsingum í lyfjagagnagrunni í gegnum Heilsuvera.is.
Innihald: Lyfjagagnagrunnurinn inniheldur upplýsingar um rafrænar lyfjaávísanir og allar afgreiðslur á lyfjaávísunum, bæði rafrænum ávísunum og ávísunum á pappír. Frá og með árinu 2013 nær gagnagrunnurinn til allra rafrænna lyfjaávísana utan sjúkrahúsa og til afgreiðslu ávísanaskyldra lyfja landsvísu utan sjúkrahúsa. Gagnagrunnurinn inniheldur ekki lyfjagjafir á sjúkrahúsum.
Tímabil: Rafræn skrá með gögnum frá og með 1. janúar 2002. Nú berast um 3.500.000 færslur á ári í lyfjagagnagrunn.
Uppruni gagna: Upplýsingar af rafrænum lyfjaávísunum ásamt öllum afgreiðslum lyfjaávísana úr lyfjabúðum, lyfjaávísanir í skömmtun á hjúkrunarheimilum auk ávísana á pappír sem skráðir eru í upplýsingakerfi lyfjabúða og sendar rafrænt í lyfjagagnagrunn.
Skráningaratriði: Ýmis atriði er varða lyfjaávísun og afgreiðslu lyfs auk upplýsinga um það lyf sem ávísað/afgreitt er. Skráð er m.a. dagsetning afgreiðslu og afgreiðslustaður, ATC flokkur lyfs, ávísað magn, notkunarleiðbeiningar og ábending auk upplýsinga um ávísanda.
Breytulisti: Lyfjagagnagrunnur - breytulisti
Sambærileg eða skyld gagnasöfn: Öll Norðurlöndin starfrækja lyfjagagnagrunna sem innihalda gögn á landsvísu. Þeir hafa verið mismunandi lengri í rekstri og þekjun þeirra er mismunandi.
Úrvinnsla og birting: Á vef landlæknis má finna upplýsingar um lyfjanotkun á Íslandi niður á 4. stig ATC flokkunarkerfisins, bæði um fjölda notenda og afgreitt magn lyfja. Að auki er reglubundin sem og ad hoc úrvinnsla sem nýtt er til lyfjaeftirlits. Reglulega er birt umfjöllun um notkun lyfja í tilteknum lyfjaflokkum í Talnabrunni, fréttabréfi landlæknis um heilbrigðisupplýsingar. Gögn úr lyfjagagnagrunni er mikið nýtt til vísindarannsókna. Slíkar rannsóknir eru háðar samþykki vísindasiðanefndar og skulu tilkynntar til Persónuverndar. Nánar um sögu, uppbyggingu og innihald lyfjagagnagrunns.
Saga: Upphaf lyfjagagnagrunns landlæknis má rekja aftur til ársins 2003 þegar hann var fyrst skilgreindur í lyfjalögum nr. 93/1994, með síðari breytingum. Embætti landlæknis hóf rekstur lyfjagagnagrunns árið 2005 og innihélt grunnurinn þá upplýsingar um öll ávísanaskyld lyf sem afgreidd höfðu verið frá lyfjaverslunum frá upphafi árs 2002. Upplýsingar um afgreidd lyf fluttust rafrænt í Lyfjagagnagrunn í gegnum Tryggingastofnun og síðar Sjúkratryggingar Íslands þar sem þær voru uppfærðar á fjögurra vikna fresti til að byrja með og síðar á tveggja vikna fresti. Breytingar voru gerðar á lyfjalögum árið 2012 sem heimiluðu læknum aðgang að lyfjasögu skjólstæðinga sinna og einstaklingum aðgang að eigin lyfjasögu. Til þess að bregðast við þessu aukna hlutverki lyfjagagnagrunns var byggður upp nýr grunnur sem er uppfærður í rauntíma.
Ábyrgðaraðili: Embætti landlæknis
Vinnsluaðili: Embætti landlæknis
Tilgangur: Að fylgjast með tíðni ófrjósemisaðgerða á Íslandi eftir tímabilum, aldurshópum o.fl. og bera tíðni saman við önnur lönd.
Innihald: Tiltekin gögn um allar ófrjósemisaðgerðir á Íslandi frá 1998-2018 í samræmi við lög nr. 25/1975.
Tímabil: Rafræn skrá frá 1998-2018.
Uppruni gagna: Skráðar eru ákveðnar upplýsingar af umsóknareyðublöðum.
Skráningaratriði: Aldur, sveitarfélag, hjúskaparstaða, forsendur umsóknar, aðgerðarstaður og dagur og tegund aðgerðar.
Breytulisti: Ófrjósemisaðgerðaskrá - breytulisti
Sambærileg eða skyld gagnasöfn: Sambærilegar skrár eru haldnar á Norðurlöndum.
Úrvinnsla og birting: Reglubundin tölfræðileg greining til og með 2018 er birt á vef landlæknis. Í samræmi við lög nr. 25/1975 byggja gögnin á pappírseyðublöðum sem send voru embættinu eftir framkvæmd hverrar aðgerðar. Árið 2019 voru samþykkt ný lög um ófrjósemisaðgerðir. Í þeim er ekki gert ráð fyrir að landlæknir haldi sérstaka skrá um ófrjósemisaðgerðir.
Saga: Rafræn, ópersónugreinanleg skrá um ófrjósemisaðgerðir var haldin hjá embætti landlæknis frá 1998-2018. Með lagabreytingu árið 2019 var hætt að halda skrá um ófrjósemisaðgerðir.
Ábyrgðaraðili: Embætti landlæknis
Vinnsluaðili: Embætti landlæknis og Stiki ehf.
Tilgangur: Að fylgjast með mati á heilsufari og hjúkrunarþörf íbúa á hjúkrunarheimilum. Gagnagrunnurinn hýsir upplýsingar sem safnað er með interRAI matstæki. Um yfirgripsmikið þverfaglegt matstæki er að ræða sem metur hjúkrunarþörf og heilsufar íbúa á hjúkrunarheimilum með áherslu á gæði þjónustunnar sem veitt er.
Innihald: InterRAI mat allra íbúa í hjúkrunarrýmum hjúkrunarheimila á landinu öllu.
Tímabil: Rafræn skráning frá árinu 2003
Uppruni gagna: Hjúkrunarfræðingar og annað heilbrigðisstarfsfólk sem ber ábyrgð á skráningu interRAI mats á hverju heimili safna upplýsingum og skrá rafrænt í til þess gerðan gagnagrunn.
Skráningaratriði: Skráðar eru margvíslegar upplýsingar er varða andlegt og líkamlegt heilsufar íbúa á hjúkrunarheimilum auk ýmissa lýðfræðilegra upplýsinga samkvæmt stöðluðu matstæki interRAI.
Sambærileg eða skyld gagnasöfn: InterRAI HC (skráningarkerfi til notkunar við hjúkrunar- og félagsþjónustu í heimahúsum), InterRAI MH (skráningarkerfi til notkunar við hjúkrun sjúklinga á geðsviði), InterRAI PAC (skráningarkerfi til að meta heilsufar sjúklinga á öldrunardeildum sjúkrahúsa). Þessi gagnasöfn eru notuð bæði hér á landi og erlendis.
Úrvinnsla og birting: Mælaborð með upplýsingum um gæði þjónustu á hjúkrunarheimilum (interRAI gæðavísar) er birt á vef landlæknis. Nýtist það til þess að fylgjast með gæðum hjúkrunar og umönnunar á íslenskum hjúkrunarheimilum.
Saga: Árið 1995 var fyrst sett reglugerð um mat á heilsufari og aðbúnaði íbúa í hjúkrunarrýmum og síðan ný reglugerð árið 2008. Markmiðið með reglugerðinni var að tryggja að þjónusta við aldraða á hjúkrunarheimilumn og öldrunardeildum væri í samræmi við lög um málefni aldraðra nr. 125/1999. Þá var ákveðið að nota skyldi interRAI-mælitækið til að meta hjúkrunarþörf og fylgjast með gæðum þjónustunnar. Fyrstu árin var skráning interRAI-mats einu sinni á ári en síðan skráning varð rafræn árið 2003 hefur verið skráð þrisvar á ári. Gagnagrunnurinn hefur frá upphafi verið hýstur hjá Stika ehf. Ábyrgð á gagnagrunninum var í upphafi á hendi velferðarráðuneytisins en frá og með 1. mars 2012 var embætti landlæknis falin ábyrgð á öllum þáttum sem lúta að þróun og uppbyggingu rafrænnar sjúkraskrár og rafrænna samskipta með heilbrigðisupplýsingar.
Ábyrgðaraðili: Embætti landlæknis
Vinnsluaðili: Embætti landlæknis
Tilgangur: Að fá yfirlit yfir starfsemi heilsugæslustöðva, tilefni samskipta við heilsugæslustöðvar, greiningar á heilsuvanda þeirra sem nýta þjónustu þessara stofnana og þær úrlausnir sem veittar eru. Skráin nýtist til þess að fylgjast með umfangi og notkun þjónustunnar, með tíðni sjúkdóma og úrlausna og til samanburðar milli stofnana og landa.
Innihald: Tiltekin gögn um öll samskipti við allar heilsugæslustöðvar frá og með árinu 2004. Skráin inniheldur upplýsingar um notkun á þjónustu heilsugæslunnar.
Tímabil: Rafræn skrá frá árinu 2004. Fyrst með árlegri innköllun gagna til 2016 en síðan þá hafa gögn frá heilsugæslustöðvum verið send rafrænt í skrána og í rauntíma.
Uppruni gagna: Rafrænum gögnum er safnað í rauntíma frá heilsugæslustöðvum þar sem þau eru skráð í sjúkraskrárkerfi hverrar stöðvar.
Skráningaratriði: Skráð er m.a. sveitarfélag lögheimilis, heilsugæslustöð, dagsetning samskipta, tegund samskipta, tegund starfsmanns, tilefni, sjúkdómsgreiningar og úrlausnir, samkvæmt fyrirmælum landlæknis um lágmarksskráningu samskipta á heilsugæslustöðvum.
Breytulisti: Samskiptaskrá heilsugæslustöðva - breytulisti
Sambærileg eða skyld gagnasöfn: Vistunarskrá heilbrigðisstofnana og samskiptaskrá sjálfstætt starfandi sérfræðinga. Sambærileg skrá er t.d. haldin í Danmörku.
Úrvinnsla og birting: Tölulegar upplýsingar um starfsemi heilsugæslustöðva er birt í gagnvirku mælaborði á vef landlæknis. Tölfræði úr samskiptaskrá heilsugæslustöðva er enn fremur send í alþjóðagrunna. Gögn úr skránni eru notuð til þess að reikna þyngdarstuðul heilsugæslustöðva sem er notaður í fjármögnunarkerfi fyrir heilsugæslu, en það var tekið í notkun árið 2017 á höfuðborgarsvæðinu og 2021 utan höfuðborgarsvæðis. Þyngdarstuðulinn byggir á ACG-flokkunarkerfinu sem metur sjúkdómabyrði einstaklinga, sjá nánar: Útreikningar á þarfavísitölu heilsugæslustöðva og gæðaviðmiðum.
Saga: Sérstakur gagnagrunnur samskiptaskrár var búinn til hjá embætti landlæknis árið 2005 og inniheldur gögn frá árinu 2004. Fram til ársins 2003 safnaði landlæknir tölfræðilegri samantekt frá heilsugæslustöðvum í formi ársskýrslu sem birt var í Heilbrigðisskýrslum. Frá 2016 hafa gögn verið send rafrænt og í rauntíma í samskiptaskrá heilsugæslustöðva.
Ábyrgðaraðili: Embætti landlæknis
Vinnsluaðili: Embætti landlæknis
Tilgangur: Að afla þekkingar um starfsemi sjálfstætt starfandi sérfræðinga, hafa eftirlit með þjónustunni, tryggja gæði hennar og meta árangur. Skráin nýtist meðal annars til þess að fylgjast með umfangi og notkun þjónustunnar, með tíðni sjúkdóma og meðferða.
Innihald: Tiltekin gögn um öll samskipti við þá sjálfstætt starfandi sérfræðinga sem skilað hafa embættinu gögnum frá og með árinu 2008. Hingað til hafa aðeins verið kölluð inn gögn frá sjálfstætt starfandi sérfræðilæknum.
Tímabil: Gögn fyrir tímabilið 2008-2017
Uppruni gagna: Gögn með uppruna í sjúkraskrárkerfum sjálfstætt starfandi sérfræðilæknum.
Skráningaratriði: Skráð er m.a. sveitarfélag lögheimilis, læknanúmer, dagsetning samskipta, tegund samskipta, tegund starfsmanns, tilefni, sjúkdómsgreiningar og úrlausnir, samkvæmt tilmælum landlæknis um lágmarksskráningu samskipta.
Sambærileg eða skyld gagnasöfn: Samskiptaskrá heilsugæslustöðva og vistunarskrá heilbrigðisstofnana. Skrá Sjúkratrygginga Íslands yfir komur til sérgreinalækna.
Úrvinnsla og birting: Tölur um fjölda samskipta og önnur úrvinnsla hefur verið birt í Talnabrunni, rafrænu fréttabréfi embættis landlæknis um heilbrigðisupplýsingar.
Saga: Sérstakur gagnagrunnur samskiptaskrár var búinn til hjá embætti landlæknis árið 2008 og inniheldur gögn frá og með því ári.
Ábyrgðaraðili: Embætti landlæknis
Vinnsluaðili: Embætti landlæknis
Tilgangur: að safna í eina skrá upplýsingum um krabbameinsskimanir á Íslandi. Skránni er ætlað að veita upplýsingar um skimunarsögu einstaklinga og vera til stuðnings við framkvæmd krabbameinsskimana á Íslandi. Gögn skrárinnar nýtast einnig til að fylgjast með mætingu í skimanir, við samanburð milli landa, við gæðauppgjör krabbameinsskimana og til vísindarannsókna.
Innihald: Tiltekin gögn um krabbameinsskimanir og eftirlitsskoðanir vegna leghálsskimana og brjóstaskimana.
Tímabil: Rafræn skrá. Gögn frá og með 1985.
Uppruni gagna: Upplýsingar koma frá þjóðskrá, heilbrigðisstofnunum, rannsóknarstofum og sjálfstætt starfandi læknum.
Skráningaratriði: Skráð er m.a. dagsetning boðs og skimunar, staðsetning skimunar, niðurstaða skimunar, ráðstöfun í kjölfar skimunar, sjúkdómsgreiningar, aðgerðakóðar o.fl.
Sambærileg eða skyld gagnasöfn: Sambærilegar skrár eru haldnar á Norðurlöndum og víða annars staðar.
Úrvinnsla og birting: Embætti landlæknis birtir árlega uppgjör krabbameinsskimana m.t.t. þeirra gæðavísa sem embættið hefur skilgreint. Skimunartölfræði er send árlega til Nordscreen sem heldur samanburð á árangri leghálskrabbameinsskimana á Norðurlöndum.
Saga: Forveri skimunarskrár embættis landlæknis var skimunarskrá Leitarstöðvar Krabbameinsfélags Íslands (LKÍ) sem var starfrækt frá því að skipulögð leghálsskimun hófst árið 1964. Í upphafi var haldið utan um skimunargögn á pappírsformi en skimunarskrá varð rafræn árið 2006. Þá voru eldri skimunargögn flutt inn í rafrænu skrána en þau ná þó ekki að fullu nema til ársins 1985. Starfsemi LKÍ var lögð niður í árslok 2020 og við það fluttist skimunarskrá og ábyrgð hennar til embætti landlæknis.
Ábyrgðaraðili: Embætti landlæknis
Vinnsluaðili: Embætti landlæknis
Tilgangur: Að fá yfirlit yfir öll slys á Íslandi eftir tegund, aldri, kyni, staðsetningu o.fl. Ætluð til forvarnastarfs, við stefnumótun og til vísindarannsókna.
Innihald: Lágmarksupplýsingar um slys, um slasaða einstaklinga og eignatjón í umferðaróhöppum.
Tímabil: Formleg skráning hófst 1. október 2001 en lauk á haustdögum 2022 þegar skráin var lögð niður.
Uppruni gagna: Tilteknum gögnum var varpað úr skráningarkerfum þeirra sem tóku þátt í skránni, þ.e. sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva, lögreglu, Vinnueftirlits og tryggingafélaga. Skráð var rafrænt í skrána í rauntíma og fjölgaði skráningaraðilum frá upphafi skráningar.
Skráningaratriði: Um slysið var skráð: dagsetning, tími, slysaflokkur, sveitarfélag og athugasemd. Um einstaklinginn var skráð: kennitala, kyn og athugasemd. Um ökutæki var skráð: fastanúmer, eignatjón og athugasemd.
Breytulisti: Slysaskrá Íslands - breytulisti
Sambærileg eða skyld gagnasöfn: Öll slys fengu einkvæmt atburðarnúmer sem skráðist einnig í skráningarkerfi þeirra sem sendu gögn í skrána. Við þetta sköpuðust tengsl milli miðlægu skrárinnar, Slysaskrár Íslands, og gagnasafna þeirra sem sendu gögn í skrána.
Úrvinnsla og birting:
Tölfræði um slys var birt á vef embættis landlæknis og nær yfir árin 2005-2019.
Saga: Með lögum nr. 33/1994 um slysavarnaráð var ráðinu gert að samræma skráningu slysa hér á landi. Embætti landlæknis og slysavarnaráð höfðu síðan frumkvæði að þeirri samræmingu með gerð og þróun miðlægrar skrár sem fékk nafnið Slysaskrá Íslands. Formleg skráning hófst í Slysaskrá þann 1. október 2001 en tölur eru gefnar út frá 1. apríl 2002. Árið 2003 var því fyrsta heila skráningarárið sem birt var á vef embættis landlæknis. Skráin var lögð niður haustið 2022.
Ábyrgðaraðili: Sóttvarnalæknir
Vinnsluaðili: Sóttvarnalæknir
Tilgangur: Að safna í eina skrá upplýsingum um alvarlega sjúkdóma sem ógnað geta almannaheill. Þessir sjúkdómar eru: ýmsir smitsjúkdómar og sjúkdómsvaldar, sjúkdómar af völdum eitur- og geislavirkra efna, óvæntir atburðir, ónæmisaðgerðir (bólusetningar) og sýklalyfjanotkun. Þessar upplýsingar eru nauðsynlegar vegna sóttvarna sem skilgreindar eru í sóttvarnalögum nr. 19/1997.
Innihald: Persónugreinanlegar upplýsingar um skilgreinda alvarlega sjúkdóma (tilkynningarskyldir sjúkdómar), sjúkdómsvalda og bólusetningar. Að auki er safnað ópersónugreinanlegum upplýsingum um aðra smitsjúkdóma (skráningarskyldir sjúkdómar) og sýklalyfjanotkun.
Tímabil: Söfnun upplýsinga um smitsjúkdóma (heilbrigðisskýrslur) var á höndum landlæknis frá árinu 1881 en á höndum sóttvarnalæknis á höndum sóttvarnalæknis frá 1. janúar 1998 með tilkomu sóttvarnalaga nr. 19/1997. Upplýsingar um bólusetningar eru aðgengilegar í bólusetningagrunni frá árinu 2002.
Uppruni gagna: Upplýsingar í smitsjúkdómaskrá berast frá heilbrigðisstarfsmönnum og frá rannsóknarstofum.
Skráningaratriði: Tilkynningarskyldir sjúkdómar: Skráð er nafn, kennitala, heimilisfang, greining sjúkdóms/sjúkdómsvald, ábyrgur læknir og ýmsar faraldsfræðilegar upplýsingar um smitleið, smitland o.fl. allt eftir eðli sjúkdóms.
Skráningarskyldir sjúkdómar: Skráð er ICD-10 greining, kyn, aldur, dagsetning greiningar og aðsetur (landsvæði)
Bólusetningar: Skráð er nafn, kennitala, heimilisfang, nafn og innihald bóluefnis, dagsetning bólusetningar, hvar bólusett og ábyrgur læknir.
Sýklalyfjanotkun: Auðkenni sýklalyfs (ATC númer), dagsetning, aldur kyn, aðsetur (landssvæði) og sérgrein ávísandi læknis.
Sambærileg eða skyld gagnasöfn: Sambærilegar skrár eru haldnar í öllum löndum og Sóttvarnastofnun Evrópu (ECDC) safnar sambærilegum frá öllum Evrópulöndum þ.á.m Íslandi. Einungis ópersónugreinanleg gögn eru send erlendi.
Úrvinnsla og birting:
Upplýsingar og tölfræði úr smitsjúkdómaskrá eru gefnar út reglubundið og birtar á vef embættis landlæknis. Einnig eru gögn send til Sóttvarnastofnunar Evrópu og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum.
Ábyrgðaraðili: Embætti landlæknis
Vinnsluaðili: Embætti landlæknis
Tilgangur: Að halda skrá yfir starfsleyfi heilbrigðisstarfsmanna, starfsleyfanúmer og önnur tiltekin atriði um þá einstaklinga sem fengið hafa leyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, síðar heilbrigðisráðuneytis og nú landlæknis, til starfa sem heilbrigðisstarfsmenn á Íslandi.
Innihald: Gögn um alla heilbrigðisstarfsmenn sem fengið hafa leyfi til að starfa innan heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Sérhver heilbrigðisstarfsmaður fær úthlutað einkvæmu auðkennisnúmeri sem helst óbreytt í skránni, jafnvel þó viðkomandi starfi ekki lengur sem heilbrigðisstarfsmaður. Sjá má lista yfir þær heilbrigðisstéttir sem embætti landlæknis heldur skrá yfir á vefsíðu embættisins. Starfsleyfaskrá er uppfærð í rauntíma.
Tímabil: Skrá yfir alla heilbrigðisstarfmenn sem nú hafa starfsleyfi og fengið hafa starfsleyfi frá því útgáfa starfsleyfa hófst hjá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, síðar heilbrigðisráðuneyti og embætti landlæknis.
Uppruni gagna: Gögn frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, síðar heilbrigðisráðuneyti, sem veitti starfsleyfi heilbrigðisstarfsmanna til og með 31. mars 2008. Frá og með 1. apríl 2008 hefur útgáfa starfsleyfa til heilbrigðisstarfsmanna verið á vegum embættis landlæknis og fluttust gögnin þá frá ráðuneytinu til embættisins. Við frumgerð skráar yfir hjúkrunarfræðinga og skráar yfir ljósmæður voru gögn frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti lögð til grundvallar en að auki stuðst við gögn frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga og Ljósmæðrafélagi Íslands.
Skráningaratriði: Einkvæmt númer heilbrigðisstarfsmanns, nafn, kennitala, kyn, starfsstétt, sérfræðileyfi og sérgrein ef við á, gildisdagssetning, útgáfuland starfsleyfis, prófland.
Sambærileg eða skyld gagnasöfn: Rekstraraðilaskrá.
Úrvinnsla og birting: Skrá yfir alla heilbrigðisstarfsmenn með gilt starfsleyfi er aðgengileg á vef embættis landlæknis. Starfsleyfaskráin er uppfærð daglega. Tölfræði úr starfsleyfaskrá er einnig aðgengileg á vef embættisins.
Saga: Í mars 2016 var starfsleyfaskrá tekin í notkun og inniheldur hún upplýsingar um alla heilbrigðisstarfsmenn sem fengið hafa leyfi á Íslandi eftir að skráning hófst. Starfsleyfaskrá varð til við sameiningu fjölda skráa úr ýmsum áttum, sem hver um sig innhélt upplýsingar um tiltekna heilbrigðisstarfsstétt á Íslandi. Snemma árs 2020 var starfsleyfaskrá gerð aðgengileg öllum á vef embættis landlæknis. Opinber birting skrárinnar hafði margvíslegt hagræði í för með sér, einkum fyrir heilbrigðisstofnanir, lyfjaverslanir og aðra sem ráða heilbrigðisstarfsmenn til starfa.
Ábyrgðaraðili: Embætti landlæknis
Vinnsluaðili: Embætti landlæknis
Tilgangur: Að safna í eina skrá kennitölum þeirra einstaklinga sem afturkallað hafa ætlað samþykki sitt fyrir því að lífsýni þeirra séu vistuð í lífsýnasafni til notkunar við vísindarannsóknir sbr. lög nr. 110/2000. Þannig geta ábyrgðaraðilar vísindarannsókna séð til þess að viðkomandi sýni séu ekki notuð í slíkum tilgangi.
Innihald: Gögn um einstaklinga sem lagt hafa bann við því að lífsýni sem tekin eru úr þeim vegna þjónusturannsókna séu nýtt til vísindarannsókna eða vistuð í lífsýnasafni í því skyni.
Tímabil: Skráð hefur verið í grunninn frá árinu 2001.
Uppruni gagna: Úrsagnareyðublöð sem einstaklingar senda inn. Úrsagnir þurfa að berast á pappír og vera undirritaðar af einstaklingnum sjálfum eða forráðamanni.
Skráningaratriði: Nafn, kennitala og lögheimili þeirra einstaklinga sem sent hafa úrsagnarbeiðni til landlæknis eru vistuð á dulkóðuðu formi í grunninum, ásamt dagsetningu beiðninnar.
Sambærileg eða skyld gagnasöfn: Úrsagnarskrá vegna gagnagrunns á heilbrigðissviði sem haldin var hjá embætti landlæknis fram til ársins 2014 en var lögð niður þegar lög nr. 139/1998 um gagnagrunn á heilbrigðissviði voru felld brott.
Úrvinnsla og birting:
Árlega eru birtar tölur yfir fjölda þeirra sem skráðir eru í úrsagnaskrá lífsýnasafna.
Saga: Lög um lífsýnasöfn, nr. 110/2000, kveða á um að einstaklingur, sem úr hefur verið tekið lífsýni til þjónusturannsókna, geti hvenær sem er afturkallað ætlað samþykki sitt fyrir því að sýni úr honum verði vistað í lífsýnasafni til notkunar við vísindarannsóknir. Skal slík ósk vera tilkynnt landlækni og á hann samkvæmt lögunum á að halda úrsagnaskrá. Úrsagnargrunnur vegna lífsýnasafna var settur á stofn árið 2001.
Ábyrgðaraðili: Embætti landlæknis
Vinnsluaðili: Embætti landlæknis
Tilgangur: Að fá yfirlit yfir starfsemi heilbrigðisstofnana, heilsuvanda þeirra sem nýta þjónustu þessara stofnana og þær úrlausnir sem veittar eru. Skráin nýtist til þess að fylgjast með umfangi og notkun þjónustunnar, með tíðni tiltekinna sjúkdóma og úrlausna og til samanburðar milli stofnana og landa.
Innihald: Skilgreind gögn um allar legur á íslenskum heilbrigðisstofnunum frá og með árinu 1999. Gögn um starfsemi ferlideilda, þ.e. dagdeilda, göngudeilda og bráðamótttöku frá árinu 2010.
Tímabil: Rafræn skrá frá árinu 1999. Árleg innköllun gagna til 2010 en frá 2011 hafa gögn frá sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum borist rafrænt og í rauntíma. Færslur frá legudeildum eru ríflega 40.000 á ári.
Uppruni gagna: Gögnum er safnað í rauntíma frá sjúkrahúsum og heilbrigðistofnunum þar sem þau eru skráð í rafræn sjúkraskrárkerfi.
Skráningaratriði: Skráð er m.a. auðkenni sjúkrastofnunar, tímabil legu á legudeild og dagsetning komu á ferlideild, sjúkdómsgreiningar, skurðaðgerðir, o.fl. samkvæmt fyrirmælum landlæknis um lágmarksskráningu vistunarupplýsinga.
Breytulisti: Vistunarskrá heilbrigðisstofnana - breytulisti
Sambærileg eða skyld gagnasöfn: Samskiptaskrá heilgæslustöðva og samskiptaskrá sjálfstætt starfandi sérfræðinga. Sambærilegar skrár eru haldnar á Norðurlöndum.
Úrvinnsla og birting:
Töflur um legur og legudaga, sjúkdóma og aðgerðir eru birtar á vef landlæknis auk þess sem tölfræði úr vistunarskrá heilbrigðisstofnana er send í alþjóðagagnagrunna. Gögn úr vistunarskrá heilbrigðisstofnana eru einnig nýtt til vísindarannsókna á heilbrigðissviði.
Saga: Sérstakur gagnagrunnur vistunarupplýsinga var búinn til hjá embætti landlæknis árið 2003 en í honum eru hýst gögn aftur til ársins 1999. Fram til ársins 1998 önnuðust þáverandi Ríkisspítalar innslátt af pappírsgögnum frá öllum sjúkrahúsum.
Ábyrgðaraðili: Embætti landlæknis
Vinnsluaðili: Embætti landlæknis
Tilgangur: Að fylgjast með tíðni þungunarrofa á Íslandi eftir tímabilum, aldurshópum o.fl. og bera tíðni saman við önnur lönd. Upplýsingar úr skránni eru leiðbeinandi í forvarnarstarfi.
Innihald: Tiltekin gögn um öll þungunarrof á Íslandi frá og með 1984.
Tímabil: Rafræn skrá frá og með 1984.
Uppruni gagna: Fram til ársins 2018, og í samræmi við lög nr. 25/1975, voru tilteknar upplýsingar skráðar af umsóknareyðublöðum sem send voru embættinu eftir framkvæmd hverrar aðgerðar. Frá og með 2020 og í kjölfar nýrra laga nr. 43/2019 um þungunarrof, hefur þungunarrofsskrá landlæknis byggt á sjúkdómsgreiningum (ICD-10) og aðgerðakóðum (NCSP) er varða umrætt inngrip og skráð eru í sjúkraskrárkerfi heilbrigðisstofnana. Gögnin berast rafrænt til embættis landlæknis.
Skráningaratriði: Fram til ársins 2018 voru skráningaratriði eftirfarandi: Aldur, sveitarfélag, staða á vinnumarkaði, hjúskaparstaða, getnaðarvarnir, ástæður fyrir þungunarrofi, meðgöngulengd, aðgerðarstaður, dagsetning og tegund aðgerðar. Frá og með 2020 eru skráningaratriði: Aldur, sveitarfélag, aðgerðarstaður, dagsetning, tegund aðgerðar og meðgöngulengd.
Breytulisti: Þungunarrofsskrá - breytulisti
Sambærileg eða skyld gagnasöfn: Sambærilegar skrár eru haldnar á Norðurlöndum.
Úrvinnsla og birting:
Reglubundin úrvinnsla er birt á vef landlæknis. Tölfræði til ársins 2018 byggir á lögum nr. 25/1975 og pappírseyðublöðum sem send voru embættinu eftir framkvæmd hverrar aðgerðar. Árið 2019 voru samþykkt ný lög um þungunarrof. Í þeim kemur m.a. fram að áfram er gert ráð fyrir að landlæknir haldi ópersónugreinanlega skrá yfir þungunarrof. Við gildistöku nýju laganna voru pappírseyðublöðin hins vegar afnumin. Í stað pappírseyðublaðanna byggir hin nýja þungunarrofsskrá landlæknis því á skráðum sjúkdómsgreiningum og aðgerðakóðum í sjúkraskrárkerfum heilbrigðisstofnanna. Þau gögn berast rafrænt og í rauntíma til embættisins. Gögn þungunarrofsskrár frá árinu 2020 eru ekki jafn tæmandi og eldri gögn. Þá eru tölur um þungunarrof fyrir og eftir árið 2019 ekki samanburðarhæfar.
Saga: Skrá um þungunarrof hefur verið haldin hjá embætti landlæknis frá 1984. Árið 2002 var gerður nýr gagnagrunnur til skráningar og ákveðið að skrá ekki lengur kennitölur einstaklinga í grunninn. Þegar eldri gögn voru flutt í nýju skrána var kennitölum eytt. Ný þungunarrofsskrá embættis landlæknis, sem gerð var í kjölfar lagabreytingar árið 2019 inniheldur ekki persónuauðkenni.
Þjónustuaðili
Embætti landlæknis