Fyrstu tilmæli landlæknis um lágmarksskráningu vistunarupplýsinga á sjúkrahúsum tóku gildi árið 1999. Var þá í fyrsta sinn gefin út heildstæð handbók þar sem skráningaratriði og hugtök voru skilgreind. Í tilmælunum var gerður skýr greinarmunur á þeirri starfsemi sem tekur til vistunar sólarhringssjúklinga annars vegar og ferlisjúklinga hinsvegar. Var það gert með því að flokka sjúklinga í stað þess að flokka deildir eins og áður hafði verið gert. Þá var gert ráð fyrir skráningu þjónustuflokks fyrir hvern sjúkling til enn frekari flokkunar.
Ný fyrirmæli landlæknis um lágmarksskráningu vistunarupplýsinga voru gefin út á vef embættisins í ársbyrjun 2011. Samtímis féll úr gildi 3. útgáfa tilmæla landlæknis um lágmarksskráningu frá árinu 2001. Með vísan í lög nr. 41/2007 um landlækni staðfesti velferðarráðherra þann 8. febrúar 2011 fyrirmæli landlæknis um lágmarksskráningu vistunarupplýsinga á sjúkrahúsum, sbr. auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 25. febrúar 2011.