Ábyrgðaraðili: Embætti landlæknis
Vinnsluaðili: Embætti landlæknis
Tilgangur: Meginmarkmið rannsóknarinnar Heilsa og líðan á Íslandi er að leggja með reglubundnum hætti mat á heilsu, líðan, velferð og lifnaðarhætti fullorðinna. Auk þess að veita mikilvægar upplýsingar um heilsu og líðan fullorðinna á fimm ára fresti gera niðurstöðurnar kleift að fylgjast með breytingum sem kunna að verða í tímans rás. Niðurstöður rannsóknarinnar nýtast embætti landlæknis, stjórnvöldum, háskólasamfélaginu og öðrum sem koma að mikilvægum ákvörðunum er varða heilsu og velferð landsmanna.
Innihald: Gögn úr spurningalistakönnunum frá árunum 2007, 2009, 2012, 2017 og 2022.
Tímabil: Gagnaskrá með svörum þátttakenda frá árunum 2007, 2009, 2012, 2017 og 2022.
Uppruni gagna: Svarblöð úr spurningalistakönnunum árin 2007, 2009, 2012 og 2017 voru skönnuð inn í gagnagrunn. Hluti þátttakenda svaraði spurningalistanum á netinu (rafrænt) árið 2017 og allir árið 2022.
Skráningaratriði: Margvísleg atriði er varða heilsu, líðan, velferð, lifnaðarhætti og sjúkdóma fólks á Íslandi.
Breytulisti: Heilsa og líðan - breytulisti. Á vef embættis landlæknis má einnig finna yfirlit yfir þær spurningar sem lagðar voru fyrir öll árin.
Úrvinnsla og birting: Embætti landlæknis greinir og birtir helstu niðurstöður rannsóknarinnar eftir kyni, aldri, menntunarstigi og fjárhagsstöðu. Niðurstöður eru einnig notaðar í innra starf embættisins og sem grunnur að stefnumótandi aðgerðum embættisins. Þá hefur embættið árlega út lýðheilsuvísa eftir heilbrigðisumdæmum sem byggja að hluta til á niðurstöðum rannsóknarinnar. Gögn úr rannsókninni Heilsa og líðan á Íslandi eru enn fremur nýtt sem efniviður í lokaverkefni nemenda við háskóla landsins en þau eru flest birt í Skemmunni og jafnvel sem vísindagreinar í ritrýndum tímaritum. Nánar um rannsóknina Heilsa og líðan á Íslandi.
Saga: Seinni hluta árs 2007 stóð Lýðheilsustöð (nú embætti landlæknis) fyrir viðamikilli spurningalistakönnun á heilsu, líðan og velferð Íslendinga á aldrinum 18-79 ára. Spurningalistar voru sendir út til tæplega 10 þúsund manna tilviljunarúrtaks og var svarhlutfall 60,3%. Könnunin var unnin í samstarfi við Landlæknisembættið, Vinnueftirlitið, Krabbameinsfélag Íslands og sérfræðinga frá Kennaraháskóla Íslands, Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og Háskólanum á Akureyri. Af þeim sem svöruðu könnuninni samþykktu flestir að taka þátt í framhaldsrannsókn að 4-6 árum liðnum með það að markmiði að kanna breytingar á heilsu og líðan Íslendinga.
Í ljósi breyttra aðstæðna í íslensku samfélagi, í kjölfar bankahrunsins haustið 2008, var hins vegar ákveðið að fara af stað með framhaldsrannsókn síðla árs 2009, þ.e. fyrr en áætlað var. Í endanlegu úrtaki voru tæplega 5.300 fullorðnir Íslendingar sem höfðu samþykkt þátttöku í framhaldsrannsókn með undirskrift sinni í rannsókninni árið 2007 (svarhlutfall 77,3%).
Embætti landlæknis, ásamt samstarfsaðilum, framkvæmdi rannsóknina í þriðja sinn í október 2012. Þá voru spurningalistar sendir til u.þ.b. 3.700 einstaklinga sem samþykkt höfðu áframhaldandi þátttöku í rannsókninni þremur árum áður. Sami spurningalisti var einnig sendur til nýs 6.500 manna tilviljanaúrtaks íslenskra ríkisborgara á aldrinum 18-79 ára með skráða búsetu á Íslandi (svarhlutfall 67,2%).
Embætti landlæknis stýrði fjórðu umferð gagnaöflunar rannsóknarinnar í október 2017. Rannsóknin var þá lögð fyrir ríflega 6.000 einstaklinga sem samþykktu áframhaldandi þátttöku árið 2012 en að auki var tekið nýtt 4.000 manna tilviljunarúrtak íslenskra ríkisborgara, 18 ára og eldri, sem búsettir voru á Íslandi. Fram til þessa hafði spurningalistinn eingöngu verið lagður fyrir á pappírsformi en með fyrirlögninni 2017 varð sú breyting á að helmingi þátttakenda gafst kostur á að svara spurningalistanum á netinu en hinn helmingurinn svaraði á pappír (svarhlutfall 68,5%).
Árið 2022 var rannsóknin Heilsa og líðan á Íslandi lögð fyrir í fimmta sinn og í þetta sinn var hún einungis lögð fyrir á netinu. Ólíkt fyrri umferðum rannsóknarinnar var erlendum ríkisborgurum, með lögheimili á Íslandi, einnig boðið að taka þátt. Rannsóknin var lögð fyrir 6.246 manns sem höfðu samþykkt áframhaldandi þátttöku árið 2017, nýtt 3.906 manna tilviljunarúrtak íslenskra ríkisborgara 18 ára og eldri með búsetu á Íslandi, sem og 7.198 manna tilviljunarúrtak 18 ára og eldra fólks, búsettu á Íslandi með erlent ríkisfang. Heilt yfir var svarhlutfallið 46,5%. Ítarlegri upplýsingar um framkvæmd rannsóknarinnar má finna í framkvæmdaskýrslum hennar.