Gagnasöfn embættis landlæknis
Gagnaöryggi
Embætti landlæknis leggur áherslu á mikilvægi upplýsingaverndar og örugga meðferð upplýsingaeigna í heilbrigðiskerfinu. Gögn sem skráð eru og geymd innan heilbrigðiskerfisins eru í senn viðkvæm og verðmæt.
Mikilvægt er að allt starfsfólk heilbrigðiskerfisins gæti trúnaðar og að gögn, í hvers konar formi, séu vernduð með viðeigandi hætti. Fagleg vinnubrögð eru lykillinn að árangri og er mikilvægt að fullvissa starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar, notendur þjónustunnar og landsmenn alla um heilindi og rétt vinnubrögð í rekstri stofnana og stofa.
Mikil aukning hefur orðið á rafrænni skráningu heilbrigðisgagna á síðustu árum og áratugum. Við skipulag og uppbyggingu upplýsingakerfa þeirra sem veita heilbrigðisþjónustu er grundvallaratriði að upplýsingaöryggi sé tryggt. Tryggja þarf að gögn séu rétt og að þau séu aðgengileg eingöngu þeim sem aðgangsrétt hafa þegar þörf er á.
Lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga tóku gildi árið 2018. Markmið laganna er einkum að stuðla að því að meðferð persónuupplýsinga sé í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs og að áreiðanleiki og gæði slíkra upplýsinga séu tryggð. Samkvæmt lögunum ber ábyrgðaraðila að tryggja öryggi við alla vinnslu persónuupplýsinga. Persónuvernd hefur m.a. sett reglur um þessi atriði sem finna má á vef stofnunarinnar.
Persónugreinanleg gögn á ábyrgð landlæknis og sóttvarnalæknis eru varðveitt og unnin í samræmi við upplýsingaöryggisstefnu embættisins.
Leiðbeiningar
Þjónustuaðili
Embætti landlæknis