Ábyrgðaraðili: Embætti landlæknis
Vinnsluaðili: Embætti landlæknis
Tilgangur: að safna í eina skrá upplýsingum um krabbameinsskimanir á Íslandi. Skránni er ætlað að veita upplýsingar um skimunarsögu einstaklinga og vera til stuðnings við framkvæmd krabbameinsskimana á Íslandi. Gögn skrárinnar nýtast einnig til að fylgjast með mætingu í skimanir, við samanburð milli landa, við gæðauppgjör krabbameinsskimana og til vísindarannsókna.
Innihald: Tiltekin gögn um krabbameinsskimanir og eftirlitsskoðanir vegna leghálsskimana og brjóstaskimana.
Tímabil: Rafræn skrá. Gögn frá og með 1985.
Uppruni gagna: Upplýsingar koma frá þjóðskrá, heilbrigðisstofnunum, rannsóknarstofum og sjálfstætt starfandi læknum.
Skráningaratriði: Skráð er m.a. dagsetning boðs og skimunar, staðsetning skimunar, niðurstaða skimunar, ráðstöfun í kjölfar skimunar, sjúkdómsgreiningar, aðgerðakóðar o.fl.
Sambærileg eða skyld gagnasöfn: Sambærilegar skrár eru haldnar á Norðurlöndum og víða annars staðar.
Úrvinnsla og birting: Embætti landlæknis birtir árlega uppgjör krabbameinsskimana m.t.t. þeirra gæðavísa sem embættið hefur skilgreint. Skimunartölfræði er send árlega til Nordscreen sem heldur samanburð á árangri leghálskrabbameinsskimana á Norðurlöndum.
Saga: Forveri skimunarskrár embættis landlæknis var skimunarskrá Leitarstöðvar Krabbameinsfélags Íslands (LKÍ) sem var starfrækt frá því að skipulögð leghálsskimun hófst árið 1964. Í upphafi var haldið utan um skimunargögn á pappírsformi en skimunarskrá varð rafræn árið 2006. Þá voru eldri skimunargögn flutt inn í rafrænu skrána en þau ná þó ekki að fullu nema til ársins 1985. Starfsemi LKÍ var lögð niður í árslok 2020 og við það fluttist skimunarskrá og ábyrgð hennar til embætti landlæknis.