Öllum konum á aldrinum 40-74 ára er boðið í skimun fyrir brjóstakrabbameini
Skimun fyrir brjóstakrabbameini er árangursrík leið til að lækka dánartíðni sjúkdómsins. Með því að greina hann snemma aukast líkur á því að sjúkdómurinn sé staðbundinn og hafi ekki náð að dreifa sér um líkamann.
Aldurshópurinn 40-69 ára fær boð í skimun á 2 ára fresti
Aldurshópurinn 70-74 ára fær boð í skimun á 3 ára fresti
Einkennalausar konur 40 til 74 ára geta pantað tíma í skimun fyrir brjóstakrabbameini.
Tímapantanir hjá Brjóstamiðstöð Landspítala í síma 543 9560 milli kl. 8:30 og 12:00 og 13:00-15:30 alla virka daga. Einnig er hægt að bóka tíma með því að senda kennitölu á brjostaskimun@landspitali.is
Almenn brjóstaskimun er fyrir konur, sem ekki eru með einkenni frá brjóstum.
Skimun fyrir brjóstakrabbameini er gerð með röntgenmyndum af báðum brjóstum í tveimur plönum. Geislafræðingar sjá um að framkvæma rannsóknina en röntgenlæknar lesa úr myndunum. Ef breytingar sjást á myndum, er konan kölluð inn í nánari skoðun.
Ekki er mælt með brjóstaskimun hjá einkennalausum konum á meðgöngu og ekki fyrr en þremur mánuðum eftir að brjóstagjöf lýkur.
Konur með púða í brjóstum geta farið í almenna skimun.
Finni kona fyrir einkennum frá brjóstum t.d. hnút eða fyrirferð í brjósti, inndreginni húð eða geirvörtu, blóðugri eða glærri útferð úr geirvörtu, verkjum eða eymslum í brjóstum, er henni ráðlagt að leita til læknis sem þá sendir tilvísun í frekari skoðun. Ef kona hefur áhyggjur og óskar eftir rannsókn á brjóstum fyrir skilgreindan skimunaraldur þá er það mat læknis hvort ástæða sé til rannsókna.
Ef grunur leikur á að um krabbamein sé að ræða að skimun lokinni færðu boð um frekari skoðun (sérskoðun á brjóstum) innan 14 daga.
Læknir framkvæmir slíka skoðun með þreyfingu á brjósti, teknar eru nýjar röntgenmyndir, gerð ómskoðun og tekið vefjasýni ef þörf er á.
Ef þú afþakkar sérskoðun á brjóstum færðu samt sem áður boð í nýja brjóstaskimun eftir 2 ár.
Engin merki eru um krabbamein: Ekkert óeðlilegt kom í ljós í brjóstum þínum. Þú færð aftur boð í skimun eftir 2 ár.
Þú ert með krabbamein: Ef brjóstakrabbamein kemur í ljós verður þér vísað á lækna Landspítalans til frekari meðferðar.
Konur með stökkbreytingu á BRCA1 og BRCA2 genum eru í aukinni áhættu á að fá brjóstakrabbamein. Konur með þessar stökkbreytingar eru að meðaltali mun yngri við greiningu en aðrar konur sem greinast með brjóstakrabbamein. Þessar konur byrja fyrr í eftirliti og fara í myndrannsókn á 6 mánaða fresti á vegum lækna Landspítalans. Þær eiga ekki að vera í almennu skimunaráætluninni. Einungis 5-10% af öllu brjóstakrabbameini má rekja til erfða.
Rannsóknir við að skilgreina ávinning skimunar vegna sterkrar ættarsögu brjóstakrabbameins eða vegna aukins þéttleika brjóstvefs kvenna á aldrinum 40-49 ára eru í vinnslu.
Konur sem hafa farið í fyrirbyggjandi brjóstnám á báðum brjóstum fá ekki boð í skimun, þar sem búið er að fjarlægja allan brjóstvef.
Konur sem hafa fengið brjóstakrabbamein eru undir eftirliti krabbameinslæknis/skurðlæknis í 5 ár eftir meðferð, samkvæmt verklagi Landspítala.
Eftir þann tíma fara þær aftur inn í almenna skimunaráætlun.
Konur sem ekki hafa náð skimunaraldri 5 árum eftir krabbameinsmeðferð, eru áfram í árlegu eftirliti/brjóstamynd, þar til þær hafa náð skimunaraldri.
Konur sem fengið hafa brjóstakrabbamein fá boð um skimun til 79 ára aldurs.