Ef þér er veitt viðbótarvernd á Íslandi færðu dvalarleyfi sem gildir í tvö ár.
Viðbótarvernd er veitt þeim sem eiga á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri meðferð eða að verða fyrir alvarlegum skaða vegna vopnaðra átaka í heimalandi.
Dvalarleyfi á grundvelli viðbótarverndar fylgja eftirtalin réttindi.
Aðeins er heimilt að endurnýja dvalarleyfi á grundvelli viðbótarverndar ef skilyrðum viðbótarverndar er enn fullnægt. Þetta þýðir að við afgreiðslu umsóknar um endurnýjun verður Útlendingastofnun að leggja nýtt mat á almennar aðstæður í heimaríki þínu og meta hvort þú uppfyllir ennþá skilyrði viðbótarverndar.
Ef skilyrði viðbótarverndar eru áfram uppfyllt verður leyfi þitt endurnýjað. Sé það mat stofnunarinnar að skilyrðin séu ekki lengur uppfyllt, færð þú boð í viðtal þar sem þér verður leiðbeint um möguleika þína til að sækja um dvalarleyfi á öðrum grundvelli. Uppfyllir þú skilyrði þess leyfis sem þú sækir um, færð þú heimild til að dvelja áfram á Íslandi. Ef þú sækir ekki um annað dvalarleyfi, eða uppfyllir ekki skilyrði þess leyfis sem þú sækir um, færð þú boð í viðtal vegna hugsanlegrar afturköllunar á vernd þinni.
Afturköllun viðbótarverndar þinnar hefur áhrif á heimildir aðstandenda þinna til dvalar á Íslandi, ef þeir eru með dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar við þig.
Þú getur kært ákvörðun um afturköllun viðbótarverndar til kærunefndar útlendingamála.
Réttur til fjölskyldusameiningar
Dvalarleyfi á grundvelli viðbótarverndar veitir ekki rétt til fjölskyldusameiningar fyrr en eftir að það hefur verið endurnýjað einu sinni.
Undanþágur frá skilyrði um endurnýjun
Ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því, vegna aðkallandi umönnunarsjónarmiða, má veita undanþágu frá skilyrðinu um að dvalarleyfi þitt hafi verið endurnýjað áður en aðstandandi þinn sækir um fjölskyldusameiningu við þig.
Aðkallandi umönnunarsjónarmið geta átt við ef þú, sem rétturinn til fjölskyldusameiningar byggir á:
varst umönnunaraðili maka þíns áður en þú yfirgafst heimaríki þitt eða
þú átt barn í heimaríki sem er í bráðri hættu, sem er þar án forsjáraðila eða á við alvarleg veikindi að stríða.
Með umsókn skal leggja fram gögn til staðfestingar á því að aðkallandi umönnunarsjónarmið séu til staðar. Ef umsókn byggist á veikindum umsækjanda, dugar ekki að leggja fram læknisvottorð heldur verður einnig að liggja fyrir að umsækjanda standi ekki til boða heilbrigðisþjónusta í heimaríki. Það er ekki nóg að þjónustan í heimaríki sé lakari eða kosti peninga.
Við mat á því hvort aðstæður teljist aðkallandi er litið til þess hve lengi þú, sem rétturinn til fjölskyldusameiningar byggir á, hefur verið aðskilinn frá umsækjanda og hvort umsækjandi hafi haft annan umönnunaraðila á meðan.
Veita má undanþágu frá skilyrðinu um að dvalarleyfi þitt hafi verið endurnýjað áður en sótt er um fjölskyldusameiningu við þig, ef þú hefur haft dvalarleyfi í eitt ár og uppfyllir eftirfarandi skilyrði:
Þú, sem umsókn um fjölskyldusameiningu byggir á, þarft að hafa verið á vinnumarkaði í að lágmarki átta mánuði og vera virk/virkur á þeim tíma sem umsókn um fjölskyldusameiningu við þig er lögð fram.
Með virkni á vinnumarkaði er átt við að þú hafir verið í ráðningarsambandi sem launþegi eða sjálfstætt starfandi. Heimilt er að horfa til uppsafnaðra starfstímabila á gildistíma dvalarleyfis þíns að öðrum skilyrðum uppfylltum.
Til að sýna fram á virkni á vinnumarkaði getur þú lagt fram afrit af gildum ráðningarsamningi, afrit launaseðla og staðfestingar á greiðslum reiknaðs endurgjalds frá Skattinum.
Þú verður að sýna fram á að framfærsla þín sé trygg. Trygg framfærsla þýðir að hafa næg fjárráð til að geta séð fyrir sér.
Útlendingastofnun er heimilt að afla skattframtala og gagna frá skattayfirvöldum til staðfestingar á tryggri framfærslu.
Upphæð
Útlendingastofnun miðar við að mánaðarleg fjárráð séu að lágmarki:
247.572 krónur fyrir einstaklinga.
396.115 krónur fyrir hjón.
123.786 krónur til viðbótar vegna fjölskyldumeðlims 18 og eldri.
Viðmiðin samsvara grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar Reykjavíkurborgar, sjá reglur um fjárhagsaðstoð. Upphæðir miðast við tekjur fyrir skatt.
Hvað telst ekki trygg framfærsla
Greiðslur í formi félagslegrar aðstoðar ríkis eða sveitarfélags (aðrar en húsnæðisbætur). Hafi umsækjandi þegið slíkan styrk og getur ekki sýnt fram á fullnægjandi framfærslu með öðrum hætti, verður dvalarleyfi synjað.
Meðlagsgreiðslur og barnalífeyrir þar sem þeim er ætlað að standa undir framfærslu barns.
Framfærsla þriðja aðila, í öðrum tilvikum en fram kemur framar í þessari umfjöllun
Eignir aðrar en bankainnstæður (til dæmis fasteignir) og arður af fyrirtækjum, vextir eða aðrar greiðslur sem ekki er tryggt hvort eða hvenær eru lausar til útborgunar
Reiðufé telst ekki fullnægjandi staðfesting á framfærslu.
Þú, sem umsókn um fjölskyldusameiningu byggir á, þarft að hafa sótt námskeið í íslensku fyrir útlendinga hjá fræðsluaðila í að lágmarki samtals 80 klukkustundir. Fræðsluaðilinn skal vera viðurkenndur af Miðstöð menntunar og skólaþjónustu.
Þú þarft að leggja fram vottorð til staðfestingar á þátttöku í slíku námskeiði. Upplýsingar um ástundun þurfa að koma fram á vottorðinu og tímasókn þín skal vera að lágmarki 85%.
Þú, sem umsókn um fjölskyldusameiningu byggir á, þarft að leggja fram gildan leigusamning vegna íbúðarhúsnæðis. Leigusamningurinn skal vera á þínu nafni og tilgreina fasteignarnúmer og íbúðarnúmer húsnæðis eins og það er skráð í fasteignaskrá. Ef samningurinn er tímabundinn skal hann gilda til að minnsta kosti tólf mánaða.
Þú þarft sannanlega að hafa til umráða íbúðarhúsnæði
frá og með þeim tíma sem aðstandendum þínum er veitt dvalarleyfi, að minnsta kosti,
sem rúmar þá aðstandendur sem þar munu verða búsettir og er ekki deilt með öðrum en nánustu aðstandendum þínum.
Ef þú, sem umsókn um fjölskyldusameiningu byggir á, ert eigandi íbúðarhúsnæðisins og býrð sannanlega í því, telst það fullnægjandi, svo lengi sem ekki aðrir en þú og nánustu aðstandendur þínir búi þar.
Ekki er heimilt að framvísa leigusamningi
fyrir húsnæði þar sem ekki er greidd leiga,
fyrir húsnæði sem ekki er skráð sem íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar eða
yrir félagslegt húsnæði á vegum sveitarfélags.
Fjölskyldutengsl fyrir eða eftir veitingu
Ólíkar reglur gilda um fjölskyldusameiningar við aðstandendur eftir því hvort fjölskyldutengsl voru til staðar áður en þú fékkst veitta viðbótarvernd á Íslandi eða urðu til eftir að þú fékkst veitta viðbótarvernd.
Endurnýjað dvalarleyfi á grundvelli viðbótarverndar veitir rétt til fjölskyldusameiningar við:
Þú getur sótt um ótímabundið dvalarleyfi þegar þú hefur verið með dvalarleyfi á grundvelli viðbótarverndar í fjögur ár.
Þú þarft að uppfylla margvísleg skilyrði til að fá ótímabundið leyfi, meðal annars varðandi íslenskukunnáttu.
Annað skilyrði er að þú hafir ekki hafa dvalist lengur en 90 daga erlendis samtals á hverju ári á gildistíma dvalarleyfis, talið frá útgáfudegi leyfis.
Lög
Viðbótarvernd er veitt á grundvelli 2. málsgreinar 37. greinar og 1. málsgreinar 40. greinar laga um útlendinga.
Dvalarleyfi á grundvelli viðbótarverndar er veitt á grundvelli 73. greinar laga um útlendinga.