Fara beint í efnið

Endurnýjun dvalarleyfis fyrir flóttafólk

Endurnýjun dvalarleyfis fyrir flóttafólk

Sótt er um endurnýjun dvalarleyfis fyrir flóttafólk með stafrænni umsókn á netinu. Nauðsynlegt er að vera með rafræn skilríki til að fylla út umsóknina, sjá upplýsingar um afgreiðslustaði rafrænna skilríkja.

Athugið að umsóknin er ekki fyrir þá sem hafa fengið mannúðarleyfi á Íslandi vegna fjöldaflótta frá Úkraínu, sjá upplýsingar um framlengingu slíkra leyfa.

Ekki þarf að klára umsóknina í einni lotu, hægt er að gera hlé á útfyllingu og halda áfram þegar hentar innan næstu 60 daga.

Kostnaður

Gjald fyrir umsókn um endurnýjun dvalarleyfis er 16.000 krónur

Þú þarft að greiða fyrir umsóknina í síðasta skrefi stafræna umsóknarferlisins til þess að geta sent inn umsóknina. Ekki greiða fyrir stafræna umsókn með millifærslu.

Afgreiðslugjald er ekki endurgreitt þótt umsækjandi hætti við umsókn.

Umsóknarferli

Þú þarft að sækja um endurnýjun dvalarleyfis fyrir flóttafólk innan gildistíma núverandi leyfis. Vinsamlegast ekki senda inn umsókn um endurnýjun þegar meira en tveir mánuðir eru eftir af gildistíma núverandi leyfis.

Skilyrði áframhaldandi viðbótarverndar

Aðeins er heimilt að endurnýja dvalarleyfi á grundvelli viðbótarverndar ef skilyrðum viðbótarverndar er enn fullnægt.

Þetta þýðir að við afgreiðslu umsóknar um endurnýjun verður Útlendingastofnun að leggja nýtt mat á almennar aðstæður í heimaríki þínu og meta hvort þú uppfyllir ennþá skilyrði viðbótarverndar.

Ef skilyrði viðbótarverndar eru áfram uppfyllt verður leyfið þitt endurnýjað. Sé það mat stofnunarinnar að skilyrðin séu ekki lengur uppfyllt, verður viðbótarvernd þín afturkölluð og umsókn um endurnýjun dvalarleyfis á grundvelli viðbótarverndar synjað.

Afturköllun viðbótarverndar þinnar hefur áhrif á heimildir aðstandenda þinna til dvalar á Íslandi, ef þeir eru með dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar við þig.

Þú getur kært ákvörðun um afturköllun viðbótarverndar til kærunefndar útlendingamála.

Umsókn um endurnýjun synjað

Ef umsókn þinni um endurnýjun er synjað, færðu tækifæri til að sækja um dvalarleyfi á Íslandi á öðrum grundvelli. Uppfyllir þú skilyrði þess leyfis sem þú sækir um, færðu heimild til að dvelja áfram á Íslandi.

Ef þú sækir ekki um annað dvalarleyfi, eða uppfyllir ekki skilyrði þess leyfis sem þú sækir um, þarftu að yfirgefa landið. Einstaklingi í slíkri stöðu er alla jafna veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur. Farir þú ekki innan veitts tímafrests er málinu vísað til lögreglu til framkvæmdar og er þér þá alla jafna óheimilt að koma inn á Schengen-svæðið næstu tvö árin.

Umsókn um endurnýjun samþykkt

Ef umsókn um endurnýjun er samþykkt, þarftu að mæta í myndatöku fyrir nýtt dvalarleyfiskort annhvort í afgreiðslu Útlendingastofnunar eða til sýslumanna utan höfuðborgarsvæðis. Mundu eftir vegabréfinu þínu til að sanna hver þú ert.

Framleiðsla dvalarleyfiskorts tekur að jafnaði um 10 daga. Þú færð sent sms þegar kortið er tilbúið til afhendingar í afgreiðslu Útlendingastofnunar að Dalvegi 18. Ef þú vilt heldur sækja kortið á skrifstofu sýslumannsembættis utan höfuðborgarsvæðisins skaltu taka það fram þegar þú mætir í myndatöku.

Endurnýjun dvalarleyfis fyrir flóttafólk

Þjónustuaðili

Útlend­inga­stofnun