Fara beint í efnið

Endurnýjun dvalarleyfis

Endurnýja dvalarleyfi

Sótt er um endurnýjun dvalarleyfis með stafrænum hætti á netinu. Greiða verður fyrir umsóknina í síðasta skrefi umsóknarferilsins til þess að geta sent hana inn.

Nauðsynlegt er að vera með rafræn skilríki til að fylla út umsóknina, sjá upplýsingar um afgreiðslustaði rafrænna skilríkja.

Athugið að aðeins er hægt að nota þessa umsókn við endurnýjun núverandi leyfis. Ekki er hægt að nota þessa umsókn ef sótt er um dvalarleyfi á öðrum grundvelli, til dæmis ef handhafi námsmannaleyfis vill sækja um dvalarleyfi á grundvelli atvinnu.

Þessi umsókn er ekki fyrir þá sem hafa fengið mannúðarleyfi á Íslandi vegna fjöldaflótta frá Úkraínu, sjá nánar um dvalarleyfi vegna fjöldaflótta frá Úkraínu.

Kostnaður

Gjald fyrir umsókn um endurnýjun dvalarleyfis er 16.000 krónur

Þú þarft að greiða fyrir umsóknina í síðasta skrefi stafræna umsóknarferlisins til þess að geta sent inn umsóknina. Ekki greiða fyrir stafræna umsókn með millifærslu.

Afgreiðslugjald er ekki endurgreitt þótt umsækjandi hætti við umsókn.

Umsóknarferli

Þú þarft að sækja um endurnýjun dvalarleyfis innan gildistíma núverandi leyfis. Vinsamlegast ekki senda inn umsókn um endurnýjun þegar meira en tveir mánuðir eru eftir af gildistíma núverandi leyfis.

Ef þú sækir um endurnýjun dvalarleyfis eftir að gildistími fyrra leyfis er útrunninn, verður farið með umsóknina eins og um fyrsta dvalarleyfi þitt sé að ræða.

Afgreiðslutími

Afgreiðslutími endurnýjunar er að hámarki 90 dagar frá því að fullnægjandi gögn hafa borist, nema um flóknari umsóknir sé að ræða sem þarfnast frekari vinnslu. Ef þú sendir fullnægjandi fylgigögn með umsókn tekur vinnsla umsóknar almennt styttri tíma.

Endurnýjun samþykkt

Ef þú uppfyllir áfram skilyrði dvalarleyfis er það endurnýjað. Eftir að þú færð svar þarftu að mæta í myndatöku í afgreiðslu Útlendingastofnunar, þar er nauðsynlegt að panta tíma, eða til sýslumanna utan höfuðborgarsvæðis. Mundu eftir vegabréfinu þínu til að sanna hver þú ert.

Þegar nýtt dvalarleyfiskort fer í framleiðslu færðu sendan tölvupóst og fimm dögum síðar geturðu sótt kortið á sama stað og þú mættir í myndatöku.

Endurnýjun synjað

Ef þú uppfyllir ekki skilyrði fyrir endurnýjun dvalarleyfis er umsókninni synjað. Það þýðir að þú færð ekki það dvalarleyfi sem þú sækir um. Synjanir umsókna um dvalarleyfi eru skriflegar stjórnvaldsákvarðanir sem má kæra til kærunefndar útlendingamála innan 15 daga frá þeim degi sem þú móttekur synjun. Hér má finna nánari upplýsingar um synjanir og heimild til kæru.

Endurnýja dvalarleyfi

Þjónustuaðili

Útlend­inga­stofnun