Fara beint í efnið

Synjun umsóknar um dvalarleyfi

Ef umsækjandi uppfyllir ekki skilyrði dvalarleyfis fer umsókn til vinnslu hjá lögfræðingum stofnunarinnar sem taka skriflega ákvörðun um synjun. Umsækjanda er tilkynnt um ákvörðunina bréfleiðis með ábyrgðarpósti.

Synjun umsóknar um dvalarleyfi getur haft þær afleiðingar að umsækjandi sem staddur er hér á landi þurfi að yfirgefa landið þar sem hann er í ólögmætri dvöl. Umsækjanda er alltaf veittur frestur til að yfirgefa landið af sjálfsdáðum. Í flestum tilvikum er sá frestur 30 dagar. Yfirgefi umsækjandi ekki landið innan þess frests getur komið til brottvísunar og endurkomubanns.

Ef umsækjandi er ekki staddur hér á landi þegar umsókn um dvalarleyfi er synjað hefur hann ekki öðlast dvalarleyfi og er því ekki heimilt að koma til landsins á þeim forsendum.

Ef umsækjanda, sem hefur haft heimild til að stunda atvinnu á meðan umsókn er til vinnslu, er synjað, fellur heimild til atvinnuþátttöku niður.

Helstu ástæður synjunar

Umsækjandi hefur ekki heimild til dvalar

Ef umsækjandi hefur ekki heimild til þess að vera staddur hér á landi þegar umsókn er lögð fram, er Útlendingastofnun skylt að synja umsókn. Þá er ekki lagt mat á hvort önnur skilyrði dvalarleyfis séu uppfyllt.

Skilyrði dvalarleyfis ekki uppfyllt

Skilyrði dvalarleyfis skiptast í grunnskilyrði, sem allir umsækjendur þurfa að uppfylla, og sérskilyrði, sem eru ólík eftir tegund dvalarleyfis.

Grunnskilyrði

Uppfylli umsækjandi ekki grunnskilyrði, til dæmis skilyrði um trygga framfærslu, er umsókn synjað nema heimilt sé að veita undanþágu samkvæmt útlendingalögum. Undanþágur eru metnar í hverju tilviki fyrir sig.

Sérskilyrði

Uppfylli umsækjandi ekki sérskilyrði, til dæmis umsækjandi um dvalarleyfi vegna náms sem er ekki skráður í fullt nám á háskólastigi eða umsækjandi um makaleyfi sem leggur ekki fram hjúskaparvottorð, er stofnuninni heimilt og í sumum tilfellum skylt að synja umsókn.

Sum sérskilyrði eru háð mati stofnunarinnar. Dæmi um matskennt skilyrði er þegar grunur leikur á að umsækjandi um dvalarleyfi á grundvelli vistráðningar muni ekki yfirgefa landið þegar dvalarleyfi rennur út, en samkvæmt útlendingalögum má í þeim tilvikum líta til almennrar reynslu af umsækjendum í sömu eða svipaðri stöðu.

Kæruheimild

Umsækjandi hefur 15 daga frest frá því að ákvörðun um synjun var birt fyrir honum til þess að kæra ákvörðunin til kærunefndar útlendingamála. Kærufresturinn byrjar ekki að líða fyrr en umsækjandi móttekur ákvörðun. Sá dagur sem umsækjandi fær ákvörðun afhenta telst birtingardagur ákvörðunar.

Ef ákvörðun Útlendingastofnunar er ekki kærð til kærunefndar útlendingamála eða kæra berst eftir að kærufrestur er liðinn er litið svo á að umsækjandi uni synjun Útlendingastofnunar og ber umsækjanda að framfylgja réttaráhrifum ákvörðunar.

Þegar ákvörðun Útlendingastofnunar hefur verið kærð til kærunefndar útlendingamála er málinu lokið hjá stofnuninni og er alfarið í höndum kærunefndarinnar.

Frestun réttaráhrifa

Ákvörðun Útlendingastofnunar sem birt hefur verið fyrir umsækjanda hefur í för með sér tiltekin réttaráhrif. Það þýðir að umsækjandi þarf að framfylgja þeim fyrirmælum sem fram koma í ákvörðunarorðum hverju sinni.

Í sumum tilvikum er unnt að fresta réttaráhrifum ákvörðunar Útlendingastofnunar ef ákvörðunin er kærð til kærunefndar útlendingamála. Frestun réttaráhrifa ákvörðunar felur í sér að niðurstaða ákvörðunar komi ekki til framkvæmdar fyrr en málið hefur farið í gegnum kæruferli hjá kærunefnd útlendingamála.

Kæra hefur ekki áhrif á framkvæmd ákvörðunar Útlendingastofnunar nema í þeim tilvikum þar sem kæra frestar réttaráhrifum. Það á við um synjanir um ótímabundið dvalarleyfi og synjanir um endurnýjanir á dvalarleyfi sem sótt var um innan frests.

Í öðrum tilvikum gilda ákvæði 29. gr. stjórnsýslulaga um frestun réttaráhrifa ákvörðunar. Umsækjandi getur sótt um frestun réttaráhrifa til kærunefndar útlendingamála.

Í þeim tilvikum þar sem kæra frestar réttaráhrifum þarf umsækjandi ekki að yfirgefa landið meðan umsókn er til vinnslu hjá kærunefnd útlendingamála og er staða umsækjanda á meðan sú sama og ef dvalarleyfisumsókn hans hefði ekki verið synjað af Útlendingastofnun.

Sé réttaráhrifum ákvörðunar hins vegar ekki frestað þýðir það að umsækjandi sem hefur fengið synjun á dvalarleyfi hjá Útlendingastofnun þarf að yfirgefa landið innan tilskilins frests eða þegar heimild til dvalar á grundvelli áritanafrelsis rennur út. Geri hann það ekki verður dvöl umsækjanda hér á landi ólögmæt og getur það leitt til brottvísunar og endurkomubanns.

Þjónustuaðili

Útlend­inga­stofnun