Til að dvalarleyfið þitt verði endurnýjað þarftu áfram að uppfylla skilyrði fyrra dvalarleyfis. Ef þú ert til dæmis með námsmannaleyfi þarftu enn að vera í námi og ef þú ert með dvalarleyfi sem hjúskaparmaki þarftu enn að vera í hjónabandi.
Skilyrði sem allir þurfa að uppfylla
Umsækjandi verður að sýna fram á að framfærsla hans sé trygg þann tíma sem hann sækir um að dveljast hér á landi. Trygg framfærsla þýðir að hann hafi næg fjárráð til að geta séð fyrir sér sjálfur. Sýna þarf fram á framfærslu í gjaldmiðli sem er skráður hjá Seðlabanka íslands.
Útlendingastofnun er heimilt að afla skattframtala og gagna frá skattyfirvöldum til staðfestingar á tryggri framfærslu.
Upphæð framfærslu
Útlendingastofnun miðar við að mánaðarleg fjárráð umsækjenda séu að lágmarki:
239.895 krónur fyrir einstaklinga.
383.832 krónur fyrir hjón.
119.948 krónur til viðbótar vegna fjölskyldumeðlims 18 og eldri.
Viðmiðin samsvara grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar Reykjavíkurborgar, sjá reglur um fjárhagsaðstoð. Upphæðir miðast við tekjur fyrir skatt.
Tímabil
Framfærsla útlendings þarf að vera trygg á gildistíma dvalarleyfis. Það þýðir að verði dvalarleyfi gefið út til eins árs þarf að sýna fram á trygga framfærslu fyrir eitt ár.
Undanþágur frá skilyrði um trygga framfærslu
Ef framfærsla hefur verið ótrygg um stuttan tíma er heimilt að víkja frá skilyrðinu um trygga framfærslu. Til dæmis vegna atvinnuleysis, slyss eða veikinda eða vegna sambærilegra ástæðna, svo sem ef umsækjandi hefur fengið félagsaðstoð í nokkra mánuði eða hlotið fæðingarstyrk, og eins ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því. Útlendingastofnun metur hvort undanþága vegna framfærslu er veitt.
Óski umsækjandi eftir undanþágu frá skilyrði um framfærslu þarf að leggja fram greinargerð með umsókn og gögn til stuðnings beiðni, til dæmis læknisvottorð.
Athugið að þessi undanþága er einungis veitt við endurnýjun dvalarleyfis, ekki þegar sótt er um dvalarleyfi í fyrsta skipti.
Skilyrðið um trygga framfærslu á ekki við um umsækjendur með dvalarleyfi á grundvelli alþjóðlegrar verndar eða á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Þeir þurfa ekki að sýna fram á framfærslu og hefur félagsleg aðstoð engin áhrif á umsókn þeirra.
Undanþágur frá skilyrðinu um sjálfstæða framfærslu
Allir umsækjendur um dvalarleyfi þurfa að sýna fram á sjálfstæða framfærslu, nema í eftirfarandi undantekningartilvikum:
Fyrir barn, yngra en 18 ára, sem er á framfæri foreldris eða forsjáraðila sem búsettur er hérlendis, þarf ekki að sýna fram á sjálfstæða framfærslu.
Fyrir einstakling eldri en 18 ára,
sem hefur haft samfellt dvalarleyfi hér á landi frá því hann var barn,
stundar nám eða störf hér á landi,
býr hjá foreldri og
er hvorki í hjúskap né sambúð
er framfærsluviðmið 50% af lágmarksframfærslu einstaklings, það er 119.948 krónur á mánuði, til viðbótar við þá framfærslu sem foreldri eða forsjáraðili þarf að sýna fram á fyrir sjálfan sig og aðra fjölskyldumeðlimi.
Umsækjandi þarf að sýna fram á sjálfstæða framfærslu ef hann stundar vinnu og er ekki í námi. Umsækjanda sem er í námi er heimilt að vera á framfæri foreldris.
Maki Íslendings eða erlends ríkisborgara þarf ekki að sýna fram á sjálfstæða framfærslu. Vegna framfærsluskyldu á milli hjóna samkvæmt hjúskaparlögum er nægjanlegt að annar aðili í hjúskap sýni fram á næga framfærslu fyrir báða.
Athugið að sambúð er ekki jafngild hjúskap að þessu leyti. Ekki er framfærsluskylda á milli sambúðarfólks og þarf umsækjandi því að sýna fram á sjálfstæða framfærslu sé hann í sambúð.
Foreldri 67 ára eða eldra sem er á framfæri barns eða barna sinna hér á landi þarf ekki að sýna fram á fulla sjálfstæða framfærslu. Fyrir það er framfærsluviðmið 50% af lágmarksframfærslu einstaklings, það er 119.948 krónur á mánuði, til viðbótar við framfærslu annara fullorðinna einstaklinga á heimilinu.
Hvernig er sýnt fram á trygga framfærslu
Framfærsla getur stuðst við fleiri en einn þátt, til dæmis bæði launatekjur og eigið fé eins og bankareikninga.
Launatekjur eða tekjur af sjálfstæðri atvinnustarfsemi
Umsækjandi sýnir fram á launatekjur með því að leggja fram staðgreiðsluyfirlit eða útgefna reikninga stimplaða af skattyfirvöldum. Umsækjandi getur einnig lagt fram frumrit ráðningarsamnings.
Ef umsækjandi er á framfæri annars einstaklings er heimilt að leggja fram fyrrgreind gögn þess einstaklings.
Launaseðlar síðustu þriggja mánaða
Útprentun úr heimabanka er fullnægjandi, annars þarf staðfestingu vinnuveitanda.
Staðgreiðsla verður að hafa verið greidd af launum. Útlendingastofnun kannar í staðgreiðsluskrá hvort staðgreiðsla hafi verið greidd.
Ef umsækjandi er á framfæri annars einstaklings er heimilt að leggja fram launaseðla þess einstaklings.
Tryggar reglulegar greiðslur til framfærslu
Slíkar greiðslur geta meðal annars verið greiðslur frá Tryggingastofnun vegna örorku, atvinnuleysisbætur, leigutekjur og styrkir sem umsækjandi fær, til dæmis vegna rannsókna. Ekki er um tæmandi upptalningu að ræða á þeim greiðslum sem hér geta átt við.
Eigið fé
Bankayfirlit sem sýnir fjárhæð inneignar á bankareikningi umsækjanda, hérlendis eða erlendis. Fjárhæðin þarfa að vera í gjaldmiðli sem er alþjóðlega viðurkenndur og hægt að skipta í mynt sem er skráð hjá Seðlabanka Íslands og hægt er að taka út og nýta til framfærslu.
Yfirlitið þarf að vera staðfest af bankanum sjálfum og í frumriti. Útprentun reikningsyfirlits úr heimabanka er ekki fullnægjandi staðfesting.
Upplýsingar um skráningu gjaldmiðla er að finna hjá Seðlabanka Íslands.
Ef umsækjandi er á framfæri annars einstaklings er heimilt að leggja fram bankayfirlit þess einstaklings.
Eftirfarandi telst ekki fullnægjandi framfærsla
Greiðslur í formi félagslegrar aðstoðar ríkis eða sveitarfélags eru ekki trygg framfærsla.
Framfærsla þriðja aðila, í öðrum tilvikum en fram kemur framar í þessari umfjöllun, er ekki trygg framfærsla.
Eignir aðrar en bankainnistæður teljast ekki trygg framfærsla (til dæmis fasteignir).
Arður af fyrirtækjum, vextir eða aðrar greiðslur sem ekki er tryggt hvort eða hvenær eru lausar til útborgunar teljast ekki trygg framfærsla.
Eftir veitingu dvalarleyfis þarf umsækjandi að koma í myndatöku hjá Útlendingastofnun eða sýslumannsembætti utan höfuðborgarsvæðisins. Umsækjandi þarf að hafa eigið vegabréf meðferðis til að sýna fram á hver hann er.
Myndataka er nauðsynleg til þess að hægt sé að gefa út dvalarleyfiskort og ljúka útgáfu dvalarleyfisins. Panta þarf tíma í myndatöku í afgreiðslu Útlendingastofnunar eða mæta til sýslumanna utan höfuðborgarsvæðis á opnunartíma.
Skilyrði tiltekinna leyfa
Til að endurnýja námsmannaleyfi þarftu að
vera áfram skráður í fullt nám (30 ECTS á önn)
geta sýnt fram á viðunandi námsárangur, þar sem þess er krafist.
Fullt nám
Ef ekki er hægt að sýna fram á skráningu í fullt nám eitt ár fram í tímann, vegna þess að ekki hefur verið opnað fyrir skráningu (til dæmis þegar nám hefst í janúar og lýkur í desember), mun Útlendingastofnun óska eftir upplýsingum um áframhaldandi skráningu í nám þegar þær upplýsingar liggja fyrir hjá viðkomandi skóla.
Umsækjandi telst skráður í nám þegar hann hefur greitt skóla- eða skráningargjöld og er skráður í fullt nám samkvæmt staðfestingu frá viðkomandi skóla. Ef umsækjandi er ekki skráður í áframhaldandi nám eftir að fyrri önninni er lokið verður dvalarleyfi afturkallað.
Viðunandi námsárangur
Fyrsta endurnýjun
Við fyrstu endurnýjun telst námsárangur viðunandi hafi námsmaður lokið 75% af fullu námi á námsárinu (að minnsta kosti 44 ECTS samanlagt á námsári). Með námsári er átt við tvær samliggjandi annir, talið frá því að umsækjandi hóf nám. Leggja skal saman námsárangur á tveimur síðustu önnum, haustönn fram á vorönn eða vorönn fram á haustönn eftir því sem við á.
Síðari endurnýjanir
Við síðari endurnýjanir þarf námsmaður að hafa lokið viðunandi námsárangri þar sem þess er krafist. Það fer eftir reglum viðkomandi háskóla hvað telst viðunandi námsárangur.
Reglur skólanna um viðunandi námsárangur við síðari endurnýjanir
Háskóli Íslands: Ekki er gerð formlega krafa um að nemendur ljúki tilteknum einingafjölda á hverju misseri eða ári. Dvalarleyfi er að jafnaði endurnýjað til eins árs, nema þegar umsækjandi hyggst hefja framhaldsnám á seinni önn námsársins. Þá fær umsækjandi leyfið endurnýjað til hálfs árs og skal svo sótt um nýtt leyfi, þegar ljóst er að kröfur um innritun til framhaldsnáms eru uppfylltar.
Háskólinn í Reykjavík: Engin krafa er gerð um viðunandi námsárangur við síðari endurnýjanir.
Háskólinn á Akureyri: Hafi umsækjandi lokið 75% af fullu námi á námsárinu telst námsárangur viðunandi.
Háskólinn á Bifröst: Engin krafa er gerð um viðunandi námsárangur við síðari endurnýjanir.
Kvikmyndaskólinn: Hafi umsækjandi lokið 26 ECTS á önn telst námsárangur viðunandi. Séu einingar færri þarf umsækjandi að leggja fram staðfestingu á því að hann fái að halda áfram í skólanum.
Landbúnaðarháskóli Íslands: Hafi umsækjandi lokið 50% af fullu námi á námsárinu telst námsárangur viðunandi.
Listaháskóli Íslands: Engin krafa er gerð um viðunandi námsárangur við síðari endurnýjanir.
Keilir: Engin krafa er gerð um viðunandi námsárangur við síðari endurnýjanir.
Háskólinn á Hólum: Engin krafa er gerð um viðunandi námsárangur við síðari endurnýjanir.
Menntaskólinn í Kópavogi: Um námsframvindu við síðari endurnýjanir gilda eftirfarandi viðmið. Að lokinni:
- 3. önn þarf nemandi að hafa lokið minnst 55 einingum,
- 4. önn þarf nemandi að hafa lokið minnst 75 einingum,
- 5. önn þarf nemandi að hafa lokið minnst 95 einingum,
- 6. önn þarf nemandi að hafa lokið minnst 115 einingum,
- 7. önn þarf nemandi að hafa lokið minnst 135 einingum,
- 8. önn þarf nemandi að hafa lokið minnst 155 einingum,
- 9. önn þarf nemandi að hafa lokið minnst 175 einingum,
- 10. önn þarf nemandi að hafa lokið minnst 200 einingum.
Nemendur með hæga námsframvindu eiga ekki vísa skólavist.
Undanþágur frá kröfu um námsárangur
Heimilt er að endurnýja dvalarleyfi meistara- og doktorsnema sem vinna að lokaverkefni þrátt fyrir að engum einingum hafi verið lokið á leyfistíma, liggi fyrir staðfesting á námsframvindu frá viðkomandi skóla. Einnig er heimilt að víkja frá kröfunni um viðunandi námsárangur þegar um almenna námsmenn er að ræða ef upp koma óviðráðanlegar ytri aðstæður, svo sem slys eða alvarleg veikindi.
Dvalarleyfi á grundvelli atvinnu er aðeins hægt að endurnýja eftir að Vinnumálastofnun hefur veitt atvinnuleyfi. Umsókn um atvinnuleyfi er send inn með rafrænni umsókn um endurnýjun dvalarleyfis til Útlendingastofnunar sem kemur henni áfram til Vinnumálastofnunar.
Sérfræðingur í atvinnuleit
Heimilt er að endurnýja dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar í allt að eitt ár frá því að umsækjandi missti starf sitt eða uppsagnarfrestur er liðinn, til að umsækjandi geti leitað sér annars starfs á grundvelli sérfræðiþekkingar sinnar. Það er skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis fyrir sérfræðing í atvinnuleit að umsóknin berist innan gildistíma fyrra dvalarleyfis.
Heimilt er að endurnýja dvalarleyfi námsmanns sem lokið hefur háskólanámi hér á landi í allt að þrjú ár frá útskriftardegi til þess að leita að atvinnu á grundvelli sérfræðiþekkingar.
Við útgáfu dvalarleyfis fyrir námsmenn í atvinnuleit er gerð sú krafa að viðkomandi hafi lokið að minnsta kosti 60 ECTS eininga námi og útskrifast með formlegri prófgráðu. Ef nám er minna en 180 ECTS einingar, er þó að jafnaði gerð sú krafa að viðkomandi hafi jafnframt lokið grunnnámi á háskólastigi áður, hér á landi eða erlendis. Með grunnnámi á háskólastigi er almennt átt við 180 ECTS eininga nám sem líkur með formlegri prófgráðu, svo sem BA, BS, BEd eða BFa, eða sambærilegt nám.
Heimilt er að endurnýja dvalarleyfi fyrir barn þrátt fyrir að barnið hafi náð 18 ára aldri. Skilyrði er að viðkomandi
stundi nám eða störf hér á landi,
búi hjá foreldri/foreldrum og
sé hvorki í hjúskap né sambúð.
Þjónustuaðili
Útlendingastofnun