Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Ferðaskírteini fyrir flóttafólk

Ferðaskírteini fyrir flóttafólk

Á þessari síðu

Þeir sem njóta alþjóðlegrar verndar eða viðbótarverndar á Íslandi og dveljast löglega í landinu geta sótt um ferðaskírteini fyrir flóttafólk til ferða til útlanda.

Umsókn

Umsóknir þarf að leggja fram í frumriti á pappír.

Þeim má skila í þar til gerðan póstkassa í anddyri Útlendingastofnunar eða með því að senda umsókn í bréfpósti. Áður en það er gert er nauðsynlegt að greiða fyrir umsókn með millifærslu í banka og þarf greiðslukvittun að fylgja umsókn til staðfestingar, sjá upplýsingar um greiðslu afgreiðslugjalds.

Útlendingastofnun (sjá á korti)
Dalvegi 18
201 Kópavogi
Ísland

Einnig er hægt að leggja inn umsókn og greiða fyrir í afgreiðslu Útlendingastofnunar eða hjá embættum sýslumanna utan höfuðborgarsvæðisins.

Kostnaður

  • Afgreiðslugjald er 7.000 krónur.

  • Ógreidd umsókn verður endursend umsækjanda.

  • Afgreiðslugjald er ekki endurgreitt þótt umsækjandi hætti við umsókn.

Fylgigögn umsóknar

Umsókn skal vera í frumriti, vel útfyllt og undirrituð af umsækjanda, eða forsjáraðila/-aðilum ef sótt er um fyrir barn yngra en 18 ára.

  • Ef þú hefur í fórum þínum vegabréf útgefið af heimaríki eða ferðaskilríki útgefin af öðrum ríkjum, verður þú að skila þeim með umsókn.

  • Ef þú hefur áður fengið útgefið ferðaskírteini frá Útlendingastofnun, verður þú að skila því með umsókn um nýtt ferðaskírteini.

Umsókn samþykkt

Þegar umsókn þín hefur verið samþykkt færðu boð í myndatöku. Börn geta aðeins mætt í myndatöku fyrir ferðaskírteini í fylgd forsjáraðila.

Umsókn synjað

Heimilt er að synja útgáfu ferðaskírteinis þegar

  • Ekki er staðfest hver umsækjandi er eða vafi leikur á um hver hann er.

  • Umsækjandi er eftirlýstur af lögreglu, gefin hefur verið út handtökuskipun á hendur honum eða lagt á hann farbann. Fram er komin kæra á hendur umsækjanda fyrir refsivert brot sem ætla má að varði fangelsisrefsingu.

  • Umsækjandi hefur hlotið endanlegan dóm fyrir mjög alvarlegt afbrot og er talinn hættulegur samfélaginu.

  • Ástæður sem varða öryggi ríkisins eða stefnu stjórnvalda í utanríkismálum mæla gegn því.

Réttindi og skyldur

Ef ferðaskírteini glatast eða eyðileggst skal tilkynna lögreglu og Útlendingastofnun það þegar í stað með því að fylla út tilkynningu um glatað ferðaskilríki.

Afturköllun

Ferðaskírteini fyrir flóttamenn skal afturkalla þegar

  • handhafa þess er vísað frá landi á grundvelli brottvísunar

  • handhafi þess útvegar sér ferðaskilríki heimaríkis

  • handhafi þess missir réttarstöðu sína sem flóttamaður við það að fá íslenskan ríkisborgararétt eða ríkisborgararétt annars ríkis eða missir hana á annan hátt

  • handhafa þess er samkvæmt lögum bannað að yfirgefa landið

  • brottför handhafa frá landinu mundi fara í bága við dóm, úrskurð eða ákvörðun stjórnvalda

  • útliti eða efni þess hefur verið breytt á ólögmætan hátt

Heimilt er að afturkalla ferðaskírteini fyrir flóttamenn þegar

  • það hefur skemmst eða er ónothæft af öðrum ástæðum

  • ljósmynd eða upplýsingar í því svara ekki lengur til auðkenna handhafa

  • það finnst í vörslu óviðkomandi aðila

  • handhafi þess hefur ekki lengur leyfi til dvalar hér á landi.

Lög

Ferðaskírteini fyrir flóttamenn er gefið út á grundvelli 1. málsgreinar 46. greinar laga um útlendinga, 1. greinar laga um vegabréf og 17. greinar reglugerðar um íslensk vegabréf.

Ferðaskírteini fyrir flóttafólk

Þjónustuaðili

Útlend­inga­stofnun