Vegabréf fyrir útlending verður aðeins gefið út ef umsækjandi
er löglega búsettur hér á landi og
getur sýnt fram á
að hann geti ekki fengið ferðaskilríki frá heimaríki eða
að hann sé ríkisfangslaus.
Umsókn
Umsóknum er aðeins hægt að skila á pappírsformi, annað hvort í þar til gerðan skilakassa í anddyri Útlendingastofnunar að Dalvegi 18 í Kópavogi eða með því að senda umsókn í bréfpósti á sama heimilisfang. Einnig er hægt að leggja inn umsókn og greiða fyrir í afgreiðslu Útlendingastofnunar eða hjá embættum sýslumanna utan höfuðborgarsvæðisins.
Umsókn skal vera í frumriti, vel útfyllt og undirrituð af umsækjanda eða forsjáraðila/-aðilum ef sótt er um fyrir barn yngra en 18 ára.
Fylgigögn umsóknar
Skrifleg staðfesting frá þar til bærum yfirvöldum á því að umsækjandi geti ekki fengið útgefið vegabréf frá heimaríki, ræðisskrifstofu eða sendiráði.
Ef umsækjandi hefur í fórum sínum vegabréf útgefið af heimaríki eða ferðaskilríki útgefin af öðrum ríkjum, verður hann að skila þeim með umsókn.
Ef umsækjandi hefur áður fengið útgefið vegabréf fyrir útlending frá Útlendingastofnun, verður hann að skila því með umsókn um nýtt vegabréf.
Umsókn samþykkt
Þegar umsókn hefur verið samþykkt er umsækjandi boðaður í myndatöku.
Þegar vegabréfið er tilbúið þarf umsækjandi að sækja það og greiða 6.000 króna afgreiðslugjald.
Umsókn synjað
Heimilt er að synja útgáfu vegabréfs þegar:
Ekki er staðfest hver umsækjandi er eða vafi leikur á um hver hann er.
Umsækjandi er eftirlýstur af lögreglu, gefin hefur verið út handtökuskipun á hendur honum eða lagt á hann farbann. Fram er komin kæra á hendur umsækjanda fyrir refsivert brot sem ætla má að varði fangelsisrefsingu.
Umsækjandi hefur hlotið endanlegan dóm fyrir mjög alvarlegt afbrot og er talinn hættulegur samfélaginu.
Ástæður sem varða öryggi ríkisins eða stefnu stjórnvalda í utanríkismálum mæla gegn því.
Réttindi og skyldur
Ef handhafi vegabréfs fyrir útlending aflar vegabréfs frá heimalandi, þarf hann að skila áður útgefnu vegabréfi fyrir útlending til Útlendingastofnunar.
Ef vegabréf fyrir útlending glatast eða eyðileggst skal tilkynna lögreglu og Útlendingastofnun það þegar í stað með því að fylla út tilkynningu um glatað vegabréf.
Afturköllun
Vegabréf fyrir útlending skal afturkalla þegar
handhafa þess er vísað frá landi á grundvelli brottvísunar
handhafi þess útvegar sér ferðaskilríki heimaríkis
handhafa þess er samkvæmt lögum bannað að yfirgefa landið
brottför handhafa frá landinu mundi fara í bága við dóm, úrskurð eða ákvörðun stjórnvalda
útliti eða efni þess hefur verið breytt á ólögmætan hátt
Heimilt er að afturkalla vegabréf fyrir útlending þegar
það hefur skemmst eða er ónothæft af öðrum ástæðum
ljósmynd eða upplýsingar í því svara ekki lengur til auðkenna handhafa
það finnst í vörslu óviðkomandi aðila
handhafi þess hefur ekki lengur leyfi til dvalar hér á landi.
Lög
Vegabréf fyrir útlendinga er gefið út á grundvelli 3. málsgreinar 46. greinar laga um útlendinga, 1. greinar laga um vegabréf og 16. greinar reglugerðar um íslensk vegabréf.
Þjónustuaðili
Útlendingastofnun