Alþjóðleg fjölskylduættleiðing
Alþjóðlegir samningar
Ísland er aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins (Barnasáttmálanum) frá 1989 og alþjóðlegum samningi um vernd barna og ættleiðingar milli landa, gerðum í Haag 1993 (Haagsamningurinn). Með aðild sinni að framangreindum samningum hefur Ísland skuldbundið sig til þess að hlíta ákveðnum reglum við meðferð mála vegna ættleiðingar á erlendu barni. Samningar þessir kveða á um að fyrst og fremst skuli líta til þess sem barni sé fyrir bestu.
Í Barnasáttmálanum segir að aðildarríki sem viðurkenni og/eða leyfi ættleiðingu skuli tryggja að fyrst og fremst sé litið til þess sem barni er fyrir bestu. Þau skuli sjá til þess að ættleiðing barns sé aðeins heimiluð af þar til bærum stjórnvöldum sem ákveði samkvæmt viðeigandi lögum og reglum um málsmeðferð og á grundvelli viðeigandi og áreiðanlegra upplýsinga að ættleiðing sé leyfileg með hliðsjón af stöðu barnsins gagnvart foreldrum þess, skyldmennum og lögráðamönnum.
Þau skuli og sjá til þess að þeir sem í hlut eiga hafi ef þess er krafist veitt samþykki sitt fyrir ættleiðingu, að íhuguðu máli og að fenginni nauðsynlegri ráðgjöf.
Jafnframt segir að aðeins megi taka ættleiðingu milli landa til athugunar sem aðra leið til að sjá barni fyrir umönnun, ef ekki er unnt að koma því í fóstur eða til ættleiðingar eða veita því með einhverjum viðeigandi hætti umönnun í upprunalandi sínu.
Samkvæmt Haagsamningnum ber hverju aðildarríki að gera viðeigandi ráðstafanir til þess að börn geti fyrst og fremst notið umsjár upprunalegrar fjölskyldu sinnar. Ættleiðing milli geti aðeins veitt barni fjölskyldu til frambúðar, sem ekki eigi kost á viðeigandi fjölskyldu í upprunalandi sínu.
Þjónustuaðili
Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu