Fara beint í efnið

Hverjar eru tegundir veitingastaða vegna rekstrarleyfa?

Veitingastaðir skiptast í eftirtaldar tegundir eftir starfsemi og þjónustu sem bjóða á viðskiptavinum. Hver einstök tegund veitingastaða getur fallið undir fleiri en einn framangreindan flokk, í samræmi við þá starfsemi sem rekstrarleyfi viðkomandi staðar hljóðar um.

Veitingahús

Veitingastaður með fjölbreyttar veitingar í mat og drykk og fulla þjónustu. Í veitingahúsi skal vera starfandi maður með fullnægjandi þekkingu í framreiðslu.

Skemmtistaður

Veitingastaður með reglubundna skemmtistarfsemi og fjölbreyttar veitingar í mat og/eða drykk. Hér undir falla einnig staðir þar sem aðaláhersla er lögð á áfengisveitingar, dans gesta, tónlist og langan afgreiðslutíma en engar eða takmarkaðar veitingar í mat.

Veitingastofa og greiðasala

Veitingastaðir með fábreyttar veitingar í mat og/eða drykk. Á slíkum stöðum er minni þjónusta og gestir geti mögulega afgreitt sig sjálfir að hluta eða öllu leyti. Hér undir falla til dæmis skyndibitastaðir og söluskálar með aðstöðu til neyslu veitinga.

Veisluþjónusta og veitingaverslun

Staðir þar sem sala veitinga fer fram sem ekki er til neyslu á staðnum.

Kaffihús

Veitingastaður með einfaldar veitingar í mat og/eða drykk þar sem aðaláhersla er lögð á kaffiveitingar. Hér undir falla til dæmis bakarí sem hafa aðstöðu til neyslu veitinga á staðnum.

Krá

Veitingastaður með takmarkaða þjónustu og einfaldar eða engar veitingar í mat, þar sem aðaláhersla er lögð á áfengisveitingar og langan afgreiðslutíma.

Samkomusalir

Staðir sem eru sérstaklega útbúnir og ætlaðir til hvers kyns samkomuhalds og til þess leigðir út í atvinnuskyni til einstaklinga og/eða fyrirtækja, hvort sem er með eða án veitinga í mat og/eða drykk. Félagsheimili, íþróttasalir, flugskýli, vöruskemmur og önnur húsakynni sem að jafnaði eru ekki ætluð til samkomuhalds í atvinnuskyni geta fallið hér undir ef útleiga til skemmtanahalds fer oftar fram en tólf sinnum á ári.

Hér má finna nánari upplýsingar um flokka og tegundir veitingastaða. 



Finnurðu ekki það sem þig vantar?

Hvernig getum við aðstoðað?