Umsókn um dvalarleyfi og vernd fyrir maka flóttamanns
Réttindi og skyldur
Dvalarleyfi á grundvelli verndar sem maki flóttamanns er í mesta lagi veitt til þriggja ára en þó aldrei lengur en leyfi þess sem rétturinn byggir á.
Einstaklingur sem fær vernd sem maki flóttamanns fær sömu réttindi og skyldur og flóttamaðurinn sem hann sameinast hér á landi. Hann er skilgreindur sem flóttamaður samkvæmt íslenskum lögum og alþjóðasamningum og getur því ekki ferðast til heimaríkis/heimaríkja án þess að eiga á hættu að alþjóðleg vernd hans og þar með dvalarleyfi hér á landi verði afturkallað.
Alþjóðleg vernd er veitt á þeirri forsendu að öryggi flóttamanns sé í hættu í heimalandi. Snúi hann þangað aftur gefur það í skyn að ástandið í heimalandi hafi batnað og að flóttamaðurinn þurfi ekki lengur á alþjóðlegri vernd að halda.
Réttur til að vinna
Dvalarleyfinu fylgir heimild til að vinna án atvinnuleyfis.
Þú getur sótt um ótímabundið dvalarleyfi þegar þú hefur verið með dvalarleyfi á grundvelli alþjóðlegrar verndar í fjögur ár.
Þú þarft að uppfylla margvísleg skilyrði til að fá ótímabundið leyfi, meðal annars varðandi íslenskukunnáttu.
Annað skilyrði er að þú hafir ekki hafa dvalist lengur en 90 daga erlendis samtals á hverju ári á gildistíma dvalarleyfis, talið frá útgáfudegi leyfis.
Réttindi við skilnað, andlát eða heimilisofbeldi af hálfu maka
Ljúki hjúskap eða sambúð er heimilt að veita dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við Ísland, ef umsækjandi getur sýnt fram á að félagslegar eða menningarlegar aðstæður í heimaríki geri viðkomandi erfitt að snúa aftur til þess ríkis. Umsækjandi þarf áfram að uppfylla framfærsluskilyrði sem og önnur skilyrði laganna og ríkar sanngirnisástæður þurfa að mæla með því. Umsækjandi verður að hafa verið áður með dvalarleyfi á grundvelli hjúskaparins eða sambúðarinnar.
Umsækjandi um slíkt leyfi þarf að geta sýnt fram á að hann myndi vegna skilnaðar eða sambúðarslita eiga erfitt uppdráttar í upprunalandi vegna félagslegra eða menningarlegra ástæðna. Í þeim tilvikum eru tengsl umsækjanda við landið metin sem og hvort mjög íþyngjandi væri fyrir viðkomandi að snúa til baka til heimalands eða hvort það skapi honum mikil vandræði að snúa aftur miðað við breytta félagslega stöðu. Sem dæmi má nefna að konur geta verið útskúfaðar úr ákveðnum samfélögum séu þær fráskildar.
Ákvörðun um endurnýjun dvalarleyfis á þessum grundvelli er undantekning og þarf Útlendingastofnun að meta þau gögn sem liggja fyrir í hverju og einu máli fyrir sig.
Ljúki hjúskap vegna andláts maka er heimilt að veita dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við Ísland, uppfylli viðkomandi áfram framfærsluskilyrði sem og önnur skilyrði laganna og ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því. Umsækjandi verður að hafa verið áður með dvalarleyfi á grundvelli hjúskaparins eða sambúðarinnar.
Ástæður sem mæla gegn því að umsækjandi fái dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla vegna andláts maka er til dæmis ef sambúð hefur varað í mjög skamman tíma.
Ljúki hjúskap eða sambúð vegna þess að handhafi makaleyfis eða barn viðkomandi hefur sætt ofbeldi eða misnotkun í sambandinu er heimilt að veita viðkomandi dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við Ísland. Umsækjandi þarf áfram að uppfylla framfærsluskilyrði sem og önnur skilyrði laganna og ríkar sanngirnisástæður þurfa að mæla með því. Umsækjandi verður að hafa verið áður með dvalarleyfi á grundvelli hjúskaparins eða sambúðarinnar.
Ofbeldið eða misnotkunin þarf að hafa verið tilkynnt lögreglu eða barnaverndaryfirvöldum eða önnur gögn að benda til þess. Við mat á því hvort einstaklingur fái veitt dvalarleyfi á þessum grundvelli er litið til tengsla hans við landið. Víkja má frá framfærsluskilyrðum ef framfærsla er ótrygg um skamma hríð. Þá skiptir einnig máli að hjúskapur eða sambúð hafi ekki varað í mjög skamman tíma.
Sjónarmið að baki þessu ákvæði eru þau að koma í veg fyrir að einstaklingur telji sig knúinn til að vera áfram í hjúskap eða sambúð svo að hann haldi dvalarleyfi sínu, ef viðkomandi einstaklingur eða börn hans sæta misnotkun eða ofbeldi af hálfu maka.
Útlendingastofnun tekur fram að ekki eru lagðar of strangar sönnunarkröfur á umsækjanda um ástæður sambandsslita en umsækjandi þarf þó að sýna fram á misnotkunina eða ofbeldið eins og mögulegt er. Ákvörðun um endurnýjun dvalarleyfis á þessum grundvelli er undantekning og þarf Útlendingastofnun að meta þau gögn sem liggja fyrir í hverju og einu máli fyrir sig. Til þess að Útlendingastofnun sé unnt að leggja mat á endurnýjun dvalarleyfis á þessum grunni þarf stofnuninni að berast eins ítarleg gögn og mögulegt er. Læknaskýrslur, sálfræðiskýrslur, lögregluskýrslur eða yfirlýsing frá Kvennaathvarfi eða öðrum stofnunum þar sem umsækjandi hefur dvalist, geta stutt frásögn um atburði.
Umsókn um dvalarleyfi og vernd fyrir maka flóttamanns