Fara beint í efnið

Upplýsingar fyrir sakborninga

Á þessari síðu

Skýrslutaka af sakborningi

Í flestum sakamálum eru skýrslur af sakborningi, brotaþola og vitnum mikilvægustu þættir rannsóknar lögreglu. Leiði rannsókn lögreglu til útgáfu ákæru eru þessar skýrslur hluti af gögnum málsins fyrir dómi.

Sakborningur á rétt á að fá upplýsingar um sakarefni, eða það sem hann er sakaður um, áður en skýrsla er tekin af honum hjá lögreglu. 

Staðsetning

Almennt fer skýrslutaka af sakborningi fram á lögreglustöð en stundum er fyrsta skýrsla tekin strax á vettvangi hins ætlaða brots.

Hver eru viðstödd?

Sakborningur á alltaf rétt á því að verjandi sé með honum við skýrslutöku hjá lögreglu.

Skýrslutaka af sakborningi fer fram fyrir luktum dyrum. Þar eru engir aðrir viðstaddir en sakborningur, verjandi hans og fulltrúi frá lögreglu sem stýrir skýrslutökunni.

Tekið upp og skrifað niður

Skýrslan er tekin upp í hljóði og stundum er hún einnig tekin upp í mynd. Lögregla skrifar skýrslu um það sem sakborningur hafði um málið að segja, ýmist þannig að gerð er samantekt um framburð hans eða að framburðurinn er skrifaður upp frá orði til orðs.

Skýrslur sem teknar eru af sakborningi við rannsókn lögreglu verða hluti af rannsóknargögnum málsins.

Hvernig er skýrslutakan?

Áður en skýrslutaka hefst upplýsir lögregla sakborning um hver sú háttsemi er sem hann er grunaður um. Lögreglu ber jafnframt að upplýsa sakborning um að honum sé ekki skylt að tjá sig eða að svara spurningum lögreglu. Sá sem gefur skýrslu er í upphafi skýrslutöku hjá lögreglu spurður um nafn, kennitölu og heimili.

Ef sakborningur kýs að gefa skýrslu er brýnt fyrir honum að segja satt og rétt frá og draga ekkert undan sem getur skipt máli. Lögregla spyr sakborning spurninga um þau atriði sem rannsóknin beinist að og eiga spurningar lögreglu að vera skýrar og ótvíræðar. Ef verjandi er viðstaddur skýrslutöku getur hann beint þeim tilmælum til lögreglu að sakborningur verði spurður um tiltekin atriði.

Sakborningur má ekki ráðfæra sig við verjanda sinn um hvernig hann á að svara einstökum spurningum en er heimilt að ráðfæra sig við verjanda sinn í einrúmi, ef það truflar ekki skýrslutöku að mati lögreglu. Það er misjafnt eftir málum hversu oft sakborningur fer í skýrslutöku hjá lögreglu við rannsókn máls.

Sakborningur yngri en 18 ára

Ef taka á skýrslu af sakborningi sem er yngri en 18 ára vegna ætlaðs brots gegn almennum hegningarlögum eða brots gegn öðrum lögum, sem varðað getur þyngri refsingu en tveggja ára fangelsi, skal tilkynna það barnaverndarnefnd sem getur jafnframt sent fulltrúa sinn til að vera við skýrslutökuna.

Túlkun við skýrslutöku

Ef sakborningur kann ekki íslensku nægilega vel kallar lögregla til löggiltan dómtúlk eða annan hæfan einstakling til að annast þýðingu þess sem fram fer. Lögregla kallar til táknmálstúlk ef skýrslugjafi reiðir sig á íslenskt táknmál til samskipta. Greiðist kostnaður vegna þessa úr ríkissjóði.


Þjónustuaðili

Ríkis­sak­sóknari

Ríkissaksóknari

Hafðu samband

Sími: 444 2900

Netfang: saksoknari@saksoknari.is

Opnun­ar­tími

Mánudaga til fimmtudaga er opið frá
9 til 12 og 13 til 15

Föstudaga er opið frá 9 til 12

Heim­il­is­fang

Suðurlandsbraut 4, 6. hæð

108 Reykjavík

Kennitala 530175-0229