Upplýsingar fyrir sakborninga
Á þessari síðu
Hér er að finna upplýsingar um meðferð sakamála fyrir þá sem hafa fengið stöðu sakbornings í sakamáli, allt frá því að tilkynnt er um brot til lögreglu og þar til máli lýkur endanlega.
Sakborningur nýtur margs konar réttinda á meðan sakamál er til rannsóknar hjá lögreglu, til meðferðar hjá ákæruvaldi eða fyrir dómi.
Staða sakbornings
Sakborningur er einstaklingur sem er sakaður eða grunaður um að hafa brotið lögin. Fyrirtæki, félagasamtök, sveitarfélög og fleiri lögaðilar geta einnig verið sakborningar. Fyrirsvarsmenn hafa sömu réttarstöðu og væru þeir sjálfir bornir sökum eða grunaðir um refsiverða háttsemi.
Ef sakborningur er ólögráða kemur lögráðamaður fram sem fyrirsvarsmaður hans eftir því sem þörf krefur. Við rannsókn sakamáls ber lögreglu að gæta þess að sakborningi verði ekki gert meira tjón, óhagræði eða miski en óhjákvæmilegt er.
Réttur sakbornings
Sakborningur á rétt á verjanda við rannsókn máls hjá lögreglu sem og við meðferð sakamáls fyrir dómi. Verjandi getur til dæmis leiðbeint sakborningi um rétt hans og réttindi við meðferð máls hjá lögreglu og er með sakborningi þegar hann er í skýrslutöku hjá lögreglu.
Sakborningur þarf ekki að tjá sig fremur en hann vill um sakarefni málsins eða að svara spurningum lögreglu við rannsókn málsins.
Það er grundvallarregla að sakborningur telst saklaus þangað til sekt hans er sönnuð og sönnunarbyrðin hvílir á ákæruvaldinu. Allan vafa um sekt sakbornings varðar ber að túlka honum í hag.
Þóknun verjanda greidd úr ríkissjóði
Þóknun skipaðs verjanda er ákveðin í dómi nema verjandi hafi afsalað sér þóknun. Þóknun skipaðs eða tilnefnds verjanda greiðist úr ríkissjóði og telst til sakarkostnaðar.
Sakarkostnaður
Ef ákærður einstaklingur er sakfelldur fyrir dómi er viðkomandi almennt dæmdur til að greiða sakarkostnað málsins. Kostnaðurinn er greiddur af ríkissjóði en gerð er krafa um að ákærði greiði ríkinu þann kostnað. Ef ákærður einstaklingur er sýknaður greiðist allur sakarkostnaður úr ríkissjóði.
Þjónustuaðili
Ríkissaksóknari