Upplýsingar fyrir sakborninga
Handtaka
Lögregla getur handtekið einstakling ef:
rökstuddur grunur leikur á að viðkomandi hafi framið brot sem sætt getur ákæru
handtaka er talin nauðsynleg til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot
til að tryggja návist sakbornings eða öryggi hans eða annarra
til að koma í veg fyrir að einstaklingurinn spilli sönnunargögnum.
Skilyrði handtöku er því að handtaka sé talin nauðsynleg.
Samtal við lögmann eða nánustu fjölskyldu
Við handtöku skal upplýsa þann sem handtekinn er um ástæður hennar. Sakborningur sem hefur verið handtekinn í þágu rannsóknar máls á rétt á að hafa samband við lögmann strax eftir handtöku sem og nánustu fjölskyldu nema sérstök ástæða sé til að ætla að það muni torvelda rannsókn málsins. Þá á lögregla, eins fljótt og unnt er, að tilkynna nánustu vandamönnum sakbornings að hann hafi verið handtekinn og hvar hann sé vistaður.
Verjandi
Lögreglu er skylt að verða við ósk sakbornings um að tilnefna honum verjanda ef hann hefur verið handtekinn í þágu rannsóknar máls.
Leit
Leita má á handteknum manni og taka af honum muni sem hann hefur á sér. Almennt skal mununum skilað aftur þegar handtöku lýkur.
Ekki haldið lengur en 24 klst.
Lögregla getur haldið handteknum einstaklingi/sakborningi í allt að 24 klukkustundir en verður að láta viðkomandi lausan eftir það. Ef ætlunin er að halda sakborningi lengur þarf að setja fram kröfu um gæsluvarðhald fyrir dómi. Sé farið fram á að sakborningur sæti gæsluvarðhaldi mætir verjandi með sakborningi fyrir dóminn og gætir hagsmuna hans þar.
Þjónustuaðili
Ríkissaksóknari