Fara beint í efnið

Upplýsingar fyrir sakborninga

Á þessari síðu

Málalok

Máli getur lokið með ýmsum hætti eftir að lögreglu berst tilkynning eða kæra um brot eða hefur rannsókn.

Kæru vísað frá eða rannsókn hætt

Lögregla vísar frá kæru um brot ef ekki þykja efni til að hefja rannsókn út af henni. Sé rannsókn hafin getur lögregla einnig hætt henni ef ekki þykir grundvöllur til að halda henni áfram. Ástæður fyrir því geta verið að:

  • kæra hefur ekki verið á rökum reist,

  • brotið er smávægilegt,

  • fyrirsjáanlegt er að rannsóknin muni hafa í för með sér óeðlilega mikla fyrirhöfn og kostnað.

Ekki er skylt að gefa þeim sem hlut á að máli kost á að tjá sig áður en slík ákvörðun er tekin. Ef kæru er vísað frá eða rannsókn hætt er lögreglu skylt að tilkynna það kæranda hafi hann hagsmuna að gæta. Skal honum jafnframt bent á að hann geti kært ákvörðunina til ríkissaksóknara.

Mál fellt niður

Telji ákærandi að lokinni rannsókn sakamáls það sem fram er komið ekki vera nægilegt eða líklegt til sakfellis fellir hann málið niður.

Felli ákærandi mál niður ber að tilkynna það þeim sem hagsmuna hafa að gæta og er hægt að óska eftir rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun. Ákvörðunina er unnt að kæra til ríkissaksóknara og er kærufrestur einn mánuður. Ríkissaksóknara ber að taka afstöðu til kærunnar innan þriggja mánaða frá því að hún berst embættinu.

Ákærufrestun

Með ákærufrestun er útgáfu ákæru frestað um tiltekinn tíma. Skilyrði fyrir beitingu þessa úrræðis er að sakborningur hafi játað brot sitt.

Heimilt er að beita þessu úrræði ef brot er framið af einstaklingi á aldrinum 15-21 árs eða högum sakbornings er þannig háttað að umsjón eða aðrar ráðstafanir teljast vænlegri til árangurs en refsing.

Skilyrði þessa úrræðis er að brotið teljist ekki þess eðlis að almannahagsmunir krefjist saksóknar.

Fallið frá saksókn

Heimilt er að falla frá saksókn og höfða ekki sakamál á hendur sakborningi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Það á meðal annars við ef:

  • mál er smávægilegt,

  • fyrirsjáanlegt að umfang málsins verði í verulegu ósamræmi við þá refsingu sem vænta má,

  • ef sakborningur virðist vera ósakhæfur,

  • ef brot hefur valdið sakborningi sjálfum óvenjulega miklum þjáningum.

Þjónustuaðili

Ríkis­sak­sóknari

Ríkissaksóknari

Hafðu samband

Sími: 444 2900

Netfang: saksoknari@saksoknari.is

Opnun­ar­tími

Mánudaga til fimmtudaga er opið frá
9 til 12 og 13 til 15

Föstudaga er opið frá 9 til 12

Heim­il­is­fang

Suðurlandsbraut 4, 6. hæð

108 Reykjavík

Kennitala 530175-0229