Upplýsingar fyrir brotaþola
Á þessari síðu
Hagnýtar upplýsingar fyrir þau sem hafa orðið fyrir broti, allt frá því að tilkynnt er um brot til lögreglu og þar til málinu lýkur endanlega.
Að tilkynna brot til lögreglu
Sá sem telur sig hafa orðið fyrir refsiverðu broti, eða telur sig hafa orðið vitni að eða hafa upplýsingar um, refsiverða háttsemi getur leitað til lögreglu hvar sem er á landinu. Oftast er haft samband við lögreglu með því að hringja í 112, einkum ef brot er nýafstaðið eða yfirstandandi.
Ef farið er á Neyðarmóttöku þá er einnig hægt að óska eftir því að lögregla verði kölluð til eða henni tilkynnt um brotið.
Að leggja fram kæru
Það er líka hægt að hringja á lögreglustöð, senda tölvupóst eða mæta þangað til að leggja fram kæru.
Á höfuðborgarsvæðinu er hægt að panta tíma í kærumóttöku með því að senda tölvupóst á netfangið: kaerumottaka@lrh.is.
Það er mikilvægt að kæra ætluð brot til lögreglu við fyrsta tækifæri því oft reynist erfiðara að rannsaka brot ef langur tími líður frá broti og þar til það er kært.
Hver getur kært brot til lögreglu?
Yfirleitt leggur brotaþoli sjálfur fram kæru. Þegar um börn er að ræða gera forráðamenn það eða opinberir aðilar, svo sem barnavernd. Þá geta stjórnvöld lagt fram kæru og jafnvel vitni.
Neyðarmóttaka fyrir þolendur kynferðisofbeldis
Á Neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis starfar þverfaglegt teymi sem sinnir brotaþolum sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.
Þar er framkvæmd réttarlæknisfræðileg skoðun og sýni tekin og gerð skýrsla um skoðunina sem hægt er að kalla eftir ákveði brotaþoli að leggja fram kæru.
Réttarlæknisfræðileg skoðun á Neyðarmóttöku getur haft mikla þýðingu ákveði brotaþoli að leggja fram kæru. Á Neyðarmóttöku býðst þolendum einnig lögfræðileg ráðgjöf lögmanna vegna málsins.
Þjónustuaðili
Ríkissaksóknari