Fara beint í efnið

Upplýsingar fyrir brotaþola

Á þessari síðu

Málsmeðferð fyrir dómi

Telji ákærandi það sem fram hefur komið við rannsókn máls vera nægilegt eða líklegt til sakfellis er gefin út ákæra á hendur sakborningi.

Sakamál á hendur sakborningi er þá rekið fyrir dómstólum. Neiti sakborningur sök fer fram aðalmeðferð í málinu fyrir dómi og þarf brotaþoli þá að koma fyrir dóminn til að gefa skýrslu.

Vitnaskylda

Allir, sem náð hafa 15 ára aldri, eru skyldugir til að koma fyrir dóm sem vitni til að svara spurningum um málsatvik. Það á við um brotaþola og önnur vitni.

Vitni getur þó í ákveðnum tilvikum skorast undan því að gefa skýrslu fyrir dómi. Ástæður geta verið:

  • Vitnið er, eða hefur verið, maki ákærða.

  • Vitnið er skyldmenni ákærða í beinan legg eða tengist honum þannig vegna ættleiðingar.

  • Vitnið er stjúpforeldri ákærða eða stjúpbarn, tengdaforeldri ákærða eða tengdabarn.

Komi vitni ekki fyrir dóm án þess að um lögmæt forföll sé að ræða getur sækjandi lagt fyrir lögreglu að sækja vitnið eða færa það fyrir dóm.

Dómhúsið

Þegar brotaþoli kemur í dómhúsið til að gefa skýrslu fyrir dómi þarf hann yfirleitt að bíða fyrst fyrir utan dómsalinn þar til hann verður sóttur og beðinn um að koma inn. Oftast gefur brotaþoli skýrslu næstur á eftir ákærða. Sá sem gefa á skýrslu fyrir dómi er ekki heimilt að hlusta á framburð þeirra sem gefa skýrslur á undan honum. Miklu skiptir að vera stundvís og að mæta á boðuðum tíma, en stundum dragast skýrslutökur og þá getur orðið einhver bið á því að þeir sem gefa eiga skýrslur verði kallaðir inn í dómsalinn.

Skýrslutaka fyrir dómi

Skýrslutaka af brotaþola fyrir dómi er svipuð skýrslutöku hjá lögreglu en það eru þó fleiri viðstaddir í dómsalnum. Í dómsalnum eru viðstödd:

  • dómari, eða dómarar

  • sækjandi

  • verjandi

  • réttargæslumaður í þeim tilvikum þar sem brotaþoli hefur fengið réttargæslumann skipaðan

Þegar skýrslutaka fer fram fyrir dómi þá situr brotaþoli í sæti fyrir framan dómara. Vinstra megin í dómsalnum, frá vitninu séð, sitja sækjandi og réttargæslumaður, í þeim málum þar sem brotaþoli hefur réttargæslumann, en hægra megin sitja verjandi og ákærði.

Opin eða lokuð málsmeðferð

Þó að meginreglan sé sú að dómsmeðferð sé opin, þá getur dómari ákveðið að þinghald fari fram fyrir luktum dyrum, að öllu leyti eða að hluta. Það er framkvæmdin í flestum kynferðisbrotamálum til dæmis og er það gert til að hlífa sakborningi, brotaþola, vandamanni þeirra, vitni eða öðrum sem málið varðar. Þegar málsmeðferð er lokuð er aðeins þeim heimilt að vera viðstaddir sem málið varðar.

Ákærði í dómsalnum eða ekki

Ákærði á rétt á því að vera viðstaddur skýrslutöku fyrir dómi. Undantekningar eru gerðar frá því í ákveðnum málum, þar sem talið er að nærvera ákærða geti orðið brotaþola sérstaklega íþyngjandi og haft áhrif á framburð hans. Þetta á til dæmis við í kynferðisbrotamálum og málum sem varða ofbeldi í nánum samböndum.

Gera þarf kröfu um að ákærða verði gert að víkja úr dómsalnum á meðan brotaþoli gefur skýrslu og það er dómarans að meta hvort við því verði orðið. Oft er það þó svo að ákærði samþykkir sjálfur að víkja úr dómsal á meðan brotaþoli gefur skýrslu.

Í þeim tilvikum þar sem brotaþoli er með réttargæslumann ber honum að leiðbeina brotaþola og útskýra fyrir honum málsmeðferðina og vera honum til leiðsagnar og stuðnings í aðdragandanum og á meðan á málinu stendur. Óskir brotaþola um að sakborningur víki úr dómsal skulu settar fram af réttargæslumanni brotaþola.

Sjálf skýrslutakan

Við upphaf skýrslutöku biður dómari brotaþola um að gera grein fyrir nafni sínu og útskýrir í stuttu máli hvernig framkvæmdin verður. Dómari greinir brotaþola frá því að það sé skylda að segja satt og rétt frá og að refsivert er að segja rangt frá fyrir dómi. Þetta þýðir ekki að dómari búist við því að brotaþoli segi ósatt, heldur ber dómara skylda til að leiðbeina brotaþola um þetta og segir þetta raunar við öll þau vitni sem koma fyrir dóminn til að gefa skýrslu.

Það er ekki ætlast til þess að brotaþoli geti sjálfur sagt frá öllu því sem máli skiptir. Yfirleitt er brotaþoli fyrst beðinn um að segja frá því atviki sem er til umfjöllunar og síðan spyr sækjandi út í einstök atriði. Eftir að sækjandi hefur spurt spurninga býðst verjanda að spyrja og stundum spyr dómari einnig.

Markmið skýrslutöku er að varpa ljósi á atvik máls. Mikilvægt er því að brotaþoli segi aðeins frá samkvæmt bestu vitneskju og eigin minni og láti vita ef hann er óviss um einhver atriði. Stundum rifja dómari, sækjandi eða verjandi upp hvað brotaþoli sagði í skýrslutöku hjá lögreglu og bera undir brotaþola hvort sú lýsing atvika hafi verið rétt.

Það er misjafnt hversu langan tíma skýrslutaka fyrir dómi tekur og fer eftir því um hvernig mál er að ræða. Eftir skýrslutökuna má brotaþoli eftir því hvort hann vill, yfirgefa dómsalinn eða vera áfram í dómsalnum og fylgjast með framhaldi málsins.

Kostnaður við ferðir

Brotaþoli sem er boðaður fyrir dóm getur óskað eftir því að ákærandinn annist greiðslu vegna ferða og dvalar á dómstað. Þetta á einkum við ef brotaþoli þarf að ferðast um lengri veg og jafnvel dvelja yfir nótt utan heimilis vegna vitnaskyldu sinnar. Styttri ferðir innan sama bæjarfélags falla ekki þar undir.

Brotaþoli getur, þegar hann hefur gefið skýrslu fyrir dómi, krafist þess að dómari ákveði honum greiðslu vegna útlagðs kostnaðar og þóknun fyrir atvinnumissi, sem má telja að skipti brotaþolann máli miðað við efnahag og aðstæður.

Dómsuppkvaðning

Máli lýkur með því að dómur er kveðinn upp. Í dóminum kemur fram hver var ákærður, meginefni ákæru, hvers var krafist, helstu málsatvik og umfjöllun um sönnun og röksemdir dómara fyrir því hvað teljist sannað í málinu, sem og röksemdir dómara fyrir niðurstöðu um önnur atriði máls, þar á meðal um viðurlög og sakarkostnað málsins. Dómur skal kveðinn upp svo fljótt sem unnt er og er meginreglan sú að dómur skuli kveðinn upp ekki síðar en fjórum vikum eftir að það var munnlega flutt. Dómari tilkynnir aðilum hvar og hvenær dómur verði kveðinn upp.

Hvaða upplýsingar birtast í dómum?

Þegar dómar í sakamálum eru birtir opinberlega birtast eru nöfn brotaþola og vitna ekki birt í dóminum.

Þjónustuaðili

Ríkis­sak­sóknari

Ríkissaksóknari

Hafðu samband

Sími: 444 2900

Netfang: saksoknari@saksoknari.is

Opnun­ar­tími

Mánudaga til fimmtudaga er opið frá
9 til 12 og 13 til 15

Föstudaga er opið frá 9 til 12

Heim­il­is­fang

Suðurlandsbraut 4, 6. hæð

108 Reykjavík

Kennitala 530175-0229