Fara beint í efnið

Upplýsingar fyrir brotaþola

Kæru vísað frá eða rannsókn hætt

Eftir að lögreglu berst tilkynning eða kæra um brot eða eftir að lögregla hefur rannsókn á máli getur málinu lokið með ýmsum hætti.

Lögregla vísar frá kæru um brot ef ekki þykir tilefni til að hefja rannsókn út af henni.

Sé rannsókn hafin getur lögregla einnig hætt rannsókninni ef ekki þykir grundvöllur til að halda henni áfram. Til dæmis getur komið í ljós að kæra hefur ekki verið á rökum reist eða brot er smávægilegt og fyrirsjáanlegt er að rannsóknin muni hafa í för með sér óeðlilega mikla fyrirhöfn og kostnað.

Ekki er skylt að gefa þeim sem hlut á að máli kost á að tjá sig áður en slík ákvörðun er tekin. Ef kæru er vísað frá eða rannsókn hætt er lögreglu skylt að tilkynna kærandanum það ef viðkomandi hefur hagsmuna að gæta. Skal honum jafnframt bent á að hann geti kært ákvörðunina til ríkissaksóknara.

Mál fellt niður

Þegar rannsókn lögreglu er lokið fær ákærandi gögn málsins í hendur og gengur úr skugga um að rannsókninni sé lokið.

Ákærandi leggur síðan mat á málið og ef hann telur það sem fram er komið ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis er málið látið niður falla. Ef ákærandi telur það sem er komið fram í málinu nægilegt eða líklegt til sakfellis er gefin út ákæra á hendur sakborningi.

Ekki er skylt að gefa þeim sem hlut á að máli kost á að tjá sig áður en slík ákvörðun er tekin. Ef málið er fellt niður skal ákvörðun þar að lútandi tilkynnt brotaþola, sem á rétt á að fá rökstuðning fyrir ákvörðuninni. Unnt er að kæra ákvörðun um niðurfellingu máls til ríkissaksóknara.

Þjónustuaðili

Ríkis­sak­sóknari

Ríkissaksóknari

Hafðu samband

Sími: 444 2900

Netfang: saksoknari@saksoknari.is

Opnun­ar­tími

Mánudaga til fimmtudaga er opið frá
9 til 12 og 13 til 15

Föstudaga er opið frá 9 til 12

Heim­il­is­fang

Suðurlandsbraut 4, 6. hæð

108 Reykjavík

Kennitala 530175-0229