Upplýsingar fyrir brotaþola
Aðgangur að gögnum
Á meðan sakamál er til rannsóknar hjá lögreglu og til meðferðar hjá ákæruvaldinu eiga sakborningur og brotaþoli rétt á að fá upplýsingar um stöðu málsins og aðgang að gögnum þess. Gerð er grein fyrir þessu í lögum um meðferð sakamála.
Meginsjónarmiðið sem þar er haft til hliðsjónar er að upplýsingargjöf og aðgangur að gögnum geti ekki skaðað rannsókn málsins.
Heimila má sakborningi og brotaþola aðgang að rannsóknargögnum sakamáls sem er lokið nema sérstök sjónarmið til verndar sakborningi, vitnum eða öðrum aðilum mæli gegn því. Sama gildir um hvern þann sem sýnir fram á að hann hafi lögvarinna hagsmuna að gæta.
Máli telst lokið þegar:
rannsókn þess hefur verið hætt
það hefur verið fellt niður vegna sönnunarstöðu
fallið hefur verið frá saksókn í því
því hefur verið lokið með lögreglustjórasátt eða endanlegur dómur gengið
Heimild til aðgangs að gögnum máls nær ekki til gagna eða hluta gagna sem geyma viðkvæmar persónuupplýsingar varðandi annan en þann sem óskar að kynna sér gögnin nema viðkomandi sýni fram á að hann hafi lögvarinna hagsmuna að gæta.
Aðgangur annarra að gögnum
Lögreglu, ákærendum, dómurum og fangelsisyfirvöldum er heimill aðgangur að öllum gögnum máls til notkunar í störfum sínum.
Lögreglustjóri í því umdæmi þar sem rannsóknargögn eru geymd eða héraðssaksóknari ákveður hvort orðið skuli við beiðni um aðgang að þeim gögnum.
Ákvörðun lögreglustjóra eða héraðssaksóknara, um að synja beiðni um aðgang að gögnum máls eða takmarka hann að nokkru leyti, skal tilkynnt aðila skriflega og vera rökstudd.
Kæra má synjun eða takmörkun lögreglustjóra eða héraðssaksóknara á því að veita aðgang að gögnum til ríkissaksóknara sem tekur fullnaðarákvörðun í málinu. Kæra skal borin fram innan 14 daga frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina.
Þjónustuaðili
Ríkissaksóknari