Fara beint í efnið

Við rannsókn máls getur lögregla krafist þess að sakborningur verði úrskurðaður í gæsluvarðhald. Gæsluvarðhald er ákveðið með úrskurði dómara. Gæsluvarðhald telst ekki afplánun en kemur að yfirleitt til frádráttar fangelsisrefsingu ef sakborningur er dæmdur til fangelsisrefsingar í kjölfar gæsluvarðhalds.

Ef gæsluvarðhalds er krafist yfir sakborningi er dómara skylt að verða við ósk sakbornings um skipun verjanda. Gæsluvarðhald verður aðeins framlengt með nýjum dómsúrskurði.

Lengd gæsluvarðhalds

Gæsluvarðhald skal ekki vara lengur en þörf krefur og sakborning á að láta lausan um leið og ástæður til gæsluvarðhalds eru ekki lengur fyrir hendi. Ekki er heimilt að úrskurða sakborning til að sæta gæsluvarðhaldi lengur en í tólf vikur nema mál hafi verið höfðað gegn honum með útgáfu ákæru eða brýnir rannsóknarhagsmunir krefjist þess.

Einangrun

Stundum er þess krafist að sakborningur verði látinn sæta einangrun í gæsluvarðhaldi og þá þarf dómari að taka afstöðu til þess í úrskurði. Ekki má úrskurða sakborning í einangrun nema hún sé nauðsynleg. Einangrun má ekki standa samfleytt lengur en í fjórar vikur nema sá sem henni sætir sé sakaður um brot sem varðað getur að lögum 10 ára fangelsi.

Skilyrði gæsluvarðhalds

Skilyrði fyrir gæsluvarðhaldi er:

  • Fyrir hendi er rökstuddur grunur um að sakborningur hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við.

  • Sakborningur hefur náð 15 ára aldri.

Auk þess verður eitt af eftirfarandi skilyrðum að vera uppfyllt:

  1. Að ætla megi að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum eða hafa áhrif á samseka eða vitni.

  2. Að ætla megi að hann muni reyna að komast úr landi eða leynast eða koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar.

  3. Að ætla megi að hann muni halda áfram brotum meðan máli hans er ekki lokið eða rökstuddur grunur leiki á að hann hafi rofið í verulegum atriðum skilyrði sem honum hafa verið sett í skilorðsbundnum dómi.

  4. Að telja megi gæsluvarðhald nauðsynlegt til að verja aðra fyrir árásum sakbornings eða hann sjálfan fyrir árásum eða áhrifum annarra manna.

Úrskurða má sakborning í gæsluvarðhald þó þessi skilyrði séu ekki fyrir hendi ef sterkur grunur leikur á að sakborningur hafi framið afbrot sem getur varðað 10 ára fangelsi og að brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.

Réttur gæsluvarðhaldsfanga

  • Gæsluföngum er heimilt að útvega sér sjálfir og taka við fæði og öðrum persónulegum nauðsynjum, þar á meðal fatnaði.

  • Gæslufangar skulu aðeins látnir vera í einrúmi samkvæmt úrskurði dómara en þó skulu þeir ekki gegn vilja sínum hafðir með öðrum föngum.

  • Gæslufangar eiga rétt á heimsóknum. Þó getur sá sem rannsókn stýrir bannað heimsóknir ef nauðsyn ber til í þágu rannsóknarinnar en skylt er að verða við óskum gæslufanga um að hafa samband við verjanda og ræða við hann einslega, auk þess sem rétt að verða við óskum gæslufanga um að hafa samband við lækni eða prest, ef þess er kostur.

  • Gæslufangar mega nota síma eða önnur fjarskiptatæki og senda og taka við bréfum og öðrum skjölum. Þó getur sá sem rannsókn stýrir bannað notkun síma eða annarra fjarskiptatækja og látið athuga efni bréfa eða annarra skjala og kyrrsett þau ef nauðsyn ber til í þágu rannsóknarinnar en gera skal sendanda viðvart um kyrrsetningu, ef því er að skipta.

  • Gæslufangar mega lesa dagblöð og bækur, svo og fylgjast með útvarpi og sjónvarpi. Þó getur sá sem rannsókn stýrir takmarkað aðgang gæslufanga að fjölmiðlum ef nauðsyn ber til í þágu rannsóknar.

  • Gæsluföngum er, eftir því sem unnt er, heimilt að útvega sér vinnu meðan á gæsluvarðhaldi stendur.

Þjónustuaðili

Ríkis­sak­sóknari

Ríkissaksóknari

Hafðu samband

Sími: 444 2900

Netfang: saksoknari@saksoknari.is

Opnun­ar­tími

Mánudaga til fimmtudaga er opið frá
9 til 12 og 13 til 15

Föstudaga er opið frá 9 til 12

Heim­il­is­fang

Suðurlandsbraut 4, 6. hæð

108 Reykjavík

Kennitala 530175-0229