Fara beint í efnið

Upplýsingar fyrir sakborninga

Á þessari síðu

Rannsóknaraðferðir

Haldlagning muna

Við rannsókn sakamáls hjá lögreglu er stundum nauðsynlegt að leggja hald á ákveðna muni sem sakborningur á eða hefur í fórum sínum.Þetta eru til dæmis sími, tölva og þeir munir sem lögregla telur að hafi sönnunargildi í sakamáli eða vegna þess að þeirra hefur verið aflað á refisverðan hátt. Haldlagning er því fólgin í því að maður er sviptur vörslum muna að tilteknum skilyrðum uppfylltum.

Húsleit

Þegar rökstuddur grunur er um að brot hafi verið framið sem varðað getur fangelsisrefsingu getur lögregla fengið heimild til að leita í húsum, hirslum og farartækjum bæði sakbornings og annarra einstaklinga að uppfylltum tilteknum skilyrðum.

Meginreglan er sú að lögregla getur einungis framkvæmt húsleit á grundvelli dómsúrskurðar nema fyrir liggi ótvírætt samþykki eiganda eða umráðamanns eða ef brýn hætta er á að bið eftir úrskurði valdi sakarspjöllum.Leit er heimil án dómsúrskurðar á víðavangi og í húsakynnum eða farartækjum, sem eru opin almenningi eða hver og einn getur átölulaust gengið um.

Kyrrsetning

Lögregla getur krafist kyrrsetningar hjá sakborningi ef hætta þykir á að eignum verði skotið undan eða þær glatist eða rýrni verulega. Þetta getur lögregla gert til að tryggja greiðslu sektar, sakarkostnaðar og upptöku ávinnings, sem aflað hefur verið með broti. Kyrrsetning fellur niður ef ákærði hefur verið sýknaður með endanlegum dómi af greiðslu sektar og sakarkostnaðar eða upptaka ávinnings hefur ekki verið dæmd.

Sama á við ef saksókn hefur verið felld niður eða rannsókn leiðir ekki til saksóknar.Sakborningur á þá rétt á að felldar verði úr gildi þær ráðstafanir sem gerðar hafa verið til að tryggja kyrrsetningu. Kyrrsetning fellur á sama hátt niður ef sakborningur innir af hendi þær greiðslur sem kyrrsetning á að tryggja.

Símahlustun

Símahlustun er ein þeirra aðgerða sem flokkast undir þvingunarráðstafanir sem lögregla getur gripið til við rannsókn sakamála. Símahlustun verður ekki beitt án þess að fyrir liggi úrskurður dómara.

Farbann

Við rannsókn sakamáls hjá lögreglu eða á meðan sakamál er til meðferðar hjá ákæruvaldinu getur komið til þess að farið sé fram á að ferðafrelsi sakbornings verði skert, oftast með þeim hætti að honum er bannað að fara af landi brott. Það er gert með úrskurði dómara.

Leit á sakborningi

Leita má á sakborningi ef nauðsynlegt þykir til að taka af honum muni sem hald skal leggja á, ef rökstuddur grunur leikur á að hann hafi framið brot sem varðað getur fangelsisrefsingu samkvæmt almennum hegningarlögum eða tveggja ára fangelsi samkvæmt öðrum lögum.Einnig má með sömu skilyrðum leita á öðrum en sakborningi, enda leiki rökstuddur grunur á að hann hafi á sér muni sem hald skal leggja á.

Ef talið er að sakborningur feli innvortis muni eða efni sem hald skal leggja á er þá heimilt að framkvæma leit, ef rökstuddur grunur leikur á að hann hafi framið brot sem varðað getur sex ára fangelsi að lögum. Enn fremur verður að liggja fyrir álit læknis um að óhætt sé að grípa til leitar samkvæmt þessari málsgrein með tilliti til heilsu sakborningsins.

Fingraför og sýnataka

Taka má fingraför af sakborningi og ljósmyndir af honum í þágu rannsóknar og taka úr honum öndunarsýni í sama tilgangi.Einnig er heimilt að taka blóð- og þvagsýni og önnur lífsýni úr sakborningi og rannsaka þau, ef fyrir liggur rökstuddur grunur á að hann hafi framið brot sem varðað getur fangelsisrefsingu að lögum.Líkamsleit skal ákveðin með úrskurði dómara nema fyrir liggi ótvírætt samþykki þess sem í hlut á. Þó getur líkamsleit verið heimil án dómsúrskurðar ef brýn hætta er á að bið eftir úrskurði valdi sakarspjöllum.

Þjónustuaðili

Ríkis­sak­sóknari

Ríkissaksóknari

Hafðu samband

Sími: 444 2900

Netfang: saksoknari@saksoknari.is

Opnun­ar­tími

Mánudaga til fimmtudaga er opið frá
9 til 12 og 13 til 15

Föstudaga er opið frá 9 til 12

Heim­il­is­fang

Suðurlandsbraut 4, 6. hæð

108 Reykjavík

Kennitala 530175-0229